Á undanförnum árum hafa áhyggjur af haturstjáningu á netinu vaxið mikið. Spjallþræðir ýmis konar gefa einstaklingum svigrúm til þess að tjá fordóma og andúð gagnvart ýmsum hópum, þar á meðal gagnvart konum, þjóðernis- og trúarhópum, flóttafólki og hinsegin fólki. Á síðustu vikum hafa borist fréttir af neikvæðri orðræðu hérlendis um síðastnefnda hópinn. Orðræðan hefur skapað miklar áhyggjur meðal þeirra sem tilheyra þessum hópi enda merkja þau aukna andúð gagnvart sér í daglega lífinu, utan miðlanna. En hvers vegna ættum við að hafa áhyggjur af tjáningu annarra? Eiga ekki ólíkar skoðanir að fá að heyrast og mun réttlætið þá ekki sigra í frjálsri rökræðu um þær? Málfrelsi er jú einn af hornsteinum lýðræðis.
Brothætt viðmið gegn haturstjáningu
En málefnið er bara flóknara en svo að við getum afgreitt það eingöngu á grundvelli frelsishugsjóna. Sem betur fer hafa óformlegt viðmið (e. social norm) myndast í okkar heimshluta um að það sé óæskilegt og rangt að tjá opinberlega andúð á minnihluthópum. Fjölmiðlalög endurspegla þetta viðmið í mörgum löndum, þar á meðal á Íslandi. Þar sem flestir forðast að brjóta gegn væntingum annarra um æskilega hegðun hlýða þeir þessu viðmiði yfirleitt, jafnvel þótt margir kunni að hafa fordómafullar skoðanir „innst inni“. Einstaklingar vilja jú yfirleitt vera viðeigandi til þess að halda virðingu sinni í augum annarra.
En áhrifamáttur viðmiða um æskilega tjáningu geta veikst hratt fái margir svigrúm til þess að brjóta gegn þeim. Væntingar einstaklinga um hvað öðrum finnst vera æskileg tjáning á opinberum vettvangi mótast af upplifun þeirra af því hvernig aðrir tjá sig þar hverju sinni. Sjái einstaklingar útbreidd brot á viðmiði sem fordæmir tiltekna tjáningu getur dregið hratt úr áhrifamætti þess, vegna þess það lætur einstaklingum finnast óhætt að brjóta viðmiðið. Nýlegar rannsóknir benda til þess að aukning í tjáningu fordóma og andúðar á spjallþráðum hafi einmitt þessar afleiðingar.
„Áhrifamáttur viðmiða um æskilega tjáningu geta veikst hratt fái margir svigrúm til þess að brjóta gegn þeim.“
Ein slík rannsókn birtist fyrr á þessu ári eftir félagsfræðiprófessorinn Amalia Álvarez-Benjumea í vísindatímaritinu European Sociological Review. Í rannsókninni, sem gerð var í Þýskalandi, var kannað hvaða áhrif athugasemdir annarra höfðu á athugasemdir þátttakenda á spjallþræði um innflytjendamál. Um 2700 einstaklingar voru fengnir til þess að taka þátt í umræddum spjallþræði og var þeim skipt í tvo hópa með tilviljun. Annar helmingurinn varð vitni af athugasemdum sem tjáðu fordóma og andúð í garð innflytjenda. Hinn helmingurinn sá aðeins hlutlausar athugasemdir um málefnið (samanburðarhópur). Niðurstöður leiddu í ljós marktækan mun á athugasemdum þátttakenda eftir því í hvorum hópnum þeir höfðu lent. Þátttakendur sem sáu aðra þátttakendur tjá andúð í garð innflytjenda á spjallþræðinum voru mun líklegri en þátttakendur í samanburðarhópnum til þess að tjá sjálfir andúð og fordóma í athugasemdum. Athugasemdir þeirra urðu reyndar æ hatursfyllri eftir því sem neikvæðum athugasemdum annarra fjölgaði. Enn fremur kom í ljós að þátttakendur sem höfðu neikvæð viðhorf til innflytjenda tjáðu frekar andúð á spjallþræðinum eftir að hafa orðið vitni að andúð annarra á spjallþræðinum. En í samanburðarhópinum, þar sem aðrir tjáðu ekki andúð í athugasemdum, héldu þátttakendurnir sem höfðu neikvæð viðhorf aftur af sér.
Haturstjáning og ofbeldi
Rannsóknir benda líka til þess að haturstjáning á netinu geti haft mjög slæmar afleiðingar fyrir lífið í raunheimum. Williams og samstarfsfólk birtu í British Journal of Criminology árið 2020 rannsókn sem skoðaði fylgni haturstjáningar á Twitter við tíðni hatursglæpa í borgarhverfum London á átta mánaða tímabili. Rannsóknin einblíndi á haturstjáningu á Twitter sem beint var gegn svörtum einstaklingum og múslimum og mældi auk þess tíðni ofbeldisglæpa sem flokkaðir voru af lögreglu sem hatursglæpir gagnvart þessum sömu hópum. Niðurstöður leiddu í ljós samband milli haturstjáningar og tíðni hatursglæpa, eftir tímabilum og borgarhlutum. Aukin haturstjáning fór saman með hærri tíðni hatursglæpa. Samband hatursorðræðu og hatursglæpa var auk þess sterkast í borgarhlutum þar sem umræddir minnihlutahópar voru stærra hlutfall af mannfjölda. Svona fylgnirannsókn sannar ekki orsakatengsl en gefur sterka vísbendingu um að haturstjáning á samfélagsmiðlum geti kynt undir ofbeldi í raunheimum.
Skoðanaskipti og „almannarýmið“
Sú mótmælabarátta sem ýmsar mannréttindahreyfingar hafa staðið fyrir síðan á sjöunda áratug tuttugustu aldar, nú síðast hreyfingar fyrir réttindi hinsegin einstaklinga, hafa breytt ríkjandi gildismati um mannréttindi og félagslegt réttlæti og þar með skapað viðmið gegn haturstjáningu. Ætla mætti að skoðanaskipti fyrir allra augum myndu bara styrkja þessi framsæknu gildi sem nú þegar hafa náð svo mikilli útbreiðslu. En það verða að gilda reglur um skoðanaskipti svo þau séu heilbrigð og uppbyggileg en ekki meiðandi og skaðleg.
Einn áhrifaríkasti hugsuður samtímans, Jurgen Habermas, skrifar í tímamótaverkinu The Theory of Communicative Action að til þess að sátt skapist í fjölbreyttu samfélagi samtímans verði „almannarými“ að skapast. Almannarými er ekki vettvangur fyrir óhefta tjáningu heldur gilda þar tiltekin viðmið sem gera uppbyggileg og rökleg skoðanaskipti möguleg. Í almannarými eiga ekki bara ólíkar skoðanir að heyrast heldur ber öllum sem þátt taka í samræðunni skylda til þess að taka einlæglega mið af mótrökum á grundvelli siðlegra gilda. Auk þess eiga allar mikilvægar staðreyndir að liggja til grundvallar samræðunni. Spjallþræðir netsins uppfylla sjaldan þessi viðmið. Flestir sem reynslu hafa vita að yfirveguð rökræða er sjaldgæf þar. Fullyrðingar studdar háði, svívirðingum og fordómum og/eða staðreyndavillum eru algengari. Rannsóknir benda til þess að fáir upplifi spjallþræði samfélagsmiðla sem vettvang fyrir uppbyggileg skoðanaskipti um þjóðfélagsleg málefni og að fáir taki því þátt í spjallþráðum á þeim forsendum (Kruse o.fl., Sociological Quarterly árið 2018).
Til skemmri tíma er skaðaminnkun aðkallandi. Kannanir hafa sýnt að stór hluti vestrænna ungmenna á aldrinum 15 til 30 ára sér einhliða hatursorðræðu á samfélagsmiðlum (Hawdon o.fl., Deviant Behavior árið 2017). Stjórnvöld þurfa að leggja sig fram um að minnka svigrúm fyrir slíka tjáningu, innan ramma laganna. En til lengri tíma þarf líka að huga að því að skapa skilyrði fyrir betri sátt í samfélaginu. Í því skyni þurfum við betri vettvang fyrir uppbyggileg skoðanaskipti um þjóðfélagsleg málefni sem brenna á mörgu fólki. Þetta er auðvitað hefðbundið hlutverk faglegra fjölmiðla. En eins og margir benda á sem vel þekkja til hefur dregið úr getu og sjálfstæði fjölmiðla til þess að sinna þessu hlutverki samfara hraðri þróun netmiðla. Þetta hefur skapað svigrúm fyrir einhliða og skaðlega tjáningu á óritstýrðum vettvangi netsins.
Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands
Athugasemdir