Þegar Jón Gunnar Ottósson hóf störf sem sérfræðingur hjá nýstofnuðu umhverfisráðuneyti árið 1990 var mikil gerjun að eiga sér stað í umhverfismálum á heimsvísu. Undirbúningur fyrir heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó var í fullum gangi og kom hann að miklu leyti í hlut Jóns Gunnars fyrir Íslands hönd. Á ráðstefnunni, sem Jón Gunnar sótti, og fram fór árið 1992, voru staðfestir tímamótasamningar til verndar lífríki jarðar. Til að sporna gegn rýrnun líffræðilegs fjölbreytileika og til að takast á við helstu ógnina: Loftslagsbreytingar.
Það var því hugur í hinum fertuga líffræðingi er íslenska sendinefndin kom heim frá Ríó með samningana undirritaða í farteskinu. Nú skyldu málefni náttúrunnar verða sett á oddinn. Náttúrunnar sem hann hafði brunnið fyrir allt frá því hann var strákur í Mývatnssveit. Eldmóðurinn skilaði honum nokkrum árum síðar inn í helsta vígi náttúrurannsókna á Íslandi, sjálfrar Náttúrufræðistofnunar. Þar átti hann eftir að starfa sem forstjóri í 27 ár eða allt þar til í desember í fyrra er hann lét af störfum, sjötugur að aldri.
Þó að forstjórastólinn hafi verið kvaddur er ástríðan enn fyrir hendi. Og það er einmitt vegna hennar sem Jón Gunnar lýsir vonbrigðum með stöðu náttúruverndar á Íslandi nú um stundir. Ákveðin teikn um hvernig á þessum málum yrði tekið voru þegar komin á loft eftir ráðstefnuna í Ríó. Hver þjóð átti í kjölfar staðfestingar á samningnum um líffræðilega fjölbreytni að gera sína stefnumörkun og aðgerðaáætlun. „Það var ekki fyrr en 2008 að þessi stefnumörkun var gerð – sextán árum eftir undirritun samningsins,“ segir Jón Gunnar. Tveimur árum seinna var aðgerðaáætlunin klár, „og svo ekki söguna meir. Það er ekkert farið eftir þessu. Engin eftirfylgni“.
Miklu, miklu betur
Það er þó ekki eins og umhverfismálin séu öll í kalda koli. Ýmislegt hefur áunnist. „En það má gera miklu, miklu betur,“ segir hann með áherslu. „Núna, eins og svo oft áður á Íslandi, er eins og við getum aldrei hugsað um nema eitt í einu. Loftslagsmálin voru ekki hátt skrifuð hér á landi fyrsta áratuginn eftir samþykkt loftslagssamningsins. En eftir að loftslagsmálin tóku yfir allt vill annað gleymast. Öllu virðist fórnandi fyrir þau.“
Hann segir stjórnvöld einfaldlega ekki framfylgja náttúruverndarlögum. Samkvæmt þeim átti fyrir nokkru að setja net verndarsvæða á framkvæmdaáætlun. Tillögurnar, sem Náttúrufræðistofnun vann, eru löngu tilbúnar. Brýnt sé að sinna náttúruvernd skipulega og með sambærilegum hætti og aðrar Evrópuþjóðir. „Við erum hins vegar farin að feta í fótspor Bandaríkjanna þar sem áherslan er á útivist frekar en vernd.“
Jón Gunnar flutti nýverið ásamt eiginkonu sinni, Margréti Frímannsdóttur, í nýtt úthverfi á Selfossi. „Það sem er svo gott við þetta hús er hversu hátt er til lofts og birtan flæðir inn,“ segir hann og bendir út um gluggann. „Hér er útsýni niður að ánni og til fjallanna.“
Náttúran. Hún er honum alltaf ofarlega í huga. Í kringum hann skottast lítill hundur, sjö mánaða tík sem heitir Gríma. Það finnst Jóni Gunnari viðeigandi nafn í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Hann hefur oft haft hunda í kringum sig í gegnum tíðina en einnig önnur dýr – sum hver töluvert meira framandi.
Doktorsritgerð Jón Gunnars við Exeter-háskóla á Englandi fjallaði um vistfræði skordýra og plantna. Hluta af henni vann hann heima á Íslandi, nánar tiltekið á heimili sínu í Mosfellsdal. Þar gerði hann rannsóknir á engisprettum. Um þær bjó hann í einu herbergi og gaf þeim mismunandi tegundir af burknum að éta.
Engispretturnar voru ekki einu kvikindin sem fluttu inn í herbergið. Í einni ferð Jóns Gunnars erlendis var honum gefin fuglakónguló, „þessi stóra sem á heimkynni í Afríku,“ segir hann og glottir er hann rifjar þetta upp núna, um fjórum áratugum síðar. „Það var öllum svo illa við hana að fólk hætti að koma í heimsókn,“ bætir hann hlæjandi við.
Auður dóttir hans, rithöfundur með meiru, segir að kóngulóin hafi gefið frá sér undarlegt hvæs. Og að eitt sinn hafi hún sloppið út. Jón Gunnar man nú ekki sérstaklega eftir því en segir hana fljótlega hafa drepist úr taugaveiklun. Tegundin sé háð tólf tíma myrkri og tólf tíma dagsbirtu. Svo hinar endalausu íslensku sumarnætur og hinn dimmi vetur var henni ekki að skapi.
Jón Gunnar man hins vegar eftir því að alls kyns dýr sem komið var með til Náttúrufræðistofnunar í gegnum tíðina hafi sloppið úr búrum sínum. Eitt sinn var komið með eitraðan snák sem hafði verið gerður upptækur. „Hann slapp út og hvarf og fannst ekki fyrr en viku seinna eftir mikla leit. Þá var hann bak við ofn í sama herberginu. Hann hafði þá bara verið að hlýja sér.“
Í dag eru það aðrar framandi tegundir sem eru Jóni Gunnari ofarlega í huga. Ágengar tegundir sem ógna íslenskri náttúru – fyrst og fremst plöntur. Því er að hans mati ekki tekið alvarlega „en á sama tíma er þetta viðurkennt á alþjóðavettvangi sem ein mesta ógn við lífríki jarðar,“ segir hann. „Hér hlæja menn bara að þessu.“
Hvaðan sprettur þessi ástríða þín fyrir náttúrunni?
„Ætli það tengist ekki því að ég var alinn upp í Mývatnssveit,“ svarar hann. „Svo voru margir frændur mínir í föðurætt náttúrufræðingar og komnir af hómópötum. Þannig að þetta er eflaust í blóðinu líka.“
Áhuginn og menntun Jóns í náttúrufræði hefur farið með hann víða. Um allt land og til margra landa víðs vegar um heim, til starfa hjá ýmsum stofnunum, í kennslu og inn í nefndir á sviði náttúruverndar, skógræktar og landgræðslu, svo fáein dæmi séu tekin. „Ég hef unnið með öllum umhverfisráðherrum Íslands frá upphafi,“ segir hann og þylur nöfn þeirra upp í réttri röð. Þar sem hann er ekki lengur embættismaður er freistandi að spyrja hvernig samstarfið við þá hafi gengið. Hann segir nokkra þeirra standa upp úr. Nefnir strax Össur Skarphéðinsson, Svandísi Svavarsdóttur og Sigríði Önnu Þórðardóttur. Siv Friðleifsdóttir hafi svo „átt sína spretti“. En að líklega hafi hann átt einna minnst samráð við núverandi umhverfisráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson. Varaformann Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Hafði þó bundið miklar vonir við hann.
Hvernig finnst þér núverandi ríkisstjórn hafa staðið sig í náttúruverndarmálum?
„Illa,“ svarar hann að bragði. „Mér finnst hún ekki sinna náttúruverndinni og svo framfylgir hún ekki náttúruverndarlögum.“
Svandís Svavarsdóttir, sem nú er heilbrigðisráðherra, er að mati Jóns sá stjórnmálamaður sem hvað mest mark setti á umhverfisráðuneytið vegna þess að hún setti af stað löngu tímabæra vinnu við endurskoðun náttúruverndarlaga.
Í hana var lögð gríðarleg vinna. Undanfarinn var hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands en hana vann nefnd sem Svandís skipaði og Jón Gunnar átti sæti í. „Að öðrum ólöstuðum átti Aagot Óskarsdóttir lögfræðingur stærstan þátt í gerð frumvarpsins til nýrra náttúruverndarlaga.“
Lögin voru samþykkt árið 2013 en tóku ekki gildi fyrr en rúmum tveimur árum síðar. Að mati Jóns Gunnars eru þau vönduð en framkvæmdin á þeim er hins vegar „í skötulíki“. Flestar stofnanir sem undir svið laganna heyra hafa gert það sem til er ætlast af þeim „en áhuginn fyrir framkvæmdinni hverfur alltaf fyrir einhverjum öðrum gæluverkefnum viðkomandi ráðherra. Miðhálendisþjóðgarðurinn hefur í rauninni ýtt öllu öðru til hliðar.“
Net verndarsvæða
Jón Gunnar útskýrir þetta frekar: „Þegar við gerðum hvítbókina og nýju lögin þá horfðum við til annarra landa. Þar hefur þróun náttúruverndarmála verið á fullu skriði alveg frá árinu 1987 má segja og mjög árangursrík hugmynda- og aðferðafræði verið þróuð. Hún endurspeglast í okkar náttúruverndarlögum en það vantar upp á að við fylgjum þessum aðferðum eftir.
Til dæmis, einn mikilvægasti þátturinn í samstarfi Evrópuríkja er að búa til net verndarsvæða. Það eru að ég held öll ríki í Evrópu búin að tilnefna svæði inn á netið nema Ísland og tvö ríki í viðbót. Mig minnir að það séu Lichtenstein og San Marino. Landlausar þjóðir.“
„Það er einfaldlega svo sterkur áróður fyrir því að Ísland sé tötrum vafið og það megi gera allt til að bæta úr þeim ímyndaða vanda.“
Hvað skýrir það?
„Áhugaleysi myndi ég halda. Norðmenn og Svisslendingar eru meðal þeirra þjóða sem hafa staðið sig mjög vel – og ekki eru þær hluti af Evrópusambandinu. Í náttúruverndarlögunum eru mörg bráðabirgðaákvæði þar sem settar eru tímasetningar á hvenær á að vera búið að framkvæma ákveðna hluti. En það er bara látið eins og þetta sé ekki til.“
Hvers vegna?
„Þarna eru miklir hagsmunir. Hvort sem það eru virkjanir, skógrækt eða eitthvað annað. Skógræktarmenn vilja sumir engar takmarkanir á því hvar þeir mega planta og hvar ekki. Eða hverju. En í þeim hugsunarhætti felst ógn. Í fyrsta lagi getur skógrækt breytt ásýnd lands. Svo er líka oft verið að taka alls konar og mjög verðmætar vistgerðir undir skógrækt og valda með því óafturkræfum spjöllum.“
Jóni Gunnari er tíðrætt um vistgerðir. Fleiri kannast líklega við orðið vistkerfi. En það er að hans sögn mjög fljótandi hugtak. „Þú getur talað um vistkerfi rjúpunnar. Þú getur talað um Mývatn sem vistkerfi. Um Ísland sem vistkerfi. En hugtakið vistgerð [natural habitat eða habitat type] er það sem menn nota í Evrópu í dag. Það er eitthvað sem er með festingu í náttúrunni og er hægt að skilgreina. Þetta var fundið upp einmitt til þess að geta skrásett náttúruna, metið hana og vaktað.“
Að skrásetja, meta og vakta. Þetta er einmitt það sem umfangsmikil vinna Jóns Gunnars og annarra sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar gekk út á á nokkurra ára tímabili. Vinna sem nauðsynlegt var að fara í vegna alþjóðlegra skuldbindinga og framkvæmd náttúruverndarlaga, en hafði setið á hakanum vegna fjárskorts.
En svo kom fjármagn skyndilega til skjalanna. Og ástæðan fyrir því að við fengum „fullt af peningum“, eins og Jón Gunnar orðar það, var einföld: „Það er engin þjóð sem getur gengið í Evrópusambandið fyrr en að hún er búin að taka frá landsvæði undir náttúruvernd.“
Alþjóðlega er búið að skilgreina þau dýr, plöntur, vistgerðir og fleiri fyrirbrigði í náttúrunni sem þarfnast verndar. Með þessar skilgreiningar að vopni eru svæði kortlögð, „vistgerð eftir vistgerð, tegund eftir tegund“ og þannig búið til net sem hefur það að markmiði að taka frá þau svæði sem eru verndar þurfi áður en ákvarðanir eru teknar um aðra landnýtingu. Þannig virka málin í Evrópukerfinu, segir Jón Gunnar en bætir við að þessu sé þveröfugt farið hér á landi. „Á Íslandi fæst það landsvæði friðað sem ekki eru önnur not fyrir. Ef ekki á að virkja eða ráðast í aðra landnotkun, þá er í lagi að friða. En ef til er virkjanahugmynd þá er mjög mikil andstaða gegn því að vernda það.“
Í skráningarferlinu og tillöguvinnunni allri var allt landið flokkað í vistgerðir (land, ferskt vatn og fjara) en vegna sérstöðu íslenskrar náttúru þurfti að bæta við flokkum því hér er að finna vistgerðir sem finnast hvergi annars staðar í heiminum. Vísindamennirnir fundu til dæmis fjórtán mismunandi gerðir af votlendi. „Íslendingar tala alltaf um votlendi sem eitthvað eitt fyrirbæri. Bara mýri. En sumt af þessu votlendi er alveg gríðarlega verðmætt. Hvort sem horft er á Evrópuvísu eða heimsvísu.“
Af hverju sjáum við ekki þetta verðmæti?
„Það er einfaldlega svo sterkur áróður fyrir því að Ísland sé tötrum vafið og það megi gera allt til að bæta úr þeim ímyndaða vanda,“ segir hann. „Svo er annað sem á það til að gleymast en í felast mikil verðmæti. Í landinu er að finna fullt af náttúrufyrirbærum; tegundum og vistgerðum, sem við berum ábyrgð á samkvæmt alþjóðasamningum. Í björgum við landið er til að mynda að finna 60 prósent af álkustofni heimsins. Þess vegna berum við meiri ábyrgð á því en aðrir að henni verði ekki útrýmt.“
Eftir að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu sá framkvæmdastjórn þess hversu „aftarlega við vorum á merinni“ í því að skrásetja náttúruna og setti fjármuni í verkið sem Náttúrufræðistofnun vann hratt á árunum 2012-2016. „Það skipti engu í okkar huga hvort að við myndum ganga í Evrópusambandið eða ekki, því þetta var sami grunnur og lagt var upp með í náttúruverndarlögunum,“ bendir Jón Gunnar á. „Þetta er líka í samræmi við alþjóðasamninga eins og Bernarsamninginn um vernd villtrar náttúru í Evrópu.“
Þegar umsókn um sambandsaðildina var dregin til baka átti það engu að breyta um framhaldið. Samkvæmt náttúruverndarlögum átti að leggja fram framkvæmdaráætlun náttúruminjaskrár, þ.e. svæði sem áttu að fara í forgang í friðun, og byggja á þessu neti. Þetta átti ráðherra að leggja fram í síðasta lagi 2017 samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna. Náttúrufræðistofnun skilaði honum fullbúnum tillögum í byrjun árs 2018 og viðbótartillögum ári síðar að hans beiðni. Eftir það gerðist ekki neitt. „Við hefðum getað verið samstíga öðrum Evrópuríkjum í að koma þessu neti á.“
En af því hefur ekki enn orðið.
Af hverju ekki?
„Með þessu er verið að binda svæði – vernda þau. En Norðmenn, svo við tökum dæmi frá þjóð sem við berum okkur oft saman við, hafa tekið frá ótrúlegan fjölda svæða í þessum tilgangi. Svæði sem má, svo það sé tekið fram, nýta svo lengi sem þess er gætt að verndarmarkmið náist.“
Öll þessi nálgun er byggð inn í náttúruverndarlögin „en á meðan menn þráast við að koma þeim í framkvæmd þá eru tillögurnar ekkert annað en einhver pappírsbunki sem skiptir engu máli“.
Jón Gunnar verður hugsi áður en hann heldur áfram.
„Eitt af því sem maður tekur nærri sér er að á meðan stjórnvöld voru að draga lappirnar í málinu var ég formaður náttúruverndarsamnings Evrópu, Bernarsamningsins. Ég var í stjórn hans í ellefu ár og formaður þegar verið var að koma þessu neti á í Evrópu. Þá var það mín þjóð sem stóð sig ekki. Það var svekkjandi að horfa upp á það.“
Aðeins vilji til að friða í algjörri sátt
Hvað þarf að gerast til að þetta verði sett í framkvæmd?
„Þetta er pólitísk ákvörðun. Það þarf einfaldlega að senda þessar tillögur inn og þá fara þær í ferli. Ég skil ekki af hverju er ekki löngu búið að því. Þessu er alltaf frestað og settar fram einhverjar afsakanir. Þær eru þó engar sem hönd á festir raunverulega.“
Hverju myndi það breyta ef þetta net yrði að veruleika?
„Það myndi styrkja vernd þessara tegunda, vistgerða og svæða og færa okkur yfir í það að vinna skipulega að náttúruvernd en ekki allt að því tilviljanakennt eins og er í dag.
Munurinn á okkur og öðrum Evrópulöndum er þessi: Við erum mjög slæm með það að friða ekki nema að það sé algjör sátt um það. En það verður aldrei algjör sátt ef einhverjir hagsmunir tengjast svæðinu. Í Evrópu horfa þeir öfugt á þetta. Þar er byrjað að taka frá svæði sem nauðsynlegt er að vernda. Svo er farið að skoða iðnaðinn og landbúnaðinn.“
Það sem skýrir þetta að sögn Jóns Gunnars „er þessi rótgróna og oft vanhugsaða hagsmunagæsla okkar“.
„Eitt af því sem maður tekur nærri sér er að á meðan stjórnvöld voru að draga lappirnar í málinu var ég formaður náttúruverndarsamnings Evrópu, Bernarsamningsins. Þá var það mín þjóð sem stóð sig ekki.“
Umræðan um þá ógn sem steðjar að jörðinni vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum hefur orðið hávær og almenn síðustu ár. Hér eru þó engin ný vísindi á ferðinni og Jón Gunnar hefur lifað og hrærst í þeim í áratugi. Þegar í Ríó voru málefni loftslagsins efst á baugi og loftslagssamningurinn undirritaður af tugum ríkja, m.a. Íslandi. „Þau eru mjög brýn,“ segir Jón Gunnar um málaflokkinn. „En,“ bætir hann við með áherslu, „það er hægt að skipuleggja hlutina þannig að við tökum á öðrum þáttum um leið.“
Oft er talað um að hin græna endurnýjanlega orka sem hér er hægt að framleiða geti orðið okkar stóra framlag til loftlagsmála. En að mati Jóns Gunnars er ekki hægt að horfa einangrað á loftslagsvandann. „Það verður líka að hugsa um hvers konar náttúru, hvers konar vistgerðir, er verið að skemma eða hafa áhrif á með virkjuninni sjálfri, bindingu með skógrækt eða öðrum sambærilegum aðgerðum.“
Umræðan hafi að vissu leyti leitt okkur á villigötur. „Til þess að uppfylla ákvæði loftslagssamningsins er ekki ætlast til að þú brjótir ákvæði annarra samninga. Það eru til að mynda mjög skýrar reglur í Bernarsamningnum og Ríó-samningnum um líffræðilegan fjölbreytileika um að vernda ólíkar vistgerðir. En hér á landi, til að uppfylla ákvæði loftslagssamningsins, eru hinir samningarnir brotnir.“
Sérðu þetta vera að eiga sér stað?
„Já. Dæmi um þetta eru æpandi út um allt. Sem betur fer hefur dregið úr því að menn ræsi fram votlendi til að planta trjám. En menn eru að taka alls konar aðrar vistgerðir og sá í þær lúpínu og framandi trjátegundum.
Ég skal taka einfalt dæmi: Spóinn er svokölluð ábyrgðartegund á Íslandi. Hvergi í heiminum dvelja yfir sumartímann jafn margir spóar. En hann þarf gróðurlítið land til þess að verpa. Opið land, áreyrar og slíkt eru hans kjörlendi. En núna eru þessi svæði smám saman að hverfa í lúpínu. Þannig missir spóinn sífellt meira af sínum búsvæðum. Þetta er raunveruleg ógn við spóann hér á landi og þar með í heiminum.“
Við erum komin að heitu umræðuefni. Eldheitu jafnvel. „Það verður að hafa meiri hemil á notkun lúpínunnar,“ segir Jón Gunnar. „Mér liggur við að segja að umræðan um lúpínu jafnist á við trúarbrögð. Og sumir þessara trúarhópa eru enn að dreifa lúpínu, jafnvel uppi á hálendi, þar sem hún er bönnuð. Svo dreifist hún með öllum ám og lækjum. Lúpínan þekkir engin jarðamörk.“
Hann segir lúpínustríðið í raun þegar tapað. „Á stórum svæðum á landinu munum við aldrei losna við hana. Síðan þetta stríð hófst hafa menn skipt um stefnu og reynt að halda henni frá ákveðnum svæðum. Meira að segja Landgræðslan, sem notaði lúpínu til uppgræðslu áður hefur algjörlega snúið við blaðinu. Hún er bönnuð í yfir 400 metra hæð og á öllum friðlýstum svæðum. En þú losnar ekkert við hana.“
Jón Gunnar hefur alla sína tíð verið andsnúinn því að nota lúpínu, þá ágengu jurt, til landgræðslu. „Ég fann einmitt nýverið úrklippu með viðtali við mig sem tekið var fyrir um 30 árum. Og það hefði getað verið skrifað í dag.“
Hefur þú verið gagnrýndur fyrir að tala gegn henni?
„Já, já. Þetta er hatrömm deila. Vinir lúpínunnar hafa notað þá aðferð skipulega að ef einhver opnar munninn gegn þeim þá fær viðkomandi hersveit á sig í fjölmiðlum.“
En það eru fleiri tegundir sem eru allt að því þyrnir í augum Jóns Gunnars. Hann hefur ákveðnar áhyggjur af þróun skógræktar í landinu, maðurinn sem um árabil starfaði hjá rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, m.a. sem forstöðumaður. Margir sjá framandi tegundir skógarplanta í rósrauðum bjarma og að út í þær þurfi nú ekki að fetta fingur heldur miklu heldur fagna fjölbreytileikanum. Sumar þeirra eru ekki einu sinni framandi í okkar huga lengur. Þær eru út um allt. Við erum hér að tala um stafafuru og sitkagreni, svo dæmi séu tekin.
Aflátsbréf á færibandi
Kolefnisjöfnun, það nýyrði sem fyrirtækjum er þegar orðið tamt að nota í auglýsingum, er að mati Jóns Gunnars ekkert annað en aflátsbréf. Syndaaflausn fyrir neytendur sem telja sig meðvitaða en eru í raun að láta spila með sig. „Þetta gengur út á það að láta fólk kaupa einhverja hríslu svo það geti hagað sér eins og það vill,“ segir Jón Gunnar og hristir höfuðið. „En þetta er aldrei hugsað til enda. Skógur bindur hratt á meðan hann er að vaxa en svo kemur að því að hann bindur minna heldur en að hann andar. Skógur er eins og hver önnur lífvera. Hann eldist, hrörnar og deyr.“
En hvað er þá hægt að gera hvað varðar loftslagsmálin?
„Einfaldlega að fara að haga sér allt öðruvísi,“ svarar Jón Gunnar um hæl. „Fara að draga úr losun í staðinn fyrir að auka hana endalaust og finna svo upp á einhverjum bindingaraðferðum. Þetta snýst allt um lífshætti í raun. Að vernda ákveðna lífshætti sem fólk telur sig eiga rétt á og ekki geta verið án.“
Undir lok síðustu aldar, nokkrum árum eftir að Jón Gunnar tók við starfi forstjóra Náttúrufræðistofnunar, voru miklar virkjanahugmyndir uppi á Austurlandi og til stóð að sökkva Eyjabökkum, votlendissvæði upp af Fljótsdal, undir uppistöðulón. Áformin voru gríðarlega umdeild og um aldamótin var ákveðið að hverfa frá þeim en ráðast þess í stað í Kárahnjúkavirkjun.
„Káranhnjúkavirkjun, langstærsta virkjun sem hefur verið byggð á Íslandi, fékk fólk til að hugsa,“ segir Jón Gunnar. „Það fór gríðarlegt landflæmi undir lónið. Við hjá Náttúrufræðistofnun urðum fyrir mikilli gagnrýni því við tókum að okkur undirbúningsrannsóknir. Í þeim reyndum við fyrst og fremst að meta áhrifin á náttúruna, gera okkar eigin skýrslur sem Landsvirkjun og aðrir gætu þá notað. Við vorum eini aðilinn á Íslandi sem gat gert svona verkefni á þessum tíma. Ef við hefðum ekki gert það hefðu þessar rannsóknir orðið í skötulíki.“
Kallaður á teppið
Gagnrýnin kom úr öllum áttum. Stofnunin, og líka Jón Gunnar persónulega, var gagnrýnd fyrir að fara í verkefnið fyrir Landsvirkjun en niðurstaða rannsóknanna, þar sem ítarlega var farið yfir þau miklu umhverfisáhrif sem virkjunin hefði í för með sér, einnig. „Ég var kallaður á teppið hjá ráðherra aftur og aftur fyrir að ég og mitt starfsfólk skyldum hafa látið hitt og þetta út úr okkur.“
Aðrar virkjanahugmyndir hafa einnig valdið sambærilegum og jafnvel enn harðari deilum. Mývatns- og Laxárslagurinn á sínum tíma var gríðarlega harður. Þar átti að drekkja öllum Laxárdalnum upp að Mývatni. En heimamenn stoppuðu fyrirætlanirnar. „Þetta hafði áhrif á mig sem náttúrufræðing,“ viðurkennir Jón Gunnar. „Ég er líka alinn upp í Mývatnssveit, við Laxá sem átti að kaffæra. Alinn upp í kringum allt þetta fólk.“
Baráttan um Þjórsárverin var líka óvægin og er mörgum enn í fersku minni. „Frá því ég man eftir mér hafa verið slagsmál í gangi,“ segir Jón Gunnar.
Á aðeins nokkrum misserum hafa verið settar fram tugir hugmynda að vindorkuverum víðsvegar um landið. Náttúrufræðistofnun vildi hafa vaðið fyrir neðan sig og hóf að afla sér þekkingar fyrir mörgum árum og á meðan fyrstu hugmyndirnar voru enn á frumstigi. Með þá þekkingu að vopni hafa sérfræðingar stofnunarinnar átt marga fundi með þeim sem slík orkuver vilja reisa. „Þetta vildum við gera til að vera betur í stakk búin að fjalla um vindorkumálin. Það er nefnilega oft notað á Íslandi að þekkingin sé ekki fyrir hendi og þess vegna sé allt í lagi að gera hlutina. Við höfum alltaf sagt við þessa aðila, til að komast hjá vandræðum, reynið að finna staði þar sem er ekki mikið fuglalíf eða farleiðir fugla. Ekki benda á kort og segja: Við ætlum að vera hér.“
Rannsóknir á fuglalífi á Íslandi eru umfangsmiklar og eitt síðasta verk Jóns Gunnars hjá Náttúrufræðistofnun, voru kaup á sendum til að setja á erni til að kortleggja helstu farleiðir þeirra. Út úr því verkefni eru þegar komnar mjög merkilegar niðurstöður. Til dæmis hvað ernir þvælast mikið. „Einn, sem bjó við Breiðafjörðinn, tók sig einu sinni til og flaug með þjóðveginum og Þingvallahringinn og til baka,“ segir Jón Gunnar. „Svo sjáum við til dæmis að aðal farleið arna milli Húnaflóa og Breiðafjarðar er Laxárdalsheiði. Þar er nú verið að skipuleggja tvo vindmyllugarða. Akkúrat í farleiðinni. Ernir eru einna viðkvæmastir af öllum fuglum Íslands fyrir vindmyllum. Þannig að miðað við þessar upplýsingar sem við erum að fá núna þá eru þetta ekki góðir staðir fyrir vindorkuver.“
Hvernig finnst þér rammaáætlun hafa virkað sem stjórntæki?
„Hún hefði virkað vel, ef menn hefðu fylgt því sem lagt var upp með,“ svarar Jón Gunnar. „Ferlið hefur auðvitað gengið miklu hægar en það átti að gera vegna eilífra deilna um einstaka kosti. Þegar lögin voru fyrir Alþingi á sínum tíma benti Náttúrufræðistofnun á galla þess að verkefnisstjórn ætti að handvelja einstaklinga til að vera í faghópum. Að það væri röng stefna. Frekar ætti fela stofnunum þar sem þekkingin er mikil að gera fagvinnuna enda væri það í samræmi við lögboðið hlutverk þeirra. Ákvarðanatakan gæti eftir sem áður verið hjá verkefnisstjórn.“ Á þetta var ekki hlustað.
Líkt og margt annað í náttúruverndarmálum segir Jón Gunnar að baráttan fyrir rammaáætlun hafi verið löng og ströng. Lögin um nýtingu og vernd landsvæða voru svo sett árið 1999.
Því þetta er fag
Jón Gunnar sat í fyrstu verkefnisstjórninni. „Eftir þá vinnu, þennan fyrsta áfanga, fannst mér ljóst að þetta fyrirkomulag, með þessa faghópa, gengi ekki upp. Því þetta er fag. Og það er ekki í lagi að láta þessa grunnvinnu, mat á virkjanakostunum og áhrifum þeirra, í hendurnar á Pétri og Páli.“
Fjögur og hálft ár eru síðan tillaga til þingsályktunar um þriðja áfangann var lögð fyrst fram. Það var svo gert aftur. Og aftur. Nú síðast í desember. Og enn er hún ekki afgreidd. „Ég skil ekki af hverju umhverfisráðherra hefur ekki lagt hana fyrr inn á þingið. Hann hefur setið á ráðherrastóli í tæp fjögur ár. Tillagan eins og hún lítur út í dag var tilbúin þegar hann tók við.“
Hver er þín skoðun á hálendisþjóðgarði?
„Mér finnst gott og blessað að eiga draum um miðhálendisþjóðgarð. En ég hefði viljað stíga styttri skref í einu og búa til net friðunarsvæða eins og þau eru skilgreind í tillögum Náttúrufræðistofnunar. Vernda það sem er verndarþurfi. Þegar netið væri komið á tel ég að eftirleikurinn yrði auðveldari. Rökstuðningurinn sterkari.“
Áherslan á ferðamennsku innan hálendisþjóðgarðsins sé of mikil og hann telur skýringuna m.a. felast í því að umhverfisráðherra sé menntaður í Bandaríkjunum. Þar sé náttúruverndarkerfið allt annað en hér á landi og skipulag þjóðgarða líkara fólkvöngunum okkar - útivistarsvæði. „Í Bandaríkjunum er lagt mikið upp úr ferðamönnum,“ segir hann. Í Evrópu sé unnið skipulegar og með skýrari aðferða- og hugmyndafræði. „En ráðherrann virðist ekki vilja horfa til Evrópu heldur halla sér að bandaríska kerfinu. Og hálendisþjóðgarður, eins og hann er áformaður, er hluti af því.“
Að vernda náttúruna hennar sjálfrar vegna
Jón Gunnar segir umræðuna farna að minna sig á hinar gömlu heimspekideilur; hvort verið sé að vernda náttúruna hennar sjálfrar vegna eða fyrir manninn. „Mér finnst ráðherrann tala á þann veg að við eigum að vernda náttúruna fyrir manninn á meðan hugsunin í náttúruverndarlögunum er þveröfug.“
Í ráðherratíð Guðmundar Inga hafa nokkur svæði verið friðlýst en Jón Gunnar bendir á að flest séu þau friðuð að ósk heimamanna. Þetta eru svæði eins og Geysir, Goðafoss, Akurey og Látrabjarg, sem margir Íslendingar héldu eflaust að væru nú þegar friðuð, svæði sem engin bein ógn steðjar að, ekki nema þá vegna ágangs ferðamanna. „Hagræni hvatinn er fyrirferðarmikill í þessum friðlýsingum. Enda notar ráðherrann það alveg stöðugt, að friðun svæðis laði að svo marga ferðamenn. En við viljum ekki endilega fá ferðamenn á alla þessa staði sem þarf að vernda.“
Þú hættir sem forstjóri Náttúrufræðistofnunar í desember þegar þú varðst sjötugur. Hefðir þú viljað vinna lengur?
„Fyrir hálfu ári hefði ég svarað þessari spurningu játandi. En núna er ég feginn að hafa hætt. Þetta var alveg komið gott.“
Spurður hvort að það sé eitthvað í fræðunum sem hann langi að halda áfram að grúska í segist hann vera búinn að fá nóg af slíku – í bili að minnsta kosti. En hver veit, kannski sest hann við einhvern daginn og skrifar bók.
Jón Gunnar hefur alla tíð verið mikill útivistarmaður og stundað veiðar þegar því hefur verið viðkomið. Á sínum yngri árum var hann með haglabyssu til taks í skottinu á bílnum. „Ég skaut rjúpu og gæs þegar ég var ungur en svo óx ég upp úr því og fór í stangveiðina,“ segir hann.
Hrafnar hafa fylgt Jóni Gunnari í gegnum lífið allt frá æskuárum. Spurður hvað það sé við hrafninn sem heilli segir hann þá einfaldlega skemmtilega. Það er því engin tilviljun að hrafn sé í merki Náttúrufræðistofnunar. „Hrafninn er alls staðar,“ segir hann. Þó að við Íslendingar séum aldir upp við að sjá hann bæði í sveit og borg er hann einstakur á heimsmælikvarða eins og svo margt annað í okkar náttúru. „Íslenski hrafninn er sérstök deilitegund,“ bendir Jón Gunnar á. „Vængirnir á honum eru styttri en á hröfnum sem finnast annars staðar í Evrópu miðað við stélið. Hann hefur verið á Íslandi miklu lengur en við mannfólkið.“
Og það er fleira sem skýrir áhugann á hrafninum. Í kringum hann er alls konar þjóðtrú sem Jón Gunnar hefur gaman að. „Guð launar fyrir hrafninn.“
Athugasemdir