Í blómlegu byggðarlagi á Íslandi starfar bifvélavirki. Hann hefur mikið verið að velta fyrir sér kvótakerfi í sjávarútvegi en ekki síst af hverju þjóðin fái ekki meira greitt en nú er fyrir afnot útgerðanna af fiskimiðunum því stjórnmálamenn í öllum flokkum segja að Íslendingar eigi fiskimiðin í sameiningu.
Bifvélavirkjann hefur lengi langað til að skrifa grein í héraðsfréttablaðið þar sem hann mundi spyrja hvers vegna landsmenn fái ekki í sinn hlut umframarðinn af hagnýtingu fiskimiðanna, fjárhæð sem fyrrum ríkisskattstjóri telur að nemi allt að 50 milljörðum króna á ári. Hann horfir á vegakerfið, heilsugæsluna og sjúkrahúsið drabbast niður þar sem þessir fjármunir hefðu komið að góðum notum.
Afleiðingar umræðunnar
Bifvélavirkinn veit hins vegar hvað til hans friðar heyrir. Hann veit að ef greinin sem hann hefur mótað í huga sér yrði birt í héraðsfréttablaðinu (ef héraðsfréttablaðið birti hana yfirleitt) yrði til þess að lítið yrði að gera hjá honum á bifreiðaverkstæðinu. Hann veit sem er að þeir sem öllu ráða í byggðarlaginu yrðu óhressir með greinarskrif hans jafnvel þó þar yrði eingöngu varpað fram fyrirspurnum um kvótakerfið og settar fram hugmyndir um að þjóðin fengi meiri arð af fiskimiðunum. Hann horfir uppá að fyrirtækin sem nú njóta afraksturs fiskimiðanna, gegn því sem formaður bankaráðs Seðlabankans kallar málamyndagjald, eru á góðri leið með að eignast fjölda fyrirtækja í alls óskyldum rekstri auk heilu íbúðablokkanna í Reykjavík.
Bifvélavirkinn veit að afar fáir í byggðarlaginu myndu þora að eiga við hann viðskipti ef hann birti svona grein þar sem það yrði illa séð af raunverulegum ráðamönnunum samfélagsins. Hann veit líka að sonur hans sem er dugandi sjómaður hefur mikinn hug á að komast í pláss á einu af skipum ráðamannanna en skrif hans um hvort ekki ætti meira að koma í hlut þjóðarinnar af arðinum af fiskveiðunum yrðu til þess að gera þennan draum sonarins að engu. Samt verður honum hugsað til orða skáldsins Tómasar Guðmundssonar sem yrkir svo:
„Því meðan til er böl sem bætt þú gast
og barist var meðan hjá þú sast,
er ólán heimsins einnig þér að kenna.“
Um þetta eru ríkisstjórnir myndaðar
Nú vill svo til að árið 2017 var mynduð ríkisstjórn fyrir tilstilli Vinstri grænna með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki beinlínis til að koma í veg fyrir mögulegar samfélagsbreytingar þ.á.m. hugmyndir um að útgerðin greiddi meira til samfélagsins fyrir afnot af fiskimiðunum. Í þeim efnum sýnir sig að þessir stjórnmálaflokkar eru á einu máli.
Síðan var aftur kosið 2021 og enn og aftur komu Vinstri græn, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sér saman um að alls ekki yrði hróflað við gjaldtöku fyrir afnot fiskimiðanna þrátt fyrir brýna þörf fyrir aukið fjármagn til vegagerðar og heilbrigðismála svo fátt eitt sé nefnt.
Hvers vegna er þetta svona? Svari því hver fyrir sig, það skiptir nefnilega máli hver stjórnar og hverskonar ríkisstjórnir eru myndaðar.
Það sama á við um sjóinn undir laxeldiskvíunum. Á Ísafirði hvílir þöggun yfir laxeldinu nema að tiltekinn netmiðill vestfirðinga lofsyngur það í hástert - fyrir ekki neitt?