Ég er bara hérna í smá göngutúr með konunni minni, Höllu, við erum í Berlín og vorum að fá okkur rótsterkt og gott kaffi af því við sváfum ekkert rosalega mikið í nótt,“ sagði Víkingur Heiðar Ólafsson, píanisti og nýbakaður Grammy-verðlaunahafi, þegar blaðamaður náði tali af honum á mánudag.
Grammy-verðlaunin fóru fram í 67. sinn í Los Angeles á sunnudag í skugga gróðurelda sem hafa geisað í Kaliforníu síðustu vikur. Víkingur er á tónleikaferðalagi um Evrópu og horfði á verðlaunaafhendinguna í Berlín heima hjá forstjóra Deutsche Grammophon. Víkingur hefði vissulega viljað vera viðstaddur en aðstæður leyfðu það hreinlega ekki. „Það er svo mikið sorgarástand í Los Angeles vegna eldanna sem hafa farið illa með fólk. Grammy-verðlaunin voru allt öðruvísi í ár en hefur verið. Við ákváðum á endanum að fagna þessu í Berlín,“ segir hann.
Víkingur var tilnefndur í flokki klassískra einleikshljóðfæraleikara fyrir plötu sína þar sem hann leikur Goldberg-tilbrigði Johanns Sebastians Bachs, sem gefin er út af þýska útgáfufyrirtækinu Deutsche Grammophon. Auk hans voru Andy Akiho, Curtis J Stewart, James Blachly & Experiential Orchestra, Mak Grgić & Ensemble Dissonance og Seth Parker Woods tilnefndir.
Nógu margar sigurræður farið í ruslið
Víkingur og Halla snæddu kvöldverð heima hjá forstjóra Deutsche Grammophon ásamt yfirmönnum hjá útgáfufyrirtækinu Universal, en hann skrifaði nýlega undir nýjan útgáfusamning við fyrirtækin tvö. „Svo kveiktum við á sjónvarpinu klukkan eitt eftir miðnætti til að athuga hvernig þetta færi en ég var tilbúinn að tapa. Þannig varð sigurinn enn þá sætari fyrir vikið. Þetta var geggjað kvöld,“ segir Víkingur. Í raun hélt hann sína eigin litlu verðlaunahátíð í heimahúsi í Berlín. „Grammy-hátíð í yndislegu húsi og í ótrúlega góðra vina hópi og samstarfsmanna. Þetta var stórkostlegt.“
Þakklæti er honum efst í huga. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég er tilnefndur til Grammy-verðlauna og ég var búinn að búa mig undir vonbrigðin að vinna ekki. Ég átti ekki von á að vinna. Þetta er stórt fyrir mig. Ég var á tónleikaferðalagi í heilt ár að spila Goldberg-tilbrigðin sem fyrir mér er stórkostlegasta tónverk tónlistarsögunnar, að minnsta kosti sem ég þekki. Að fá að eiga þennan tíma með þessu verki í heilt ár, spila um öll Bandaríkin og um allan heim, þá kemur þetta núna eins og punkturinn yfir i-ið. Þetta er bara dásamlegt.“
Víkingur undirbjó ekki sigurræðu í þetta sinn, hann segir nógu margar slíkar hafa farið í ruslið í gegnum tíðina. „Ég var búinn að undirbúa ljúfsára tapræðu í huganum en svo þurfti ég að segja nokkur orð í stofunni. Ræðan var einföld: „Það að vinna verðlaun hefur nú aldrei hjálpað neinum að gera betri músík.“ En svo bætti ég við sigurræðuna: „En það þarf ekki endilega að skemma fyrir.“ Þannig að þetta var mín stutta ræða til þeirra,“ segir hann og hlær.
„Það fyndna í lífinu er að þó að maður vinni verðlaun þá situr maður alltaf uppi með sjálfan sig
Víkingi þykir gríðarlega vænt um verðlaunin, það fer ekki á milli mála. „Einlæglega þykir mér þetta mjög mikill heiður. Þetta eru tónlistarmenn í Bandaríkjunum sem kjósa, þetta eru í rauninni verðlaun tónlistarmannanna. Ef þeir eru að hlusta á það sem ég er að gera og njóta þess þykir mér það enn þá skemmtilegra en þegar það er pínulítil dómnefnd.“
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/jYpfDsCTuy7K_730x1080_mPca5VAT.jpg)
Og nú heldur lífið áfram. „Það fyndna í lífinu er að þó að maður vinni verðlaun þá situr maður alltaf uppi með sjálfan sig,“ segir Víkingur og hlær. „Um leið og þér hlotnast einhver heiður þá er skrýtið hvað manni fer að finnast það eðlilegt furðu fljótt, þó það sé það ekki. Á sama tíma, ef þú tapar eða vinnur ekki, hugsar þú miklu lengur um það.“ Víkingur tekur dæmi frá námsárunum. „Ég fór í tvær píanókeppnir í háskóla, ég vann aðra þeirra og var í öðru sæti í hinni. Um leið og ég var búinn að vinna eina var það einhvern veginn eðlilegt en sú sem ég tapaði, ég hugsaði um hana í margar vikur og mánuði og var mjög svekktur. Kannski er það bara mannlegt hlutskipti, en ég held, því miður, að við dveljum oft lengur við ósigra heldur en sigra.“
„En mér þykir mjög vænt um þetta. Þetta er stórskemmtilegt og ótrúlegur heiður, kannski sérstaklega af því að þetta er þetta verk, Grammy-verðlaun fyrir Goldberg-tilbrigðin sem standa hjarta mínu næst. Eftir þetta ferðalag er þetta alveg einstakt fyrir mig, persónulega.“
Vildi óska að Bach væri á lífi í dag
Verðlaunin hlýtur hann, sem fyrr segir, fyrir flutning á Goldberg-tilbrigðum Bachs. Að flytja Goldberg-tilbrigðin meira og minna í heilt ár hefur kennt honum fjölmargt um sjálfan sig. „Sem og um sköpunina í tónlist og hvernig stórkostlegt verk eins og þetta er aldrei eins tvö kvöld, hvað það breytist mikið og hvað við erum ólík frá degi til dags. Og eigum að vera það og eigum að fagna því að þannig er það.“ Víkingur er einnig þakklátur fyrir að hafa fengið að upplifa Bach, bæði sem píanisti en líka sem manneskja. „Hvaða áhrif Bach hefur á fólk úr ólíkustu menningarheimum og hvað hann talar sterkt til fólks. Eina sem ég vildi væri að hann vissi í dag hversu yfirgengilega mikla hlustun tónlist hans hefur hjá ólíkustu hópum af fólki. Það er svo fallegt.“
Platan kom út fyrir rúmu ári og hefur Víkingur ferðast vítt og breitt um heiminn og flutt tilbrigðin í heild sinni á tónleikum, alls 96 sinnum. „Þetta var ævintýralegt ár og það hefur verið ótrúlegt að kynnast sjálfum mér í gegnum þessa tónlist. Tónlist Bachs verður alltaf að spegla, bæði fyrir þá sem spila hana og þá sem hlusta á hana.“ Víkingur tengir tilnefninguna, og verðlaunin, við mikla viðveru hans í Bandaríkjunum síðastliðið ár. Sjálfur bjó hann í Bandaríkjunum í sex ár og lauk grunn- og framhaldsnámi við tónlistarháskólann Juilliard í New York árið 2008. „En svo spilaði ég ekki mikið í Bandaríkjunum framan af ferli mínum, ég var miklu meira í Evrópu og Asíu og svo undanfarin ár hef ég spilað mjög mikið í Bandaríkjunum, undanfarin 2–3 ár. Þetta er tengt því, maður myndar samband við áhorfendur og að fá að upplifa hvernig tónlist Bachs talar til fólks á okkar tímum, það er algjörlega einstakt. Þessi Grammy-tilnefning og verðlaun núna þó hafa sérstaka merkingu fyrir mig. Bandaríkin eru mér alltaf mjög kær, þarna varð ég að sjálfum mér, í tónlistinni.“
„Kannski hefur aldrei verið skemmtilegra að vera klassískur tónlistarflytjandi heldur en akkúrat í dag
Hlustendahópur Víkings undanfarið ár er mjög fjölbreyttur, allt frá ungu fólki yfir í eldra fólk og alla þjóðfélagshópa. Hann tekur dæmi. „Í Boston, þegar ég spilaði verkið, var ég stoppaður af öryggisverði á flugvellinum, ég hélt að hann ætlaði að taka mig í gegn fyrir að hafa gleymt vatnsbrúsa eða eitthvað, en þá hafði hann verið að hlusta á Goldberg-tilbrigðin á tónleikum hjá mér kvöldið áður. Þetta er ein saga af mörgum hvernig Bach talar til breiðs hóps fólks. Það veitir mér gleði. Við búum okkur oft til einhverjar hugmyndir um hvaða hlustendahópur sé fyrir hvaða tónlist en við höfum ekki rétt fyrir okkur í því og það er það sem ég er búinn að læra af þessu tónleikaferðalagi, hópurinn er breiður og í því er fegurðin fólgin. Og kannski hefur aldrei verið skemmtilegra að vera klassískur tónlistarflytjandi heldur en akkúrat í dag.“
Goldberg-tilbrigðunum hefur verið streymt mörg hundruð milljón sinnum og Víkingur segir það skýrt merki um áhugann. „Það er eitthvað í þessari tónlist sem fólk sækir í náttúrlega, það er eitthvað í þessu sem talar til fólks á þann hátt að það vill að þetta verði partur af lífi sínu. Ég á aðdáendur sem segjast hlusta á þau á hverjum einasta morgni, en kannski bara aríuna. En þessi tilbrigði bjóða upp á það að maður skoði lífið og heiminn í gegnum þau. Það er eitthvað hjá Bach sem leiðir að því að við getum yfirfært hann yfir á mannlegt líf og tilfinningar. Á endanum eru þetta nótur og tíðni sem er raðað saman á snilldarlegan hátt og út frá því speglum við okkar tilfinningalitróf. Enn þá í dag finnst mér ótrúlegt að hugsa um hvað tónlist er og þegar menn gera hana eins og Bach, sem er mesti listamaður sögunnar í mínum bókum, þá verður það til þess að 300 árum seinna er fólk að uppgötva heiminn og sjálft sig og sín mannlegu tengsl í gegnum það sem hann skapaði. Það er fallegt.“
Ætlar að gefa í
Með nýjum útgáfusamningi við Universal og Deutche Grammophon ætlar Víkingur að verja meiri tíma í hljóðverinu. „Ég ætla að gefa í. Ég er að reyna að finna jafnvægið í mínu lífi, í tónlistinni, á milli þess að ferðast um heiminn og spila alla þessa tónlist og til að hafa tíma til að endurnýja mig og til að gera uppgötvanir og tilraunir í hljóðverinu. Þessi samningur er nákvæmlega það sem ég vil á þessum tímapunkti.“
Samningurinn gerir honum kleift að helga sig upptökum í hljóðveri. „Þú getur náð til tvö til þrjú þúsund manns á kvöldi í tónleikasal og það er algjörlega einstakt. En á sama tíma eru kannski þúsundir að hlusta á einhverja af upptökunum þínum. Þetta er ótrúlega falleg leið til að ná til fjölda fólks sem hefur ekki endilega aðgengi að tónleikasölunum. Og það skiptir máli.“
Þegar Víkingur var að alast upp hafði hann aðgang að stóru plötusafni foreldra sinna, sem hann er gríðarlega þakklátur fyrir. „Þegar ég var að alast upp á Íslandi var takmarkað aðgengi, þannig séð, að alþjóðlegum tónleikum. „Ég þurfti að treysta á upptökur mömmu og pabba sem eiga mjög stórt plötusafn. Á þann hátt hafa upptökur skipt mig persónulega miklu máli og í gegnum þær uppgötvaði ég stóran hluta af þeirri tónlist sem ég elska mest.“ Víkingur vill því setja aukinn kraft í upptökur. „Þannig finnst mér ég vera að gefa til baka til þess sem ég naut sem barn.“
Athugasemdir