Þegar farið er yfir árið 2024 hafa ýmis vafasöm met verið slegin. Aldrei í nútímasögu Íslands hafa jafnmargir verið myrtir á einu ári. Það hafa aldrei verið jafnmiklar og algengar náttúruhamfarir nærri byggð. Tvennar kosningar voru haldnar á árinu, báðar kosningarnar voru óvæntar. Fjöldi banaslysa var í hæstu hæðum. Það sem einkennir árið fyrst og fremst eru áföll.
Janúar: Maður hverfur
Fréttaárið hófst með kosningum sem áttu eftir að setja sitt mark á alla stjórnmálaumræðuna fram á vor. Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri í þriðja skiptið sem forseti Íslands. Þetta kom töluverðu róti á umræðuna sem hélt áfram fram á vor.
Tíunda janúar var tilkynnt um mann sem hafði fallið ofan í sprungu í Grindavík. Maðurinn reyndist heita Lúðvík Pétursson og var að störfum í bænum þegar hann féll ásamt vinnuvél ofan í sprunguna.
Lúðvík var rétt fimmtugur, faðir fjögurra barna, afi tveggja og stjúpfaðir tveggja barna. Hann skildi jafnframt eftir sig unnustu. Eftir sat fjölskylda Lúðvíks í sárum og áleitnar spurningar biðu stjórnvalda. Fjölmörgum spurningum er enn ósvarað um ákvarðanatöku og atburðarás í aðdraganda þess að Lúðvík féll ofan í sprungu sem lá í gegnum húsagarð í Grindavík. Veðurstofan hafði sérstaklega varað við sprunguhreyfingum en áhættumat lá ekki enn fyrir. Dómsmálaráðuneytið samþykkti nú í desember erindi fjölskyldu Lúðvíks um að fram fari rannsókn óháðra aðila á atvikinu.
Innan við viku síðar gaus nærri Hagafelli og innan varnargarða, alveg upp við byggðina í Grindavík. Hraunrennslið gjöreyðilagði þrjú hús í bænum. Eins sló út rafmagni og heitavatnslagnir rofnuðu. Gosvirkni varði ekki lengi og var gosinu lokið tveimur dögum síðar.
Þessum langa og kalda janúar var þó ekki lokið. Í blálok mánaðarins bárust fregnir af fyrsta morðmáli ársins. Þá fannst sex ára drengur látinn á heimili sínu að Nýbýlavegi í Kópavogi. Fimmtug móðir hans var í kjölfarið ákærð fyrir manndráp og játaði á sig verknaðinn. Þá reyndi hún einnig að bana eldra barni sínu. Móðirin var dæmd í átján ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness síðar á árinu. Dómurinn er á meðal þeirra þyngri sem hafa verið kveðnir upp hér á landi. Konan var þjökuð af alvarlegu þunglyndi en ekki haldin geðveiki, að mati dómkvaddra matsmanna.
Til þess að kóróna hörmungarnar í upphafi ársins létust sex í umferðarslysum á fjórum fyrstu vikum ársins.
Og árið var bara rétt að byrja.
Febrúar: Gos og eignakaup
Aftur gaus í Sundhnúksgígaröðinni í byrjun febrúar og ljóst var að Grindvíkingar gætu ekki snúið heim í bráð. Ríkisstjórnin kynnti á svipuðum tíma frumvarp til þess að kaupa upp eignir Grindvíkinga svo þeir gætu komið undir sig fótunum annars staðar. Verkefnið var augljóslega risavaxið og átti eftir að kosta um 60 milljarða. Um tólf hundruð auð hús og íbúðir stóðu eftir í bænum sem var umlukinn Reykjaneseldum. Það var ljóst að þessu myndu að auki fylgja umtalsverðar fjárhagslegar áskoranir á fasteignamarkaði ofan í erfitt vaxtastig sem þá var enn í rúmum níu prósentum.
Í febrúar greindi Heimildin frá gjörningum stjórnenda hjúkrunarheimilisins Sóltúns sem báðu aðstandendur íbúa að hjálpa til við þrif með eigin tuskum og hreinsiefnum árið 2022. Það var eftir að eigendurnir seldu fasteign hjúkrunarfélagsins fyrir 3,8 milljarða, leigðu húsnæðið af kaupandanum, greiddu sér tvo milljarða út úr félaginu og fóru svo í niðurskurð á þjónustunni. Aðstandendur og starfsfólk höfðu misjafnar sögur að segja af reynslu sinni af starfsemi Sóltúns og þjónustu þar.
Mars: Menningarstríð
Það var kannski tilviljun, mögulega kaldhæðni örlaganna, að Hera hafði betur gegn hinum palestínska Bashar Murad í Söngvakeppni sjónvarpsins. Sigurinn reyndist ekki aðeins taktískur að einhverju leyti, og kallaði á spurningar um fyrirkomulag keppninnar, heldur var sigurinn að auki verulega umdeildur. Sitt sýndist hverjum um það hvort það væri yfirhöfuð boðlegt að taka þátt í keppninni í ljósi stríðsreksturs ísraelskra stjórnvalda á Gaza-svæðinu. Mótmæli urðu að reglulegum viðburði hér á landi allan veturinn og undirskriftalistar gengu á netinu til þess að hvetja RÚV til þess að sniðganga keppnina af pólitískum ástæðum.
Sjónvarpsstjóri taldi það ekki sitt hlutverk að taka slíka ákvörðun og svo virtist sem menntamálaráðherra væri ekki tilbúinn að skera útvarpsstjórann úr snörunni hvað það varðaði. Því var ákvörðunin sett í hendurnar á sigurvegara keppninnar. Úr varð að Hera tilkynnti að hún færi til Svíþjóðar, þar sem keppnin var haldin, fyrir hönd lands og þjóðar. Þetta dýpkaði allverulega menningarstríðið sem ríkti hér á landi tengt Eurovision og stríðinu á Gaza-svæðinu.
Á sama tíma hugsuðu fjölmargir um framboð til embættis forseta Íslands og þó nokkur framboð höfðu þegar litið dagsins ljós. Fjórða mars var Katrín Jakobsdóttir, þá forsætisráðherra, spurð á Alþingi hvort hún hygðist bjóða sig fram til setu á Bessastöðum vegna þráláts orðróms um að hún væri að íhuga stöðu sína. Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, reið þá á vaðið og spurði forsætisráðherrann að því sem öll þjóðin hafði verið að hugsa. Var hún á leið í framboð? Katrín svaraði með lunknum hætti og vék sér í raun undan svörum þegar hún sagði: „Ég vil bara hughreysta háttvirtan þingmann og segja að ég er bara enn í starfi sem forsætisráðherra og verð hérna áfram um sinn.“
Þetta hleypti hugrekki í fjölda fólks sem fór að íhuga eigin stöðu, jafnvel þó svo að enginn sérstakur áhugi væri á starfskröftum þeirra. Í sumum tilvikum hafði almenningur varla heyrt um viðkomandi. Hæst fór hópur þeirra sem íhuguðu framboð upp í sjötíu manns samkvæmt vef Ísland.is þar sem hægt var að sjá hverjir höfðu skráð sig til þess að safna undirskriftum. Sú stjórnsýslulega martröð rættist þó ekki. Eftir sátu tólf frambjóðendur, og þótti mörgum nóg um, enda höfðu aldrei svo margir verið í framboði til embættis forseta Íslands.
Svo gaus aftur, í þriðja skiptið á jafnmörgum mánuðum.
Apríl: Upphaf falls ríkisstjórnarinnar
Þegar litið er til baka má segja að straumhvörf hafi orðið í íslenskum stjórnmálum þegar Katrín Jakobsdóttir tilkynnti loks í byrjun apríl að hún hygðist sækjast eftir embætti forseta Íslands. Málið reyndi verulega á ríkisstjórn Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokksins. Fátt virtist sameina þessa sundurleitu ríkisstjórn annað en leiðtogahæfileikar Katrínar. Hún tilkynnti á samfélagsmiðlum að hún hygðist segja af sér sem forsætisráðherra sem og formennsku í VG.
Þá þegar höfðu ellefu aðrir frambjóðendur stigið fram, sum þekkt andlit eins og Jón Gnarr, Baldur Þórhallsson og Ástþór Magnússon, sem lætur sig aldrei vanta í forsetakosningar. Önnur andlit voru minna þekkt, eins og Halla Hrund Logadóttir og Arnar Þór Jónsson, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari.
Stjórnmálin voru í nokkru uppnámi á eftir þrátt fyrir tilraunir Katrínar til þess að yfirgefa hið pólitíska svið með friði. Uppi voru hugmyndir um að kjósa þá þegar um vorið samhliða forsetakosningunum, nokkuð sem leiðtogum ríkisstjórnarinnar hugnaðist ekki vegna forsetakosninganna. Úr varð að Bjarni Benediktsson færði sig úr utanríkisráðuneytinu, þar sem hann hafði dvalið í um ár eftir að hafa sagt af sér sem fjármálaráðherra.
Brottför Katrínar er talin hafa markað upphafið að endalokum ríkisstjórnarsambandsins.
Á meðan stjórnmálafólkið þrefaði og vongóðir forsetaframbjóðendur mættu í fjölmiðlaviðtöl til þess að kynna erindi sín áttu sér stað tvö morð. Annars vegar í sumarhúsi á Suðurlandi þar sem litáískur maður lést eftir barsmíðar, og svo hins vegar þegar eldri kona, sem hafði þolað hryllilegt heimilisofbeldi, var myrt af manni sínum.
Í þessum mánuði hófst ekki nýtt gos. En síðasta gosi var ekki enn lokið.
Maí: Slæðubyltingin
Halla Hrund Logadóttir kom eins og stormsveipur inn í forsetakosningarnar og virtist í fyrstu sem að gangnamenn á Austur-Síðuafrétti, sem skoruðu fyrst á orkumálastjórann að bjóða sig fram, hefðu eitthvað fyrir sér hvað vinsældir hennar varðaði. Hún mældist í fyrstu ítrekað hæst í fylgiskönnunum fyrir kosningar en svo fór fylgið að dala. Það lækkaði sífellt meira eftir því sem hún birtist oftar á skjáum landsmanna í viðtölum.
Á sama tíma stóð mikill styr um framboð Katrínar sem náði forskoti í fylgismælingum og virtist nokkuð örugg í sinni stöðu. Sannaðist þá hið fornkveðna; enginn á neitt í pólitík. Annar frambjóðandi fór að verða sífellt meira áberandi í umræðunni. Það var Halla Tómasdóttir, sem reyndi nú fyrir sér í annað skipti í forsetaframboði eftir frækna baráttu við Guðna Th. Jóhannesson árið 2016. Náði hún slíku risi í þeim kosningum að það var haft í flimtingum að ef kosningunum hefði seinkað um einn dag hefði hún líklega haft sigurinn af Guðna.
Halla var harðákveðin í að endurtaka ekki tapið og var áberandi í fjölmiðlum og heillaði landann í kappræðum í sjónvarpinu. Hún fór á flug í fylgismælingum og tók að lokum fram úr nöfnu sinni, Höllu Hrund. Þó að nokkuð hafi munað á Katrínu og Höllu Tómasdóttur má segja að kosningarnar hafi verið nokkuð tvísýnar. Úrslitin voru óvænt, Halla var kjörin forseti og eftir sat fyrrverandi forsætisráðherra með sárt ennið. Kosningarnar reyndust taktískar að mati stjórnmálafræðinga, þó að um það sé deilt. Það skipti litlu, konur brutust undan áralöngum fordómum gagnvart slæðukonum og efndu til menningarbyltingar vopnaðar litríku hálstaui og skjannahvítu brosi, í takt við stíl nýkjörins forseta.
Undir lok mánaðar sauð upp úr á milli lögreglu og stuðningsmanna Palestínumanna sem mótmæltu fyrir utan ríkisstjórnarfund sem fram fór í húsnæði umhverfisráðuneytisins. Lögreglan notaði piparúða en um tíu mótmælendur voru illa haldnir eftir átökin. Auk þess slasaðist lögreglumaður þegar ráðherrabíl var ekið á hann. Lögregla hélt því fram að mótmælendur hefðu ekki fylgt fyrirmælum lögreglu.
Svo gaus aftur. Fyrra gosi lauk í maí eftir að það hafði verið virkt í um tvo mánuði.
Júní: Hvalveiðar og trjákurl
Eins og lóan snýr aftur á vorin, var Kristján Loftsson mættur í fjölmiðla með skutulinn á lofti í júní þegar Bjarkey Olsen, þá matvælaráðherra, heimilaði hvalveiðar á ný með stysta mögulega fyrirvara, og þá til eins árs. Hann sagðist ekki geta hafið veiðar með svo skömmum fyrirvara en veiðileyfið var í það minnsta í höfn í bili og átti staða Kristjáns eftir að vænkast enn frekar síðar árinu.
Loftslagsmálin tóku nokkurt pláss í umræðunni þegar Heimildin greindi frá fyrirtæki sem fáir höfðu heyrt um, Running Tide. Félagið var staðsett á Akranesi og Grundartanga. Markmið þess var hófsamt, eins og ávallt þegar kemur að nýsköpunarfyrirtækjum, en það stefndi að því að bjarga öllu mannkyninu með því að sporna við loftslagsbreytingum með byltingarkenndri tækni.
Fyrirtækið stefndi að því að rækta risaþörunga á sérstakar baujur. Átti þörungurinn að draga í sig koldíoxíð úr andrúmsloftinu á hafi úti og sökkva að lokum og þar með endaði þessi flókni vandi heimsins á botni Atlantshafsins, þökk sé hugviti frumkvöðlanna.
Stjórnmálamenn misstu að því er virðist alla stjórn á skriffinnskubákninu þegar fyrirtækið kynnti hugmyndir sínar. Eftir sat stjórnmálafólk með þara í hárinu og stjörnufiska í augunum og kepptist við að veita fyrirtækinu alls kyns undanþágur frá eftirliti og tilraunamagni. Umhverfisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, gekk svo langt að mæta í púlt Alþingis og upplýsti alþjóð um að á Akranesi væri hrein bylting að eiga sér stað:
„Það sem menn kannski átta sig ekki á er að við Íslendingar erum núna komin með lausnir þegar kemur að kolefnisföngun. Bara hér á stað sem við öll þekkjum, Akranesi, þar er til dæmis stærsta varanlega kolefnisföngunarverkefni í heimi, Running Tide.“
Við nánari skoðun kom í ljós að fyrirtækinu tókst ekki ætlunarverk sitt, sem var að rækta þörunga á baujum og sökkva í því magni sem að var stefnt, heldur urðaði það þúsundir tonna af trjákurli á hafsbotni og skráði það sem kolefnisbindingu og seldi hana erlendum stórfyrirtækjum. Fyrirtækið lagði svo upp laupana í júní. Það gerði gosið einnig sem hafði hafist í lok maí.
Júlí: Engar fréttir eru góðar fréttir
Fregnir fóru að berast um kólnun í hagkerfinu í júlí og ýmislegt benti til þess að ákvarðanir Seðlabanka Íslands væru að hafa tilætluð áhrif. Jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var bjartsýnn og taldi að verðbólgumarkmið ríkisstjórnarinnar næðust í byrjun árs 2026.
Þjóðin var á faraldsfæti. Gúrkutíðin tók yfir og engar fréttir reyndust ágætar fréttir.
Ágúst: Þjóð í áfalli
Nóróveirusýking gerði göngufólki lífið leitt í byrjun ágúst en hátt í hundrað manns fengu illvígan niðurgang uppi á hálendinu aðra helgina í ágúst. Engum varð alvarlega meint af. Svo bættist við annað manndráp. Fregnir bárust af lögregluaðgerðum á Snorrabraut í Reykjavík þar sem bifreið var stöðvuð. Maður var handtekinn og í ljós kom að hann hafði flúið morðvettvang í Neskaupstað þar sem eldri hjón höfðu verið myrt. Maðurinn reyndist alvarlega veikur á geði eftir að hafa verið í langtímaneyslu. Það mál er óklárað fyrir dómstólum.
Málið var reiðarslag fyrir íbúa í Neskaupstað sem máttu þola mikinn missi. Tveggja ára gamalt barn hafði látist á sjúkrahúsinu þar í byrjun ársins. Þá lést Norðfirðingur á fertugsaldri af slysförum við gæsaveiðar í ágúst. Árið var því þungt og erfitt fyrir bæjarbúa, sérstaklega í ágústmánuði þegar slysið og manndrápið bættust við.
Aðeins tveimur dögum síðar, á menningarnótt, var sautján ára stúlka stungin af sextán ára gömlum pilti í miðbæ Reykjavíkur. Árásin var illvíg og særðist önnur stúlka í átökunum. Stúlkan var lífshættulega slösuð og flutt á sjúkrahús til aðhlynningar. Hún lést nokkru síðar af sárum sínum og eftir sat þjóð í áfalli. Hnífaofbeldi fór vaxandi á meðal ungmenna og manndrápin voru orðin svo mörg á einu ári að þjóðin spurði sig einfaldlega: Hvað er að gerast? Enginn virtist hafa svör á reiðum höndum.
Því næst varð slys á Breiðamerkurjökli. Einn lést og annar slasaðist þegar klakabrot féll á göngufólk sem var þar í íshellaferð. Mikil leit fór af stað en í fyrstu var óttast að tveir hefðu farið undir klakabunkann. Það reyndust þó mistök leiðsögumanna sem virtust ekki hafa talið hópinn rétt. Þá greindi Heimildin frá því að sá látni hefði verið á ferð með barnshafandi eiginkonu sinni en bæði voru bandarísk. Hörð umræða fór þá af stað um ferðamennsku á jöklum landsins og spurningarmerki var sett við ferðir á jöklinum svo seint um sumar. Í kjölfar slyssins sendi Félag fjallaleiðsögumanna frá sér yfirlýsingu þar sem kallað var eftir strangari umgjörð og lagasetningu um jöklaferðir. Ríkisstjórnin tók málið til sín og sendi frá sér tillögur í kjölfarið. Þá hefur eftirlit verið styrkt umtalsvert með jöklaferðum af hálfu Vatnajökulsþjóðgarðs.
Að endingu var vafasömu afmæli hárra stýrivaxta fagnað. Þeir höfðu staðið óbreyttir í 9,25 prósentum samfleytt í heilt ár.
Svo gaus aftur.
September: Brottvísun og barnsmorð
Eitt mál hafði skotið upp kollinum ítrekað í gegnum árið án þess að ná almennilega eyrum almennings. Ungum palestínskum dreng, með hrörnunarsjúkdóminn Duchenne, og foreldrum hans hafði verið hafnað um hæli hér á landi og stóð til að flytja þau til Spánar á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar. Fjölmargir höfðu mótmælt þessum brottflutningi vegna veikinda drengsins, Yazan Hassan, og kom málið eins og eldibrandur inn í harðvítuga umræðu um stríðsátökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Snemma á mánudagsmorgni í síðustu viku september bárust fregnir af því að það ætti að flytja fjölskylduna á brott, og að drengurinn hefði verið sóttur á hjúkrunarheimili á vegum Landspítala. Svo skyndilega, eins og hendi væri veifað, bárust fregnir af því að hætt hefði verið við brottflutning drengsins.
Síðar kom í ljós að ríkisstjórnin var í uppnámi vegna málsins. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þá formaður VG, hafði samband bæði við formann Sjálfstæðisflokksins og ríkislögreglustjóra. Úr varð að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra stöðvaði brottflutninginn. Málið þótti sýna að ríkisstjórnarsamstarfið væri á lokametrunum.
Enn eitt áfallið reið svo yfir um miðjan september þegar greint var frá því að faðir hefði verið handtekinn, grunaður um að hafa banað tíu ára gamalli dóttur sinni. Þá þegar var ljóst að Íslendingar höfðu slegið vafasamt met; aldrei í nútímasögu Íslendinga höfðu svo margir verið myrtir á einu ári. Aldrei hafa svo mörg börn, þrjú, verið fórnarlömb slíkra glæpa á svo skömmum tíma.
Október: Kosningar og enn eitt morðið
Árið 2024 ætlaði að vera ár pólitískrar upplausnar, alvarlegra glæpa og fjárhagslegrar dýrtíðar. Bjarni Benediktsson mætti ábúðarfullur í beina útsendingu á RÚV og tilkynnti að hann hefði tekið þá ákvörðun að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Ljóst var að flokkarnir, þá aðallega Sjálfstæðisflokkur og VG, voru ósammála í mörgum málum og samstarfið gekk hrikalega. Bjarni taldi best að boða til kosninga. Í ljós kom að forsætisráðherrann hafði ekki borið málið undir samstarfsflokka sína í ríkisstjórn. VG brást illa við. Formaðurinn Svandís Svavarsdóttir tilkynnti að flokkurinn myndi ekki sitja í starfsstjórn fram að kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn benti á að VG hefði tæknilega séð þegar slitið samstarfinu, þegar samþykkt var á landsfundi flokksins að formanninum væri gert að slíta samstarfinu og boða til kosninga næsta vor.
Bjarni varð þó fyrri til og þjóðin bjó sig undir óhefðbundnar jólakosningar. Flokkarnir settu sig í stellingar og ljóst var að það var á brattann að sækja fyrir ríkisstjórnarflokkana. Samfylkingin var þá að mælast í hæstu hæðum, oftast í kringum 25 prósent.
Sjöunda morðið var svo framið í lok mánaðar þegar maður var handtekinn, grunaður um að hafa orðið móður sinni að bana í Reykjavík. Átta höfðu verið myrt á árinu.
Nóvember: Kosningabarátta og mögulega saknæmt grín
Kosningabaráttan náði nokkru flugi um miðjan nóvember. Á meðal þess sem hæst bar í umræðunni voru smekklaus skrif Þórðar Snæs Júlíussonar, frambjóðanda Samfylkingarinnar og fyrrverandi ritstjóra hjá Heimildinni. Skrifin voru um 20 ára gömul.
Athygli var vakin á þeim í Spursmálum Morgunblaðsins. Úr var að Þórður Snær baðst afsökunar og ákvað að gefa eftir þriðja sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður hjá Samfylkingunni, þar sem hann var í framboði. Fylgi Samfylkingarinnar dalaði nokkuð og fór úr 25 prósentum í könnunum niður í um 20 til 22 prósent. Þá var Dagur B. Eggertsson, annar frambjóðandi Samfylkingarinnar, sakaður um lögbrot þegar hann gerði tilraun til fyndni á Facebook og hvatti kjósendur Sjálfstæðisflokksins til þess að strika sig út af lista Samfylkingarinnar. Þeir sem þekktu kosningalögin hlógu lágt, en Sjálfstæðisflokkurinn óttaðist að kjósendur þeirra myndu taka borgarstjórann fyrrverandi á orðinu og þannig ógilda kjörseðilinn.
Málið var að endingu kært til héraðssaksóknara. Áður hafði formaður Samfylkingarinnar sent kjósendum furðu hreinskilin skilaboð þar sem hún lofaði því að Dagur yrði ekki ráðherra í nýrri ríkisstjórn og bætti við að hann væri ekkert annað en aukaleikari í stóra planinu.
Svo kom furðulegasta mál ársins fram að öllum líkindum. Karlmaður sem kynnti sig sem fulltrúa svissnesks fjárfestingasjóðs blekkti son Jóns Gunnarssonar, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, og sagðist vilja ræða við hann viðskipti. Á fundi þeirra, sem maðurinn tók upp í leyni, talaði sonurinn, Gunnar Bergmann, fjálglega um föður sinn og hélt því fram að Jón hygðist stuðla að því að hvalveiðar yrðu leyfðar á ný. Þá sat Jón sem sérlegur fulltrúi forsætisráðherra í matvælaráðuneytinu, eftir að VG hafði hafnað því að sitja í starfsstjórn út kjörtímabilið. Jón og Bjarni Benediktsson höfnuðu þessu alfarið og sögðu þetta ekki á döfinni. Svo kom í ljós, skömmu eftir kosningar í desember, að spá sonarins um komandi hvalveiðileyfi reyndist sönn. Bjarni, sem sat á þessum tíma bæði sem forsætisráðherra og matvælaráðherra, leyfði hvalveiðar á ný til fimm ára. Það var gert þrátt fyrir að heildarendurskoðun fari nú fram vegna hvalveiða hér á landi, og hefur sú nefnd ekki lokið störfum enn.
Svo gaus aftur.
Desember: Valkyrjurnar
Kosningar fóru fram og gengu að mestu hnökralaust fyrir sig. Þegar talið var upp úr kössunum kom í ljós að Samfylkingin var stærstur flokka á Íslandi, með rúmlega 20 prósenta fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn var í sjaldgæfri stöðu, með rúmlega nítján prósenta fylgi og hafði aldrei áður fengið svo lítið fylgi.
Flokkur fólksins náði óvæntum sigri og endaði stærstur í Suðurkjördæmi. Eins náði Viðreisn töluverðu fylgi. Formenn Flokks fólksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar ákváðu að hefja viðræður. Allir formennirnir eru konur og voru nefndar valkyrjurnar í fjölmiðlum. Samningaviðræður hófust fljótlega eftir kosningar en ríkisstjórn þessara þriggja flokka var svo tilkynnt skömmu fyrir jól.
Svo lauk síðasta gosinu. Í bili.
Athugasemdir