Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

Afdrifarík ferð á barinn

Það get­ur haft ým­is­legt óvænt í för með sér að bregða sér á bar, alla vega ef bar­inn heit­ir Slip inn og er í Syd­ney í Ástr­al­íu. Þannig var það í til­viki Mary El­iza­beth Don­ald­son, sem nú er orð­in drottn­ing Dan­merk­ur.

Afdrifarík ferð á barinn
Drottning Danmerkur Mary Donaldson er orðin drottning Danmerkur eftir að eiginmaðurinn Friðrik varð kóngur. Mynd: AFP

Það var mikið um að vera í Sydney haustið 2000. Ólympíuleikarnir fóru fram síðari hluta septembermánaðar og í tengslum við þá var margt fólk í borginni. Fyrir utan um það bil 10.500 keppendur voru tugþúsundir áhorfenda og aðstoðarfólks keppenda.   

Á þessum tíma bjó og starfaði í Sydney ung kona, Mary Elizabeth Donaldson að nafni. Mary fæddist í bænum Hobart á áströlsku eyjunni Tasmaníu 5. febrúar 1972. Foreldrarnir, sem báðir voru skoskir, höfðu flutt til Tasmaníu árið 1963 og nokkrum mánuðum fyrr gengið í hjónaband. Þau eignuðust fjögur börn, Mary er yngst.

Faðirinn, John Dalgleish Donaldson, fæddur árið 1941, lauk háskólaprófi í stærðfræði og eðlisfræði frá háskólanum í Edinborg og síðar doktorsprófi í stærðfræði frá háskólanum í Tasmaníu. Hann starfaði við háskólann þangað til hann fór á eftirlaun, lengst af sem forseti vísindadeildar.

Móðir Mary hét Henrietta Clark Horne, fædd árið 1942. Hún starfaði lengst af sem skrifstofustjóri aðstoðarrektors háskólans í Tasmaníu en lést árið 1997, eftir að hafa gengist undir hjartaaðgerð. John giftist síðar rithöfundinum Susan Elizabeth.

Menntun og störf

Að loknu grunn- og framhaldsskólanámi settist Mary í háskólann í Tasmaníu og brautskráðist þaðan sem viðskiptalögfræðingur árið 1995.
Ári síðar lauk hún prófi í markaðs- og auglýsingafræði. Í framhaldsskóla lærði hún frönsku sem hún talar reiprennandi, það átti eftir að koma sér vel síðar. Eftir útskriftina starfaði Mary sem aðstoðarframkvæmdastjóri hjá tveimur auglýsingafyrirtækjum í Melbourne.

Móðurmissir

Skúbb!Ástralskir fjölmiðlar komust á snoðir um samband Mary og Friðriks og fjölluðu um það á síðum blaðanna.

Skúbb!Ástralskir fjölmiðlar komust á snoðir um samband Mary og Friðriks og fjölluðu um það á síðum blaðanna.Eins og áður var nefnt lést Henrietta, móðir Mary, árið 1997, hún hafði skömmu áður gengist undir hjartaaðgerð. Mary tók fráfall móður sinnar afar nærri sér og ári síðar sagði hún upp vinnunni hjá auglýsingafyrirtækinu í Melbourne. Hún fór í langt ferðalag um Bandaríkin og Evrópu og sneri ekki til baka fyrr en tíu mánuðum síðar.

Á ferðalaginu dvaldi hún lengst í Edinborg þar sem hún vann í þrjá mánuði hjá stóru markaðs- og ráðgjafarfyrirtæki. Þegar til Ástralíu kom settist hún að í Sydney, vann um hríð hjá þekktu ráðgjafarfyrirtæki en réði sig vorið 2000 til starfa hjá stóru fasteignafyrirtæki. „Ég var frekar ráðvillt og vissi ekki alveg hver mín hilla væri í lífinu en taldi þegar ég fór að vinna hjá fasteignafyrirtækinu að það væri rétta hillan,“ sagði Mary síðar í viðtali. Hún komst svo síðar að því að það væri önnur, bæði lengri og breiðari hilla sem biði hennar.

Slip inn

Það var mikið um að vera í Sydney þann hálfa mánuð sem Ólympíuleikarnir stóðu yfir. Krökkt af fólki á götum og strætum, þéttsetið á börum og veitingastöðum. Hjá íbúum borgarinnar gekk lífið annars að mestu sinn vanagang og þannig var það hjá Mary Donaldson. Þegar vinnudeginum var lokið ætlaði hún heim eins og venjulega, en nokkrir vinir töldu hana á að koma með út og líta á mannlífið. Bæjarröltið endaði á Slip inn, bar og veitingastað. Þar var margt fólk, þar á meðal nokkrir Svíar og Danir.

„Eins og gengur var farið að spjalla og ég talaði lengi við Dana sem sagðist heita Friðrik. Við spjölluðum dágóða stund en þegar ég spurði hvað hann gerði vafðist honum tunga um tönn, sagði svo loks að hann væri sonur dönsku drottningarinnar. Minntist ekki á að hann væri krónprins,“ sagði Mary í viðtali um þessi fyrstu kynni. „Við ákváðum að halda sambandinu og næstu vikur og mánuði töluðum við lengi saman í síma og skrifuðumst á. Hittumst líka þótt það væri langt að fara.“ Þau vildu halda sambandinu leyndu og tókst það reyndar mánuðum saman.

Við vitum að þú ert kærasta danska krónprinsins

Mary sagði að sér hefði brugðið þegar blaðamaður vatt sér að henni þegar hún var á leið heim úr vinnu með orðunum „við vitum að þú ert kærasta danska krónprinsins“. Hún svaraði engu en flýtti sér inn í bílinn.

„Denmark falls in love with our Mary“ var fyrirsögn í einu áströlsku blaðanna daginn eftir og þar voru myndir af Mary þar sem hún ekur á brott. „Á þessu augnabliki árið 2001 var allt breytt.“ Mary sagði síðar að hún hefði þurft að hugsa sig vel um, hvort hún vildi búa í Danmörku, langt frá vinum og fjölskyldu, og jafnframt með öllu sem fylgdi því að verða krónprinsessa.

„Eins og gengur var farið að spjalla og ég talaði lengi við Dana sem sagðist heita Friðrik. Við spjölluðum dágóða stund en þegar ég spurði hvað hann gerði vafðist honum tunga um tönn, sagði svo loks að hann væri sonur dönsku drottningarinnar. Minntist ekki á að hann væri krónprins.“
Mary Donaldson,
um fyrstu kynni sín af Friðriki.

Í ársbyrjun 2002 flutti Mary til Parísar og vann þar hjá Microsoft-fyrirtækinu í nokkra mánuði en flutti þá til Danmerkur og vann áfram hjá Microsoft í um það bil eitt ár.

Mary hefur í viðtali greint frá því þegar Friðrik tilkynnti henni einhvern tíma á árinu 2002 að nú væri kominn tími til að hún myndi hitta Margréti Þórhildi. „Mamma ætlar að koma í te.“ „Og hvað á ég að gera?“ sagði Mary. „Þú skalt hneigja þig fyrir henni,“ var svarið. Mary sagðist ekki kunna réttu hneiginguna en Friðrik leiðbeindi henni. „Ég held að þetta hafi nú ekki verið falleg hneiging en mér hefur farið fram síðan,“ sagði Mary.

Skemmst er frá því að segja að vel fór á með drottningunni og hinni tilvonandi tengdadóttur.

Mamman gaf grænt ljós

Hinn 23. september árið 2003 barst dönskum fjölmiðlum tilkynning frá skrifstofu hirðarinnar á Amalienborg. Þar kom fram að Margrét Þórhildur myndi á ríkisráðsfundi 8. október tilkynna samþykki sitt fyrir giftingu ríkisarfans Friðriks og Mary Elizabeth Donaldson. Brúðkaup myndi fara fram vorið 2004, dagsetning þess yrði tilkynnt síðar. Danskir fjölmiðlar sögðu greinilegt að drottningin og Hinrik drottningarmaður væru mjög ánægð með tengdadótturina. Hinrik lýsti sérstakri ánægju með að krónprinsessan væri altalandi á frönsku.

Konunglegur kossFriðrik og Mary kyssast á svölum Amelíuborgar.

Vann strax hug og hjörtu Dana

Það voru ekki bara foreldrar krónprinsins sem voru ánægð með tengdadótturina. Athygli vakti að þegar þau Friðrik og Mary ræddu í fyrsta sinn við fréttamenn 8. október 2003, og tilkynntu trúlofun sína, að Mary tók strax orðið og sagði á dönsku að hún væri mjög ánægð með að vera í Danmörku. Hún hefði lesið í fjölmiðlum að hún talaði reiprennandi dönsku, það væri orðum aukið en hún myndi leggja sig alla fram um að læra málið. Það að Mary skyldi tala dönsku hitti Dani beint í hjartastað og dönsku miðlarnir voru yfir sig hrifnir af henni. Þau Friðrik og Mary gengu í hjónaband 14. maí árið 2004, athöfnin fór fram í Frúarkirkju í Kaupmannahöfn. Mary er fyrsta drottningin í sögu Danmerkur sem ekki er með blátt blóð í æðum.

Drottning Danmerkur

Síðan þau Friðrik og Mary játuðust hvort öðru í Frúarkirkjunni fyrir tæpum 20 árum hefur margt á daga þeirra drifið.

Hjónin eiga fjögur börn: elstur er Kristján, sem nú er krónprins Danmerkur, hann er fæddur 15. október 2005, næstelst er Isabella fædd 21. apríl 2007 og yngst eru tvíburarnir Vincent og Josephine, fædd 8. janúar 2011.

Á undanförnum árum hefur Margrét Þórhildur falið þeim Friðriki og Mary sífellt fleiri skyldur, sem tilheyra embætti danska þjóðhöfðingjans. Mary hefur víða látið til sín taka, ekki síst varðandi málefni barna. Eftir krúnuskiptin 14. janúar síðastliðinn og Mary varð drottning Danmerkur breytast verkefnin ugglaust, sama gildir um Friðrik konung. Krónprinsinn Kristján, sem enn er í framhaldsskóla, mun sinna ýmsum verkefnum sem faðir hans sinnti áður en hann tók við konungstigninni.

Margrét Þórhildur naut alla sína þjóðhöfðingjatíð mikillar hylli landa sinna. Kannanir sýna að Danir bera mikið traust til konungshjónanna og telja fullvíst að þau Friðrik og Mary muni halda kyndlinum hátt á loft.

Kjósa
37
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár