Nú er vika frá því að 3.700 Íslendingar þurftu að flýja heimili sín vegna náttúruhamfara. Þá þegar höfðu öflugir skjálftar valdið skaða, ekki aðeins á verðmætum heldur sálarlífinu; ótta, óöryggi og vanlíðan. Það hefur afleiðingar þegar fólk stendur frammi fyrir raunverulegri ógn, sem felst ekki aðeins í því að missa heimili sitt heldur allt sem því fylgir.
Það sem þú missir þegar þú missir heimilið
Heimilið er athvarf hversdagsleika og rútínu. Það er þar sem þú vaknar á morgnana, kveikir á kaffivélinni, hleypir hundinum út og vekur krakkana í skólann. Þar sem stundatöflur hanga á ísskápnum og sundbolur dóttur þinnar liggur á ofninum, þú hjálpar syni þínum með stærðfræði og biður krakkana að fara frekar út með boltann. Þegar þú kemur heim úr búðinni með matarpokana, þarftu stundum að sparka skópörum frá útidyrahurðinni, því heimilið er fullt af lífi. Það er á heimilinu sem þú eldar fyrir fjölskylduna og smalar börnunum saman við matarborðið. Þar sem þú bakar pönnukökur á gleðistundum en líka þegar erfiðleikar steðja að. Þar sem þú hefur komið þér upp föstum hefðum fyrir jólin, sem eru endurteknar á hverju ári, þar til þær hafa fest rætur í sálarlífi barnanna, og vekja með þeim tilfinningu um að hér sé allt eins og á að vera og hér eigi þau heima. Þar sem þau vita að þau eru örugg, sama hvað gengur á.
Þú bölvar kannski upphátt eða í hljóði þegar unglingspiltar öskra á tölvuna í miðjum hasarleik eða yfir draslinu sem krakkarnir skilja eftir sig, en finnur samt hvað það er dýrmætt að eiga heimili fyrir fjölskylduna, þar sem þú geymir allar þessar myndir og minningar. Hér eru erfðagripir fjölskyldunnar, fyrsta gjöfin sem þú fékkst frá makanum, teikningar frá börnunum.
Heimilið er heilagt, öruggt skjól, sem við mótum eftir okkar þörfum og deilum með nánustu fjölskyldu og vinum. Staður þar sem við getum verið við sjálf og hvílt í þægindarammanum, hjálpast að og tekist á við skóla lífsins, tilfinningar okkar og hugsanir. Heimilið er grunnurinn þar sem allt hefst, merki um framtíð, því það er þá fyrst sem við eigum öruggt athvarf og þurfum ekki að hafa áhyggjur af því hvar við dveljum viku eftir viku sem við getum farið að horfa til þess hvert við viljum skapa.
Heimili okkar eru alls konar, en sama hvernig þau eru þá eru þau okkar skjól og helgidómur. Það er þetta sem 3.700 Íslendingar misstu um síðustu helgi. Sem stendur viðhefst fjöldi fólks í tímabundnu húsnæði, í fullkominni óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér. Og það hefur afleiðingar þegar vegið er að öryggiskenndinni.
Á slíkri stundu er mikilvægt að skilaboð stjórnvalda séu skýr: Að staðið verði vörð um fólkið sem þarna býr. Fólk sem er ekki aðeins að missa aðgengi að heimili sínu, heldur er allt samfélagið undir. Leikskóli, grunnskóli og frístund, íþróttafélög og tómstundastarf barnanna. Íþróttahúsið, sparkvöllurinn og sundlaugin. Allir þessir þættir sem gera samfélag að samfélagi, og það að verkum að þú tilheyrir einhverju öðru og meira en þinni nánustu fjölskyldu, sért til í stærra samhengi. Félagsleg tengsl og nærvera nágranna, vina og vandamanna. Vinnustaðir, sem eru nú óstarfhæfir.
Því miður hafa þessi skilaboð ekki verið skýr.
Skilaboð til íbúa
„Í Grindavík verður áfram blómleg byggð,“ sagði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, þegar hann ávarpaði íbúa Grindavíkur á samverustund í Hallgrímskirkju síðastliðinn sunnudag. Orð Guðna eru vel meint, sögð af hlýjum hug, ætlað að veita hvatningu um að halda í von og trú um að allt verði í lagi, þótt óvíst sé hvort eldur muni rísa eða hraun flæða. Nú þegar hafa mikilvægir innviðir laskast og samfélagið er lamað.
Enn sem stendur er ekki vitað nákvæmlega hver skaðinn er eða verður. En það sem er þó vitað er að hyldýpi hafa myndast í bænum, vegir hafa farið í sundur, vatnsskemmdir hafa orðið, stór hluti bærinn varð rafmagnslaus, auk þess sem hús eru víða illa farin og hafa tapað verðgildi sínu.
Jafnvel þótt íbúar í Grindavík geti snúið aftur heim, þá verður ekkert samt aftur. Meðvitundin er til staðar og mun líklega seint hverfa frá fólki, um að byggðin liggur ofan á sprungusvæði, þar sem jörð hefur opnast og hluti bæjarins sokkið niður í sigöldu, á virku eldgosasvæði, þar sem ekkert er vitað um hvar eða hvernig gos getur risið.
Næst bárust íbúum í Grindavík skilaboð frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands: „Óheimilt er að gera nýja vátryggingarsamninga eða breyta eldri samningum um eignir á þeim stað eða svæði, sem í hættu er.“
Hvað rekstur fyrirtækja varðar var áréttað: „Því miður fellur tjón af völdum eldgoss eða náttúruhamfara ekki undir rekstrarstöðvunartryggingu og fæst tjón af þeim völdum því ekki bætt.“
Samtök atvinnulífsins sendu hins vegar frá sér stuðningsyfirlýsingu til atvinnurekenda: „Grindavík – við erum til staðar“, þar sem bent var á að „þegar náttúruhamfarir stöðva starfsemi fyrirtækis, þá verður því ekki gert að efna samningsskuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki.“ Um leið og bent var á að þótt atvinnurekandi hefði fellt starfsfólk af launaskrá þá væri honum eftir sem áður heimilt að segja starfsfólki upp störfum. „Laun eru ekki greidd á uppsagnarfresti“ ef skilyrði um náttúruvá væru til staðar.
Daginn eftir greindu ráðherrar síðan frá því að verið væri að vinna að frumvarpi sem fæli í sér tímabundinn stuðning ríkisins til að „auðvelda atvinnurekendum að greiða starfsfólki sínu laun sem vinnur á því svæði sem rýmt hefur verið“. Tekið er mið af aðgerðum sem ráðist var í vegna heimsfaraldurs, þar sem laun starfsfólks voru að hluta greidd úr ríkissjóði.
Vinnumálastofnun gaf það síðan út að í ljósi aðstæðna myndu umsóknir um atvinnuleysisbætur gilda frá því að almannavarnir ákváðu að rýma bæinn.
Stjórnmálamenn kappkosta við að þakka þjóðinni fyrir samstöðu og skjót viðbrögð þegar mikið liggur við. Einstaklingar opnuðu heimili sín fyrir fólki á flótta frá Grindavík og reyndu að sýna stuðning í verki. Nú bíðum við eftir því að stjórnvöld taki málin í sínar hendur og fullvissi fólk um að um það verði slegin skjaldborg og því verði tryggt öruggt húsnæði til framtíðar.
Það sem var vitað
„Grindavík er eina þéttbýlið á Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns sem er útsett fyrir hraunvá. Í ljósi þess að síðustu þrjú gos á Reykjanesskaga áttu sér stað í Fagradalsfjalli er það einnig líklegur hraunrennslisstaður.“
Síðasta sumar sendi Veðurstofan frá sér langtímahættumat Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns vegna hrauns-, gasmengunar- og gjóskufallsvár. Áhersla var á hve útsett eða berskjölduð svæði eru fyrir hraunrennsli, gjóskufalli og gasmengun frá eldsumbrotum innan eldstöðvakerfa á Reykjanesskaga. Sérstaklega var litið til þéttbýlis, virkjana og iðnaðarsvæða, fjölsóttra ferðamannastaða og neysluvatns. „Bláa lónið, virkjanir í Svartsengi og á Reykjanesi og vatnstökusvæði í Lágum eru útsett fyrir hraunrensli.“
Allt sem er að gerast núna lá fyrir að gæti gerst: „Innviðir á Reykjanesskaga sem geta orðið fyrir áhrifum af eldgosum á skaganum eru þéttbýli og allar tegundir innviða,“ segir meðal annars í skýrslu starfshóps á vegum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem var stofnaður árið 2021.
Þótt sú vitneskja hafi verið fyrir hendi að möguleikinn væri til staðar, höfum við kannski ekki viljað trúa því að hann gæti raungerst: „Passa verður að leggja ekki ofuráherslu á dekkstu sviðsmyndir því það getur orðið til þess að skipulagðar mótvægisaðgerðir verði of miklar,“ segir í hættumati Veðurstofunnar.
Á móti segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur að „þegar maður hugsar svona atburði þá verðum við að taka tillit til allra sviðsmynda, jafnvel þótt okkur lítist ekki á hana“.
Í hættumatinu er hins vegar bent á að goslotur eða eldar gangi yfir öll kerfi Reykjanesskagans á svipuðum tíma og myndi eins konar hrinur. Og að í ljósi eldgosasögunnar sé nýtt gostímabil hafið á Reykjanesskaganum, sem hófst með eldgosinu í Fagradalsfjalli árið 2021. Því hafi verið aðkallandi að koma viðbrögðum við eldgosi á Reykjanesskaga inn í langtímaaðgerðir: „Samfélagið á skaganum þarf að aðlagast nýjum veruleika og búa sig undir að lifa eðlilegu lífi með aukinni skjálftavirkni og endurteknum innskotstímabilum sem geta staðið yfir í vikur, mánuði og jafnvel ár.“
En það liggur fyrir að þegar kemur að gerð áhættumats stendur Ísland höllum fæti í samanburði við Norðurlöndin. Þótt hér séu 32 virk eldstöðvakerfi er eldgosamati langt frá því að vera lokið og hættumat fyrir jarðskjálftavá hefur ekki verið unnið.
Fleiri svæði eru undir en Reykjanesið. Ákveðin svæði á höfuðborgarsvæðinu eru einnig innan áhrifasvæða virkra eldsstöðva. Eins og segir í hættumati Veðurstofunnar: „Mikilvægt er að almenningur í landinu geri sér grein fyrir þeim hættum sem fylgja því að búa í nágrenni við virkar eldstöðvar.“
Þegar það á að róa umræðuna
Í ljósi þessarar vitneskju má velta því upp hvort stjórnvöld hafi verið nægilega vel undirbúin þegar hætta steðjaði að. Í aðdraganda rýminga bárust misvísandi skilaboð um hvort og hversu mikil hættan væri.
Á meðan prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands sagði strax mánudaginn 6. nóvember að hraun gæti náð Bláa lóninu á þremur mínútum voru ferðamenn ekki upplýstir um stöðuna. „Það sem við vissum ekki var að skjálftarnir væru tilkomnir vegna kvikuinnskots við Bláa lónið. Við vorum í sjokki yfir því að Bláa lónið hefði ekki sent tölvupóst til að vara okkur við,“ skrifaði ein á Reddit. Önnur lýsti áfallinu sem hún varð fyrir þegar stór skjálfti reið yfir þegar hún var rétt nýkomin inn í bygginguna. „Það kallaði fram endurminningar frá 9/11 og ég var í uppnámi.“ Aðrir lýstu því hvernig hluta lónsins hefði verið lokað, starfsfólk beðið gesti að varast að fara of nærri steinveggjum og hefði virst áhyggjufullt yfir viðveru sinni á svæðinu. Einn sagðist þó hafa fengið annað viðmót í afgreiðslunni: „Ég spurði manneskjuna í afgreiðslunni út í möguleika á eldgosi og hún sagði: Ekki hafa áhyggjur, við erum með plan.“
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum sagði óábyrgt að halda lóninu opnu og framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu brást við með því að segja að orð lögreglustjórans væru óheppileg. „Það er aldrei gott þegar það er misræmi í skilaboðum.“ Kynnisferðir ákváðu að hætta akstri að Bláa lóninu, umhverfisverkfræðingur skoraði á fyrirtækið að loka, en framkvæmdastjórinn sagðist fylgja mati sérfræðinga. Rúmum sólarhring síðar var lóninu lokað eftir að hótelgestir flúðu óttaslegnir þaðan að næturlagi vegna öflugra jarðskjálfta.
HS Orka dró úr viðveru starfsmanna á Svartsengi, en formaður Landsbjargar varaði við því að alið yrði á ótta: „Það eru bara hamfaraspár í fréttum. Þá fer fólk að hugsa hvað þau eigi að gera á meðan það er kannski óþarfi.“ Víðir Reynisson tók í sama streng, þegar hann sagðist óhikað sofa í Grindavík.
Daginn eftir sagði eldfjalla- og jarðefnafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands það dagaspursmál hvenær færi að gjósa, að ákvarðanafælni ríkti í viðbrögðum stjórnvalda og ef hann fengi að ráða væri búið að lýsa yfir hættustigi, steig almannatengill fram og sagði að það væri „þunn lína á milli þess að fræða og hræða“. Vísindamenn hefðu farið yfir þá línu. Síðar sama kvöld var búið að rýma Grindavík.
„Þetta var orðið rosalega hættulegt ástand,“ sagði Sólný Pálsdóttir, íbúi í Grindavík, í viðtali við RÚV í vikunni. Sagðist hún þurfa að vinna úr því að fjölskyldan hefði átt að vera löngu farin frá svæðinu. Íbúar voru farnir að kalla eftir rýmingu þegar hún hófst á föstudagskvöldi, þegar ljóst varð að kvikugangur lá undir bænum.
Það sem er varið
Í kjölfarið héldu íbúar áfram að fá misvísandi skilaboð um hvort, hvenær og hversu lengi þeir fá að fara inn á hættusvæði til að bjarga helstu nauðsynjum. Á meðan tölvupóstur barst frá Almannavörnum að kvöldi um að íbúar fengju að fara í tíu manna teymum inn á hættusvæði til að bjarga öllum verðmætum, voru skilaboðin allt önnur næsta morgun. Aðeins einn frá hverju heimili fékk að fara inn á skilgreint hættusvæði, í takmarkaðan tíma í senn. Enn eru síðustu íbúar að vonast eftir því að fá að fara inn eftir nauðsynjum.
Allan þennan tíma hefur forsætisráðherra haldið sig fjarri vettvangi atburða. Í stað þess að klæða sig í úlpu og setja á sig húfu og taka á móti fólki við lokunarpósta, og senda þannig skýr skilaboð um samhug og samstöðu, voru fyrstu viðbrögð forsætisráðherra að leggja fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um frekari skattlagningu á heimilin í landinu til að bjarga fyrirtækjum í eigu einkaaðila sem hafa verið að skila milljarða hagnaði á undanförnum árum.
Strax á föstudag lýsti dómsmálaráðherra því yfir að ríkisstjórnin hefði samþykkt að hefja tafarlaust vinnu við varnargarða, því ekki væri hægt að bíða eftir að frumvarp þess efnis yrði tilbúið, eða samþykkt. Sjálf sat dómsmálaráðherra í stjórn Bláa lónsins, auk þess sem eiginkona annars ráðherra í ríkisstjórn er hluthafi og stjórnarmaður í fyrirtækinu, sem á að verja varnargörðum.
Áætlað er að kostnaður við uppbyggingu varnargarðs sé áætlaður 2,5 milljarðar króna. Til samanburðar fjárfesti Bláa lónið fyrir 13 milljarða í innviðum á árunum 2014 til 2018, til að tvöfalda stærð baðlóns, reisa fimm stjörnu hótel, Michelin-veitingastað og fjölbýlishús fyrir starfsfólk í Grindavík. Þetta var gert án þess að fyrirtækið safnaði skuldum, enda hefur fyrirtækið í gegnum tíðina lagt áherslu á að eiga mikið eigið fé og sterka lausafjárstöðu. „Reksturinn er einkar arðbær,“ sagði Grímur Sæmundsen, í viðtali árið 2019. Fram kom að veltan árið áður tvöfaldaðist á milli ára, nam 17 milljörðum og hluthafar fengu 4,1 milljarð í arð. Eiginfjárstaða Bláa lónsins var 12,4 milljarðar þegar heimsfaraldur skall á og fyrirtækið nýtti sér hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar, sem þýddi að ríkið greiddi 75 prósent launa 400 starfsmanna. Á meðan faraldrinum stóð fjárfesti Bláa lónið hins vegar í frekari innviðauppbyggingu. „Félagið hefur lagt aukna áherslu á uppbyggingu á heilsutengdri ferðaþjónustu víðs vegar um landið,“ skrifaði Grímur Sæmundsen í ársskýrslu Bláa lónsins 2022, en þar vísar hann meðal annars til jarðbaðanna í Mývatni og Húsavík, Vök Baths, Fontana á Laugarvatni og lúxusáfangastaða í Kerlingarfjöllum og Þjórsárdal. Á síðasta ári hagnaðist Bláa lónið um tvo milljarða, en áætlanir gera ráð fyrir „áframhaldandi bata í rekstri, auknum tekjum, bættri afkomu og að fjárhagsstaða félagsins verði áfram sterk“.
Undir eru mikilvægir innviðir sem vert er að verja, en HS Orka er eina íslenska orkuverið sem er í eigu einkaaðila, sem hafa greitt sér 33 milljarða út úr fyrirtækinu á síðustu sex árum. Engin krafa er gerð um þátttöku þessara fyrirtækja í kostnaði, sem er þess í stað velt yfir á heimilin, sem glíma nú þegar við þungar byrðar. Ef fjárheimildir ríkissjóðs duga ekki til gagnvart náttúruvá, þá getur ríkissjóður á grundvelli laga um opinber fjármál nýtt almennan varasjóð ríkisins, sem meðal annars er ætlað að mæta slíkum útgjöldum, segir í skýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið í apríl. „Framlög úr varasjóði ríkisins eru til að bregðast við óvæntum atburðum, svo sem eldgosinu í Holuhrauni, snjóflóðunum á Flateyri og Súgandafirði, aurskriðunum á Seyðisfirði og eldsumbrotunum á Reykjanesi.“
Á sunnudegi var áréttað enn á ný að varnargarðarnir væru í forgangi, jafnvel þótt sérstaklega sé tekið fram í hættumati Veðurstofunnar að „erfitt sé og ómarkvisst“ að byggja varnargarða fyrir fram „því óvíst er hvar gosupptök verða“. Vinna við varnargarða er engu að síður hafin, en um er að ræða „tröllvaxið“ verkefni, fjögur hundruð þúsund rúmmetra garð í kringum orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið.
Þegar framtíðin rennur upp
Nú þarf að reisa varnargarða um íbúa Grindavíkur.
Óháð því hvort gos hefst í Grindavík eða ekki hefur samfélagið orðið fyrir áfalli. Fram undan er endurreisn og uppbygging. Ef allt fer á besta veg hefst hún í Grindavík á næstu dögum. Fyrst um sinn mun lífið snúast um að endurheimta heimilið og öryggistilfinninguna, hversdagslífið og rútínuna. Á meðan geta liðið margar vikur eða mánuðir áður en hægt verður að átta sig á heildaráhrifunum.
Það á líka við um sálrænan skaða, sem getur orðið af slíkum áföllum.
Þangað til verða stjórnvöld að halda þétt utan um þennan hóp og tryggja nauðsynlegan stuðning, sem og samfélagið allt.
Athugasemdir