Þessi grein birtist fyrir rúmlega 9 mánuðum.

Snemmbúin arðgreiðsla frá Orkuveitunni gjörbreytti uppgjöri Reykjavíkurborgar

Tap þess hluta rekst­urs Reykja­vík­ur­borg­ar sem fjár­magn­að­ur er með skatt­fé var mun minna á fyrstu sex mán­uð­um árs­ins en það var á fyrstu þrem­ur mán­uð­um árs­ins. Ástæð­an er ekki stór­kost­leg­ur við­snún­ing­ur í und­ir­liggj­andi rekstri höf­uð­borg­ar­inn­ar held­ur það að 5,1 millj­arða króna arð­greiðsla frá Orku­veitu Reykja­vík­ur, sem borg­in á að stærst­um hluta, var fyrr á ferð­inni en venja er fyr­ir.

Tap A-hluta Reykjavíkurborgar, þess hluta reksturs hennar sem rekinn er fyrir skattfé, var 921 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Sú upphæð kom ef til vill mörgum í opna skjöldu, enda tapaði borgin 2,2 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins og fátt í því efnahagslega umhverfi sem nú geisar sem benti til þess að mikill viðsnúningur væri í kortunum sem myndi skila umtalsvert jákvæðri rekstrarniðurstöðu á öðrum ársfjórðungi. 

Í tilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi til fjölmiðla var lögð áhersla á, að venju, að borgin væri að vaxa úr vanda síðustu ára. Ástæða þess að borgin stæði frammi fyrir áskorunum í rekstri væri annars vegar verðbólga og vaxtahækkanir sem hún hefur leitt af sér, sem hafi aukið fjármagnskostnað, aðallega vegna verðtryggðra lána, um marga milljarða króna. Hins vegar væri um að ræða þann halla sem er á rekstri á málaflokki fatlaðra, en hann var 4,8 milljarðar króna á fyrri hluta árs. 

Ýmislegt í árshlutareikningum benti þó til þess að borgin sé að snúa við blaðinu. Handbært fé sem nýtanlegt er í reksturinn hækkaði um 9,8 milljarða króna og veltufé frá rekstri var jákvætt um 7,8 prósent. Veltufjárhlutfall borgarinnar, sem er einn mikilvægasti mælikvarðinn sem notaður er til að skoða hvort sveitafélag ráði við skuldastöðu sína, batnaði meira að segja frá lokum mars og út júní eftir að hafa verið að lækka. Það fór úr 1,07 í 1,16 á sex mánuðum, en þumalputtareglan er að mikilvægt sé að það sé yfir 1,0. 

Þegar árshlutareikningurinn sjálfur og skýrsla fjármála- og áhættustýringasviðs Reykjavíkurborgar eru lesin kemur hins vegar í ljós hvað veldur. Í síðarnefnda plagginu segir að töluverður viðsnúningur hafi orðið á veltufé frá rekstri í samanburði við tvö árin á undan. Það hafi verið jákvætt um 6,8 milljarða króna í lok júní 2023 en neikvætt um 4,5 milljarða króna ári áður. Það sem skýrir þessa breytingu að langstærstum hluta er eftirfarandi: arðgreiðsla frá Orkuveitu Reykjavíkur, sem nam 5,1 milljarði króna, var fyrr á ferðinni í ár en á fyrri árum. Auk þess var arðgreiðslan um hálfum milljarði króna yfir áætlunum og 1,4 milljarði krónum hærri en arðgreiðslan sem barst til borgarinnar frá Orkuveitunni í fyrra. 

Án arðgreiðslunnar hefði tapið á fyrri hluta verið yfir sex milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2023. Það er vissulega minna en þeir 8,9 milljarðar króna sem borgin tapaði í fyrra, en viðsnúningurinn er ekki á pari við það rekstrarniðurstaðan ein og sér benti til. 

Selja Perluna

Þrátt fyrir allt var rekstrarniðurstaðan, að teknu tilliti til arðgreiðslunnar frá Orkuveitunni, lakari en lagt var upp með. Fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir afgangi upp á 857 milljónir króna. Því er rekstrarniðurstaðan 1,8 milljarði krónum frá því sem stefnt var að. Búast má við því að tapið á seinni hluta árs verði umtalsvert meira en það var á fyrri hlutanum í ljósi þess að Orkuveitan greiðir borginni bara arð einu sinni á ári.  Skatttekjur voru ásamt öðrum tekjum 4,5 milljarða króna yfir áætlun á fyrri hluta árs. Frávik í rekstrargjöldum voru 5,1 milljarðar króna yfir áætlun og þar af var frávik í rekstri skóla- og frístundasviðs 2,3 milljarðar króna.

KennileitiPerlan er einn helsti viðkomustaður erlendra ferðamanna í Reykjavík.

Þessari stöðu virðist borgin ætla að mæta, að minnsta kosti að einhverju leyti, með sölu eigna. Nánar tiltekið Perlunnar í Öskjuhlíð, sem byggð var af Hitaveitu Reykjavíkur í borgarstjórnartíð Davíðs Oddssonar og vígð árið 1991. Reykjavíkurborg eignaðist mannvirkið að mestu árið 2013 og á það í dag að öllu leyti. Fasteignamat Perlunnar er sem stendur um fjórir milljarðar króna og því ætti sala hennar að geta hjálpað vel til í baráttu Reykjavíkur við að ná fjármálum sínum í jafnvægi. 

Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.

Rekstrarniðurstaða samantekins árshlutareiknings Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var neikvæð um 6,7 milljarða króna sem er 12,8 milljörðum krónum verri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Í tilkynningu frá borginni segir að helstu frávikin séu fjármagnsliðir sem hafi verið níu milljörðum krónum hærri en reiknað var með. „Skýrist það af hærri verðbólgu á tímabilinu en áætlun gerði ráð fyrir, lækkunar álverðs og minni matsbreytinga fjárfestingaeigna Félagsbústaða.“

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA), skilaði 23,1 milljarði króna í afgang sem var um tveimur milljörðum króna undir áætlun, en um fjórum milljörðum króna betri niðurstaða en á fyrsta árshluta ársins 2022.

Kópavogur tapaði tvisvar sinnum meira en til stóð

Næst stærsta sveitarfélag landsins, Kópavogur, skilaði líka hálfsársuppgjöri í dag. Rekstrarniðurstaða A-hluta þess var neikvæð um rúmlega 1,4 milljarða króna sem er næstum tvisvar sinnum meiri rekstrarhalli en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Taka verður tillit til þess að þótt Kópavogur sé stórt sveitarfélag í íslensku samhengi, með 40.200 íbúa, þá búa hundrað þúsund fleiri í höfuðborginni Reykjavík en þar. 

TapÁsdís Kristjánsdóttir tók við sem bæjarstjóri í Kópavogi eftir síðustu kosningar.

Í uppgjörstilkynningu frá Kópavogi kemur fram að heildarskuldir sveitarfélagsins hafi hækkað um 773 milljónir króna frá áramótum, að mestu vegna verðbóta. Í árshlutareikningnum eru ekki upplýsingar um skuldahlutfall né veltufjárhlutfall en síðarnefndi mælikvarðinn var 0,35 í árslok í fyrra hjá Kópavogi. Það var lægsta veltufjárhlutfall hjá nokkru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu um síðustu áramót, en það lækkaði úr 0,59 frá lokum árs 2021. Í árshlutareikningnum kemur þó fram að veltufé frá rekstri A-hluta Kópavogs hafi verið 1.070 milljónir króna í lok júní. Það var 2.216 milljónir króna í lok árs 2022.

Kjósa
9
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • RE
    Regína Eiríksdóttir skrifaði
    Einmitt arðsins vegna fyrir borgarbúa væri óábyrgt að einkavæða
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár