Sjálfstæðisflokkurinn missir einn þingmann þegar lokatölur úr Norðausturkjördæmi eru ljósar og fylgið heldur áfram að síga. Flokkurinn fer úr fjórtán þingmönnum niður í þrettán og mælist nú undir nítján prósentum. Samfylkingin hagnast hins vegar á niðurstöðunum og græðir þingmann til viðbótar og er því með 16 þingmenn eins og sakir standa á landinu öllu.
Sjálfstæðisflokkurinn horfir fram á verstu kosninganiðurstöðu flokksins í sögunni. Hann hefur aldrei farið undir tuttugu prósent og er að auki annar stærsti flokkurinn á Íslandi sem er nýr veruleiki í íslenskum stjórnmálum.
Framsóknarflokkurinn fær tvo þingmenn úr kjördæminu og má segja að það sé þokkalegur varnarsigur flokksins í Norðausturkjördæmi, þau missa þó einn þingmann. Fylgishrun Framsóknar er sögulegt líkt og Sjálfstæðisflokksins, en flokkurinn mælist í 7,9 prósentum samkvæmt kosningaspá Heimildarinnar.
Enn er beðið eftir lokaniðurstöðum úr tveimur kjördæmum. Búist er við lokatölum úr Suðvesturkjördæmi sem ættu að koma innan skamms.
Athugasemdir