Iman var gengin sex mánuði með barn sitt og Mahmouds Alsaiqali þegar faðirinn ákvað að fara úr landi til þess að reyna að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Iman hélt að þau yrðu aðskilin í mest eitt ár en nú, tæpum sex árum síðar býr hún enn með börnunum fjórum á Gasasvæðinu og Mahmoud er á Íslandi.
„Ég hef aldrei séð annan sona minna,“ segir Mahmoud, sem er hér með stöðu flóttamanns, og hristir höfuðið.
Hann verður klökkur þegar hann talar um börnin sín: Dæturnar Mai og Miar – 11 og 12 ára gamlar – og synina Abdalnasser og Mohammed – 9 og fimm ára. Miar langar að verða læknir og Mohammed dreymir um að læra að fljúga flugvél. Skólinn hennar Miar var sprengdur í loft upp nýlega.
„Konan mín hringdi í mig í gær og sagði að það væru sprengjur að falla allt í kringum þau. Í dag næ ég engu sambandi við fjölskyldu mína. Ég þjáist, ég er mjög hræddur og kvíðinn,“ segir Mahmoud.
Bara þriðjungur fjölskyldnanna kominn hingað
Útlendingastofnun samþykkti fjölskyldusameiningu fyrir Mahmoud, Iman og börnin fyrir rúmum mánuði síðan. Iman og börnin eru samt sem áður enn stödd við landamæri Egyptalands og Palestínu – Palestínumegin – og fá ekki að fara yfir til Egyptalands. Það eina sem þau vantar, telur Mahmoud, er að íslenska utanríkisráðuneytið komi nöfnum þeirra á lista hjá Rauða krossinum svo honum sé heimilt að flytja fjölskylduna yfir landamærin.
Mahmoud er ekki einn í þessari stöðu. Heimildin hefur heyrt frá fleiri palestínskum feðrum sem hafa fengið samþykkta fjölskyldusameiningu en bíða upp á von og óvon um það hvenær fjölskylda þeirra verði loksins flutt frá Gasa.
Í skriflegu svari frá Útlendingastofnun við fyrirspurn Heimildarinnar kemur fram að stofnunin hafi veitt rúmlega 150 Palestínumönnum dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar það sem af er ári, þar af um 100 frá því í október.
„Langflest þessara leyfa hafa verið veitt aðstandendum palestínskra flóttamanna á Íslandi. Aðeins tæpur þriðjungur þeirra Palestínumanna sem hafa fengið veitt fjölskyldusameiningarleyfi á árinu eru þó komnir til landsins,“ segir í svarinu.
„Getið þið gert það fyrir mig að koma þeim alla vega í skjól?“
Umsóknir Palestínumanna um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við aðstandendur sína á Íslandi hafa notið forgangs fram yfir umsóknir annarra útlendinga um fjölskyldusameiningarleyfi frá því upp úr miðjum október. Ekki þarf að sækja um eða óska eftir því að njóta þessa forgangs.
„Vegna átakanna er miklum erfiðleikum bundið að komast frá Palestínu þrátt fyrir að vera búin að fá veitt dvalarleyfi hér á landi,“ segir í svarinu.
„Aðeins tæpur þriðjungur þeirra Palestínumanna sem hafa fengið veitt fjölskyldusameiningarleyfi á árinu eru þó komnir til landsins“
Mahmoud segist afar þakklátur Útlendingastofnun fyrir að hafa tekið umsókn hans um fjölskyldusameiningu hratt fyrir en hann biðlar til utanríkisráðuneytisins að taka síðasta skrefið, koma fjölskyldu hans frá Gasa.
„Ef það er mjög erfitt að koma þeim alla leið til Íslands strax, getið þið gert það fyrir mig að koma þeim alla vega í skjól, til dæmis til Egyptalands?“ spyr Mahmoud og beinir spurningu sinni til utanríkisráðherra.
7.000 börn drepin og börn Mahmouds eru enn á Gasa
Átök Ísrael og Palestínu ná áratugi aftur í tímann og verður sögu þeirra átaka ekki gerð skil hér. En átökin færðust verulega í aukana 7. október síðastliðinn þegar Hamas samtökin palestínsku réðust á Ísrael. Ísraelsk stjórnvöld brugðust hart við, svo hart raunar að fleiri en 7.000 börn hafa látist á Gasasvæðinu síðan. Aldrei hafa jafn mörg börn verið drepin í stríði. Samkvæmt ísraelskum fjölmiðlum hafa 33 ísraelsk börn verið drepin í átökunum.
Þó svo að Mahmoud, sem alinn er upp á Gasasvæðinu, hafi ítrekað séð hörð átök á Gasa áður þá var það mikið áfall fyrir hann að heyra fréttirnar þann 7. október
„Ég var í áfalli. Þetta var mjög erfitt,“ segir Mahmoud. „Ég var mjög hissa, rétt eins og margir aðrir Palestínumenn og Ísraelar.“
Ár teygðist í fimm, jafnvel sex
Mahmoud lagði land undir fót þann 13. júní árið 2018. Þá var fjárhagsstaða fjölskyldunnar verulega slæm. Mahmoud starfaði sem leigubílstjóri og átti sinn eigin bíl en seldi hann til þess að eiga fyrir ferðinni úr landi. Það var þó ekki nóg til þess að koma allri fjölskyldunni út og taldi hann jafnframt að ferðalagið yrði þeim of hættulegt.
Frá þungaðri eiginkonu sinni og þremur börnum fór Mahmoud til Tyrklands. Hann hafði aldrei áður farið út af Gasasvæðinu.
„Eiginkona mín samþykkti að ég færi því við héldum að það myndi ekki taka nema eitt ár fyrir okkur að hittast aftur,“ segir Mahmoud.
En það varð ekki raunin. Mahmoud var í Tyrklandi í tvo mánuði og fór svo með fjórtán flóttamönnum á litlum báti til Grikklands. Ferðin var erfið og hættuleg.
Hann var eitt ár í Grikklandi en var sífellt að leita leiða út því þar gat hann ekki fengið það sem hann þráði heitast: Fjölskyldusameiningu.
„Ég hefði frekar viljað fara aftur til Palestínu en að vera áfram í Grikklandi,“ segir Mahmoud.
Keyptu íslenskan fána og sögðu pabba sínum að drífa sig í öryggið
Hann ferðaðist til Belgíu og sótti þar um hæli en fékk neitun og var gert að fara aftur til Grikklands. Þegar hann kom aftur þangað talaði hann við fjölskyldu sína í gegnum síma.
„Reyndu að fara til Íslands,“ sagði Mai, elsta dóttirin, sem hafði fundið landið á netinu þegar hún leitaði að öruggasta landi heims. Eldri drengurinn hans veðraðist upp við uppgötvunina, öruggasta land heims var ekki nema í seilingarfjarlægð frá föður hans, og veifaði íslenska fánanum við hlið þess palestínska í símtölum til föðurins.
„Hann keypti sér jakka og teiknaði á hann íslenska fánann,“ rifjar Mahmoud upp.
Mahmoud, eins og allir venjulegir feður, hlýddi elstu dóttur sinni. Hann kom hingað til lands sjötta nóvember 2021. Útlendingastofnun hafnaði honum fyrst um sinn þar sem hann var þegar kominn með leyfi til þess að vera í Grikklandi. Hann kærði úrskurðinn og Kærunefnd útlendingamála komst að niðurstöðu í byrjun árs um að hér ætti hann að fá að vera. Fimmta apríl á þessu ári sótti hann um fjölskyldusameiningu. Svarið barst 13. nóvember síðastliðinn. Sameina átti fjölskylduna.
„Það skiptir ekki máli hvort það séu jól eða ramadan, ég get ekki verið glaður og tekið þátt í hátíðahöldum þegar ég er hér og börnin mín eru þar“
Mahmoud segist hafa orðið virkilega hamingjusamur þegar hann heyrði fréttirnar en svo tók við biðin. Bið sem hefur ekki enn tekið enda.
„Hvert sem ég fer er mér sagt að þetta sé úr þeirra höndum, það sé bara utanríkisráðuneytið sem getur breytt þessu. Ég biðla til utanríkisráðherrans að gera eitthvað svo hægt sé að flytja fjölskylduna mína frá Gasa,“ segir Mahmoud.
Fjölskyldan hans hefur mjög takmarkaðan aðgang að mat og drykkjarhæfu vatni.
„Konan mín sagði mér í gær: „Við höfum ekkert að borða. Hvað get ég gert? Hvernig get ég fætt börnin okkar?““
Mahmoud ákveður að hringja í konuna sína þegar viðtalið er um það bil hálfnað.
„Því miður er ekki hægt að ná í þetta númer,“ svarar sjálfvirkur símsvari. Mahmoud andvarpar. Slær inn símanúmer elstu dóttur sinnar. Sama sagan endurtekur sig.
Eyðir deginum í að fylgjast með fréttum
Síðan átökin fóru að færast í aukana í byrjun október hefur Mahmoud varla getað hugsað um neitt nema fjölskylduna sína og það hvernig þau hafi það.
„Nú sit ég hér með þér og veit ekkert um stöðuna hjá þeim,“ segir Mahmoud. „Ég eyði deginum í að fylgjast með fréttum af ástandinu eða reika um stefnulaust því ég hef ekkert án þeirra. Ég get ekki notið friðarins á Íslandi á meðan fjölskylda mín býr við stríðsástand.“
Mahmoud hafði áður mikinn áhuga á eldamennsku og bauð vinum sínum gjarnan í mat. En eftir að ástandið á Gasasvæðinu versnaði hefur hann varla borðað nokkuð nema skyndibita.
„Hugsanir um það hvernig ég geti komið þeim burt af Gasasvæðinu hafa tekið yfir huga minn. Ég get ekki sofið og hef grennst mikið.“
Mahmoud var vanur að fara út með börnunum sínum og skoða jólaljósin og jólatrén á þessum árstíma þegar hann bjó með þeim á Gasa. En hann tekur ekki eftir slíkum skreytingum í dag.
„Það skiptir ekki máli hvort það séu jól eða ramadan, ég get ekki verið glaður og tekið þátt í hátíðahöldum þegar ég er hér og börnin mín eru þar.“
Athugasemdir