Loftslagsváin er viðurkennd um allan heim sem ein helsta ógnunin við líf á jörðu. Þjóðir heims reyna að taka höndum saman um sameiginleg skref til að bregðast við vánni. Fáum dylst að miklar breytingar þurfa að eiga sér stað á nýtingu auðlinda og hegðun og atferli okkar mannanna og þessar breytingar þarf að undirbúa og framkvæma með markvissum hætti. En það reynist hægara sagt en gert fyrir þjóðarleiðtoga og viðskiptamógúla heimsins að ná metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum, þó þeir fundi stíft. Mikilvægar breytingar eru samt að eiga sér stað, og þær eru ekki kortlagðar við dúkalögð fundarborð í Dubai eða Sharm El Sheikh. Sífellt stærri hluti af vinnu sem unnin er í efnahagskerfum heimsins fer fram í formi verkefna. Þessi verkefnavæðing hagkerfanna er eðlilegt viðbragð við vaxandi hraða og sífelldum breytingum í umhverfinu. Loftslagsváin og almenn vitund um mikilvægi sjálfbærrar þróunar hefur líka ótrúlega mikilvæg áhrif á það hvernig við stöndum að undirbúningi og framkvæmd allra verkefna.
Þegar ég gef nemendum mínum yfirlit yfir þróun verkefnastjórnunar á Íslandi segi ég stundum söguna af Helga Eyjólfssyni byggingameistara sem stýrði byggingu síldarverksmiðju við Djúpuvík á Ströndum. Ákvörðun um verkefnið var tekin í Reykjavík haustið 1934 og vinnsla hófst í Djúpuvík ári síðar. Bygging verksmiðjunnar var flókið og umfangsmikið verkefni og undirbúningur þess hefur kallað á mikla skipulagningu, ekki síst vegna tilflutnings aðfanga því enginn akvegur var norður í Árneshrepp fyrr en 1965. Verksmiðjan var stærsta steinsteypta bygging á landinu, búin fullkomnustu tækjum. Hún skilaði góðum árangri og malaði gull þar til síldarævintýrinu lauk og vélarnar á Djúpavík þögnuðu árið 1954. Þá stóðu menn upp, lögðu frá sér verkfæri og og kaffibolla, og yfirgáfu síldarverksmiðjuna í Djúpuvík.
Helgi Eyjólfsson hlýtur að hafa verið frábær verkefnastjóri á sinni tíð. Hann þurfti að hugsa fyrir öllu, leggja niður fyrir sér öll þau tæki og tól, hráefni og verkfæri sem þurfti til að byggja verksmiðjuna. Öll þessi aðföng voru flutt sjóleiðis á staðinn og það var eins gott að gleyma engu því Helgi gat ekki skotist í BYKO til að sækja pakka af skrúfum eða sementspoka.
Þó Helgi hafi sannarlega staðið sig ótrúlega vel í að skila fullkominni verksmiðju til rekstrar á réttum tíma, þá myndi nálgun hans á verkefnið varla ganga upp í samtímanum. Árum saman höfum við reynt að brjótast út úr þeirri hugmynd að stjórnun verkefna gangi eingöngu út á að skila tilteknum útkomum af réttum gæðum, á réttum tíma og réttum kostnaði. Engu minna máli skiptir að útkoman skili því virði sem til er ætlast á tímabili rekstrar. Síðast en ekki síst þarf að hugsa fyrir því hvað gerist þegar þessu rekstrartímabili lýkur. Það dugar ekki að standa upp, leggja frá sér verkfæri eða kaffibolla, og labba út.
Hugtakið sjálfbær þróun var ekki til haustið 1934 þegar Helgi Eyjólfsson skipulagði byggingu síldarverksmiðju við Djúpuvík. Sjálfbær þróun er skilgreind sem „þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum.“ Í samhengi verkefna felur þetta í sér að ætíð þarf huga að bæði skammtíma- og langtímaáhrifum verkefnanna á allt umhverfi sitt. En innleiðing á þessari hugmynd er alls ekki einföld; lausnir sem eru hagkvæmar og umhverfisvænar til lengri tíma kunna að virðast dýrar ef menn horfa einvörðungu á hið stutta tímabil þegar sjálft verkefnið stendur yfir. Hér takast því á sjónarmið þeirra sem hugsa þröngt og spá eingöngu í eigin skammtímagróða, og þeirra sem hugsa vítt, eru meðvitaðir um samfélagslega ábyrgð og taka tillit til hagsmuna heildarinnar.
Sá sem öðrum fremur hefur dregið vagninn í að vekja fræðimenn og fagmenn í verkefnastjórnun til vitundar um mikilvægi sjálfbærni er Dr. Gilbert Silvius, ráðgjafi og alþjóðlegur fyrirlesari við nokkra háskóla í Evrópu. Dr. Silvius heldur lykilfyrirlestur á IMaR ráðstefnunni sem Verkfræðingafélagið ásamt CORDA rannsóknarsetrinu og MPM náminu við HR standa að þann 18. apríl næstkomandi. Þar ætlar hann að ræða um sjálfbærni sem lykilhæfni fyrir verkefnastjóra samtímans. Allir sem áhuga hafa á faglegri verkefnastjórnun ættu að mæta og hlusta á Dr. Gilbert Silvius, ásamt fjölda annarra frábærra fyrirlesara sem stíga á stokk á IMaR ráðstefnunni.
Höfundur er prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík
Athugasemdir