Þessi grein birtist fyrir rúmlega 13 mánuðum.

Samfylkingin ætlar ekki að enda eins og Vinstri græn eða Framsókn

Kristrún Frosta­dótt­ir seg­ir Sam­fylk­ing­una hafa brot­ist út úr berg­máls­hell­in­um og sé nú breytt­ur flokk­ur. Í ræðu í dag sagð­ist hún ekki ætla að skamm­ast sín fyr­ir að tala um skatta og vel­ferð og teygði sig bæði til at­vinnu­lífs­ins og lands­byggð­ar­inn­ar, með­al ann­ars með því að vitna í orð fyrr­ver­andi for­ystu­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins. „Það þarf að end­ur­heimta efna­hags­leg­an stöð­ug­leika. Ef rík­is­stjórn­in get­ur ekki rif­ið sig í gang þá ætti hún að sjá sóma sinn í því að hætta og boða til kosn­inga.“

Samfylkingin ætlar ekki að enda eins og Vinstri græn eða Framsókn
Formaðurinn Kristrún Frostadóttir segir Samfylkinguna ekki ætla að „elta skoðanakannanir eða þá sem hafa hæst á samfélagsmiðlum“ né gera sömu mistökin og aðrir stjórnarandstöðuflokkar, sem hafi mælst vel á miðju kjörtímabili. Mynd: Sindri Swan

„Sama hvað andstæðingar okkar í stjórnmálum segja, þá munum við ekki skammast okkar fyrir að tala um skatta og velferð. Við ætlum ekki að enda eins og Vinstri græn eða Framsóknarflokkurinn, sem hafa stillt sér upp sem velferðarflokkum og lofað öllu fögru án þess að finna fjármagn til að standa við stóru orðin. Það er pólitík sem er mér ekki að skapi.“

Þetta er meðal þess sem Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi sem haldinn var á Akureyri í dag.

Í ræðunni lagði Kristrún mikla áherslu á að fjármagna þyrfti aukna uppbyggingu lykilvelferðarkerfa og innviða með aukinni skattlagningu þar sem við á, en líka með aukinni og viðhaldinni verðmætasköpun. „Samfylkingin vill að arður af sameiginlegum náttúruauðlindum nýtist í þágu nærsamfélags og þjóðar. Ég ræddi þessi mál við forsætisráðherra Noregs á fundi okkar síðastliðið vor og það var fróðlegt að heyra hann segja frá stoltri hefð Norðmanna þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda og innheimtu auðlindagjalda, sem er skipt á milli sveitarfélaga og ríkissjóðs. En það er ekki þannig, og verður aldrei, að gjaldtaka af einhverri einni atvinnugrein eða tveimur geti staðið undir endurreisn velferðarkerfisins á Ísland. Það væri ábyrgðarlaust að tala með þeim hætti og þess vegna þurfum við að vera hreinskilin við fólkið í landinu í umræðum um skatta og velferð. Sósíaldemókrasía snýst um samtryggingu og við þurfum að rísa undir þeim væntingum sem fólkið í landinu gerir til okkar.“

 Hún sagði nauðsynlegt að setja ekki fram ósamrýmanleg markmið. „Við getum ekki staðið við stefnu okkar um tugi milljarða til heilbrigðis- og öldrunarmála ef við ætlum á sama tíma að taka undir ýtrustu kröfur í öllu mögulegu, jafnvel um að loka hér verksmiðjum eða heilum atvinnugreinum sem skapa okkur tekjur til velferðar. Það er hvorki trúverðugt né skynsamlegt.“

Verkalýður og atvinnulíf

Kristrún eyddi umtalsverðum tíma í að ræða um, og við, atvinnulífið í landinu á hátt sem formenn jafnaðarmanna á Íslandi hafa ekki gert í lengri tíma. Hún lagði líka töluverða áherslu á málefni sem eru ofarlega á baugi á landsbyggðinni. 

Hluti þess samtals fór fram í gegnum kynningu á skipun stýrihóps sem á að móta það sem Kristrún kallaði „Vaxtarplan fyrir Ísland“, en hópnum er ætlað að móta stefnu Samfylkingarinnar í atvinnu og samgöngum. 

Athygli vekur að í hópnum, sem leiddur er af ritara flokksins, Önnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra Ísafjarðar, eru bæði forystumaður úr verkalýðshreyfingunni, Kristján Þórður 

Snæbjarnarson, forseti Rafiðnaðarsambands Íslands og fyrrum forseti Alþýðusambandsins, og fyrrverandi varaformaður í Samtökum atvinnulífsins og í Viðskiptaráði, Margrét Kristmannsdóttir. Margrét var líka varaformaður stjórnar Bankasýslu ríkisins þar til fyrir skemmstu. Fjórði einstaklingurinn í stýrihópnum er Stefán Þór Eysteinsson, matvælafræðingur og formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar. 

„Við sögðum að við myndum ekki elta skoðanakannanir eða þá sem hafa hæst á samfélagsmiðlum.“

Formaður Samfylkingarinnar sagði í ræðunni að atvinna og samgöngur væru teknar saman vegna þess að samspilið þar á milli væri mikilvægt, bæði í höfuðborginni og í dreifðari byggðum. „Við þurfum að rjúfa kyrrstöðuna sem birtist meðal annars í algjöru jarðgangastoppi og framkvæmdafælni hjá núverandi ríkisstjórn þegar kemur að Borgarlínu og öðrum samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu. Og ég tala nú ekki um stefnuleysið í orkumálum og kyrrstöðu í réttlátum umskiptum á vakt sitjandi ríkisstjórnar.“ 

Ekki tíminn til að ofmetnast

Frá því að Kristrún tók við formennsku í Samfylkingunni hafa áherslur flokksins færst í hefðbundnari jafnaðarmannafarveg og fókusinn settur á að Samfylkingin verði skýr flokkur launafólks í landinu. Svokallaður „Bread and butter“ flokkur í stað þess að stefnu hans sé smurt vítt en þunnt á mörg svið. Þetta hefur skilað því að fylgi flokksins hefur rokið upp, farið úr tæpum 14 prósentum þegar Kristrún var kosin í 30 prósent í síðustu fylgiskönnun Gallup. Samfylkingin hefur nú mælst stærsti flokkur landsins allt þetta ár. Það þýðir að hún mælist með umtalsvert meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, en fyrir árið 2023 hafði Samfylkingin ekki mælst stærri en höfuðandstæðingur hennar síðan í maí 2009.

Kristrún sagði í ræðu sinni að búið væri að breyta Samfylkingunni. „Við höfum náð aftur virkari tengingu við venjulegt fólk, hinn almenna launamann. Við höfum brotist út úr bergmálshellinum. [...]Við sögðum að við myndum ekki elta skoðanakannanir eða þá sem hafa hæst á samfélagsmiðlum. Og allt hefur þetta staðið eins og stafur á bók. Staðreyndin er þessi: Það gengur allt samkvæmt áætlun hjá Samfylkingunni. Og við ætlum að halda áfram á sömu braut.“

Nú væri þó ekki rétti tíminn til að ofmetnast eða halla sér aftur vegna góðs gengis í skoðanakönnunum. „Við tökum engu sem gefnu. Og við ætlum ekki að gera sömu mistökin og aðrir stjórnarandstöðuflokkar, sem hafa mælst vel á miðju kjörtímabili en svo mistekist að ávinna sér traust þjóðarinnar í raun þegar á hólminn var komið.“

Verðmætasköpun ekki einkaframtak fjármagnseigandans

Einna mesta athygli í ræðunni vakti sá tónn sem Kristrún sendi inn í atvinnulífið. Vinsamlegur tónn um að Samfylkingin væri flokkur þess. Vaxtaplan hennar muni verða metnaðarfull áætlun um að „leysa úr læðingi krafta hvers einasta Íslendings, í hverjum einasta landshluta, í þágu fjöldans en ekki fárra útvalinna; þar sem framlag allra er virt að verðleikum; þar sem við leyfum okkur að vera stórhuga og sækja fram en gerum það af ábyrgð og virðingu fyrir atvinnu fólks og lífsviðurværi þess. Við munum skapa skýran ramma fyrir vöxt og verðmætasköpun á Íslandi.“

Hún sagði að jafnaðarmennska snerist um fleira en skiptingu verðmæta. Samfylkingin vilji líka skapa verðmæti og að hún skildi að verðmætasköpun væri samvinnuverkefni; launafólks, atvinnurekenda og hins opinbera. „Í þessum skilningi kristallast ágreiningurinn við andstæðinga okkar í stjórnmálum, sem halda því fram að starfsmenn hins opinbera skapi engin verðmæti og að sterk íslensk verkalýðshreyfing sé óþörf; því að verðmætasköpun sé í raun einkaframtak fjármagnseigandans og forstjórans. Það er ekki réttur skilningur heldur beinlínis skaðlegur misskilningur.“

„við ætlum ekki að gera sömu mistökin og aðrir stjórnarandstöðuflokkar, sem hafa mælst vel á miðju kjörtímabili en svo mistekist að ávinna sér traust þjóðarinnar.“

Samfylkingin skilji samhengið milli vinnu og velferðar. „Við skiljum að ábyrg hagstjórn kallar á virka aðkomu hins opinbera. Og við skiljum að það er ekkert til sem heitir frjáls markaður í raun, öll verðmætasköpun í einkageiranum á sér stað í skjóli ramma og regluverks, laga og skipulags, sem stofnanir hins opinbera halda utan um. Það er þekkt fyrirbrigði að sterkar stofnanir eru forsenda öflugs einkaframtaks, þar sem eignarréttur er virtur, leikreglur eru skýrar og fólk getur treyst því að samningar gangi eftir. Öflugustu samfélög heims, þar sem verðmætasköpun og velferð er hvað mest, eru samfélög þar sem skilningur er á mikilvægu samspili þessarar þrenningar; launafólks, atvinnurekenda og hins opinbera. Hið opinbera á ekki að stjórna öllu, né að sleppa öllu lausu og vona það besta. Hlutverk þess er að skapa skýran ramma og taka ábyrgð á uppbyggingu og þróun samfélagsins.“

Vitnaði í Gunnar

Annar reglulegur tónn í tali Kristrúnar undanfarið ár er að tala um Samfylkinguna sem nýja stöðugleikann í íslenskum stjórnmálum, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur málað sig upp í þeim litum undanfarna áratugi. 

Hún bætti enn í í þessum efnum í ræðunni í dag og vísaði þar meðal annars í orð fyrrverandi forsætisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Gunnars Thoroddsen. „Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er á undanhaldi sem breiðfylking þá getur Samfylkingin gert þessi orð að sínum: Frelsi — með ábyrgð. Mér finnst þetta gamla slagorð Gunnars Thoroddsen fanga nokkuð vel sýn okkar sósíaldemókrata á uppbyggingu í atvinnulífi, og um leið aðgreina okkur með skýrum hætti frá ofureinstaklingshyggju þeirra sem vilja setja markaðslögmál ofar öllu öðru. Frelsi með ábyrgð, gagnvart samfélagi og náttúru, og ábyrgð okkar sem njótum gæfu gagnvart öðrum sem lífið leikur harðar.“

Stefna Bjarna komin í þrot

Undir lok ræðunnar ræddi Kristrún stöðuna í stjórnmálunum í dag, en stjórnarkreppa myndaðist í byrjun viku þegar Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármála- og efnahagsráðherra vegna álits umboðsmanns Alþingis þess efnis að Bjarni hefði verið vanhæfur til að taka ákvörðun um að selja félagi föður síns hlut í Íslandsbanka í fyrravor. 

FormennBlaðamannafundur ríkisstjórnarinnar í morgun fjallaði um ákvörðun stjórnarflokkanna um að halda áfram samstarfi sínu út kjörtímabilið og stólaskipti Bjarna Benediktssonar og Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur.

Kristrún sagðist hafa lítið að segja um „upphlaupin og ringulreiðina sem við sjáum hjá ríkisstjórninni þessi misserin“. Það ríki þó óstjórn í efnahagsmálum og ljóst sé að Bjarni skili ekki sérlega góðu búi. Það sé átta prósent verðbólga og stýrivextir standa í 9,25 prósentum. „Efnahagsstefna fráfarandi fjármálaráðherra var komin í þrot. Burtséð frá bankasölunni liggur fyrir að þessi stefna var komin á endastöð, þrátt fyrir að forsætisráðherra geri allt sem í valdi hennar stendur til að verja arfleifð Sjálfstæðismanna í efnahagsmálum og arfleifð þeirra við einkavæðingu banka, sem hefur hlotið áfellisdóm hjá Ríkisendurskoðun, Seðlabanka og nú loks Umboðsmanni Alþingis.

 Mikil orka hefur farið í að ræða um persónu fráfarandi fjármálaráðherra í vikunni, og því meðal annars velt upp að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi mögulega styrkt stöðu sína, þegar hann sagði af sér einu valdamesta embætti landsins, sem hann hefur gegnt í áratug. Hvað get ég sagt? Ég held satt best að segja að slíkar bollaleggingar séu víðs fjarri veruleika venjulegs fólks og skipti litlu máli. Þetta snýst ekki um persónur, heldur verkefnin. Það sem skiptir máli er hvaða áhrif þetta hefur á stjórn efnahagsmála í landinu: Verður breytt um stefnu? Fjárlögin verða að breytast. Og hvað þýðir þetta fyrir kjarasamningana sem eru framundan? Þetta eru spurningar sem brenna á fólki og sem við í Samfylkingunni munum spyrja á næstu dögum og vikum.“

Samfylkingin tilbúin þegar stjórnin er búin

Þegar þjóðin sjái óreiðu hjá ríkisstjórninni þá sé hún að upplifa festu í Samfylkingunni, að mati Kristrúnar. „Það gengur allt samkvæmt áætlun hjá okkur. Höldum bara áfram á sömu braut. Svo þegar ríkisstjórnin verður loksins búin, þá verðum við í Samfylkingunni tilbúin; fáum við til þess traust og umboð í kosningum.“

Sýn Samfylkingarinnar til að takast á við þær aðstæður sem séu uppi í efnahagslífinu sé skýr. Flokkurinn hafi kallað eftir kjarapakka og kynnt slíkan í tengslum við fjárlög í fyrra. „Allt sem við vöruðum við þá hefur því miður orðið að veruleika. En við köllum ennþá eftir þessum sömu aðgerðum. Hugmyndin með kjarapakka Samfylkingarinnar er að taka á þenslunni þar sem þenslan er í raun og veru, með sértækum aðhaldsaðgerðum á tekjuhlið ríkissjóðs. Og verja heimilisbókhaldið þar sem þörfin er mest með sértækum aðgerðum á borð við vaxta- og barnabætur, tímabundna leigubremsu að danskri fyrirmynd og ívilnun til uppbyggingar á almennum íbúðum. Þannig viljum við stuðla að ró á vinnumarkaði og vinna gegn verðbólgu. En það er algjört lykilatriði til að árangur náist að svona kjarapakki sé fullfjármagnaður og meira en það.“

Stjórnin megi taka kjarapakkann og heiðurinn

Ríkisstjórnin hafi hins vegar valið að fara aðra leið. Bíða átekta, benda á Seðlabankann og kalla þannig hærri vexti yfir heimilin og fyrirtækin í landinu. „Þess vegna erum við á þeim stað sem við erum á í dag. Því að þegar ríkisstjórnin gerir minna þá þarf Seðlabankinn að gera meira. Vextirnir hækka flatt yfir öll heimili og fyrirtæki. Og ég efast stórlega um þjóðin vilji sífellt hærri vexti frekar en sértækar aðgerðir á tekjuhlið, kjarapakka eins og Samfylkingin hefur lagt til. Nú hefur ríkisstjórnin bætt gráu ofan á svart með viðbótaraðhaldskröfu sem er öll á útgjaldahlið, og við munum nú hvar aðhaldið lenti síðasta vetur. Þegar krónutölugjöldin voru skrúfuð upp í topp.“

Kristrún sagði leið ríkisstjórnarinnar skammsýna. Án sértækra aðgerða til að verja heimilisbókhaldið haldi vítahringur verðbólgu og hárra vaxta áfram. „Kostnaðarkrísan knýr þá kröfur um almennar launahækkanir, sem lenda svo í fangi fyrirtækja, sveitarfélaga og auðvitað ríkisins. Með miklu meiri tilkostnaði en hlytist af aðgerðum af hálfu ríkisins. Þau treysta sér ekki til að rjúfa þennan vítahring því þau eru föst í pólitískri kreddu um að fyrirsjáanleiki í sköttum sé eini fyrirsjáanleikinn sem skiptir máli, aldrei megi eiga við tekjuhlið ríkisins. Í staðinn skapa þau ófyrirsjáanleika í vaxtastigi, sem bitnar á heimilum og fyrirtækjum með flötum hætti, og fyrirtækin í landinu taka á sig velferðarhlutverkið, að vernda kaupmátt heimilanna.“

Íslandi muni aldrei losna úr þessum vítahring á meðan að það viðhorf sé ráðandi innan ríkisstjórnarinnar að ríkið hafi nær engu hlutverki að gegna í efnahagslegum stöðugleika, líkt og Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, hafi stillt því upp fyrr í haust. „Mín skilaboð til ríkisstjórnarinnar og nýs fjármálaráðherra eru þessi: Kjarapakki Samfylkingarinnar er besta leiðin til að milda þetta högg sem nú hlýst af verðbólgunni og koma í veg fyrir að ástandið vindi óþarflega upp á sig. Takið hann bara. Þið megið eiga þessar tillögur og taka heiðurinn. Okkur er sama — við viljum bara sjá verðbólguna og vextina fara niður.

Það þarf að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Ef ríkisstjórnin getur ekki rifið sig í gang þá ætti hún að sjá sóma sinn í því að hætta og boða til kosninga.“

Kjósa
59
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Reynir Vilhjálmsson skrifaði
    Öflug ræða. Ég sem innvígður samfylkingarmaður myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef hann tæki við kjarapakka Samfylkingarinnar og framkvæmdi skynsamlega stefnu. En því er ekki að heilsa. Við verðum að komast upp úr holum einkahagsmuna og hugsa um samfélagið allt.
    2
  • SSS
    Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
    Það verða allir flokkar geislavirkir (til lengri eða skemri tíma), sem sitja í stjórn með stærstu skipulögðu glæpasamtökum Íslands, sjálfstæðisflokknum.
    Og þeirra bíður afhroð í kosningum eftir að hafa stutt þessi glæpasamtök.
    4
    • Hlynur Jörundsson skrifaði
      Samfylkingin hefur sinn dag líkt og sjallarnir mínir sína daga. Píratar eru bullandi meðvirkir enda flokkar sem hafa ekki innbyggð hreinsikerfi. Fullorðið fólk sem segir buhu ég var avegaleitt fórnarlamb. Aumkverðar afsakanir. Kjósendur fá alltaf bara loforðin en ekki tryggingar fyrir loforðum. Má bjóða ykkur dönsk strá ?
      -1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár