Utanríkisráðuneytið segir að ákvörðun Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra um að Ísland myndi sitja hjá í atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé á Gaza hafi legið fyrir klukkan 17:12 á föstudag, 27. október. Þá var liðinn einn klukkutími og 28 mínútur frá því að ráðuneytið sendi honum gögn, meðal annars um afstöðu annarra ríkja sem var að mótast á þeim tíma.
Forsætisráðuneytið var upplýst óformlega um afstöðu Íslands kl. 18:17 og voru upplýsingar um afstöðu utanríkisráðherra, gögn, atkvæðaskýringar og texti ályktunarinnar, send ráðuneytinu kl. 18:41
Forsætisráðuneytið, sem stýrt er af Katrínu Jakobsdóttur, „var upplýst óformlega um afstöðu utanríkisráðherra klukkan 18:17 og voru upplýsingar um afstöðu utanríkisráðherra, gögn, atkvæðaskýringar og texti ályktunarinnar, send [forsætis]ráðuneytinu klukkan 18:41,“ þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Heimildarinnar um málið. Forsætisráðuneytið var því samkvæmt þessu upplýst óformlega um afstöðu Bjarna 43 mínútum áður en fundurinn í allsherjarþinginu, þar sem atkvæðagreiðslan fór fram, hófst. Það fékk auk þess allar upplýsingar sendar 19 mínútum fyrir upphaf fundarins.
Atkvæðagreiðslan um ályktunina um vopnahléið fór svo ekki fram fyrr en 19:49. Þá var liðinn rúmlega einn og hálfur klukkutími frá því að forsætisráðuneytið var upplýst óformlega um að Bjarni hefði mótað sér þá afstöðu að Ísland myndi sitja hjá og rúmur klukkutími liðinn frá því að ráðuneytið fékk sendar upplýsingar um afstöðu utanríkisráðherra, gögn, atkvæðaskýringar og texta ályktunarinnar frá utanríkisráðuneytinu.
Þetta kemur einnig fram svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Heimildarinnar sem spurði meðal annars hvort ráðuneytið gæti staðfest þá fullyrðingu Bergþóru Benediktsdóttur, aðstoðarmanns forsætisráðherra, að Katrín hafi fengið tölvupóst um afstöðu Bjarna ellefu mínútum áður en atkvæðagreiðslan hófst.
Katrín sagði í kvöldfréttum RÚV á sunnudag að ekkert samráð hafi verið haft við hana um þá ákvörðun að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni. Þar var hún spurð hvernig henni hafi orðið við þegar hún frétti af þessari niðurstöðu: að Ísland hefði setið hjá. Forsætisráðherra svaraði: „Kannski var ég bara að vona að það hefði náðst saman.“
Í svari sem Bergþóra sendi Heimildinni í dag segir að Katrín hafi verið upplýst um niðurstöðu Bjarna klukkan 18:49 síðastliðinn föstudag og að þær upplýsingar hafi borist í tölvupósti frá alþjóðafulltrúa forsætisráðuneytis. „Forsætisráðherra sá póstinn eftir að atkvæðagreiðsla var hafin en ekki var óskað eftir afstöðu hennar til þessarar afstöðu utanríkisráðuneytisins. Því liggur algjörlega ljóst fyrir að ekki var haft sérstakt samráð við forsætisráðherra um þessa afstöðu.“
Frumdrögum að ályktun Jórdaníu var dreift á miðvikudag
Síðustu daga hefur ákvörðun Íslands um að sitja hjá við afgreiðslu tillögu Jórdaníu um vopnahlé á Gaza vakið miklar umræður, sérstaklega eftir að þingflokkur Vinstri grænna, flokksins sem forsætisráðherra leiðir, sendi frá sér yfirlýsingu á laugardag þar sem hann lýsti sig ósammála hjásetu Íslands við atkvæðagreiðsluna. Þingflokkurinn teldi að Ísland hefði átt að greiða atkvæði með tillögunni um vopnahlé. Tillagan, sem var ekki bindandi, var samþykkt með 120 atkvæðum gegn 14. Alls sátu 45 lönd hjá.
Í tilkynningu sem birtist á vef stjórnarráðsins á föstudagskvöld kom fram að Kanada hefði lagt fram breytingartillögu þess efnis að í ályktuninni sem átti að samþykkja yrði bætt við málsgrein þar sem hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael sem hófst 7. október yrði fordæmd. Um þá breytingartillögu náðist ekki sátt og ákveðið var að kjósa um tillögu Jórdaníu án hennar. Þá tók Bjarni Benediktsson þá ákvörðun að styðja ekki tillögu Jórdaníu og að Ísland myndi sitja hjá.
Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Heimildarinnar kemur fram að málið hafi átt sér töluvert lengri aðdraganda en áður hefur komið fram. Frumdrögum að ályktun Jórdaníu fyrir neyðarfundinn sem fram fór á föstudag var dreift til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna á miðvikudag í síðustu viku. Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum sendi þau til utanríkisráðuneytisins um hádegi að staðartíma, eða um fimmleytið að íslenskum tíma. „Afstaða líkt þenkjandi ríkja lá þá ekki fyrir en gert var ráð fyrir að textinn tæki mögulega breytingum og að breytingartillögur yrðu lagðar fram við hann. Hvort tveggja varð raunin.“
Að morgni fimmtudagsins 26. október hafi svo neyðarumræða allsherjarþingsins hafist og síðdegis þann dag bárust uppfærð drög að ályktun Jórdaníu. „Hún var send til utanríkisráðuneytisins kl. 20 að íslenskum tíma. Síðar um kvöldið barst fastanefnd breytingartillaga Kanada.“
Segja ekki venju fyrir samráði ráðuneytanna
Í upphafi dags föstudaginn 27. október að staðartíma, eða um miðjan dag á íslenskum tíma, lá fyrir að ekki yrðu frekari breytingar á tillögu Jórdaníu og voru breytingartillaga Kanada og tillaga Jórdaníu sendar utanríkisráðuneytinu kl. 13:20 að íslenskum tíma. „Í kjölfarið var efni tekið saman fyrir utanríkisráðherra, þar með talið afstaða annarra ríkja sem var að mótast á þessum tíma, og honum send gögn kl. 15:44. Ákvörðun ráðherra lá fyrir kl. 17:12. Var þá unnið að lokadrögum atkvæðaskýringar. Forsætisráðuneytið var upplýst óformlega um afstöðu Íslands kl. 18:17 og voru upplýsingar um afstöðu utanríkisráðherra, gögn, atkvæðaskýringar og texti ályktunarinnar, send ráðuneytinu kl. 18:41. Fundurinn í allsherjarþinginu hófst klukkan 19 að íslenskum tíma, en atkvæðagreiðslan um sjálfa ályktunina fór fram kl. 19:49.“
Lokadrög að ályktun Jórdaníu og tillaga Kanada lágu hins vegar ekki fyrir í endanlegri mynd þegar ríkisstjórnarfundur fór fram á föstudagsmorgun, en málið var ekki eitt þeirra sem var þar á dagskrá.
Utanríkisráðuneytið segir að það sé „ekki venja fyrir samráði ráðuneytanna um einstakar ályktanir allsherjarþingsins. Mestu máli skiptir að samstaða er um afstöðuna eins og hún er sett fram í atkvæðaskýringu fastanefndar. Íslensk stjórnvöld munu áfram beita sér fyrir tafarlausu mannúðarhléi, greiðum aðgangi fyrir mannúðaraðstoð og nauðþurftir, að komið verði á friði og byggt á tveggja ríkja lausninni. Þá gerir Ísland skýra kröfu til Ísraels og allra stríðandi aðila um að farið sé að mannúðarlögum. Fyrir þessu verður áfram talað af fullum þunga.“
Einstakt tilvik
Þótt ekki sé venja fyrir slíku samráði er atburðarásin sem varð á föstudag óvenjuleg. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, sagði í Morgunblaðinu í dag að utanríkisráðuneytið færi almennt ekki gegn forsætisráðherra og að hann myndi ekki eftir sambærilegu tilviki við þetta sem nú er upp komið.
Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur og prófessor emeritus við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, sagði við Heimildina í dag að það sé hefðbundið í íslenskri pólitík að ráðherrar hafi haft tiltölulega mikið sjálfræði um sín mál, en í raun sé það þannig að öll ríkisstjórnin ber pólitíska ábyrgð á öllum pólitískum verkum einstakra ráðherra. „Og það er að minnsta kosti óvenjulegt að þingflokkur ríkisstjórnarflokks láti í ljós óánægju sína með jafn skýrum hætti.“
Mossad ásamt Ísraelstjórn vissu og aðstoðuðu Hamas til að komast inn til Ísraels, það er ekki fræðilegur möguleiki að allir þessir hermenn Hamas kæmust inn nema með aðstoð æðstu stjórnenda Ísraels.