Þessi grein birtist fyrir rúmlega 7 mánuðum.

Vörðufell: Vatnsból sveitar eða rafhlaða vindorkuvera?

Orku­veita Reykja­vík­ur hætti við kynn­ing­ar­fund á áform­aðri virkj­un uppi á Vörðu­felli vegna and­stöðu land­eig­enda. „Við höf­um ekki áhuga á að gera þetta öðru­vísi en í sátt og góðri sam­vinnu við sam­fé­lag­ið,“ seg­ir Hera Gríms­dótt­ir, fram­kvæmda­stýra hjá OR. „Fyr­ir okk­ur er vatn­ið mik­il­væg­ara en ódýrt raf­magn sem færi jafn­vel í raf­mynta­gröft eða stór­iðju,“ seg­ir land­eig­andi.

Bændur við Vörðufell á Skeiðum hoppuðu ekki hæð sína í loft upp af kæti er fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur bönkuðu upp á í vor og kynntu fyrir þeim hugmyndir um allsérstæða virkjun á bæjarfjallinu, svokallaða dæluvirkjun, sem myndi verða „náttúruleg rafhlaða“ fyrir áformuð vindorkuver. Fjölmargar spurningar vöknuðu meðal fólksins sem býr undir Vörðufelli og á meðan sumir töldu auglýstan kynningarfund um fyrirætlanirnar hið besta mál fannst öðrum hann ótímabær og jafnvel óþarfur.

Og svo var hann felldur niður. „Er það gert vegna ábendinga sem bárust enda skiptir samtalið við nærsamfélagið okkur hjá Orkuveitunni miklu máli,“ sagði í tilkynningu frá fyrirtækinu daginn áður en halda átti fundinn í lok september.

„Þetta var raunverulega gert út frá skýrri andstöðu eins landeiganda,“ segir Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps. „Það gefur auga leið að ef landeigandi þar sem virkjun á að vera er ekki tilbúinn til að skoða málið þá þjónar engum tilgangi að halda áfram.“

En það á þó að halda áfram, samkvæmt upplýsingum Orkuveitunnar, en með öðrum takti þó. Stofnað hefur verið hagsmunaráð sem óskað hefur eftir ábendingum „sem geta gagnast okkur í framhaldinu,“ segir Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra rannsókna og nýsköpunar hjá OR. Batteríið Vörðufellsvirkjun er því ekki úr sögunni.

„Vá, hvað þetta er eitthvað villt! Þetta er ekkert að fara að gerast. Hvað gæti verið hagstætt við þetta?“
Jóna Þórunn Ragnarsdóttir bóndi,
er hún heyrði fyrst af hugmyndum um Vörðufellsvirkjun.

Virkjað til orkuskipta

Samhliða ríkum áherslum íslenskra stjórnvalda á að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga af mannavöldum með ýmsum aðgerðum hefur áhugi á því að reisa nýjar virkjanir til öflunar „grænnar orku“ aukist til muna.

Sem dæmi telur Orkuveita Reykjavíkur sig, sem „framsýnu fyrirtæki í almannaeigu“, hafa hlutverki að gegna í þróun nýrra orkukosta „til að Ísland geti lagt sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni við loftslagsvána,“ líkt og Hera orðar það við Heimildina. Eftirspurn eftir raforku fari vaxandi og orkuskiptin hafi þar mikil áhrif.

Ýmsar gamlar virkjanahugmyndir hafa í þessum tilgangi verið dregnar fram í dagsljósið á ný og dæluvirkjun á Vörðufelli er eitt slíkt dæmi.

DæluvirkjunÚtfærsla Orkustofnunar á Vörðufellsvirkjun árið 2015.

Vörðufell er áberandi kennileiti í sunnlenskum sveitum sem einkennast af landbúnaði og ferðamennsku. Það myndaðist undir ísaldarjökli fyrir þúsundum ára og stendur nú í 391 metra hæð yfir sjávarmáli á mörkum tveggja sveitarfélaga, Bláskógabyggðar og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Ofan af því er afbragðsgott útsýni og við rætur þess rennur Hvítá í öllu sínu veldi.

Sérstaða Vörðufells er meðal annars sú að ofan á því er dæld, líklega gígur, og í henni er stöðuvatnið Úlfsvatn. Afrennsli þess fellur í fossum um hrikalegt hamragil, Úlfsgil. Fellið stendur á virka jarðskjálftabeltinu milli Heklu og Ölfuss og þar hafa upptök gríðarlegra jarðskjálfta verið í aldanna rás, jarðskjálfta sem hafa rústað sveitunum í kring og kostað mannslíf.

Sextíu ára gömul hugmynd

Árið 1963 kviknaði sú hugmynd að byggja dæluvirkjun á Vörðufelli sem varaaflsstöð fyrir álverið í Straumsvík. Var þá gert ráð fyrir að ef Búrfellsvirkjun, sem reist var til að anna orkueftirspurn álversins, myndi detta tímabundið út yrði hægt að uppfylla orkuþörf álversins á meðan. Þetta átti að gera með því að stífla Úlfsvatn og dæla vatni úr Hvítá upp á fellið og búa þar til miðlunarlón. Þegar á þyrfti að halda yrði svo hleypt úr lóninu og fall vatnsins notað til að framleiða rafmagn. Síðan yrði vatni dælt aftur upp í lónið og afl þá til reiðu er næst þyrfti á að halda. Þetta fyrirkomulag er hin „náttúrulega rafhlaða“.

Af byggingu virkjunar varð hins vegar ekki á þessum tíma en við fyrsta áfanga rammaáætlunar var 58 MW Vörðufellsvirkjun einn þeirra fjölmörgu kosta sem Orkustofnun sendi inn til meðferðar. Hann hafnaði í biðflokki 2. áfanga áætlunarinnar og í tillögum verkefnisstjórnar þess þriðja sat hann þar sem fastast vegna skorts á gögnum. Hins vegar er hann ekki lengur að finna í rammaáætlun. Það skýrist af því að við afgreiðslu 3. áfanga á Alþingi vorið 2022 voru allir virkjanakostir á vegum Orkustofnunar fjarlægðir enda um að ræða hugmyndir sem enginn ákveðinn virkjunaraðili stóð að baki.

Hin náttúrulega rafhlaða

En nú á vormánuðum kom í ljós að tiltekinn virkjunaraðili hafði hug á því að láta Vörðufellsvirkjun verða að veruleika. Og nú var það ekki til að hafa til reiðu varaafl fyrir álverið í Straumsvík heldur vindorkuver. Ekkert slíkt er risið á Íslandi en um fjörutíu vindorkukostir hafa verið teiknaðir upp hér og hvar á landinu. Og nokkrir þeirra eru á vegum virkjunaraðilans sem vill kanna kosti Vörðufellsvirkjunar: Orkuveitu Reykjavíkur.

VindorkuverOrkuveita Reykjavíkur áformar að reisa þrjú vindorkuver á Hellisheiði.

„Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur lagt fram beiðni til Orkustofnunar um að verkefnisstjórn rammaáætlunar fjalli um þrjá vindorkukosti í nágrenni Hellisheiðar auk mögulegrar dæluvirkjunar sem nýtt yrði sem jöfnunarafl“, sagði í tilkynningu frá fyrirtækinu í lok júní. Tvö veranna eru áformuð í Ölfusi, við Lambafell og Dyraveg, og það þriðja við Lyklafell í Mosfellsbæ. Samanlögð aflgeta gæti orðið um 400 MW.

Vindorkuver framleiða aðeins rafmagn í vindi og þegar lygnir þarf því að hafa til reiðu afl í annars konar virkjunum og er þá oftast horft til vatnsaflsvirkjana.

Og þá er komið að hlutverki hinnar áformuðu Vörðufellsvirkjunar. „Hugmyndin er að dæluvirkjun jafnist á við að vera með náttúrulega rafhlöðu þar sem umframorka í kerfinu er nýtt til að dæla vatni upp á fjallið þegar vindur blæs og fallorkan í vatninu virkjuð í rafstöð til að jafna á móti þegar afl skortir í kerfinu vegna til dæmis stillu,“ útskýrir Hera.

Vörðufellsvirkjun yrði fyrsta dæluvirkjunin á Íslandi. Sömuleiðis yrði vatnasvið Hvítár í Árnessýslu þá í fyrsta sinn nýtt til virkjunar.

Hvorki sagt já eða nei

Vörðufell er innan jarða um tíu bæja sem raða sér umhverfis það. Fjallsbæirnir tveir eru þeirra á meðal. „Við erum í raun ekki farin að mynda okkur eina einustu skoðun,“ segir Ingvar Hjálmarsson, bóndi á Fjalli 1, spurður um afstöðu ábúenda til Vörðufellsvirkjunar. „Við höfum því hvorki sagt já né nei eða nokkurn skapaðan hlut við þessu.“

Hann segist hafa heyrt fyrst af áformunum í vor. Fulltrúar Orkuveitunnar hafi komið til fundar við landeigendur og kynnt þeim fyrstu drög að áformunum. „Svo ætluðum við að mæta á þennan kynningarfund og taka aðeins púlsinn á þeim, hvað væri í rauninni fram undan í þessu, hvað stæði raunverulega til,“ segir Ingvar.

Í gígnumÚlfsvatn er á toppi Vörðufells.

Hann viðurkennir þó að hann hafi ekkert „hoppað hæð sína af kæti“ yfir virkjunarhugmyndinni. „Það er ekki svoleiðis.“ Hins vegar hafi ábúendur á Fjalli 1 engu mótmælt, enda vildu þeir kynna sér málin betur.

Ingvar segir að sér hefði ekki þótt verra að kynningarfundurinn hefði verið haldinn. Að sveitungar gætu komið saman og fengið að vita hver hugsunin á bak við virkjun á Vörðufelli væri. „Það er engin ástæða til að geyma það einhvers staðar ofan í skúffu þar til seinna. Þannig að mér fannst svolítið skrítið að þau skyldu blása fundinn af.“

Færu ekki gegn íbúunum

Fulltrúar Orkuveitunnar höfðu sagt við ábúendur á Fjalli 1 í vor „að ef megn andstaða yrði við virkjunaráformunum þá myndu þau ekkert fara að böðlast eitthvað áfram með þetta,“ segir Ingvar. Er kynningarfundurinn var auglýstur hafi skapast umræða inni á íbúagrúppu á Facebook og að einhverjir landeigendur hefðu þar tilkynnt að þeir hefðu hafnað hugmynd um dæluvirkjun á Vörðufelli alfarið. „Þau sáu þá væntanlega ekki tilganginn í að halda fund.“ Ingvar segist túlka það þannig að þetta sé ástæðan fyrir því að hætt var við kynningarfundinn. Þannig hafi Orkuveitan verið að standa við það sem sagt hafði verið við landeigendur í vor – að þau ætluðu sér ekki að fara áfram með áformin ef megn andstaða væri til staðar.

Hann segist hins vegar gjarnan hafa viljað fá betri kynningu enda segir hann hugmyndina nú af allt öðrum toga en þá sem sett var fram árið 1963. Eftir fundinn með fulltrúum Orkuveitunnar í vor hafi hann verið forvitinn, viljað fá frekari upplýsingar, „en maður þarf víst ekki að hugsa um það meira,“ segir hann léttur í bragði, því honum virðist sem fallið hafi verið frá hugmyndunum – í bili að minnsta kosti.

FramkvæmdastýraHera Grímsdóttir

Útskýra ferlið betur

En þótt Orkuveitan hafi fallið frá kynningarfundinum hefur ekki verið tekin ákvörðun um að falla frá Vörðufellsvirkjun. „Við höfum ekki áhuga á að gera þetta öðruvísi en í sátt og góðri samvinnu við samfélagið,“ segir Hera. Næstu skref OR séu því að útskýra betur ferlið fyrir landeigendum og hvaða rannsóknir þurfi að fara í áður en tillögur að mótvægisaðgerðum verði kynntar. Ekki fyrr en að þeim samtölum loknum verði ákveðið hvort kosturinn verði sendur til umfjöllunar í rammaáætlun.

Hera segir fjölmarga þætti geta haft áhrif á framgang verkefnisins. Til dæmis gæti svæðið hafnað í verndarflokki rammaáætlunar og yrði því þá sjálfhætt. „Annar þáttur sem gæti stöðvað verkefnið er ef við finnum ekki ásættanlegar mótvægisaðgerðir gegn þeim fjölmörgu þáttum sem þarf að rannsaka og skoða betur.“

„Vá, hvað þetta er eitthvað villt!“

Þeir þættir sem meðal annars þarf að rannsaka tengjast meðal annars ábendingum sem komu frá hjónunum Jónu Þórunni Ragnarsdóttur og Ólafi Hafliðasyni, eigendum Birnustaða, sem Vörðufell tilheyrir að hluta. Á jörð sinni reka þau myndarlegt holdakúabú og bærinn þeirra og barnanna fjögurra er í hlíðum fellsins.

BóndinnJóna Þórunn Ragnarsdóttir

Jóna og Ólafur eru meðal þeirra landeigenda sem lýst hafa efasemdum um dæluvirkjunina. Athygli þeirra á virkjunaráformunum var fyrst vakin er nágranni rifjaði upp í færslu á Facebook að sambærilegar hugmyndir hefðu verið uppi árið 1963. Þá segist Jóna hafa hugsað: „Vá, hvað þetta er eitthvað villt! Þetta er ekkert að fara að gerast. Hvað gæti verið hagstætt við þetta?“

En í vor urðu málin raunverulegri í hugum hjónanna er fulltrúar Orkuveitunnar höfðu samband. Þeir komu svo í heimsókn og kynntu þeim áætlanir sínar við eldhúsborðið að Birnustöðum.

Spurð hvort þau hafi þá þegar gert upp hug sinn varðandi hugmyndina segir Jóna svo ekki hafa verið. „Ég er alltaf opin fyrir öllu. Tilbúin að skoða hlutina. Ég hugsaði til dæmis á þessum tíma að jú, alltaf er verið að tala um að það vanti meiri orku.“

En áleitnar spurningar hafi hins vegar vaknað fljótt. Jónu og Ólafi hugnast til dæmis alls ekki þau áform að stífla frárennslið úr Úlfsvatni um Úlfsgil sem er rétt ofan við bæinn þeirra. „Og þá myndum við ekki lengur fá vatn til að brynna skepnunum okkar,“ útskýrir Jóna. „Þannig að við sættum okkur ekki við virkjun ef það er alfarið lokað fyrir afrennsli um Úlfsgil.“

„Fyrir okkur er vatnið mikilvægara heldur en ódýrt rafmagn sem færi jafnvel í einhvern rafmyntagröft eða stóriðju.“
Jóna Þórunn Ragnarsdóttir,
bóndi á Birnustöðum.

Hvað með vatnsbólin?

Að auki velta þau fyrir sér hvaða áhrif það gæti haft á vatnsbólin í Vörðufelli að dæla jökulvatni úr Hvítá upp í Úlfsvatn. Vatnsbólin eru þónokkur og í þeim er aflað hreins vatns fyrir alla sveitina. Þau spurðu fulltrúa Orkuveitunnar um hvaða áhrif jökulvatnið gæti haft á flæði grunnvatns í gegnum fjallið og var þá fátt um svör.  „Við erum í miðju héraði mjólkurframleiðslu. Og vatnsöflun hefur verið vandamál. Hvar ætlar þú að fá vatn ef þú tekur það ekki héðan? Þannig að ef þeir byggja virkjun þá verður kannski ekki lífvænlegt hér um slóðir.“

Frá fundinum með fulltrúum Orkuveitunnar hafa Jóna og Ólafur velt málunum vel fyrir sér. „Og niðurstaðan er sú,“ segir Jóna, „að fyrir okkur er vatnið mikilvægara heldur en ódýrt rafmagn sem færi jafnvel í einhvern rafmyntagröft eða stóriðju.“

Vildu opna samtalið

Hera segir að kynningarfundinum hafi verið ætlað „að opna á samtal“ við samfélagið allt um fyrirætlanir OR. Málið sé enn á algjöru frumstigi og rannsóknir og hönnun mögulegrar virkjunar við Vörðufell ekki hafin. Ábendingar sem bárust hafi hins vegar áhrif á þessa þætti. „Ábendingarnar snúa að vatnsbólinu á svæðinu, verndun þess og hvaða mótvægisaðgerðir hægt er að fara í,“ útskýrir Hera. „Við höfum ekki svör við þessum ábendingum á þessum tímapunkti því svör og lausnir um hvernig við tryggjum vatn og efnistöku fást því miður ekki fyrr en á seinni stigum í gegnum rannsóknir og hönnun.“

Virkjunaraðilar geta fengið leyfi Orkustofnunar til rannsókna á jörðum, jafnvel þótt landeigendum hugnist það ekki. Til að fá virkjunarleyfi þurfa þeir hins vegar skýrt samþykki landeigenda.

Orkuveitan að fara rétta leið

Haraldur sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi segir að Orkuveita Reykjavíkur sé að sínum dómi að gera hlutina í réttri röð, það er að segja kynna áform fyrir nærsamfélagi og sveitarstjórn áður en lengra er haldið. Það sé ekki alltaf raunin. Dæmi séu um að hvorki sé talað „við kóng né prest“ þegar virkjunarhugmyndir eru settar fram. „Það er ekki rétta leiðin.“

Í tilfelli áformaðrar Vörðufellsvirkjunar hafi hins vegar annað verið upp á teningnum. „Þau töluðu við helstu landeigendur. Það var enginn búinn að segja nei. Það átti að halda almennan kynningarfund. Í framhaldi af því sagði einhver nei.“ Þá þjóni engum tilgangi „að eyða tíma og fyrirhöfn í hlutina“. Í sjálfu sér megi setja dæluvirkjun upp „á hvaða fjalli á Íslandi sem er“.

Nykur á flakki milli vatna

Stöðuvötn er að finna á fleiri fjöllum og fellum í nágrenninu, meðal annars Búrfelli. Þjóðsagan segir að í því búi nykur sem fari á milli vatnanna og reyni að tæla menn til að setjast á bak sér og draga þá niður í undirdjúpin.

Fleiri sögur tengjast vötnunum, meðal annars ein sérstaklega Úlfsvatni á Vörðufelli. Sú hermir að á 18. öld hafi unglingspiltur búið til flugham úr fuglsvængjum og tekist að svífa úr hlíðum fjallsins yfir að Skálholti. Biskup sem þar var sá ástæðu til að banna honum frekari tilraunir á þessu sviði þar sem mönnum væri ekki ætlað að fljúga. Kannski, ef sannleikskorn er að finna í sögunni, var þetta fyrsta flugið á Íslandi.

Piltur nýtti sér vindafl til flugsins. Og af vindi er enn nóg á Íslandi – svona oftast – og hann vilja nú fjölmargir nýta til að snúa spöðum risavaxinna vindmylla og framleiða rafmagn. „Einn af þeim kostum sem verið er að skoða til að styðja við orkuskiptin og áframhaldandi lífsgæði á Íslandi er nýting á vindorku,“ segir Hera. OR skoðar nú þrjá vindorkukosti:

• 50-150 MW Vindorkugarður við Lambafell í Ölfusi.   

• 50-108 MW Vindorkugarður við Dyraveg í Ölfusi.   

• 50-144 MW Vindorkugarður við Lyklafell í Mosfellsbæ. 

Eru komnir kaupendur að þeirri orku sem vindorkuverin myndu framleiða?

„Nei, enda eru tillögurnar einungis fyrstu skrefin í löngu undirbúningsferli og frekari rannsókna þörf,“ svarar Hera. Áður en ákvörðun verði tekin um hvort fýsilegt sé að afla orku með vindi ætli OR að afla gagna. „Sem innlent veitu- og orkufyrirtæki í almannaeigu er það hlutverk okkar að afla orku fyrir samfélagið og að gera það á ábyrgan hátt.“ 

ÚlfsgilAffall Úlfsvatn rennur um Úlfsgil, ofan við bæinn Birnustaði. Í gilinu eru fossr, sumir nokkuð háir.

Hera segir ekki tímabært að svara þeirri spurningu hvor OR muni setja einhver skilyrði um hvers konar starfsemi fái að nýta orkuna. „Að því sögðu þá fylgjumst við grannt með samfélagsumræðunni og vissulega er mikilvægt að orka fari í orkuskiptin, en það þarf að breyta lögum til að hægt sé að tryggja að svo sé. Við höfum sett okkur markmið um að vanda til verka og þróa verkefnin í sem mestri sátt við náttúru, umhverfi og samfélag. Í okkar tilviki, ef  ákvörðun verður tekin að nýta vindinn, þá mun ON selja rafmagnið svo ábatinn verður eftir á Íslandi.“ 

Spurð hvað OR ætli sér að gera varðandi öflun jöfnunarafls ef Vörðufellsvirkjun verður ekki að veruleika svarar Hera að stefnt sé á að kanna ýmsar aðrar leiðir, meðal annars að sveifla jarðvarma á móti vindi. „Í dag er eina ódýrustu rafhlöðuna enn að finna í dæluvirkjunum, þó það geti hæglega breyst með annarri þróun og við fylgjumst vel með.“

Stórar spurningar nauðsynlegar

Jónu bónda á Birnustöðum þykir tímabært að farið verði yfir orkumál til framtíðar á landsvísu. Spyrja þurfi stórra spurninga á borð við hvar á landinu og hvernig eigi að afla aukinnar orku, sé hennar þörf, og í hvað hún eigi að fara. „Af hverju erum við í Skeiða- og Gnúpverjahreppi að framleiða ódýrt rafmagn fyrir stóriðju annars staðar á landinu? Af hverju nýtum við ekki meira af orkunni heima í héraði? Af hverjum erum við til dæmis ekki að nýta hana til að framleiða meira af matvælum í stað þess að flytja svona mikið inn?“

Ólafur, eiginmaður hennar, er fæddur og uppalinn á Birnustöðum og jörðin hefur verið í eigu fjölskyldu hans allt frá árinu 1788 – í tvær aldir og nokkra áratugi til. Þau Jóna keyptu jörðina fyrir um þremur árum, bæinn sem lúrir við rætur Vörðufells, fjallsins sem gefur bæði vatn og skjól. „Birnustaðir eru ekkert án Vörðufells,“ segir Jóna, spurð hvaða stað fjallið geymi í huga hennar og hjarta.

Þannig að Vörðufellið verður áfram óhreyft, að minnsta kosti að sinni?

„Já, vonandi.“

Kjósa
21
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • HR
    Hilmar Ragnarsson skrifaði
    Takk fyrir góð og áhugaverð greinarskrif. Eins gott að vera á varðbergi/Vörðufelli gegn ásókn erlendra fyrirtækja í ódýra íslenska orku oft með aðstoð íslenskra bakhjarla eins og gerst hefur með sjókvíalaxeldið. En vissulega þarf að vera til nægileg orka til fyrir matvælaframleiðslu, eins og laxalandeldi, grænmeti, fiskimjöl ofl. Bæta þarf hins vegar dreifingu orkunnar til allra landshluta. Danir voru fyrir skemmstu að leggja til 32 svæði í Danmörku fyrir sólar- og vindorkuver til ársins 2040. Til fyrirmyndar.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Virkjanir

Leggja Zephyr skýrar línur varðandi áform um risavaxið vindorkuver
FréttirVirkjanir

Leggja Zep­hyr skýr­ar lín­ur varð­andi áform um risa­vax­ið vindorku­ver

Vindorku­ver sem áform­að er á Fljóts­dals­heiði yrði líkt og aðr­ar slík­ar virkj­an­ir án for­dæma á Ís­landi en sker sig að auki úr að því leyti að upp­sett afl þess yrði tvö­falt meira en í öðr­um fyr­ir­hug­uð­um vindorku­ver­um. „Hér er því um að ræða mjög um­fangs­mikla fram­kvæmd sem krefst mik­ils fjölda vind­mylla og get­ur haft mik­il um­hverf­isáhrif í för með sér,“ seg­ir í áliti Skipu­lags­stofn­un­ar á verk­efn­inu.
„Dísilknúnu rafbílarnir“ sennilega um ellefu talsins
ÚttektVirkjanir

„Dísil­knúnu raf­bíl­arn­ir“ senni­lega um ell­efu tals­ins

Í sum­ar hef­ur því ver­ið hald­ið fram, m.a. af ráð­herra, að „góð­ar lík­ur“ séu á því að raf­magns­bíl­ar á Vest­fjörð­um séu hlaðn­ir með raf­magni fram­leiddu úr olíu. Orku­stofn­un reikn­aði út fyr­ir Heim­ild­ina að dísil­knúnu raf­bíl­arn­ir hafi ver­ið mjög fá­ir enda fór lang­mest af þeirri olíu sem not­uð var á vara­afls­stöðv­ar til hús­hit­un­ar.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár