„Sá sem bjó í hýsinu við hliðina á mér var færður á sjúkrahús til skoðunar, mögulega með reykeitrun. Hinn var ekki heima. Sem betur fer. Við vorum skíthræddar um að hann væri inni í bílnum.“ Þetta segir Geirdís Hanna Kristjánsdóttir í samtali við Heimildina en ein hliðin á hjólhýsinu sem hún hefur búið í bráðnaði vegna hitans frá eldtungunum í hjólhýsinu sem brann í nótt.
Eldurinn kom upp í hjólhýsahverfinu við Sævarhöfða en Geirdís vaknaði upp úr klukkan fjögur í nótt við það að nágranni hennar úr hjólhýsinu við hliðina bankaði hjá henni, sagði að það væri kviknað í og bað hana að hringja í 112.
Eldurinn læsti sig einnig í húsbíl sem stendur vestan við hýsið sem eldurinn kom upp í og er húsbíllinn gjörónýtur. „Ég fór og ég barði bílinn allan að utan og hrópaði nafnið hans,“ segir Geirdís en íbúi húsbílsins var kominn út á flugvöll, á leið til Póllands, þegar kviknaði í. „Ég er rétt að jafna mig í lófunum, ég barði svo svakalega utan á bílinn,“ segir hún.
Geirdís fór síðan um nóttina til Bergþóru Pálsdóttur, Bebbu, sem býr í hjólhýsinu austan við hennar og þar hefur hún fengið að vera síðan, ásamt tíkinni Tinnu, sem er blanda af íslenskum fjárhundi og Border Collie, en Geirdís og Tinna eru nú heimilislausar.
Geirdís er formaður Samtaka hjólabúa, félagasamtaka sem berjast fyrir þeim sem vilja búa á hjólum – í hjólhýsum og húsbílum. Hún bjó áður í hjólhýsabyggðinni í Laugardal en sumarið 2023 var íbúunum þar gert að flytja á Sævarhöfðann, á óhirt iðnaðarplan við hlið 40 metra sílóa þar sem gamla sementsstöðin var áður til húsa.
Þar var komið upp rafmagnstenglum fyrir þau og borga þau 15 þúsund krónur á mánuði fyrir aðgang að rafmagninu. Aðra þjónustu er þar ekki að fá. Hópurinn, tæplega tuttugu manns, flutti á Sævarhöfðann með vilyrði frá Reykjavíkurborg um að það yrði aðeins tímabundin ráðstöfun. Síðan er liðið rúmlega hálft annað ár.
„Ég get alveg fullyrt það að ef að Reykjavíkurborg hefði staðið við það sem þau lofuðu í upphafi – að við fengjum almennilegt svæði þar sem hægt væri að hafa almennilegt bil á mili tækja – þá hefði þetta aldrei gerst. Þannig að mér finnst þeir bera stóra ábyrg í þessu máli. Það er bara svoleiðis,“ segir Geirdís en hún er ennfremur varaborgarfulltrúi Sósíalista.
„Það eru þrír heimilislausir út af þessu,“ segir hún og bendir á að ef fjarlægðin sem á að vera á milli hjólhýsa hefði alls staðar verið fylgt, fjórir metrar, hefði eldurinn ekki átt jafn auðvelt með að læsa sig í næsta hýsi.
Hún segir atburðarásina hafa verið hraða þegar hún vaknaði í nótt. „Sá sem býr í hýsinu sem brann fór strax í að reyna að hafa samband við fólk hérna á svæðinu og ég var sú fyrsta sem svaraði honum. Klukkan var tuttugu mínútur yfir fjögur þegar ég hringdi í Neyðarlínuna,“ segir Geirdís. Þá var hún búin að lána nágrannanum slökkvitæki.
„Ég hljóp hérna út, á náttfötunum og berfætt í inniskónum og var þannig alveg þangað til slökkviliðið var langt komið með að slökkva eldinn. Þá skaust ég inn til að sækja úlpuna mína og kuldaskóna,“ segir Geirdís sem náði varla að nema kuldann fyrr vegna áfallsins við að horfa upp á hjólhýsi nágrannans brenna og hennar eigin hjólhýsi bráðna vegna hitans. „Það eina sem ég hugsaði var að ég vonaði að vindáttin myndi ekki breytast,“ segir hún, en í nótt stóð vindurinn frá hennar hýsi og að því sem brann.
Þegar blaðamaður Heimildarinnar hitti Geirdísi og Bebbu í hjólhýsi þeirrar síðarnefndu um hádegisbilið í dag hafði Geirdís ekki náð að fara inn í sitt hýsi til að skoða stöðuna eða sækja neitt. Hún var bæði skjálfhent og táraðist reglulega.
„Ég er búin að missa fullt, en ég missti ekki allt – það voru tveir sem gerðu það, þeir misstu allt. Það er bara ömurlegt. En ég er tvisvar sinnum á ævinni búin að missa allt í bruna.“ Minningarnar helltust yfir Geirdísi þegar hún horfði á eldinn í nótt.
„Í nótt hugsaði ég: Ekki einu sinni enn. Ekki einu sinni enn.“
„Í fyrra skiptið var ég tæplega fjögurra ára gömul, og þá misstum við pabba minn líka. Ég var á leikskólanum þegar það gerðist. Eins og ég segi, við misstum allt. Mamma stóð uppi ein með sex börn. Í seinna skiptið kviknaði í blokk sem ég bjó í á Akureyri og eldurinn byrjaði í herbergi á hæðinni fyrir neðan okkur, beint fyrir neðan herbergið mitt. Herbergið mitt fór verst í það skiptið. Í nótt hugsaði ég: Ekki einu sinni enn. Ekki einu sinni enn.“
Hún segist varla skilja hvernig henni tókst að halda haus þegar lögreglan kom í nótt. „Unga lögreglukonan sem talaði við mig hafði orð á því hvað ég væri róleg og yfirveguð, en þegar maður er búinn að verða fyrir svona mörgum áföllum í gegnum tíðina þá er sjokkstuðullinn orðinn ansi hár,“ segir Geirdís. Síðan þá hafa þær Bebba verið saman, fengið sér kaffi og svarað þeim fjölmörgu sem eru búnir að hringja í þær til að athuga hvort það sé í lagi með þær.
Í síðasta mánuði fjallaði Heimildin ítarlega um aðbúnað fólksins sem býr í hjólhýsahverfinu á Sævarhöfða. Þeim var upphaflega sagt að þau þyrftu að flytja úr Laugardalnum og á Sævarhöfðann þar sem byggðin yrði í 8 til 12 vikur en síðan yrði þeim fundinn annar staður til að búa á. Íbúarnir héldu þar sín önnur jól fyrir skemmstu og vita ekkert hvert framhaldið verður.
Engin réttindi fylgja þessu búsetuformi – að búa í hjólhýsi eða húsbíl; þau geta ekki skráð lögheimili sitt þar sem þau búa, eiga þar af leiðandi ekki rétt á heimilisuppbót, geta ekki fengið póst, hafa ekki aðgang að ruslatunnum og þegar frystir er aðeins hægt að fá rennandi vatn inni í gömlu steypustöðinni. Þarna eru alla jafna 17 til 20 hýsi og íbúarnir eru langþreyttir á að fá engin svör frá borginni um framtíð sína.
„Hann stóð bara úti og grét“
Þrátt fyrir að hafa ekki brunnið er hjólhýsi Geirdísar ónýtt. Hún segist þó vera heppin miðað við þá sem bjuggu í hjólhýsinu og húsbílnum sem brunnu. „Ég á eftir að fara inn og skoða hversu stórt tjónið þar er; hvað ég á eftir af heilum rúmfötum og fötum. Ég var þarna áðan og það er súr brunalykt, þetta er allt ógeðslegt,“ segir hún. Geirdís náði þó að bjarga því dýrasta í krónum talið, tölvunni sinni til dæmis.
Maðurinn sem býr í húsbílnum kom aftur heim í leigubíl af flugvellinum eftir að hann frétti af brunanum. Bebba og Geirdís segja hann hafa brotnað niður þegar hann sjá húsbílinn sinn, heimilið sitt ónýtt. „Hann stóð bara úti og grét,“ segir Geirdís.
Þær segjast enn ekkert vita um hvernig eldurinn kom upp, það eigi eftir að rannsaka.
Geirdís segist hafa hringt í tryggingafélagið sitt í morgun, um leið og opnaði, en hún er allsendis óviss um hvað hún fær bætt. „Hýsið mitt er það gamalt að það er óvíst að ég fái alla tryggingarupphæðinga greidda út, og sú upphæð sem það er tryggt fyrir dugar ekki fyrir nýju hýsi. Af því ég er ekki með skráð lögheimili neins staðar þá get ég ekki fengið lán. Þetta verður því mikið púsluspil á næstunni.“
„Þó að ég sé tímabundið heimilislaus þá missti ég ekki allt“
Margir hafa þegar haft samband og boðið henni að gista þangað til hún er komin með nýtt heimili, hvernig eða hvar sem það verður. „Við eigum mikið af góðu fólki sem ég veit að mun halda utan um okkur,“ segir hún og kjáir framan í tíkina Tinnu sem hefur fylgt henni í fjögur ár. „Hún er svona rescue-hundur. Ég fékk hana í gegnum Dýrahjálp þegar hún var rúmlega tveggja ára,“ segir Geirdís.
Þrátt fyrir skjálftann og tárin sem reyna að brjótast fram þá reynir hún að líta á björtu hliðarnar. „Þó að ég sé tímabundið heimilislaus þá missti ég ekki allt. Dýrið mitt bjargaðist. Við slösuðumst ekki. En fyrir manneskju með flókna áfallastreituröskun þá er þetta ekki auðvelt. Ég hef samt verið dugleg í gegnum árin að safna í verkfærakistilinn minn, og ég á góða að,“ segir Geirdís, og snýr sér að Bebbu: „Við erum búnar að vera vinkonur síðan við spiluðum keilu saman á Akureyri. Bebba er náttúrulega bara dásamleg.“
Og það var til hennar sem Geirdís leitaði í nótt.
„Ég spurði hvort ég mætti vera inni hjá henni í nótt, bara koma mér fyrir í horninu en við náðum svo ekkert að sofna aftur. Nú er bara að meta stöðuna og ganga í það sem þarf að ganga í.“
Athugasemdir