Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Meirihlutinn í borginni heldur, Vinstri græn eru að þurrkast út og Framsókn í frjálsu falli

Næst­um 60 pró­sent íbúa Reykja­vík­ur eru óánægð­ir með störf meiri­hlut­ans í borg­inni en óánægj­an með minni­hlut­ann mæl­ist líka mik­ið, eða um 50 pró­sent. Þrír af fjór­um flokk­um sem mynda meiri­hlut­ann hafa bætt við sig fylgi á kjör­tíma­bil­inu þrátt fyr­ir þessa stöðu og hægt væri að end­ur­nýja sam­starf þeirra ef kos­ið yrði í dag.

Meirihlutinn í borginni heldur, Vinstri græn eru að þurrkast út og Framsókn í frjálsu falli
Tekur bráðum við Einar Þorsteinsson tekur við embætti borgarstjóra af Degi B. Eggertssyni í janúar. Enginn flokkur í borginni hefur tapað jafn miklu fylgi það sem af er kjörtímabili og flokkur Einars, Framsóknarflokkurinn. Mynd: Bára Huld Beck

Fylgi meirihlutans sem myndaður var eftir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavíkurborg í fyrravor mælist nú 53,7 prósent. Það er aðeins minna en flokkarnir fjórir sem hann mynda: Samfylkingin, Framsóknarflokkur, Píratar og Viðreisn, fengu í síðustu kosningum þegar 55,8 prósent atkvæða féllu þeim í té. 

Töluverð tilfærsla hefur hins vegar orðið á fylginu, samkvæmt nýbirtum Borgarvita Maskínu, sem kannaði fylgi flokkanna í Reykjavík í ágúst síðastliðnum. Framsóknarflokkurinn, sem vann mikinn kosningasigur á síðasta ári og fékk 18,7 prósent greiddra atkvæða, mælist nú minnstur þeirra allra með einungis 6,1 prósent fylgi. Tveir af hverjum þremur kjósendum sem kusu flokkinn síðast myndu ekki gera það í dag. Það breytir því þó ekki að oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, Einar Þorsteinsson, mun taka við embætti borgarstjóra í janúar næstkomandi í samræmi við samkomulag sem gert var við myndun hins nýja meirihluta. 

Hinir þrír flokkarnir sem mynda meirihlutann hafa allir bætt við sig fylgi það sem af er kjörtímabili. Samfylkingin mælist stærsti flokkur höfuðborgarinnar með 25,9 prósent fylgi, sem er 5,6 prósentustigum meira en hún fékk í fyrravor. Píratar hafa bætt við sig tveimur prósentustigum og njóta nú stuðnings 13,6 prósent kjósenda og Viðreisn mælist með 8,1 prósent fylgi, sem er 2,9 prósentustigum meira en flokkurinn fékk síðast þegar það var kosið. 

Sjálfstæðisflokkur í kjörfylgi en Vinstri græn eru að hverfa

Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkurinn í minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur, mælist með nánast sama fylgi og hann fékk í síðustu kosningum, eða 25 prósent. Sósíalistaflokkur Íslands hefur bætt mestu við sig af minnihlutaflokkunum, fer úr 7,7 í 10,1 prósent, og Flokkur fólksins fer úr 4,5 í 6,1 prósent. 

Þá vantar einn flokk sem náði inn í borgarstjórn í síðustu kosningum: Vinstri græn. Eyðimerkurganga þeirra í höfuðborginni virðist engan endi ætla að taka, en flokkurinn gaf ekki kost á því að halda áfram meirihlutasamstarfi eftir síðustu kosningar í kjölfar þess að hann fékk einungis fjögur prósent atkvæða. Síðan þá hefur staða Vinstri grænna, í helsta vígi flokksins þar sem hann fékk hæst hlutfall atkvæða í síðustu þingkosningum og þar sem Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir eru að fleti í landsmálunum, versnað. Fylgi þeirra mælist nú einungis 2,7 prósent sem er ansi langt frá því að duga til að ná inn borgarfulltrúa. 

Eini flokkurinn sem spurt var um í könnun Maskínu sem mælist með sambærilegt fylgi er Miðflokkurinn, sem náði ekki inn í kosningunum 2022, en alls segjast 2,3 prósent aðspurðra styðja þann flokk. 

Mikil munur milli borgarhluta

Niðurstöðurnar eru athyglisverðar í því ljósi að þeim fjölgar nokkuð sem finnst meirihlutinn vera að standa sig illa, þrátt fyrir að hann tapi litlu sem engu fylgi og haldi samkvæmt könnuninni. Í desember í fyrra sögðu 47 prósent að hann stæði sig illa en það hlutfall er nú komið upp í 59 prósent. Alls 15 prósent telja meirihlutann vera að standa sig vel sem er sjö prósentustigum minna en í desember í fyrra. 

Aðspurðir virðast heldur ekki vera sérstaklega hrifnir af minnihlutanum í borgarstjórn. Einungis tíu prósent telja að hann sé að standa sig vel en 49 prósent telja hann standa sig illa. 

Mest ánægja með Sönnu

Í könnuninni var líka spurt um afstöðu fólks til starfa borgarstjórans í Reykjavík, Dags B. Eggertssonar, sem hefur gegnt starfinu í rúman áratug. Niðurstaðan var sú að 55 prósent voru óánægð með störf hans. 

Skoðun fólks á frammistöðu borgarstjóra skiptist mjög eftir borgarhlutum. Óánægjan er mun meiri í þeim hverfum sem eru austan Elliðaáa, en þar segjast tveir af hverjum þremur vera óánægðir með störf Dags. Í miðborginni og Vesturbænum var mun meira jafnvægi milli skoðunar fólks á frammistöðu hans, en 35 prósent íbúa þar töldu hann standa sig vel á meðan að 37 prósent voru á öndverðu meiði. Mitt á milli voru svo íbúðar Hlíða, Laugardals, Háaleitis og Bústaðarhverfis þar sem 31 prósent var ánægt með borgarstjórann en 46 prósent óánægt. 

Sá borgarfulltrúi sem flestir töldu að hafi staðið sig vel það sem af er kjörtímabili er Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, en 19,2 prósent nefndu hennar nafn. Alls 13 prósent nefndu Dag og 11,2 prósent Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins. Aðrir borgarfulltrúar nutu minni stuðnings. 

Einungis sex prósent nefndu verðandi borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, þegar spurt var um þann borgarfulltrúa sem best hefði staðið sig frá síðustu kosningum.

Kjósa
48
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár