Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, segir orð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og frambjóðanda til formanns, lýsa „miklu blæti til skriffinnsku.“ Vísaði Sigríður þar til ummæla fyrrverandi flokksystur sinnar um að Flokkur fólksins væri ekki enn orðinn stjórnmálaflokkur.
„Að halda því fram að flokkur sem situr á Alþingi sé ekki „stjórnmálaflokkur“ af því að eyðublaði hefur ekki verið skilað til ríkisins lýsir miklu blæti til skriffinnsku,“ skrifaði þingmaður Miðflokksins á samfélagsmiðilinn X fyrr í dag.
Áslaug Arna tilkynnti um framboð sitt til formanns Sjálfstæðisflokksins á fundi í Sjálfstæðissalnum í gær. Hún er enn sem komið er sú eina sem hefur látið í ljós vilja til að taka við forystu flokksins en enn eru Guðrún Hafsteinsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson orðuð við framboð.
Það að Flokkur fólksins væri ekki enn orðinn stjórnmálaflokkur sagði Áslaug í Bítinu á Bylgjunni í morgun, en umræða um styrkveitingar til flokksins hafa verið í hámælum síðustu daga. Snýst málið um það að flokkurinn hafi þegið ríkisstyrki til stjórnmálasamtaka án þess að uppfylla skilyrði laga um skráningu slíkra samtaka. En Flokkur fólksins er skráður sem félagasamtök hjá Ríkisskattstjóra en ekki stjórnmálasamtök og verður því af styrknum í ár.
Fleiri flokkar þáðu styrki rangt skráðir
Fyrr í dag greindi Vísir frá því að aðrir stjórnmálaflokkar hefðu einnig þegið framlög úr ríkissjóði án þess að uppfylla skilyrði laga um skráningu sem stjórnmálasamtök.
Árið 2022 hefði Sjálfstæðisflokkurinn til dæmis þegið 167 milljónir króna, stuttu áður en skráningu flokksins var breytt. Má þetta teljast nokkuð áhugavert í ljósi þess að þeir sem hafa gagnrýnt Flokk fólksins hvað mest vegna opinberu styrkjanna eru einmitt Sjálfstæðismenn.
Rangar skráningar hafa einnig verið uppi á teningnum meðal annarra flokka. Vinstri græn þáðu framlög sem námu 266,6 milljónum króna án þess að uppfylla skilyrði laga um rétta skráningu. Sósíalistaflokkurinn fékk 50,5 milljónir króna, en hann var rangt skráður 2022 og 2023, og Píratar fengu 66,8 milljónir.
Enn liggur ekki fyrir hvort stjórnmálaflokkunum verði gert að endurgreiða opinbera styrki sína, líkt og stjórnsýslufræðingurinn Haukur Arnþórsson sagði óhjákvæmilegt í samtali við RÚV fyrr í dag. Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að styrkjamálið væri í skoðun og vinnslu innan ráðuneytisins.
Athugasemdir (2)