Hlutaveikin
HLUTAVEIKIN
Þórarinn Eldjárn
Gullbringa ehf.
ÞRJÁR OG HÁLF STJARNA
Aðalpersóna Hlutaveikinnar, drengurinn Freysteinn Guðgeirsson, verður fyrir nokkru sem afskaplega mörg börn ættu að kannast við – gríðarlegt pakkaflóð á jólum svo gott sem hrifsar hann með sér og magnar upp pakkaæsing og „hlutaveiki“ í stráksa. Þetta er kunnuglegt stef úr bókum og bíómyndum fyrir börn en ekki síður kunnuglegt úr raunveruleikanum. Hér er það Þórarinn Eldjárn sem fjallar um þennan ósköp venjulega strák sem gengur í skóla, tónskóla, teikniskóla, dansskóla og fluguhnýtingaskóla – er sem sagt tómstundum hlaðinn eins og svo mörg börn í nútímanum – og á ansi skrautlega fjölskyldu sem inniheldur meðal annars þvottekta sjóræningja og sjö frænkur sem allar heita Rósa.
Bókin einkennist af hinu skemmtilega samspili texta Þórarins og mynda Sigrúnar Eldjárn sem bregður upp litríkum og kómískum söguheimi. Umbrot og pappír falla vel að myndunum og áferðin á bókinni er vel heppnuð. Þótt meginþráður og inntak sögunnar sé vel þekkt minni, eins og áður var lýst, eru það smáatriðin sem gera hana skondna, lyfta henni yfir klisjurnar og ljá henni sérstakan karakter. Sjóræningjafrændinn Egill, sem situr og tálgar á sér fótinn í fjölskylduboðinu, er til að mynda drepfyndinn. Þegar foreldrar Freysteins standa uppi ráðþrota með hlutasjúkt barn hafa þau samband við unga, velmenntaða norn sem starfrækir ráðgjafarstofu. Í bókarlok skemmtir fjölskyldan sér og fíflast eins og „nýútskrifaðir flóðhestar á skautum“ (bls. 45). Þessi hugmyndaauðgi glæðir söguna lífi.
„Bókin einkennist af hinu skemmtilega samspili texta Þórarins og mynda Sigrúnar Eldjárn“
Óþarfi að halda stíft við augnablikið
Fram kemur að sagan af Freysteini og hlutaveikinni hafi fyrst komið út í safnriti frá árinu 1993, sem útskýrir það sem ég klóraði mér aðeins í kollinum yfir við fyrsta lestur; að drengurinn skuli meðal annars fá geisladiska í jólagjöf og að á mynd frá aðfangadagskvöldi skuli birtast gamaldags Nintendo-tölva. Uppi á vegg á einni síðunni hangir svo dularfullt dagatal frá 1986. Það skiptir svo sem litlu; enn eru einhver börn sem fá geislaplötur til að geta spilað í litlum spilara í herberginu sínu, það er vissulega hægt að kaupa retró-útgáfur af NES-leikjatölvunni og sagan má allt eins gerast fyrir tæplega 40 árum enda er kjarninn í henni enn viðeigandi. Í söguheimi þar sem bangsar eru lifandi og læknir er kallaður til vegna hlutaveiki er óþarfi að halda sig stíft við augnablikið (og kannski stærsta frávikið frá nútímanum að fást skuli læknir í húsvitjun og foreldrar Freysteins skuli ekki þurfa að bíða í mánuð eftir að mega hringja í heilsugæsluna og reyna að komast á biðlista eftir símtali í apríl á næsta ári!). Ég hafði altént gaman af lestrinum og nú er næst á dagskrá að lauma bókinni að grunnskólabarninu á heimilinu, nú þegar líður að jólum og líkur á hlutaveikismiti fara sívaxandi.
Í hnotskurn: Létt, smellin og litrík saga sem bæði krakkar og foreldrar geta hæglega skemmt sér yfir.
Athugasemdir