Þessi grein birtist fyrir rúmlega 9 mánuðum.

„Krýsuvík er komin í gang“

Í ljósi sög­unn­ar má ætla að eld­gos­in verði stærri og fleiri eld­stöðva­kerfi vakna þeg­ar líða tek­ur á það gos­tíma­bil sem nú er haf­ið á Reykja­nesskaga. Hraun­rennsli og sprungu­hreyf­ing­ar munu þá ógna íbúa­byggð og inn­við­um á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. „Þetta er nátt­úr­lega háal­var­legt,“ seg­ir eld­fjalla­fræð­ing­ur.

„Við erum ekki í miðjum atburði, við erum í upphafi atburðar,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um Reykjaneseldana sem nú eru hafnir „alveg á fullu“. Þetta gostímabil gæti staðið í áratugi – jafnvel árhundruð. Í ljósi sögunnar má gera ráð fyrir að fleiri eldstöðvakerfi á Reykjanesinu láti til sín taka. Þau eru sex talsins og í tveimur þeirra hefur þegar gosið og tvö til viðbótar hafa rumskað og tekið þátt í atburðarásinni án þess að gjósa.

Þá er einnig líklegt, „svona ef maður horfir til fortíðar,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, „að gos muni frekar aukast eftir því sem líður á þessa atburðarás“. Það sýni til dæmis reynslan frá Kröflueldum. Gosin hafi verið lítil til að byrja með en skjálftarnir hins vegar miklir. „En síðan snerist þetta við,“ segir hann. „Eftir því sem á leið þá urðu skjálftarnir alltaf minni og minni en gosin stærri og stærri. Þannig að ef þetta dregst á langinn þá er mjög líklegt að það fari yfir í það.“

Á síðasta gostímabili gaus í öllum eldstöðvakerfum Reykjanesskagans, nema í því sem kennt er við Fagradalsfjall. „Það gaus á Reykjanesi. Það gaus í Svartsengi. Það gaus í Krýsuvík og það gaus í Brennisteinsfjöllum,“ segir Páll.

Í dvala í átta aldir

Þegar eldgos hófst í Fagradalsfjalli í mars 2021 höfðu slíkir atburðir ekki átt sér stað á Reykjanesskaga í um 780 ár eða frá því á Sturlungaöld. Um 6.000 ár höfðu þá líklega liðið frá síðasta gosi í Fagradalsfjallskerfinu. Næstu tvö gos, í Meradölum 2022 og við Litla-Hrút 2023, urðu einnig í því kerfi en það fjórða sem varð norðan Sundhnúk í desember síðastliðnum varð í Svartsengiskerfinu, sem stundum er einnig kennt við Eldvörp. Sömu sögu má segja um það sem varð nú í janúar. Ekki hafði gosið í Sundhnúkagígaröðinni í líklega 2.400 ár.

Síðasta goshrina á skaganum varð í vestari kerfunum og varði í þrjátíu ár. Hún var kölluð Reykjaneseldar og var jafnframt lokahrinan í löngu eldsumbrotatímabili  sem stóð yfir í tæpar þrjár aldir, allt frá því um 950 og til 1240.

GostímabilÍ ljósi sögunnar er líklegt að gos muni frekar aukast eftir því sem líður á þessa atburðarás, að sögn Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings.

Almennt er talið að síðasta gostímabil á Reykjanesskaga hafi hafist á Hengilssvæðinu sem stundum er þó undanskilið kerfum skagans. Þar næst gaus í kerfi sem kennt er við Brennisteinsfjöll, þá í Krýsuvík og loks í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum.

„Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því að virknin á landinu var óvenjulítil um miðja síðustu öld þegar þetta nútímaþjóðfélag var að byggjast upp á Íslandi.“
Páll Einarsson,
jarðeðlisfræðingur

Þótt ýmislegt sé vitað um hegðun eldstöðvakerfanna er fjölmargt enn á huldu. Ármann bendir til dæmis á að stærri hraun hylji þau minni og því höfum við ekki „kórrétta atburðarás“ af „syrpunni“, eins og hann orðar það, sem varð á þrettándu öld. „Þannig að við erum bara með grófa mynd.“

Upplýsingar þær sem við höfum séu meðal annars byggðar á lýsingum í annálum og þeirra sem aflað hefur verið með kortlagningu. Miðað við þau fræði gaus í Krýsuvík fyrir rúmum 1.100 árum, aftur fyrir um 900 árum og loks um árið 1150, eða fyrir um 830 árum.

„Það gerist örugglega einhvern tímann,“ segir Ármann spurður um líkur á því að það fari að gjósa í Krýsuvíkurkerfinu sem er fyrir miðju kerfanna sex. „Það er ekkert sem segir að það geti ekki gerst þó að við séum með þessa krísu út á Reykjanesi í kringum Grindavík.“

Spennulosun í Krýsuvík hafin

Aðdragandi gosa í því kerfi yrði að sögn Ármanns eflaust á svipuðum nótum og við höfum séð við Fagradalsfjall og Svartsengi: Fyrst yrðu jarðskjálftar, þá sprungumyndanir og loks færi hraun að flæða. „Því þetta byrjar með spennulosun,“ útskýrir hann. „Til að koma kvikunni upp verður að byrja á því að brjóta skorpuna. Þannig að það fer ekkert framhjá okkur þegar þetta fer í gang. Og Krýsuvík er komin í gang. Við erum búin að vera að mæla þar landris og sig á víxl í nokkur ár og búin að fá ansi hressilega skjálfta. Þannig að spennulosunin er byrjuð þarna.“

Og það gæti náttúrlega endað í eldgosi?

„Alveg klárlega,“ svarar Ármann. „En við gerum okkur vonir um að við sjáum þessi merki stífar áður en við náum því. Það er alveg klárt að það er farin að safnast fyrir kvika í Krýsuvíkurkerfinu.“

EldfjallafræðingurÁrmann Höskuldsson.

Páll tekur undir þetta og minnir á að Krýsuvík hafi verið „óróleg“ undanfarið –  ekki síst seinni hluta ársins 2020. Land reis þá í nokkrar vikur. Og risinu fylgdu talsverðir jarðskjálftar, stærstu skjálftar þessara umbrota allra, segir Páll sem telur „frekar líklegt“ að gjósa muni í þessu kerfi í þeirri goshrinu sem nú er hafin. „Ef að þetta er eitthvað svipað og hefur gerst í jarðsögunni þá er líklegt að gosvirkni verði frekar mikil næstu 200–300 árin eða svo. Þá er nú frekar líklegt að Krýsuvíkurkerfið taki meiri þátt í þessu heldur en hingað til.“

Hann segir það hins vegar ólíklegt að gosin í kerfum Fagradalsfjalls og Svartsengis hafi með einhverjum hætti létt á Krýsuvíkurkerfinu.

Sprungusveimurinn mikli

Hættan af hræringum í því kerfi séu aðallega tvenns konar: Af völdum sprunguhreyfinga og hraunflæðis. Sprungusveimur þess liggi yfir stórt svæði; í gegnum Kaldársel, Búrfell, Heiðmörk, við Rauðavatn og upp í Hólmsheiði – jafnvel alla leið upp í Úlfarsfell. „Þannig að ef við fengjum gangainnskot alla þá leið, sem er vissulega möguleiki, þá er það kannski erfiðasti atburðurinn að fást við,“ segir Páll sem rannsakað hefur sveiminn og skrifað um hann greinar. Ef hreyfing kæmist á sprungurnar yrðu miklir innviðir í hættu. „Aðalmálið væri kannski vatnsbólin og það allt saman. Það er sviðsmynd sem er kannski ein af þeim verri.“

GrindavíkHér má sjá sprungu sem myndaðist í bænum í jarðhræringunum í aðdraganda eldgoss. Nú vilja sérfræðingar ráðast í hönnum varnargarða við Hafnarfjörð.

Á þessu mikla sprungusvæði er auk þess íbúabyggð. Þótt hraunrennsli ógni henni ekki, meðal annars Norðlingaholtinu og Árbæjarhverfi, gætu sprunguhreyfingar gert það. Páll rifjar upp að í kringum 1980 hafi mikið verið deilt um hvort byggilegt væri í nágrenni Rauðavatns. Málið hafi orðið mjög pólitískt. Sumir sögðu að þetta væri stórhættulegt jarðskjálftasvæði en aðrir að sprungurnar væru gamlar og myndu ekki hreyfast meir. 

„Þeim tókst að deila um þetta og hafa allir rangt fyrir sér,“ segir Páll. Því að á sprungusvæðum sé hægt að byggja, en það er ekki sama hvernig það er gert. „Þarna eru vissulega sprungur en þetta eru ekki jarðskjálftasprungur heldur kvikuhlaupssprungur,“ heldur hann áfram. „Þær hreyfast mikið þegar þær hreyfast en það hreyfist hins vegar eiginlega ekkert á milli þeirra. Þannig að ef þú ert að byggja hús þarna, þá bara passar þú að byggja ekki yfir sprunguna. Þá ertu bara í góðum málum. Þetta er alveg byggilegt en það verður að byggja rétt.“

Og heldur þú að okkur hafi borið gæfa til þess að byggja á milli sprungnanna?

„Ég er ekki alveg viss um það,“ svarar Páll. „En það var reynt og ef þú spyrð þá sem skipulögðu Norðlingaholtið þá munu þeir segja að þeir hafi tekið tillit til sprungnanna.“ Þegar farið var að grafa fyrir húsum í hverfinu hafi fundist gjár þar undir. Á þeim hafi ekki verið byggt enda megi sjá þrjú skörð í byggðinni. „Húsin sem eru á milli ættu að vera í góðu lagi,“ segir Páll. „Spurningin er bara: Gáðu þeir nógu vandlega?“

Klaufalegt að skipuleggja byggð á Völlunum

Þegar síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu í kringum 1150 runnu meðal annars Kapelluhraun til norðurs og Ögmundarhraun til suðurs. Og þá er komið að hinni vánni sem Páll vill vekja athygli á: Hraunrennsli. Hraun sem koma upp í norðurhluta Krýsuvíkurbeltisins gætu runnið niður í það dalverpi sem Vallahverfið í Hafnarfirði stendur í.

Að mati Páls má segja að vissrar óvarkárni hafi gætt í skipulagsmálum hvað þetta varðar. Óþarfi hafi verið að taka þá áhættu að byggja á Völlunum því annað byggingarland hafi fundist innan Hafnarfjarðar. „Þetta er ágætis byggingarland í sjálfu sér,“ segir hann um Vellina og næsta nágrenni, „en ef hraun kemur upp, á þessum stað, þá rennur það þessa leið, það er óhjákvæmilegt. Það er ekki hægt að beina því neitt. Og það er þá klaufalegt að vera með mikla byggð þar.“

Ógnin komin heim í garðinn

Hafnfirðingar þurfa að mati Ármanns að endurskoða sín skipulagsmál, þeir geti ekki byggt „endalaust upp til fjalla“. Gos gæti hafist í Krýsuvík eftir einhver ár, áratugi eða öld. „Þetta er allt farið í gang,“ segir hann. „Reykjanesið sjálft er farið í gang. Og það þýðir þá að menn verða að hugsa um það og breyta skipulagsáætlunum í stíl við það.“

„Auðvitað þurfa Hafnfirðingar að endurskoða sitt skipulag. Þeir geta ekki skipulagt endalaust upp til fjalla. Úr því að þetta er komið í gang þá þarf þetta allt að ganga yfir. Kannski tekur það 100 ár. Eða 200 ár. En eftir 100–200 ár geta Hafnfirðingar skipulagt byggð alveg þarna inn eftir öllu og vita að húsin eru róleg í 700 ár.“
Ármann Höskuldsson
eldfjallafræðingur.

Hvað Vellina varðar telur hann líkt og Páll að ef Krýsuvík færi að gjósa myndi steðja ógn að hverfinu. „Ég myndi halda að við ættum að hanna þá,“ svarar hann spurður um hvort hefja ætti undirbúning varnargarða við byggðina. „Við þurfum kannski ekki endilega að fara að rusla þeim upp strax en bara um leið og það fara að verða alvarleg merki þá setjum við vinnuna í gang. Þetta er komið heim í garðinn og þá gerir þú allt klárt. Þú ferð kannski ekki strax í framkvæmdirnar en byrjar að teikna og reikna.“

Ef til annarra kerfa er litið, kerfa sem enn sofa þótt laust sé, minnir Ármann á Hengilinn sem markar endimörk eldstöðvakerfis Reykjanesskagans í austri. Ef hann færi að ræskja sig alvarlega gætu hamfarir fyrir byggð orðið miklar. „Ef hann fer að dæla hrauni yfir Nesjavelli og Hellisheiðarvirkjun þá yrði lítið heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir hann. „Þetta er náttúrlega háalvarlegt.“

20. öldin sker sig úr

Páll telur það eiga sér vissar skýringar að ákveðið var að byggja á svæðum þar sem vá vegna sprungusveima og hraunflæðis vofir yfir. „Ég held að við séum enn að súpa seyðið af því að virknin á landinu var óvenjulítil um miðja síðustu öld þegar þetta nútímaþjóðfélag var að byggjast upp á Íslandi,“ útskýrir hann. „Þá var þessi virkni óvenjulega lítil. Ef við horfum til baka, til fyrri alda, þá er 20. öldin framan af steindauð. Hún sker sig úr öllum öðrum öldum. Menn fengu skakka hugmynd um hvers eðlis virknin var. Og við sitjum uppi með þetta svona.“

Upp úr 1960 hafi hins vegar hver atburðurinn tekið að reka annan; Surtseyjargos, Heklugos, Heimaeyjargos og hvað eina. Allt hafi svo „keyrt um þverbak“ er hrina hófst í Kröflu um miðjan áttunda áratuginn.

Og ekki er að fara að draga úr virkninni í fyrirséðri framtíð?

„Ég held að þetta sé komið í venjulegt og eðlilegt horf,“ svarar Páll. „Svo það er eins gott að við lærum af því. Og breytum því sem þarf að breyta.“

Hvað getum við lært af því og hverju þurfum við að breyta?

„Við þurfum að reikna með að það geti orðið hraunstraumar hér og þar sem þarf að beina annað eða skipuleggja sig í kringum,“ svarar Páll. „Skjálftamálin eru í tiltölulega góðu standi. Jarðskjálftaverkfræðingar hafa staðið sig mjög vel. Þannig að hús á Íslandi virðast standast jarðskjálfta mjög vel. Við fengum reynslu af því árið 2000. Það hrundu engin hús sem skiptir máli því það er það sem veldur manntjóni. Þannig að það er í sæmilegu lagi. En þetta með sprunguhreyfingar og hraungos, þetta mætti alveg laga svolítið.“

Nú þýðir ekkert að stinga höfðinu í neinn sand?

„Nei, það þýðir ekki. Það verður að læra að lifa með þessu.“

Kjósa
153
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Jarðhræringar við Grindavík

Íbúum leyft að dvelja næturlangt í Grindavík þótt lögreglan mæli ekki með því
FréttirJarðhræringar við Grindavík

Íbú­um leyft að dvelja næt­ur­langt í Grinda­vík þótt lög­regl­an mæli ekki með því

Frá og með morg­un­deg­in­um verð­ur íbú­um og fólki sem starfar hjá fyr­ir­tækj­um í Grinda­vík heim­ilt að fara í bæ­inn og dvelja þar næt­ur­langt. Í ný­legri frétta­til­kynn­ingu lög­reglu­stjór­ans á Suð­ur­nesj­um er greint frá þessu. Íbú­ar eru þó var­að­ir við að inn­við­ir bæj­ar­ins séu í lamasessi og sprung­ur víða. Bær­inn sé því ekki ákjós­an­leg­ur stað­ur fyr­ir fjöl­skyld­ur og börn.
Tímabært að verja Reykjanesbraut
FréttirJarðhræringar við Grindavík

Tíma­bært að verja Reykja­nes­braut

Þor­vald­ur Þórð­ar­son eld­fjalla­fræð­ing­ur seg­ir að það sé tíma­bært að huga að vörn­um fyr­ir Reykja­nes­braut­ina og aðra inn­viði á Suð­ur­nesj­um. At­burða­rás­in á fimmtu­dag, þeg­ar hraun rann yf­ir Grinda­vík­ur­veg og hita­vatns­leiðslu HS Veitna, hafi ver­ið sviðs­mynd sem bú­ið var að teikna upp. Hraun hafi runn­ið eft­ir gam­alli hraun­rás og því náð meiri hraða og krafti en ella.
Í Grindavík er enn 10. nóvember
VettvangurJarðhræringar við Grindavík

Í Grinda­vík er enn 10. nóv­em­ber

Það er nógu leið­in­legt að flytja, þeg­ar mað­ur vel­ur sér það sjálf­ur, hvað þá þeg­ar mað­ur neyð­ist til þess. Og hvernig vel­ur mað­ur hvað eigi að taka með sér og hvað ekki, þeg­ar mað­ur yf­ir­gef­ur stórt ein­býl­is­hús með tvö­föld­um bíl­skúr fyr­ir litla íbúð með lít­illi geymslu? Fjöl­skyld­an á Blóm­st­ur­völl­um 10 í Grinda­vík stóð frammi fyr­ir þeirri spurn­ingu síð­ast­lið­inn sunnu­dag.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu