Einvígi Guðmundar Inga og Jódísar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Jódís Skúladóttir sækjast bæði eftir því að verða næsti varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Kosið verður á landsfundi um helgina. Mynd: Heimildin / Davíð Þór
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 3 mánuðum.

Einvígi Guðmundar Inga og Jódísar

Jó­dís Skúla­dótt­ir seg­ist hugsi yf­ir hversu dýru verði mála­miðl­an­ir Vinstri grænna í rík­is­stjórn­ar­sam­starf­inu hafi ver­ið keypt­ar. Guð­mund­ur Ingi Guð­brands­son seg­ir fylgi hreyf­ing­ar­inn­ar í skoð­ana­könn­un­um vera langt und­ir vænt­ing­um en seg­ist full­viss um að þau muni upp­skera meira í kosn­ing­um en kann­an­ir gefa til kynna. Guð­mund­ur Ingi er starf­andi formað­ur Vinstri grænna og Jó­dís vara­formað­ur þing­flokks­ins. Bæði gefa þau kost á sér í embætti vara­for­manns hreyf­ing­ar­inn­ar sem kos­ið verð­ur um á lands­fundi VG um helg­ina.

Báðir frambjóðendur til embættis varaformanns Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs segia fylgi hreyfingarinnar í nýjustu skoðanakönnunum vera óásættanlegt. „Fylgið er langt undir væntingum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður VG og ráðherra. Jódís Skúladóttir, varaformaður þingflokks VG, segist hafa trú á því að með breyttri forystu og sterkari áherslu á grunnstoðir hreyfingarinnar muni þeim ná að vinna fylgið upp.

Landsfundur VG hefst á morgun, föstudag, og lýkur á sunnudag. Á laugardag fer fram stjórnarkjör en Svandís Svavarsdóttir er ein í framboði til formanns. Jódís og Guðmundur Ingi gefa hins vegar bæði kost á sér til embættis varaformanns. 

Fyrir fundinum liggur tillaga um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og boða til kosninga. Hvorugt þeirra tekur afstöðu til þess hvort þau styðji þá hugmynd að slíta stjórnarsamstarfinu áður en kjörtímabilinu lýkur.  Jódís telur þó ekki líklegt að þau klári kjörtímabilið „ hvort sem verður kosið í vor eða fyrr. Umræða um stjórnarsamstarfið og framtíð þess mun eiga sér stað á landsfundi. Lýðræðisleg niðurstaða fundarins er réttur farvegur fyrir allar ályktanir sem félagar leggja fram,“ segir hún. Guðmundur Ingi segist fara inn á landsfundinn og hlusta á sjónarmið félaga sinna um stöðu hreyfingarinnar, um ríkisstjórnarsamstarfið og um stjórnarslit. „Sjálfur er ég í ríkisstjórnarsamstarfinu af heilum hug,“ segir hann. 

Þegar kemur að þeim málum sem þeim finnst VG þurfa að leggja áherslu á fram að næstu kosningum segir Guðmundur Ingi mikilvægt að hreyfingin leiti aftur í ræturnar og skerpi vinstri áherslur sínar. „Við þurfum að fá fleiri til liðs við okkur og fá fleiri og sterkari raddir til að vinna að frekari jöfnuði fyrir fatlað fólk, innflytjendur, láglaunafólk og barnafjölskyldur. Við þurfum að tala fyrir réttindum hinsegin fólks og fyrir náttúrunni,“ segir hann. Jódís er sammála því að hreyfingin þurfi að færast nær kjarnastefnunni. „Það er mikið pláss fyrir rótækan vinstri grænan flokk í litrófi íslenskra stjórnmála. Flestar stjórnmálahreyfingar virðast vera að færast verulega til hægri með aukinni útlendinga andúð, áherslum á einkavæðingu og freklega nýtingu auðlinda. Landsfundur leggur línur um áherslur í næstu kostningabaráttu,“ segir hún.

Spurningar Heimildarinnar til varaformannsefna VG ásamt svörum þeirra:

Af hverju ákvaðst þú að gefa kost á þér í embætti varaformanns VG?

Guðmundur Ingi: 

„Ég hef verið varaformaður VG frá 2019, fyrir utan síðustu mánuði, svo ég þekki starfið vel. Ég brenn fyrir umhverfis- og náttúruvernd, mannréttindum og félagslegum áherslum og vil halda áfram að vinna þeim brautargengi í íslensku samfélagi. 

Varaformaður þarf sömuleiðis alltaf að vera tilbúinn til að stíga upp í embætti formanns og ég hef sýnt að það get ég gert.  

Ég er stoltur af mörgu sem VG hefur áorkað undir minni forystu í hreyfingunni, sérstaklega fjölmörgum mikilvægum þingmálum sem við kláruðum í vor, eins og breytingum á örorkulífeyriskerfinu, Mannréttindastofnun og fjölmörgum kjarasamningstengdum málum sem auka jöfnuð og réttlæti í samfélaginu.“

Jódís:

„Ég hef trú á því að styrkleikar mínir, reynsla og skýr sýn á stefnu hreyfingarinnar geti gagnast vinstri grænum á þessun tímapunkti. Við verðum að horfast í augu við stöðuna og þora að gera breytingar með hag heildarinnar í huga. Ég hef reynslu af því að leiða framboð okkar á sveitarstjórnarstigi til sigurs og viðhalda trausti og samstöðu félaganna á öflugri stefnu VG. Hreyfingin þarf sterka forystu sem setur lýðræði á oddinn og treystir grasrótinni til að vera kompásinn sem vísar veginn.“

Hvert yrði þitt fyrsta verk ef þú yrðir nýr varaformaður VG?

Jódís:

„Ég myndi fyrst af öllu leggja áherslu á að efla innra starf hreyfingarinnar og virkja grasrótina þannig að rödd hinna almennu félaga hafi meiri vigt en verið hefur. Mér er sérstaklega umhugað um að efla ungliðahreyfinguna og okkar kjörnu fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu með nánara samtali og samráði.“

Guðmundur Ingi:

„Ég myndi ásamt nýjum formanni og nýrri stjórn VG fara á fullt í að skipuleggja og undirbúa kosningaveturinn. Það þarf að funda með svæðisfélögum og kjördæmisráðum vegna kosninga, og svo styttist í næsta flokksráðsfund í febrúar sem þarf að skipuleggja vel. 

Í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu vinnum við nú að fyrstu stefnu í málefnum innflytjenda á Íslandi og nýjum heildarlögum um málefni innflytjenda. Vinnumansalsmál hafa líka verið ofarlega á forgangslistanum og vinna að þeim málum mun halda áfram. Ég mun einnig taka vel utan um jafnréttis- og mannréttindamál sem nýlega bættust við ráðuneyti mitt.“

Er fylgi hreyfingarinnar samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum ásættanlegt?

Guðmundur Ingi:

Að sjálfsögðu ekki, fylgið er langt undir væntingum. Við þurfum að leita aftur í ræturnar, skerpa félagslegar áherslur, áherslur á náttúruvernd og kvenfrelsi og ná að minna fólk á það fyrir hvað VG stendur og hverju við höfum áorkað. Það mun skipta miklu máli að ná tökum á verðbólgunni svo vaxtastig geti farið niður. Og það er akkúrat að gerast, verðbólga er að hjaðna og vaxtalækkun er hafin hjá Seðlabankanum.“

Jódís:

„Nei, VG er eini raunverulegi valkosturinn fyrir öflugt vinstra fólk. Í VG eiga umhverfismálin, friðarstefnan, kvenfrelsið og félagslega réttlætið lögheimili og með því að byggja upp traust á okkar góðu vinstri stefnu fáum við okkar fólk til baka. Ég hef trú á því að með breyttri forystu og sterkari áherslu á grunnstoðir okkar munum við vinna fylgið okkur upp.“

Hvaða mál þarf VG að setja á oddinn fram að næstu kosningum?

Jódís:

„Við verðum að færast nær kjarna stefu okkar. Það er mikið pláss fyrir rótækan vinstri grænan flokk í litrófi íslenskra stjórnmála. Flestar stjórnmálahreyfingar virðast vera að færast verulega til hægri með aukinni útlendinga andúð, áherslum á einkavæðingu og freklega nýtingu auðlinda. Landsfundur leggur línur um áherslur í næstu kostningabaráttu.“

Guðmundur Ingi:

„Ég hef sagt að ég vilji að VG leiti aftur í ræturnar og skerpi vinstri áherslur sínar, skerpi áherslurnar á umhverfis- og náttúruvernd og mannréttindi. Við þurfum að fá fleiri til liðs við okkur og fá fleiri og sterkari raddir til að vinna að frekari jöfnuði fyrir fatlað fólk, innflytjendur, láglaunafólk og barnafjölskyldur. Við þurfum að tala fyrir réttindum hinsegin fólks og fyrir náttúrunni. Kerfisbreytingar skipta miklu máli og taka tíma, eins og breytingarnar sem við náðum í gegn á örorkulífeyriskerfinu, barnabótakerfinu og húsnæðisstuðningskerfinu. Við þurfum að halda áfram með þessar umbætur fram að næstu kosningum og áfram inn í framtíðina.“

Hvers konar vinnubrögð þarf VG að leggja áherslu á fram að næstu kosningum?

Guðmundur Ingi:

„Við verðum að hleypa glæðum í félagsstarfið í hreyfingunni okkar. Við í þingflokki og ráðherraliði þurfum að leggja okkur enn betur fram við að hlusta á grasrótina, hittast oftar, funda um land allt og fá fram sem flestar raddir. Ég vil að næsta stjórn hreyfingarinnar fái svæðisfélög VG í lið með sér til að fjölga óformlegum samverustundum í starfinu utan reglulegra funda og taka sérstaklega á móti nýjum félögum.“

Jódís:

„VG þarf að horfast í auga við það sem ekki hefur gengið upp í þessu stjórnarsamstarfi og af hverju svo fá hyggjast kjósa hreyfinguna. Við verðum að vera heiðarleg og skoða hvernig við getum unnið til baka það traust sem hefur tapast í þessu stjórnarsamstarfi. Ég legg alltaf áherslu á heiðarleg og lýðræðisleg vinnubrögð með aherslu á okkar stefnu.“

Á VG að stefna á að komast aftur í ríkisstjórnarsamstarf eftir kosningar eða væri ásættanlegt að vera í minnihluta?

Jódís:

„VG á alltaf erindi í ríkisstjórn með stefnu sína fyrir heilbrigðara samfélagi að leiðarljósi. VG kann samt öðrum fremur að veita þétta, skynsamlega og öfluga stjórnarandstöðu. Það er ekki tímabært að mínu mati að huga að stjórnarmyndun fyrir kosningar en VG á ekki erindi í samstarf með flokkum sem eru í beinni andstöðu við stefnu okkar og gildi.“

Guðmundur Ingi:

„Stjórnmálin snúast um að koma sjónarmiðum á framfæri og hafa áhrif á stjórn landsins og þróun samfélagsins. Það er líka hægt að gera í stjórnarandstöðu. Að mínu mati þarf Ísland sterka félagshyggjustjórn á næsta kjörtímabili. Ef við fáum til þess stuðning í kosningum og það tekst að mynda slíka ríkisstjórn utan um málefni sem við setjum á oddinn, þá er ég svo sannarlega til í það. Ef ekki þá tek ég glaður sæti í stjórnarandstöðu og veiti nýrri ríkisstjórn aðhald ásamt félögum mínum, fái ég umboð félaga minna í VG og kjósenda til að sitja á Alþingi.“

Í upphafi samstarfsins var varað við því að enginn vinstriflokkur gæti komið vel frá samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Lítur þú svo á að slíkar aðvaranir hafi verið réttmætar?

Guðmundur Ingi:

„Sagan mun dæma um það. Stjórnmál eru list hins mögulega og í þessu samstarfi höfum við náð miklum árangri, svo sem með þriggja þrepa skattkerfi, lengra fæðingarorlofi, hækkuðum barna- og húsnæðisbótum, kynrænu sjálfræði, einfölduðu og réttlátara örorkulífeyriskerfi, nýrri þungunarrofslöggjöf, minni greiðsluþátttöku sjúklinga, fjölda friðlýsinga, aðgerðum í loftslagsmálum, og svo mætti lengi telja. Hinir stjórnarflokkarnir myndu líka tapa miklu fylgi ef niðurstaða kosninga yrði eins og skoðanakannanir sýna núna, ekki bara VG . Ég minni einnig á að þó svo að á milli kosninganna 2017 og 2021 höfum við vissulega tapað fylgi, þá var árangur VG samt góður í sögulegu samhengi í síðari kosningunum. Ég er viss um að við munum uppskera meira í næstu kosningum en kannanir gefa til kynna.“

Jódís:

„Já þær eru réttmætar, ég geri á engan hátt lítið úr þeim góðu og mikilvægu málum sem við höfum klárað á þessu kjörtímabili né hversu margt við höfum ýmist lagað eða stoppað frá öðrum flokkum. Ég er þó hugsi um hversu dýru verði málamiðlanir hafa verið keyptar.“

Kjósa
11
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (4)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • ADA
    Anna Dóra Antonsdóttir skrifaði
    Þau gleyma alveg Sósíalistaflokknum❗️
    0
  • Sigurður Sigurðsson skrifaði
    Leggja þennan flokk niður!!!
    0
  • jon petur kristjansson skrifaði
    Svo dugleg í að stoppa af Virkjanir að Olíunotkun fiskimjölsverksmiðja er langt fram úr hófi að þetta er mesti mengunarflokkur landsins og þar að auki eru Hvalveiðar alltaf stoppaðar af (80 Hvalir af Hundrað þúsund) og VG ber persónulega ábyrgð á fækkun ferðamanna til Íslands vegna Hvala kjaftæði VG og þetta fólk eins og Sjálfstækisflokkurinn og Framsókn hafa ekkert gert nema skapa verðbólgu lækka auðlindagjöld og allt sem þessi Ríkisstjórn gerir og hefur gert kostar þjóðina bara meiri pening og alltaf með sama markmiðið sem er að ná Bönkunum af framtíðarkynslóðum þessa lands og hvenær keyptu útgerðarmenn kvóta af íslensku þjóðinni til eignar ?? Hvar eru viðlagasjóðshúsin og leiguþök og gjaldeyrisskömmtun eða það að tengja krónuna við Evru eða Dollar !! það er ekkert gert ! strangara eftirlit með fiskeldi hvar er það ? og af hverju er ekkert rafmagn búið til með sjávarföllunum ? og allt rusl brennt eða endurunnið á íslandi ? við borgum milljarða til að flytja út rusl og svo er Heilbrigðiskerfið svelt og allt rafmagn í ólagi o.s.frv Fáið ykkur aðra vinnu ! og takið Peningastefnunefnd með ykkur !
    3
  • SGIG
    Sigurlaug Guðrún I Gísladóttir skrifaði
    Vona innilega að Jódís hafi sigurinn í þessum kosningum ;) Hvernig Guðmundur hefur haldið á málaflokknum um málefni fatlaðra er til skammar.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár