Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur greint frá því í færslu á Facebook að hún muni snúa aftur til starfa á morgun, miðvikudag, eftir veikindaleyfi. „Meðferðin hefur gengið afbragðs vel, horfur góðar og mér líður vel. Framundan er eftirlit og eftirfylgni, bjartsýni og fullvissa um bjartari tíð. Ég er þakklát fyrir allar kveðjurnar, hlýjuna og góðar óskir og hlakka til verkefnanna framundan!“
Svandís Svavarsdóttir tilkynnti að hún væri komin leyfi frá störfum samkvæmt læknisráði 22. janúar síðastliðinn. Hún greindi líka frá því í færslu á Facebook þar sem stóð:
„Frá og með deginum í dag verð ég í veikindaleyfi að læknisráði. „Í morgun fékk ég staðfesta greiningu á krabbameini í brjósti og mun gangast undir aðgerð og viðeigandi meðferð á næstu vikum,“ skrifar Svandís.
„Ég geng upprétt til móts við þetta stóra verkefni, æðrulaus og bjartsýn. Allir mínir kraftar munu fara í það með fólkið mitt mér við hlið.“
Skömmu síðar var greint frá því að Katrín Jakobsdóttir forsætsiráðherra myndi sinna störfum Svandísar í fjarveru hennar, en mikið er skeggrætt um það nú hvort Katrín ætli sér að bjóða sig fram til forseta í komandi forsetakosningum, sem fram fara 1. júní næstkomandi.
Gustað hafði um Svandísi í ríkisstjórn vikurnar á undan því að hún tilkynnti um veikindaleyfið og hafði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, boðað að hún myndi leggja fram vantrauststillögu á Svandísi þann sama dag. Tillagan var birt á vef þingsins um það bil tuttugu mínútum áður en Svandís greindi opinberlega frá leyfinu. Að tillögunni stóð allur þingflokkur Flokks fólksins. Hætt var við framlagningu hennar eftir að Svandís greindi frá veikindum sínum en Inga Sæland hefur boðað að hún verði lögð fram að nýju þegar Svandís snýr aftur til starfa. Standi það gæti tillagan verið lögð fram í næstu viku.
Athugasemdir (2)