Íslenskir stjórnmálamenn á hægri vængnum stæra sig oft af því að við séum með eitt besta velferðarríki í heimi. Ef það væri rétt þá væru velferðarmál ekki efst á lista kjósenda yfir mikilvægustu málin sem nú þarf að laga: heilbrigðismál, efnahagur heimila og húsnæðismál.
Ég hef fylgst með þróun íslenska velferðarkerfisins í langan tíma og borið saman við velferðarkerfi annarra þjóða. Yfirborðslegar yfirlýsingar um besta velferðarkerfi í heimi ber að taka með mjög miklum fyrivara. Sumt er ágætt hér en annað er ekki nógu gott.
Ísland var alltaf eftirbátur hinna norrænu samfélaganna í uppbyggingu velferðarríkisins á áratugunum frá 1950 til um 1990, þegar klassíska norræna velferðarríkið var fullmótað. Sú uppbygging var að mestu leyti verk skandinavísku sósíaldemókratanna og verkalýðshreyfinga þessara landa. Vinstri flokkarnir á Íslandi voru alltaf veikari og áhrifaminni og því varð velferðarkerfið hér ekki eins öflugt. Sú staða er enn við lýði, eins og sýnt er í þessari grein.
Eftir að hægri flokkar fóru að verða áhrifameiri hjá frændþjóðunum á síðustu áratugum fór að grafast undan velferðarkerfunum þar, með niðurskurði og aukinni einkavæðingu. Þetta var sérstaklega áberandi í Svíþjóð. Álitamál er hvort Svíþjóð nái nú máli sem klassískt "norrænt velferðarríki".
Á seinni árum hafa mörg lönd á meginlandi Evrópu hins vegar eflt velferðarkerfi sín og eru hæstu útgjöldin til velferðarmála nú í Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu og Hollandi. En hvernig er íslenska velferðarríkið í samanburði?
Hvað segja staðreyndirnar?
Myndin sem hér fylgir sýnir almenna stöðu vestrænna velferðarríkja út frá því hversu miklum hluta af þjóðarframleiðslu er varið til velferðarútgjalda. Það segir okkur hversu mikla áherslu þjóðir leggja á velferðarmál.
Fyrirkomulag velferðarmála er mismunandi milli landa. Sumt kemur frá hinu opinbera og sumt frá einkageiranum, t.d. lífeyrissjóðum með skylduaðild (eins og íslensku lífeyrissjóðunum) og lífeyrissjóðum eða tryggingafélögum með valfrjálsa aðild (algengt í Bandaríkjunum). Þetta er sundurgreint á myndinni, sem nær þar með vel til heildarútgjalda til velferðarmála (almannatryggingar og heilbrigðismál). Tölurnar koma frá OECD.
Ísland er ekki á toppnum í heildarútgjöldum til velferðarmála nú – og hefur aldrei verið. Við erum rétt fyrir ofan meðallag í hópi OECD-ríkjanna, þegar allt er talið. Og við erum með lægstu velferðarútgjöldin á Norðurlöndum. Þetta er ekkert til að hæla sér af fyrir jafn hagsæla þjóð og Íslendingar eru.
Ef við skoðum súluna fyrir Ísland nánar þá er ljóst að hlutur hins opinbera í velferðarútgjöldum (dökk grái hlutinn af súlunni) er frekar lítill í samanburði við hagsælli ríkin. Á móti kemur að hlutur lífeyrissjóðanna er stór hér (guli hlutinn). Hlutur valfrjálsra lífeyrissjóða/trygginga er hins vegar lítill hér. Hinar norrænu þjóðirnar eru allar með talsvert stærri hlut hins opinbera í velferðarútgjöldum en Ísland. Byrðar ríkisins af velferðarútgjöldum eru sumsé litlar hér.
Aðrar þjóðir sem eru með stóran hlut lífeyrissjóða einkageirans í velferðarútgjöldunum eru Bandaríkin, Holland og Sviss, auk Ástralíu, Kanada, Bretlands, Frakkland, Síle og Suður Kórea (gulu og bláu hlutarnir á myndinni).
Bandaríkin eru sérstök í þessum samanburði. Þar eru heilbrigðisútgjöld miklu meiri en annars staðar og lengir það súlur þeirra, bæði fyrir framlag hins opinbera og velferðarsjóða einkageirans. Helsta einkenni bandaríska velferðarkerfisins er að það gerir vel við milli og hærri tekjuhópa, mest með óhemju dýrri heilbrigðisþjónustu, en það færir lágtekjuhópum miklu minna en almennt er í evrópskum velferðarkerfum. Því er fátækt óvenju mikil í Bandaríkjunum, þrátt fyrir mikla hagsæld þar í landi.
Án lífeyrisjóða vinnumarkaðarins væri íslenska velferðarkerfið einstaklega lélegt í samfélagi hagsældarríkjanna. Með lífeyrissjóðunum náum við þó ekki hærra útgjaldastigi en rétt fyrir ofan meðallag OECD-ríkjanna, eins og myndin sýnir. Hér mætti því augljóslega gera betur.
Hér eru laun hins vegar há og dreifing þeirra frekar jöfn, fyrir tilstilli óvenju víðtækra kjarasamninga á vinnumarkaði. Það bætir lífskjör almennings.
Stefna allra hægri flokkanna á Íslandi fyrir kosningarnar á laugardag er að skera niður opinber útgjöld. Það getur ekki annað en veikt okkar vanbúna velferðarkerfi og innviði enn frekar.
Helstu brotalamir íslenska velferðarríkisins
Eftirfarandi eru nokkur dæmin um lakari stöðu velferðarmála hér en í grannríkjunum í Evrópu um þessar mundir:
-
Heildarútgjöld til heilbrigðisþjónustu eru árið 2022 vel undir meðallagi OECD-ríkjanna. Árin 2000 – 2003 var Ísland mun hærra, eða í 8. efsta sæti, en er nú í 18. sæti. Hagræðing og niðurskurður síðustu 20 ára hefur skilað okkur þangað.
-
Útgjöld hins opinbera vegna ellilífeyris almannatrygginga eru ein þau allra lægstu meðal OECD-ríkjanna, vegna lágs grunnlífeyris og óvenju mikilla skerðinga í almannatryggingakerfinu.
-
Afkoma öryrkja sem stóla mest á almannatryggingar er ófullnægjandi.
-
Greiddar barnabætur eru lágar hér á landi, einkum til verkafólks og lægri millitekjuhópa. Niðurgreiðslur vegna leikskóla eru hins vegar háar hér.
-
Húsnæðisstuðningur er ekki sérlega hár á Íslandi, þó þörfin sé meiri hér en víða.
-
Félagslegur hluti húsnæðiskerfisins er of veikur hér. Fleira mætti tína til.
Mikil fólksfjölgun, öldrun og óvenju mikil fjölgun ferðamanna hefur lagt mjög auknar byrðar á íslenska heilbrigðiskerfið, almannatryggingar og innviði. Fjárveitingar og mönnun hafa ekki haldið í við hina auknu þörf.
Að teknu tilliti til þessa hefur okkur farið aftur. Í ljósi þess vekur furðu að niðurskurður ríkisútgjalda og hagræðing á þessu sviði skuli nú vera helsta stefnumál allra stjórnmálaflokka á hægri vængnum, en það hlýtur að þjarma enn frekar að velferðarríkinu. Þörf fyrir uppbyggingu er hins vegar mikil. Laga þarf þá bresti sem hafa ágerst í seinni tíð.
Flokkar á vinstri væng og miðju eru með jákvæðustu velferðarstefnuna. Kjósendur sem vilja sterkara velferðarríki ættu að hafa það hugfast þegar atkvæðinu er ráðstafað.
Athugasemdir (1)