Hvernig er sameiginlegum málum best fyrirkomið? Hvert er eða eru markmið stjórnmálanna? Að baki hversdagslegum stjórnmálum liggja spurningar af þessum toga. Svörin eru fjölbreytt, en stundum verða ákveðin svör eða hugmyndafræði ráðandi, forsendur þeirra og hugsunarháttur sjálfsögð eða sjálfgefin sannindi, sameiginlegt tungutak stjórnmálanna fremur en afmarkað sjónarhorn eða skoðun. Þetta á auðvitað helst við um þau sem eru virk í stjórnmálum eða stjórnmálaumræðu, fjalla um stjórnmál á opinberum vettvangi og móta almenningsálit og stefnumál stjórnvalda. Undir lok 20. aldar og byrjun þeirrar 21. var frjálshyggja ráðandi hugmyndafræði í stjórnmálum á Vesturlöndum og víðar, mismikið á milli landa, en alls staðar áhrifamikil. Stund frjálshyggjunnar var frá 1980 til 2008 og jafnvel lengur. Ísland var hér ekki undanskilið. Áherslan á frelsið var svo mikil í almennri umræðu á Íslandi að símafyrirtæki tóku að auglýsa það til sölu. Frelsi frjálshyggjunnar var fyrst og fremst markaðsfrelsi.
Uppgangur frjálshyggju
Frjálshyggjan hafði sína leiðtoga. Ronald Reagan í Bandaríkjunum (forseti 1981-1989), Margaret Thatcher í Bretlandi (forsætisráðherra 1979-1991) og Davíð Oddsson á Íslandi (forsætisráðherra 1991-2003). Helstu hugsuðir frjálshyggjunnar voru þeir Friedrich Hayek (1899-1992), upphaflega frá Austurríki, en bjó lengst af í Bretlandi og Bandaríkjunum, og Milton Friedman (1912-2006), bandarískur hagfræðingur. Báðir heimsóttu þeir Ísland, Hayek 1980 og Friedman 1984. Á Íslandi var Hannes Hólmsteinn Gissurarson helsti frumkvöðull og boðberi frjálshyggjunnar, meðal annars með því að þýða rit eftir þá Hayek og Friedman. Frjálshyggjan var ekki ný hugmyndafræði þó að hún sé oft kölluð ný-frjálshyggja til aðgreiningar frá eldri kenningum. Frjálshyggjan varð ekki ráðandi vegna þess að fólk áttaði sig skyndilega á hugmyndafræðilegum yfirburðum hennar. Frjálshyggjan varð áhrifamikil vegna þess að ráðandi hugmyndir um stjórn efnahagsmála og skipulag samfélagsins þóttu úr sér gengnar og skorti svör við aðkallandi vandamálum. Áratugurinn eftir 1970 einkenndist víða af verðbólgu og litlum hagvexti, með tilheyrandi óróa og átökum. Vestræn hagkerfi áttu erfitt með að aðlagast hækkandi olíuverði og harðnandi alþjóðlegri samkeppni. Hin kommúnísku hagkerfi Austur-Evrópu og Sovétríkjanna áttu raunar við svipaðan vanda að etja, fyrst kom stöðnun þeirra - síðan hrun. Frjálshyggjan komst í tísku, varð hversdagsleg og sjálfsögð. Andstæðingarnir skyndilega gamaldags og púkalegir. Að baki frjálshyggjunni stóðu einnig valdamiklir hagsmunir í samfélaginu, ekki síst hagsmunir stórfyrirtækja og efnafólks. Frjálshyggjunni fylgdi því valdatilfærsla frá verkalýðsfélögum og pólitískum stofnunum til markaða og fjársterkra aðila.
Ríkið er vandamálið
Eftir síðari heimsstyrjöld töldu ráðandi öfl í Evrópu og Bandaríkjunum að ríkjunum bæri að vinna að fullri atvinnu, félagslegu öryggi og jöfnun lífskjara. Reynslan af kreppunni miklu (frá 1929) var talinn sú að óheftur kapítalismi væri skaðlegur og ógn við efnahagslegt öryggi, félagslegan stöðugleika og lýðræði. Í þessu fólst ekki andstaða við markaði í sjálfu sér eða alþjóðaviðskipti, heldur að markaðinn þyrfti að samræma öðrum félagslegum markmiðum. Velferðarríki (af ólíku tagi) festust í sessi, blönduð hagkerfi voru fremur regla en undantekning og jöfnuður mikilvægt markmið í stjórnmálum. Með frjálshyggjunni breyttist allt þetta. Ríkið er ekki lausn á vandamálum sagði Reagan þegar hann tók við völdum 1981, ríkið er vandamálið. Ríkisrekstur er slæmur, einkarekstur er góður var kjörorð nýrra tíma. Einkavæðing og skattalækkanir, sérstaklega á fyrirtæki, fjármagn og háar tekjur voru boðorð hins nýja tíma. Einkavæðing var ekki aðeins mikilvæg fyrir hefðbundna framleiðslu, heldur einnig á sviðum á borð við vatnsveitur og fráveitur, og opinberri þjónustu á borð við menntamál og heilbrigðismál. Eftir endalok kalda stríðsins var hnattvæðing á forsendum frjálshyggjunnar mikilvægt markmið: fjármagn, vörur og jafnvel vinnuafl áttu að flæða frjálst um heiminn og tryggja velferð mannkyns. Skattar, tollar, reglugerðir og útgjöld til félagsmála hindruðu því eðlilega alþjóðlega samkeppni og skertu lífskjör.
Róttæk einstaklingshyggja
Frjálshyggjan er í grunnin róttæk einstaklingshyggja. Einstaklingarnir þekkja sína hagsmuni best sjálfir og eiga að taka sínar ákvarðanir án afskipta eða leiðsagnar ríkisvaldsins. Ríkisvaldið skortir því þekkingu til að taka skynsamlegar ákvarðanir um líf fólks auk þess sem forræðishyggja ríkisins er vanvirðing við einstaklingsfrelsið. Hlutverk ríkisins er að vernda eignarréttinn, skapa öryggi innanlands og utan, og halda verðlagi stöðugu. Í hugum margra frjálshyggjumanna er frelsið eina og æðsta markmið stjórnmálanna og því mikilvægt að hömlum á athafnafrelsi fólks sé rutt úr vegi. Oft er frjálshyggjan þó í innri togstreitu við íhaldssamari sjónarmið, á valdatíma Thatchers var til dæmis mikil umræða um íhaldssamt gildismat Viktoríutímans (valdatíma Viktoríu drottningar á 19. öld). Frjálshyggja Hannesar Hólmsteins er augljóslega mótuð af valdatíma Thatchers, enda boðar hann íhaldssama frjálshyggju (e. conservative liberalism). Hér vaknar spurning um að hve miklu leyti löggjöf ríkisins eigi að endurspegla íhaldssemi af þessu taginu, eða hvort stofnanir á borð við fjölskyldur, kirkjur og skóla eigi að móta einstaklinginn án afskipta ríkisins. „Frelsi með ábyrgð“ gerir því ráð fyrir einstaklingum sem kunni fótum sínum forráð og móti lífshlaup sitt með sjálfstæðum hætti. Þeir sem ekki eru færir um þetta geta helst sjálfum sér um kennt og enda á götunni eða í fangelsum. Þar sem frjálshyggjan hefur mótað samfélög mest (Bretland og Bandaríkin) hefur fjöldi fólks í fangelsum aukist stórlega – sem er varla nein tilviljun.
Áhrif frjálshyggjunnar jukust stórlega við hrun kommúnismans og þá hnattvæðingu efnahagslífsins sem fylgdi í kjölfarið. Kenning Francis Fukuyama um endalok sögunnar lýsir stund frjálshyggjunnar ágætlega. Endalok sögunnar þýða endalok hugmyndafræðilegra átaka, markaðskerfi og frjálslynt lýðræði hafa unnið, aðrir valkostir eru ekki til staðar. Frjálshyggjan hafði því ekki aðeins áhrif á hægri flokka á borð við breska Íhaldsflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn, heldur einnig andstæðinga þeirra og keppinauta, t.d. Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum, breska Verkamannaflokkinn og Framsóknarflokkinn á Íslandi. Bill Clinton (forseti 1993-2001) og Tony Blair (forsætisráðherra 1997-2007), festu þannig í sessi og að mörgu leiti gengu lengra í frjálshyggju en fyrri ríkisstjórnir. Frjálshyggjan varð áhrifamikil vegna þess að flokkar á borð við Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna samþykktu meginlínur frjálshyggjunnar ekki síður en Sjálfstæðisflokkurinn. Áhrif frjálshyggjunnar á Framsóknarflokkinn má ekki aðeins sjá á áhuga flokksins á einkavæðingu banka og annara ríkisfyrirtækja, heldur einnig á húsnæðisstefnu flokksins. Þannig hafði Framsókn forgöngu um að leggja niður verkamannabústaði og einkavæða kerfið og byggja nýtt húsnæðiskerfi á markaðsforsendum. Áhrifin frá Bretlandi eru hér augljós og afleiðingarnar líka – of hátt húsnæðisverð og skortur á húsnæði.
Kreppa frjálshyggjunnar
Segja má að stund frjálshyggjunnar hafi endað með fjármálakreppunni 2008, en í kjölfarið var bönkum á Vesturlöndum bjargað umvörpum af ríkisvaldinu. Frjálshyggjumenn héldu því fram að kreppan væri ríkinu að kenna, agi markaðarins hefði verið of lítill. Slíkar raddir voru þó hjáróma: markaðir voru gefnir frjálsir (eða frjálsari) með afleiðingum sem voru vel þekktar sögulega en ráðamenn höfðu „gleymt“ í hugmyndafræðilegri blindni. Hugsunarháttur frjálshyggjunnar hvarf þó ekki, ekki síst vegna þess að aðrir valkostir voru ekki augljósir eða til staðar í stjórnmálaflokkum. Fjármálakreppan dróg á hinn bóginn fram gallana á þeirri stefnu sem fylgt hafði verið, ekki síst auknum ójöfnuði og þeirri staðreynd að í löndum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi höfðu kjör stórs hluta landsmanna (gömlu verkalýðsstéttarinnar) staðið í stað áratugum saman. Að hluta hafði millistéttin lifað í þeirri trú að kjörin hefðu batnað, en oft var það aðeins byggt á auknu aðgengi að lánum og bólukenndum fasteignamarkaði. Frjálshyggjan gaf samfélögum loforð sem hún stóð ekki við – og kannski gat aldrei staðið við. Ráðandi öfl í bandarískum stjórnmálum voru því tekin í bólinu í prófkjörum og síðar kosningum 2016, þegar öfl til hægri og vinstri gerðu kröfu um miklar breytingar. Brexit var með sama hætti uppreisn gegn ríkjandi hugmyndum, enda hefur engin samstaða eða eining myndast á Bretlandseyjum um hvernig eigi að bregðast við.
Popúlismi
Uppgangur popúlisma er að mörgu leiti viðbrögð við þessu ástandi. Það sem er kallað popúlismi í almennri umræðu er oft lítið annað en krafa um stefnumál sem „stund frjálshyggjunnar“ ýtti til hliðar og ráðandi öfl eru andstæð. Hér má nefna andstöðu við hnattvæðingu, bæði andstöðu við frjáls alþjóðaviðskipti og flutninga fólks á milli landa. Hægri menn hafa að mörgu leiti átt auðveldara með að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og færa sig frá hreinni frjálshyggju yfir í hægrisinnaða þjóðernishyggju. Á vinstri kantinum er staðan snúnari, enda þjóðernishyggjan tengd við atvinnustefnu og velferðarpólitík sem margir (hefðbundnir leiðtogar skulum við segja) telja of dýra eða gamaldags. Víða í Evrópu eru vinstri flokkar því nánast áhrifalausir og hið nýja normal eða meginstraumur stjórnmálanna hægrisinnaðir popúlistaflokkar, sem annað hvort stjórna umræðu eða sitja í ríkisstjórnum. „Bidenomics“ er hógvær (enn sem komið er) efnahagsleg þjóðernishyggja, framhald á stefnu Trumps fremur en andstaða við hana. Popúlismanum fylgir oft óskilgreind fortíðarþrá, hugmynd um samfélag þar sem Vesturlönd voru ráðandi í efnahagsmálum, örugg störf voru til staðar í framleiðslufyrirtækjum, konur almennt heimavinnandi og innflytjendur fáir. Make America Great Again, snýst að stórum hluta um þetta. Það er kannski kaldhæðni örlaganna að draumaland popúlista í Evrópu sé einhver útgáfa af sósíaldemókratísku (eða kristdemókratísku) samfélagi áranna 1950-80.
„Stund frjálshyggjunnar“ er sannarlega á enda, en hvað tekur við er óljósara.
Athugasemdir