Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Björn Brynjúlfur Björnsson, lagði nýlega fram gamlar hugmyndir um að einkareknir grunnskólar geti verið lausn á brotnu menntakerfi Íslands.
Þar sem ég hef búið og starfað við rannsóknir á menntamálum í Svíþjóð í hartnær tvo áratugi rennur mér blóðið til skyldunnar að vara við slíkum hugmyndum, sérstaklega í ljósi þeirrar reynslu sem Svíar hafa af markaðsvæðingu skólakerfisins.
Hugmyndin um fleiri einkaskóla rekur rætur sínar til hugmyndafræðilegrar sannfæringar um að samkeppni sé bæði verkfæri til að auka hagkvæmni og gæði, um að hið opinbera ætti að draga sig frá rekstri eins mikið og hægt sé.
Fyrir kosningarnar 2018 varaði ég við hugmyndum um aukinn einkarekstur i menntakerfinu svo hægt er að staðhæfa að þær komi reglulega fram og séu í raun ansi gamlar. Á Íslandi var Björn Bjarnason sem menntamálaráðherra einna fyrstur til að mæla fyrir einkavæðingu í skólakerfinu snemma á síðasta áratug síðustu aldar. Þá fékk þessi stefna sem betur fer fengið takmarkaðan framgang. Markaðsvæðing menntakerfisins getur þó farið fram á aðra vegu en gegnum einkarekna skóla og skólagjöld. Sem dæmi má nefna hugmyndir um aukna hagkvæmni þar sem árangur nemenda er álitin fremsti mælikvarði á framleiðni kerfis sem er svo sett undir skilyrði sífells fjársveltis undir flaggi hagræðingar.
En skoðum rökin fyrir fleiri einkareknum skólum nánar.
Almennt er sagt að einkaskólar muni:
-
draga úr fjárútlátum hins opinbera,
-
opna fyrir fleiri kennsluaðferðir sem betur passi einstaklingum
-
auka gæði þar sem bestu skólarnir muni sigra í samkeppninni um nemendur
-
auka jafnræði þar sem nemendur geti valið betri skóla en þann sem er næst þeim
-
minnka skrifræðið sem opinbera kerfið ber með sér og stytta leiðir til ákvarðanatöku
-
auka hagkvæmni þar sem einkaaðilar séu alltaf að finna leiðir til að lækka kostnað
Fyrir utan fyrsta punktinn voru nákvæmleg sömu rök notuð í Svíþjóð á sínum tíma. Að auka hlut einkarekinna skóla getur einmitt verið leið til að minnka fjárútlát hins opinbera í menntakerfinu gefið að útgjöldunum sé velt yfir á neytendurna gegnum skólagjöld. Ef svo er ekki gert er engin hagræðing í því að auka hlutdeild aðila sem eiga að lifa á rekstri menntakerfisins, kakan skiptist þá bara milli fleiri aðila. Þegar skólagjöldum er komið á er ábyrgð foreldra á námi barnanna hins vegar einkavædd og samhliða þeirri þróun vex eftirfarandi grundvallarpæling fram: skólar mega og eiga að vera misgóðir – sumir betri en aðrir – og það á að vera þess virði að borga fyrir þá bestu. Það verður þá bara foreldrunum að kenna ef þau fá lélega menntun – þau hefðu getað valið og greitt fyrir betri skóla. Óhjákvæmilega þýðir þetta líka að sumir skólar megi og eigi vera verri en aðrir og að sum börn verði ósköp einfaldlega að ganga í verri skólana. Að það komi verst við börn fátækra foreldra, foreldra með lægri menntunarbakgrunn og með erlendan bakgrunn er hins vegar óhjákvæmilegt ef horft er til annarra landa.
Til að leysa svoleiðis bobba eru oft stungið uppá ýmiskonar styrkjakerfi til að auka hlutdeild efnaminni nemenda í dýrum einkaskólum, en slíkir styrkir eiga það eitt sameiginlegt að vera plástrar á óréttlátt kerfi frekar en sanngjörn lagfæring á þessari grundvallarvillu: að menntun eigi að vera misgóð fyrir mismunandi börn. Auk þess bera slíkir styrkir með sér umtalsverða aukningu opinberra útgjalda og eftirlitskerfis sem markmiðið var að minnka.
Í Svíþjóð var einkarekstur aukinn í skólakerfinu upp úr 1990. Einkareknum skólum hefur fjölgað talsvert, sérstaklega eftir aldamótin þegar að rekstur í hagnaðarskyni var leyfður. Enn er stærsta aukningin meðal einkarekinna grunnskóla í eigu stórra einkahlutafélaga sem rekin eru í hagnaðarskyni. Árlega hverfa því tugir miljarða króna úr kerfinu, opinbert skattfé sem átti að borga fyrir nám nemenda, sem hagnaður til hluthafa sem eru í mörgum tilfellum erlendir vogunarsjóðir. Hefur fyrirkomulagi eignarhalds skólanna verið lýst sem öryggisvandamáli af yfirvöldum.
Þó er fjárfesting rekstraraðilanna í raun lítil og skólastarfið er fjármagnað til fulls af sveitarfélögum. Sveitarfélagaskólarnir sitja á endanum eftir með kostnað vegna þeirrar ábyrgðar sem þeir bera þar sem einkaskólar geta lokað vegna takmarkaðs hagnaðar, vegna þess að þeir eru settir í gjaldþrot, eða af því að þeim hefur verið lokað af yfirvöldum. Þá þurfa skólar sveitarfélaganna að vera tilbúnir til að taka við nemendunum en engar aukagreiðslur eru veittar fyrir það viðbúnaðarstig. Kostnaði við skólakerfið hefur því þvert á spár og loforð alls ekki minnkað við fjölgun einkaskóla í Svíþjóð, þeir hafa frekar leitt til kostnaðaraukningar víða. En samtímis finna kennarar og skólar fyrir auknum niðurskurði ár eftir ár vegna niðurskurðar sveitarfélaganna sem helst í hendur við kostnaðaraukninguna.
En eru þá ekki gæði starfsins í einkaskólunum betri? Að sjálfsögðu fer það eftir mælikvarðanum en sænskir einkaskólar eru almennt með færri menntaða kennara, með stærri bekki, borga lægri laun, eru oftar í verra húsnæði og með tvöfalt minni leiksvæði. Þeir ráða síður sérkennara, hjúkrunarfræðinga og aðrar stuðningsstöður og eru sjaldnar með skólabókasöfn. Árangur nemenda í einkareknum skólum er svolítið betri samkvæmt sumum rannsóknum, en þá má benda á að börn með sænskan bakgrunn og menntuð og efnuð foreldri sækja frekar í einkaskólana sem skekkir þessa útreikninga. Einnig má nefna að einkunnaverðbólga er vaxandi vandamál í Svíþjóð og er mun grófari meðal einkarekinna skóla, sérstaklega þeirra sem reknir eru í hagnaðarskyni. Þá hefur einnig margoft verið varað við að nemendur komi verr undirbúnir frá einkareknum grunnskólum til framhalds- og háskólanáms. Árangur sænskra nemenda er nú einnig lakari en áður í alþjóðlegum samanburði. Því má segja að jafnvel þótt einkaskólarnir væru betri en skólar reknir af hinu opinbera (sem þeir eru ekki) þá hafi þau gæði ekki smitað út frá sér.
En hefur réttlætið aukist í kerfinu? Engin skólagjöld eru leyfð í Svíþjóð og sama summa fylgir nemendunum hvort sem þeir gangi í einkaskóla eða opinbera skóla, einmitt til að koma í veg fyrir félagslegt óréttlæti. En staðreyndin er að mismunur hefur aukist umtalsvert milli nemendahópa bæði hvað varðar félagslegan bakgrunn þeirra, árangur og þörf þeirra fyrir sérstuðning. Þá hefur jafnræði milli nemenda hvergi minnkað meira í Evrópu en í Svíþjóð. Meira að segja OECD hefur varað við afleiðingum þessarar þróunar.
Flokkunin fylgir eftirfarandi mynstri. Nemendur sem eiga foreldra sem hafa menntað sig, eru með háar tekjur og sænskan bakgrunn safnast í vissa skóla, nemendur með erlendan bakgrunn, fátækari og eiga foreldra sem eru með lægra menntunarstig verða eftir í öðrum skólum, sem fyrir vikið fá á sig „verri“ stimpil. Nemendur með sérþarfir eru mun sjaldnar í einkaskólum og eru dæmi um að þeim sé vísað frá þegar þau sækja um skólavist. Skólar sem nemendur velja ekki eiga loks erfiðara með að fjármagna starfsemi sína og lokka til sín menntað starfsfólk, sem ýtir aftur undir frávalið og vítahringurinn vex með hverju árinu.
Þrátt fyrir takmarkaðann fjölda einkaskóla má sjá samskonar þróun í íslensku samfélagi nú þegar og er engin ástæða til að halda að aukin einkavæðing muni ekki auka við mismuninn þar eins og annarsstaðar á Norðurlöndunum.
En leiðir aukinn hluti einkaskóla til minna skrifræðis og minna óþarfa eftirlits? Nei, aukin markaðsvæðing í kerfi reknu af fjölda sveitarfélaga og einkaaðila krefst miðstýrðu eftirliti til þess að ákveðnum lágmarksstöðlum sé náð í öllum skólum. Hin nýja íslenska Miðstöð menntunnar og skólaþjónustu hefur til dæmis þannig hlutverk. Slíkt batterí mun svo óhjákvæmilega vaxa í takt við auknar kröfur til skólanna um framleiðni og aukins fjölda aðila sem sinna verkefnunum.
Til að taka skýrt dæmi um hvernig slík þróun getur gerst var sænska stofnunin Skolöverstyrelsen með um 800 starfsmenn lögð niður 1990, meðal annars með þeim rökum að „báknið væri orðið of stórt“. Skólakerfi Svíþjóðar er hins vegar ótæpilega flókið með 290 sveitarfélögum og fleiri þúsund einkareknum skólum, sem krefst mikils ríkisvædds eftirlitskerfis til að halda uppi sjónhverfingunni um að jafnræði ríki í menntakerfinu milli bæði einkarekinna skóla og skóla í opinberum rekstri. Þrjár stærstu menntastofnanirnar (þær eru fimm í allt) eru með um 3.000 starfsmenn samanlagt – nærri fjórum sinnum fleiri en „báknið“ sem lagt var niður 1990 – en það sýnir að hagræðingin hvað varðar skrifræði og eftirlit hafi verið vægast sagt takmörkuð.
Að sjálfsögðu er til fjöldi einkarekinna skóla bæði í Svíþjóð og á Íslandi sem sinna sínu starfi vel. Því ber einnig að fagna að horft sé til annarra landa, sérstaklega Norðurlanda til að læra meira um mismunandi lausnir. Staðreyndin er samt að lærdómurinn um afleiðingar einkavæðingar og markaðsvæðingar í Svíþjóð er aukinn munur milli nemenda, verri starfsaðstæður og laun fyrir kennara, sífelldur niðurskurðar sveitarfélaga og umfangsmikið einkunnasvindl. Tugir miljarða sem ætlaðir voru til skólastarfs fara þess í stað til útlenskra vogunarsjóða, nemendur sýna lakari námsárangur og loks hefur verið sett á laggirnar umsvifamikið og rándýrt opinbert batterý til að halda saman – augljóslega – mölbrotnu kerfi.
Ég sé enga ástæðu til að telja að Íslendingum muni ganga betur að hemja slíka þróun en Svíum. Frekar ættu Íslendingar að leggja áfram metnað í jafnræði og gæði menntunar fyrir alla nemendur og leitast eftir að bæta starfsaðstæður kennara og annars starfsfólks í öllum skólum.
Höfundur er dósent við Menntavísindadeild Uppsalaháskóla
Athugasemdir (2)