„Alls staðar og ítrekað er komið að lokuðum dyrum. Nemendurnir skulu sækja sinn hverfisskóla og þar með ógna bekkjarsystkinum sínum, þó ekki sé nema með nærverunni einni. Þeir komast ekki að í Brúarskóla, Klettaskóla, BUGL eða annars staðar vegna langra biðlista.“
Þetta segir í yfirlýsingu frá starfsfólki Breiðholtsskóla sem send var á fjölmiðla í kjölfar fréttaflutnings af ofbeldi ungmenna skólans síðustu daga. Starfsfólkið segir skólann nú gerðan að andliti ofbeldismenningar. „Við sem starfsfólk við skólann gerum allt sem í okkar valdi stendur, innan þeirra verklagsreglna sem okkur eru settar. Fyrir hönd skjólstæðinga okkar og okkar sjálfra krefjumst við tafarlausra úrbóta í þessum málaflokki heilt yfir.“
Fyrr í vikunni greindi Morgunblaðið frá því að börn í einum árgangi á miðstigi í Breiðholtsskóla hefðu í nokkur ár lent í einelti og verið beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi af hópi samnemenda sinna. Árganginum væri haldið í einskonar gíslingu – lítill vinnufriður væri og dæmi um að börn þyrðu ekki að fara í skólann.
Aukinn hegðunarvandi meðal barna
Í yfirlýsingunni frá starfsfólki Breiðholtsskóla segir að skólinn hafi góða menningu, öfluga frímínútnagæslu og eineltisstefnu. „Við vinnum úr öllum málum sem geta á einhvern hátt sem áreitni eða ofbeldi.“
Þar er því komið á framfæri að börn í íslenskum grunnskólum eigi í auknum mæli í tilfinninga-, hegðunar- og félagslegum vanda auk námsvanda. Börn geti sýnt af sér ógnandi eða ofbeldisfulla hegðun, meðal annars utan skólatíma, sem starfsfólkið segir geta smitast inn í skólana í formi ótta skólasystkina við börnin.
„Starfsmenn skóla hafa ekki lagalegar heimildir til að grípa inn í atburðarás sem gerist að vinnudegi loknum og geta með því beinlínis ógnað eigin öryggi. Það er á ábyrgð forráðamanna, félagsþjónustu, lögreglu, barnaverndaryfirvalda og Reykjavíkurborgar. Af allri umræðu um skólamál og vaxandi ofbeldi í samfélaginu er ljóst að sveitarfélög þurfa að fara að hugsa sinn gang og tryggja bæði öryggi nemenda og starfsmanna á sínum vinnustöðum.“
Harðnandi alda ofbeldis
Í yfirlýsingunni segir að þeim sem komi að grunnskólamálum sé ljóst að alda harðnandi ofbeldis hafi verið að skella á samfélaginu, þar með skólum, undanfarin ár. Þetta hafi skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar verið mjög vel upplýst um og sennilega Umboðsmaður barna einnig.
„Yfirlýsingar þess efnis í fjölmiðlum að ofangreindir aðilar kannist ekki við þessa þróun kemur starfsmönnum Breiðholtsskóla í opna skjöldu og er í hrópandi ósamræmi við þá upplýsingagjöf sem verið hefur á undanförnum misserum.“
Starfsfólkið segist velta því fyrir sér hvað valdi þessu og af hverju boltanum sé varpað á starfsmenn þegar úrræðaleysi og aðstoð við börn í vanda sé alfarið á ábyrgð sveitarfélagsins. Alls staðar sé komið að lokum dyrum. Nemendur sem ógna bekkjarsystkinum sínum komist ekki í sértæk úrræði vegna langra biðlista og enn lengri bið sé eftir greiningu á þroskafrávikum.
Gengjamyndun vaxandi þjóðarmein
„Það er því krafa okkar að ríki og sveitarfélög grípi strax til aðgerða, tryggi börnum í vanda þau úrræði sem þau eiga rétt á, tryggi öðrum nemendum þá friðsamlegu skólagöngu sem þau eiga rétt á og hlúi jafnframt að sínu starfsfólki með því að viðurkenna vandann. Þau fari í uppbyggingu og lagabreytingar til að bregðast við, en hætti að vísa ábyrgðinni á okkur sem erum á gólfinu.“
Þá segir starfsfólkið að gengjamyndun sé ekki bundin við þetta tiltekna hverfi, en hún þekkist víða.
„Við grafalvarlegt og vaxandi þjóðarmein er að etja. Börnin líða fyrir það á meðan stjórnvöld fljóta sofandi að feigðarósi. Samfélagslegur kostnaður verður aðeins sífellt hærri og við starfsfólkið upplifum daglega ábyrgðar- og skilningsleysi ráðamanna á eigin skinni. Við finnum einnig til vanmáttar og öryggisleysis innan vinnustaðarins. Það fást fáir til að starfa lengi við slíkar aðstæður.“
Athugasemdir