Yfirlýsing Donalds Trump árið 2019, á fyrra forsetatímabili hans, um að kaup á Grænlandi væru rétt eins og hver önnur landakaup vöktu mikla athygli. Ýmsir töldu að Trump hefði sagt þetta í hálfkæringi en aðrir héldu því fram að honum hefði verið full alvara með orðum sínum. Nú er Donald Trump aftur orðinn forseti og af ummælum hans að dæma er hugmyndin um yfirráð Bandaríkjanna á Grænlandi ekki skyndihugdetta.
Hann hefur að minnsta kosti í tvígang eftir að hann tók við forsetaembættinu ítrekað þörf Bandaríkjanna fyrir yfirráð Grænlands: „Greenland is a wonderful place, we need it for international security. I‘m sure that Denmark will come along,“ sagði Trump.
Ekki eru allir á einu máli um hvernig bæri að túlka þessi ummæli forsetans en að minnsta kosti ljóst að hann stefnir að stórauknum áhrifum á Grænlandi.
Hefur ýtt við Dönum
Ummæli Bandaríkjaforseta um Grænland hafa sannarlega valdið titringi. Forsetinn er sagður óútreiknanlegur og að margra mati erfitt að henda reiður á orðum hans. Dönsk stjórnvöld hafa sannarlega hrokkið við, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur rætt málið á fundi með forsætisráðherrum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands.
Utanríkisráðherrar ESB-landanna funduðu fyrr í vikunni í Brussel þar sem „Grænlandsmálið“ var rætt ásamt ýmsu öðru, ekki síst hótunum Trumps um stórhækkaða tolla á innflutningi frá Evrópu til Bandaríkjanna. Langflestir danskir og grænlenskir stjórnmálamenn hafa lýst yfir að ekki komi til greina að Grænland verði hluti Bandaríkjanna.
Meirihluti Dana vill viðhalda ríkjasambandinu
Í nýrri skoðanakönnun sem gerð var fyrir danska útvarpið, DR, og netmiðilinn altinget.dk kom fram að 70 prósent Dana vilja viðhalda ríkjasambandinu, rigsfællesskabet. Af þessum 70 prósentum vilja 27 prósent óbreytt ríkjasamband en 43 prósent vilja viðhalda ríkjasambandinu en auka áhrif og völd Grænlendinga í málefnum landsins. 17 prósent vilja slíta ríkjasambandinu og að Grænland verði sjálfstæð þjóð.

Í sömu könnun sögðu 90 prósent nei við spurningunni um hvort Grænland ætti að verða hluti Bandaríkjanna, 7 prósent voru óákveðin eða vildu ekki svara en 3 prósent svöruðu spurningunni játandi.
Vilja vera herrar í eigin húsi
Meirihluti þingmanna á grænlenska þinginu (þingmenn eru 31) er hlynntur því að Grænland fái fullt sjálfstæði en spurningin sé hvenær það verði tímabært. „Allir óska sér auðvitað að vera herra í eigin húsi og við viljum vitaskuld geta séð um öll okkar mál og borið á þeim ábyrgð. Fullt sjálfstæði má ekki vera á kostnað lakari lífskjara íbúa landsins. Þess vegna þarf að vanda til verka og ekki hrapa að ákvörðunum,“ sagði Mariane Paviasen, talsmaður Inuit Ataqatigiit, stærsta flokksins á grænlenska þinginu.
Sjálfstjórnarlögin
Í maí 2023 var lagt fram, á grænlenska þinginu, uppkast að stjórnarskrá fyrir sjálfstætt Grænland. Síðastliðið haust var skipuð nefnd sem ætlað er að ákveða næsta skref. Nefndin gengur undir nafninu paragraff 21 kommission, nafnið er dregið af þeirri lagagrein í sjálfstjórnarlögunum sem fjallar um hvað sjálfstæði Grænlands merkir. Nefndin hefur tvö ár til að ljúka verkefninu.
Í sjálfstjórnarlögunum segir eftirfarandi um sjálfstæði Grænlands:
- Ákvörðunina um sjálfstæði Grænlands taka Grænlendingar.
- Sjálfstæði skal ákveðið með þjóðaratkvæðagreiðslu á Grænlandi.
Ákvörðun um sjálfstæði skal hljóta samþykki þings og ríkisstjórnar Grænlands og í þjóðaratkvæðagreiðslu Grænlendinga. Ákvörðunin skal enn fremur hljóta samþykki danska þingsins, Folketinget.
Átak til að vinna gegn fordómum
Grænlendingar hafa lengi mætt fordómum í Danmörku. Sagt að þeir nenni ekki að vinna og vilji bara lifa á „kerfinu“, sitji daglangt með bjórflöskur á torgum og drekki sig gjarna útúrfulla. Danir þekkja vel orðið grønlænderstiv sem merkir að vera útúrdrukkinn. Orðið, sem lengi hafði þekkst í dönsku máli, var tekið inn í dönsku orðabókina árið 2017 og um þá ákvörðun urðu miklar umræður í danska þinginu. Nú eru uppi háværar raddir um að fjarlægja orðið úr orðabókinni, það sé niðrandi og gildishlaðið. Í orðabókinni er að finna fleiri gildishlaðin og niðrandi orð, til dæmis negermusik, sem merkir djasstónlist eða svertingjatónlist og orðið perker um fólk af arabískum uppruna eða frá Mið-Austurlöndum.
Mánudaginn 27. janúar kynnti danska ríkisstjórnin sérstakt átaksverkefni, í 12 liðum, sem ætlað er að vinna gegn fordómum í garð Grænlendinga og er enn fremur til að hjálpa Grænlendingum við að finna fótfestu í Danmörku. Meðal annars að styrkja túlkaþjónustu fyrir Grænlendinga, auðvelda Grænlendingum að ná valdi á dönsku og styrkja sjóði sem aðstoða atvinnulausa Grænlendinga við að fá vinnu. Enn fremur að Grænlendingar fái sérstakt vegabréf, og fleira mætti nefna.
Blaðaviðtal olli fjaðrafoki og kostaði ráðherrastól
Í september árið 2021 birti dagblaðið Berlingske viðtal sem átti eftir að valda miklu fjaðrafoki á Grænlandi. Viðmælandi blaðsins var Pele Broberg, þáverandi utanríkisráðherra Grænlands og formaður Nalereaq-flokksins, þjóðernissinnaðs flokks sem hefur fimm fulltrúa á grænlenska þinginu en á ekki lengur aðild að ríkisstjórninni. Pele Broberg hefur í viðtölum verið mjög afdráttarlaus stuðningsmaður sjálfstæðis Grænlands og er afar ósáttur við notkun orðsins rigsfællesskab, ríkjasamband, sem hann vill ekki nota um samband Danmerkur og Grænlands. Þetta sé orð sem hafi verið fundið upp til að dulbúa yfirráð Dana yfir Grænlandi, sem hann telur að eigi að binda enda á sem allra fyrst.
Aðalefni viðtalsins og það sem olli mestu fjaðrafoki voru ummæli hans um hverjum skyldi heimilt að kjósa um sjálfstæði Grænlands. Þótt danskir og grænlenskir þingmenn og almenningur hafi lýst því yfir að Grænlendingar eigi að ákveða framtíð eigin lands, eins og stendur í uppkastinu að stjórnarskránni, þykir Pele Broberg það ekki fullnægjandi. „Einungis íbúar af grænlenskum uppruna eiga að kjósa um framtíð landsins,“ sagði Pele Broberg. Um þetta fór hann mörgum orðum í áðurnefndu viðtali árið 2021.

Ummælin urðu til þess að Múte B. Egede, formaður landsstjórnarinnar (forsætisráðherra), flutti utanríkismálin frá Naleraq-flokknum og nokkrum mánuðum síðar hætti Naleraq þátttöku í ríkisstjórninni en í stað hans kom Siumut-flokkurinn inn í stjórnina. Stjórnarflokkarnir hafa 21 þingmann, öruggan meirihluta.
Hverjir mega kjósa um sjálfstæði Grænlands?
Múte B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, lýsti því yfir í kjölfar viðtalsins við Pele Broberg árið 2021 að allir íbúar Grænlands hefðu sama rétt þegar kæmi að kosningum um sjálfstæði. Í sunnudagsútgáfu Berlingske 26. janúar sl. birtist langt viðtal við Pele Broberg. Þar ítrekar hann þá skoðun sína að þegar kosið verði um sjálfstæðið skuli einungis íbúar af grænlenskum uppruna fá leyfi til að kjósa. „Uppruninn á að ráða, ekkert annað,“ sagði Pele Broberg.
Samkvæmt núverandi kosningalögum hafa danskir ríkisborgarar, sem búið hafa á Grænlandi í hálft ár, kosningarétt. „Slíkt fyrirkomulag er fráleitt,“ sagði Pele Broberg, „Danir sem búa á Grænlandi eru ekki Grænlendingar, þeir eru Danir. Munu Danir, búsettir á Grænlandi, kjósa sjálfstæði? Ég tel það ólíklegt,“ sagði Pele Broberg og bætti við að „þessi hópur er það stór að hann gæti ráðið úrslitum í kosningum“.
Íbúar Grænlands eru nú um það bil 57 þúsund, um það bil 4 þúsund (sjö prósent) þeirra eru fæddir í Danmörku og um 2 þúsund íbúa Grænlands eru erlendir ríkisborgarar.
Ekki ný umræða
Umræðan um að vera eða ekki vera Grænlendingur er ekki ný af nálinni. Ulrik Pram Gad, sem hefur árum saman rannsakað samband Grænlands og Danmerkur, segir að umræðan um hver sé Grænlendingur og hver ekki sé að minnsta kosti aldargömul. Hann sagði í viðtali við danska útvarpið að líklegast væri að núverandi kosningalög verði látin gilda komi til kosninga um sjálfstæði.
Til að mega taka þátt í kosningum gildir nú eftirfarandi:
- Vera danskur ríkisborgari (það eru Grænlendingar).
- Vera 18 ára.
- Hafa fasta búsetu á Grænlandi og búið þar síðustu 6 mánuði.
- Fólk sem býr á Grænlandi, en er tímabundið erlendis, til dæmis í námi, hefur rétt til að kjósa.
Pele Broberg telur að rétta leiðin til að skera úr um hverjir séu Grænlendingar og hverjir ekki sé upprunaskráning. Þessa aðferð hafa Samar í Finnlandi notað og skráning, að uppfylltum skilyrðum, veitir rétt til kosninga á þingi Sama. Nefnd á vegum grænlensku landsstjórnarinnar vinnur þessa dagana að því að kanna hvort þessi leið gæti hentað á Grænlandi. Nefndin á að skila áliti fyrir 19. febrúar 2025.
Þingkosningar á Grænlandi eiga að fara fram eigi síðar en 6. apríl næstkomandi.
Athugasemdir (1)