Þessi grein birtist upphaflega á Kjarnanum fyrir meira en 3 árum.

Hálendisþjóðgarður „hefur í rauninni ýtt öllu öðru til hliðar“

Í doktors­nám­inu voru engisprett­ur á heim­ili hans í Mos­fells­daln­um og um skeið var fugla­kóngu­ló í þeim fé­lags­skap. Á tíma­bili var hann alltaf með hagla­byssu í skott­inu á haust­in en óx fljótt upp úr því að skjóta fugla. Jón Gunn­ar Ottós­son er ástríðu­full­ur unn­andi ís­lenskr­ar nátt­úru og rann­sókn­ir á henni hafa átt hug hans all­an í ára­tugi. Hún er ein­stök, hún er mik­il­væg og að henni steðja ógn­ir, seg­ir hann í við­tali við Kjarn­ann, nokkr­um mán­uð­um eft­ir að hann lét af embætti for­stjóra Nátt­úru­fræði­stofn­un­ar.

Hálendisþjóðgarður „hefur í rauninni ýtt öllu öðru til hliðar“

Þegar Jón Gunnar Ott­ós­son hóf störf sem sér­fræð­ingur hjá nýstofn­uðu umhverf­is­ráðu­neyti árið 1990 var mikil gerjun að eiga sér stað í umhverf­is­málum á heims­vísu. Und­ir­bún­ingur fyrir heims­ráð­stefnu Sam­ein­uðu þjóð­anna í Ríó var í fullum gangi og kom hann að miklu leyti í hlut Jóns Gunn­ars fyrir Íslands hönd. Á ráð­stefn­unni, sem Jón Gunnar sótti, og fram fór árið 1992, voru stað­festir tíma­móta­samn­ingar til verndar líf­ríki jarð­ar. Til að sporna gegn rýrnun líf­fræði­legs fjöl­breyti­leika og til að takast á við helstu ógn­ina: Lofts­lags­breyt­ing­ar.

Það var því hugur í hinum fer­tuga líf­fræð­ingi er íslenska sendi­nefndin kom heim frá Ríó með samn­ing­ana und­ir­rit­aða í fartesk­inu. Nú skyldu mál­efni nátt­úr­unnar verða sett á odd­inn. Nátt­úr­unnar sem hann hafði brunnið fyrir allt frá því hann var strákur í Mývatns­sveit. Eld­móð­ur­inn skil­aði honum nokkrum árum síðar inn í helsta vígi nátt­úru­rann­sókna á Íslandi, sjálfrar Nátt­úru­fræði­stofn­un­ar. Þar átti hann eftir að starfa sem for­stjóri í 27 ár eða allt þar til í des­em­ber í fyrra er hann lét af störf­um, sjö­tugur að aldri.

Þó að for­stjóra­stól­inn hafi verið kvaddur er ástríðan enn fyrir hendi. Og það er einmitt vegna hennar sem Jón Gunnar lýsir von­brigðum með stöðu nátt­úru­verndar á Íslandi nú um stund­ir. Ákveðin teikn um hvernig á þessum málum yrði tekið voru þegar komin á loft eftir ráð­stefn­una í Ríó. Hver þjóð átti í kjöl­far stað­fest­ingar á samn­ingnum um líf­fræði­lega fjöl­breytni að gera sína stefnu­mörkun og aðgerða­á­ætl­un. „Það var ekki fyrr en 2008 að þessi stefnu­mörkun var gerð – sextán árum eftir und­ir­ritun samn­ings­ins,“ segir Jón Gunn­ar. Tveimur árum seinna var aðgerða­á­ætl­unin klár, „og svo ekki sög­una meir. Það er ekk­ert farið eftir þessu. Engin eft­ir­fylgn­i“.

Miklu, miklu betur

Það er þó ekki eins og umhverf­is­málin séu öll í kalda koli. Ýmis­legt hefur áunn­ist. „En það má gera miklu, miklu bet­ur,“ segir hann með áherslu. „Núna, eins og svo oft áður á Íslandi, er eins og við getum aldrei hugsað um nema eitt í einu. Lofts­lags­málin voru ekki hátt skrifuð hér á landi fyrsta ára­tug­inn eftir sam­þykkt lofts­lags­samn­ings­ins. En eftir að lofts­lags­málin tóku yfir allt vill annað gleym­ast. Öllu virð­ist fórn­andi fyrir þau.“

Hann segir stjórnvöld einfaldlega ekki framfylgja náttúruverndarlögum. Samkvæmt þeim átti fyrir nokkru að setja net verndarsvæða á framkvæmdaáætlun. Tillögurnar, sem Náttúrufræðistofnun vann, eru löngu tilbúnar. Brýnt sé að sinna náttúruvernd skipulega og með sambærilegum hætti og aðrar Evrópuþjóðir. „Við erum hins vegar farin að feta í fótspor Bandaríkjanna þar sem áherslan er á útivist frekar en vernd.“

Fossinn Drynjandi á Ófeigsfjarðarheiði. Fossar í Rjúkanda, Hvalá og Eyvindarfjarðará eru meðal þeirra náttúrufyrirbæra sem Náttúrufræðistofnun tilnefnir á náttúruminjaskrá vegna jarðminja.

Jón Gunnar flutti nýverið ásamt eiginkonu sinni, Margréti Frímannsdóttur, í nýtt úthverfi á Selfossi. „Það sem er svo gott við þetta hús er hversu hátt er til lofts og birtan flæðir inn,“ segir hann og bendir út um gluggann. „Hér er útsýni niður að ánni og til fjallanna.“

Náttúran. Hún er honum alltaf ofarlega í huga. Í kringum hann skottast lítill hundur, sjö mánaða tík sem heitir Gríma. Það finnst Jóni Gunnari viðeigandi nafn í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Hann hefur oft haft hunda í kringum sig í gegnum tíðina en einnig önnur dýr – sum hver töluvert meira framandi.

Doktorsritgerð Jón Gunnars við Exeter-háskóla á Englandi fjallaði um vistfræði skordýra og plantna. Hluta af henni vann hann heima á Íslandi, nánar tiltekið á heimili sínu í Mosfellsdal. Þar gerði hann rannsóknir á engisprettum. Um þær bjó hann í einu herbergi og gaf þeim mismunandi tegundir af burknum að éta.

Engisprettur voru meðal viðfanga Jóns Gunnars í doktorsverkefninu.

Engispretturnar voru ekki einu kvikindin sem fluttu inn í herbergið. Í einni ferð Jóns Gunnars erlendis var honum gefin fuglakónguló, „þessi stóra sem á heimkynni í Afríku,“ segir hann og glottir er hann rifjar þetta upp núna, um fjórum áratugum síðar. „Það var öllum svo illa við hana að fólk hætti að koma í heimsókn,“ bætir hann hlæjandi við.

Auður dóttir hans, rithöfundur með meiru, segir að kóngulóin hafi gefið frá sér undarlegt hvæs. Og að eitt sinn hafi hún sloppið út. Jón Gunnar man nú ekki sérstaklega eftir því en segir hana fljótlega hafa drepist úr taugaveiklun. Tegundin sé háð tólf tíma myrkri og tólf tíma dagsbirtu. Svo hinar endalausu íslensku sumarnætur og hinn dimmi vetur var henni ekki að skapi.

Jón Gunnar man hins vegar eftir því að alls kyns dýr sem komið var með til Náttúrufræðistofnunar í gegnum tíðina hafi sloppið úr búrum sínum. Eitt sinn var komið með eitraðan snák sem hafði verið gerður upptækur. „Hann slapp út og hvarf og fannst ekki fyrr en viku seinna eftir mikla leit. Þá var hann bak við ofn í sama herberginu. Hann hafði þá bara verið að hlýja sér.“

Í dag eru það aðrar fram­andi teg­undir sem eru Jóni Gunn­ari ofar­lega í huga. Ágengar teg­undir sem ógna íslenskri nátt­úru – fyrst og fremst plönt­ur. Því er að hans mati ekki tekið alvar­lega „en á sama tíma er þetta við­ur­kennt á alþjóða­vett­vangi sem ein mesta ógn við líf­ríki jarð­ar,“ segir hann. „Hér hlæja menn bara að þessu.“

Hvaðan sprettur þessi ástríða þín fyrir nátt­úr­unni?

„Ætli það teng­ist ekki því að ég var alinn upp í Mývatns­sveit,“ svarar hann. „Svo voru margir frændur mínir í föð­ur­ætt nátt­úru­fræð­ingar og komnir af hómópöt­um. Þannig að þetta er eflaust í blóð­inu lík­a.“

Áhug­inn og menntun Jóns í nátt­úru­fræði hefur farið með hann víða. Um allt land og til margra landa víðs vegar um heim, til starfa hjá ýmsum stofn­un­um, í kennslu og inn í nefndir á sviði nátt­úru­vernd­ar, skóg­ræktar og land­græðslu, svo fáein dæmi séu tek­in. „Ég hef unnið með öllum umhverf­is­ráð­herrum Íslands frá upp­hafi,“ segir hann og þylur nöfn þeirra upp í réttri röð. Þar sem hann er ekki lengur emb­ætt­is­maður er freist­andi að spyrja hvernig sam­starfið við þá hafi geng­ið. Hann segir nokkra þeirra standa upp úr. Nefnir strax Össur Skarp­héð­ins­son, Svandísi Svav­ars­dóttur og Sig­ríði Önnu Þórð­ar­dótt­ur. Siv Frið­leifs­dóttir hafi svo „átt sína sprett­i“. En að lík­lega hafi hann átt einna minnst sam­ráð við núver­andi umhverf­is­ráð­herra, Guð­mund Inga Guð­brands­son. Vara­for­mann Vinstri hreyf­ing­ar­innar græns fram­boðs. Hafði þó bundið miklar vonir við hann.

Hvernig finnst þér núver­andi rík­is­stjórn hafa staðið sig í nátt­úru­vernd­ar­mál­um?

„Illa,“ svarar hann að bragði. „Mér finnst hún ekki sinna nátt­úru­vernd­inni og svo fram­fylgir hún ekki nátt­úru­vernd­ar­lög­um.“

Jón Gunnar segir að á meðan ágengar tegundir, m.a. trjátegundir, séu viðurkenndar sem ein mesta ógn lífríkis jarðar á alþjóðavettvangi sé hlegið að slíkum áhyggjum hér á landi.

Svan­dís Svav­ars­dótt­ir, sem nú er heil­brigð­is­ráð­herra, er að mati Jóns sá stjórn­mála­maður sem hvað mest mark setti á umhverf­is­ráðu­neytið vegna þess að hún setti af stað löngu tíma­bæra vinnu við end­ur­skoðun nátt­úru­vernd­ar­laga.

Í hana var lögð gríð­ar­leg vinna. Und­an­far­inn var hvít­bók um lög­gjöf til verndar nátt­úru Íslands en hana vann nefnd sem Svan­dís skip­aði og Jón Gunnar átti sæti í. „Að öðrum ólöst­uðum átti Aagot Ósk­ars­dóttir lög­fræð­ingur stærstan þátt í gerð frum­varps­ins til nýrra nátt­úru­vernd­ar­laga.“

Lögin voru sam­þykkt árið 2013 en tóku ekki gildi fyrr en rúmum tveimur árum síð­ar. Að mati Jóns Gunn­ars eru þau vönduð en fram­kvæmdin á þeim er hins vegar „í skötu­lík­i“. Flestar stofn­anir sem undir svið lag­anna heyra hafa gert það sem til er ætl­ast af þeim „en áhug­inn fyrir fram­kvæmd­inni hverfur alltaf fyrir ein­hverjum öðrum gælu­verk­efnum við­kom­andi ráð­herra. Mið­há­lend­is­þjóð­garð­ur­inn hefur í raun­inni ýtt öllu öðru til hlið­ar.“

Net vernd­ar­svæða

Jón Gunnar útskýrir þetta frekar: „Þegar við gerðum hvít­bók­ina og nýju lögin þá horfðum við til ann­arra landa. Þar hefur þróun nátt­úru­vernd­ar­mála verið á fullu skriði alveg frá árinu 1987 má segja og mjög árang­urs­rík hug­mynda- og aðferða­fræði verið þró­uð. Hún end­ur­spegl­ast í okkar nátt­úru­vernd­ar­lögum en það vantar upp á að við fylgjum þessum aðferðum eft­ir.

Til dæm­is, einn mik­il­væg­asti þátt­ur­inn í sam­starfi Evr­ópu­ríkja er að búa til net vernd­ar­svæða. Það eru að ég held öll ríki í Evr­ópu búin að til­nefna svæði inn á netið nema Ísland og tvö ríki í við­bót. Mig minnir að það séu Lichten­stein og San Mar­ino. Land­lausar þjóð­ir.“

„Það er einfaldlega svo sterkur áróður fyrir því að Ísland sé tötrum vafið og það megi gera allt til að bæta úr þeim ímyndaða vanda.“
Jón Gunnar í Bæjarstaðaskógi við skordýrarannsóknir, líklega 1981.

Hvað skýrir það?

„Áhuga­leysi myndi ég halda. Norð­menn og Sviss­lend­ingar eru meðal þeirra þjóða sem hafa staðið sig mjög vel – og ekki eru þær hluti af Evr­ópu­sam­band­inu. Í nátt­úru­vernd­ar­lög­unum eru mörg bráða­birgða­á­kvæði þar sem settar eru tíma­setn­ingar á hvenær á að vera búið að fram­kvæma ákveðna hluti. En það er bara látið eins og þetta sé ekki til.“

Hvers vegna?

„Þarna eru miklir hags­mun­ir. Hvort sem það eru virkj­an­ir, skóg­rækt eða eitt­hvað ann­að. Skóg­rækt­ar­menn vilja sumir engar tak­mark­anir á því hvar þeir mega planta og hvar ekki. Eða hverju. En í þeim hugs­un­ar­hætti felst ógn. Í fyrsta lagi getur skóg­rækt breytt ásýnd lands. Svo er líka oft verið að taka alls konar og mjög verð­mætar vist­gerðir undir skóg­rækt og valda með því óaft­ur­kræfum spjöll­u­m.“

Jóni Gunn­ari er tíð­rætt um vist­gerð­ir. Fleiri kann­ast lík­lega við orðið vist­kerfi. En það er að hans sögn mjög fljót­andi hug­tak. „Þú getur talað um vist­kerfi rjúp­unn­ar. Þú getur talað um Mývatn sem vist­kerfi. Um Ísland sem vist­kerfi. En hug­takið vist­gerð [natural habitat eða habitat type] er það sem menn nota í Evr­ópu í dag. Það er eitt­hvað sem er með fest­ingu í nátt­úr­unni og er hægt að skil­greina. Þetta var fundið upp einmitt til þess að geta skrá­sett nátt­úr­una, metið hana og vaktað.“

Herðubreiðarlindir eru tilnefndar á náttúruminjaskrá vegna ferskvatnsvistgerða.

Að skrá­setja, meta og vakta. Þetta er einmitt það sem umfangs­mikil vinna Jóns Gunn­ars og ann­arra sér­fræð­inga Nátt­úru­fræði­stofn­unar gekk út á á nokk­urra ára tíma­bili. Vinna sem nauð­syn­legt var að fara í vegna alþjóð­legra skuld­bind­inga og fram­kvæmd nátt­úru­vernd­ar­laga, en hafði setið á hak­anum vegna fjár­skorts.

En svo kom fjár­magn skyndi­lega til skjal­anna. Og ástæðan fyrir því að við fengum „fullt af pen­ing­um“, eins og Jón Gunnar orðar það, var ein­föld: „Það er engin þjóð sem getur gengið í Evr­ópu­sam­bandið fyrr en að hún er búin að taka frá land­svæði undir nátt­úru­vernd.“

Alþjóð­lega er búið að skil­greina þau dýr, plönt­ur, vist­gerðir og fleiri fyr­ir­brigði í nátt­úr­unni sem þarfn­ast vernd­ar. Með þessar skil­grein­ingar að vopni eru svæði kort­lögð, „vist­gerð eftir vist­gerð, teg­und eftir teg­und“ og þannig búið til net sem hefur það að mark­miði að taka frá þau svæði sem eru verndar þurfi áður en ákvarð­anir eru teknar um aðra land­nýt­ingu. Þannig virka málin í Evr­ópu­kerf­inu, segir Jón Gunnar en bætir við að þessu sé þver­öf­ugt farið hér á landi. „Á Íslandi fæst það land­svæði friðað sem ekki eru önnur not fyr­ir. Ef ekki á að virkja eða ráð­ast í aðra land­notk­un, þá er í lagi að friða. En ef til er virkj­ana­hug­mynd þá er mjög mikil and­staða gegn því að vernda það.“

Náttúrufræðistofnun tilnefnir Eldey suðvestur af Reykjanesi á náttúruminjaskrá vegna fugla.

Í skrán­ing­ar­ferl­inu og til­lögu­vinn­unni allri var allt landið flokkað í vist­gerðir (land, ferskt vatn og fjara) en vegna sér­stöðu íslenskrar nátt­úru þurfti að bæta við flokkum því hér er að finna vist­gerðir sem finn­ast hvergi ann­ars staðar í heim­in­um. Vís­inda­menn­irnir fundu til dæmis fjórtán mis­mun­andi gerðir af vot­lendi. „Ís­lend­ingar tala alltaf um vot­lendi sem eitt­hvað eitt fyr­ir­bæri. Bara mýri. En sumt af þessu vot­lendi er alveg gríð­ar­lega verð­mætt. Hvort sem horft er á Evr­ópu­vísu eða heims­vís­u.“

Af hverju sjáum við ekki þetta verð­mæti?

„Það er ein­fald­lega svo sterkur áróður fyrir því að Ísland sé tötrum vafið og það megi gera allt til að bæta úr þeim ímynd­aða vanda,“ segir hann. „Svo er annað sem á það til að gleym­ast en í fel­ast mikil verð­mæti. Í land­inu er að finna fullt af nátt­úru­fyr­ir­bærum; teg­undum og vist­gerð­um, sem við berum ábyrgð á sam­kvæmt alþjóða­samn­ing­um. Í björgum við landið er til að mynda að finna 60 pró­sent af álku­stofni heims­ins. Þess vegna berum við meiri ábyrgð á því en aðrir að henni verði ekki útrýmt.“

Eftir að Ísland sótti um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu sá fram­kvæmda­stjórn þess hversu „aft­ar­lega við vorum á mer­inni“ í því að skrá­setja nátt­úr­una og setti fjár­muni í verkið sem Nátt­úru­fræði­stofnun vann hratt á árunum 2012-2016. „Það skipti engu í okkar huga hvort að við myndum ganga í Evr­ópu­sam­bandið eða ekki, því þetta var sami grunnur og lagt var upp með í nátt­úru­vernd­ar­lög­un­um,“ bendir Jón Gunnar á. „Þetta er líka í sam­ræmi við alþjóða­samn­inga eins og Bern­ar­samn­ing­inn um vernd villtrar nátt­úru í Evr­ópu.“

Breiðafjörður ásamt eyjum, skerjum og fjörum innan línu sem dregin er frá Vallnabjargi á Snæfellsnesi um Höskuldsey, Stagley, Oddbjarnarsker og Hagadrápssker að Skorarvogi á Barðaströnd, er tilnefndur á náttúruminjaskrá vegna fugla, fjöruvistgerða og sela.

Þegar umsókn um sam­bands­að­ild­ina var dregin til baka átti það engu að breyta um fram­hald­ið. Sam­kvæmt nátt­úru­vernd­ar­lögum átti að leggja fram fram­kvæmd­ar­á­ætlun nátt­úru­minja­skrár, þ.e. svæði sem áttu að fara í for­gang í frið­un, og byggja á þessu neti. Þetta átti ráð­herra að leggja fram í síð­asta lagi 2017 sam­kvæmt bráða­birgða­á­kvæði lag­anna. Nátt­úru­fræði­stofnun skil­aði honum full­búnum til­lögum í byrjun árs 2018 og við­bót­ar­til­lögum ári síðar að hans beiðni. Eftir það gerð­ist ekki neitt. „Við hefðum getað verið sam­stíga öðrum Evr­ópu­ríkjum í að koma þessu neti á.“

En af því hefur ekki enn orð­ið.

Af hverju ekki?

„Með þessu er verið að binda svæði – vernda þau. En Norð­menn, svo við tökum dæmi frá þjóð sem við berum okkur oft saman við, hafa tekið frá ótrú­legan fjölda svæða í þessum til­gangi. Svæði sem má, svo það sé tekið fram, nýta svo lengi sem þess er gætt að vernd­ar­mark­mið náist.“

Öll þessi nálgun er byggð inn í nátt­úru­vernd­ar­lögin „en á meðan menn þrá­ast við að koma þeim í fram­kvæmd þá eru til­lög­urnar ekk­ert annað en ein­hver papp­írs­bunki sem skiptir engu máli“.

Jón Gunnar verður hugsi áður en hann heldur áfram.

„Eitt af því sem maður tekur nærri sér er að á meðan stjórn­völd voru að draga lapp­irnar í mál­inu var ég for­maður nátt­úru­vernd­ar­samn­ings Evr­ópu, Bern­ar­samn­ings­ins. Ég var í stjórn hans í ell­efu ár og for­maður þegar verið var að koma þessu neti á í Evr­ópu. Þá var það mín þjóð sem stóð sig ekki. Það var svekkj­andi að horfa upp á það.“

Aðeins vilji til að friða í algjörri sátt

Hvað þarf að ger­ast til að þetta verði sett í fram­kvæmd?

„Þetta er póli­tísk ákvörð­un. Það þarf ein­fald­lega að senda þessar til­lögur inn og þá fara þær í ferli. Ég skil ekki af hverju er ekki löngu búið að því. Þessu er alltaf frestað og settar fram ein­hverjar afsak­an­ir. Þær eru þó engar sem hönd á festir raun­veru­lega.“

Hverju myndi það breyta ef þetta net yrði að veru­leika?

„Það myndi styrkja vernd þess­ara teg­unda, vist­gerða og svæða og færa okkur yfir í það að vinna skipu­lega að nátt­úru­vernd en ekki allt að því til­vilj­ana­kennt eins og er í dag.

Mun­ur­inn á okkur og öðrum Evr­ópu­löndum er þessi: Við erum mjög slæm með það að friða ekki nema að það sé algjör sátt um það. En það verður aldrei algjör sátt ef ein­hverjir hags­munir tengj­ast svæð­inu. Í Evr­ópu horfa þeir öfugt á þetta. Þar er byrjað að taka frá svæði sem nauð­syn­legt er að vernda. Svo er farið að skoða iðn­að­inn og land­bún­að­inn.“

Það sem skýrir þetta að sögn Jóns Gunn­ars „er þessi rót­gróna og oft van­hugs­aða hags­muna­gæsla okk­ar“.

„Eitt af því sem maður tekur nærri sér er að á meðan stjórnvöld voru að draga lappirnar í málinu var ég formaður náttúruverndarsamnings Evrópu, Bernarsamningsins. Þá var það mín þjóð sem stóð sig ekki.“
Svæði í Þjórsárverum er tilnefnt á nátturuminjaskrá vegna vistgerða á landi og fugla.

Umræðan um þá ógn sem steðjar að jörð­inni vegna lofts­lags­breyt­inga af manna­völdum hefur orðið hávær og almenn síð­ustu ár. Hér eru þó engin ný vís­indi á ferð­inni og Jón Gunnar hefur lifað og hrærst í þeim í ára­tugi. Þegar í Ríó voru mál­efni lofts­lags­ins efst á baugi og lofts­lags­samn­ing­ur­inn und­ir­rit­aður af tugum ríkja, m.a. Íslandi. „Þau eru mjög brýn,“ segir Jón Gunnar um mála­flokk­inn. „En,“ bætir hann við með áherslu, „það er hægt að skipu­leggja hlut­ina þannig að við tökum á öðrum þáttum um leið.“

Oft er talað um að hin græna end­ur­nýj­an­lega orka sem hér er hægt að fram­leiða geti orðið okkar stóra fram­lag til loft­lags­mála. En að mati Jóns Gunn­ars er ekki hægt að horfa ein­angrað á lofts­lags­vand­ann. „Það verður líka að hugsa um hvers konar nátt­úru, hvers konar vist­gerð­ir, er verið að skemma eða hafa áhrif á með virkj­un­inni sjálfri, bind­ingu með skóg­rækt eða öðrum sam­bæri­legum aðgerð­u­m.“

Umræðan hafi að vissu leyti leitt okkur á villi­göt­ur. „Til þess að upp­fylla ákvæði lofts­lags­samn­ings­ins er ekki ætl­ast til að þú brjótir ákvæði ann­arra samn­inga. Það eru til að mynda mjög skýrar reglur í Bern­ar­samn­ingnum og Ríó-­samn­ingnum um líf­fræði­legan fjöl­breyti­leika um að vernda ólíkar vist­gerð­ir. En hér á landi, til að upp­fylla ákvæði lofts­lags­samn­ings­ins, eru hinir samn­ing­arnir brotn­ir.“

Sérðu þetta vera að eiga sér stað?

„Já. Dæmi um þetta eru æpandi út um allt. Sem betur fer hefur dregið úr því að menn ræsi fram vot­lendi til að planta trjám. En menn eru að taka alls konar aðrar vist­gerðir og sá í þær lúpínu og fram­andi trjá­teg­und­um.

Ég skal taka ein­falt dæmi: Spó­inn er svokölluð ábyrgð­ar­teg­und á Íslandi. Hvergi í heim­inum dvelja yfir sum­ar­tím­ann jafn margir spó­ar. En hann þarf gróð­ur­lítið land til þess að verpa. Opið land, áreyrar og slíkt eru hans kjör­lendi. En núna eru þessi svæði smám saman að hverfa í lúpínu. Þannig missir spó­inn sífellt meira af sínum búsvæð­um. Þetta er raun­veru­leg ógn við spó­ann hér á landi og þar með í heim­in­um.“

Spóar eru ábyrgðartegund á Íslandi því hvergi í heiminum dvelja jafn margir spóar yfir sumartímann og hér.

Við erum komin að heitu umræðu­efni. Eld­heitu jafn­vel. „Það verður að hafa meiri hemil á notkun lúpín­unn­ar,“ segir Jón Gunn­ar. „Mér liggur við að segja að umræðan um lúpínu jafn­ist á við trú­ar­brögð. Og sumir þess­ara trú­ar­hópa eru enn að dreifa lúpínu, jafn­vel uppi á hálendi, þar sem hún er bönn­uð. Svo dreif­ist hún með öllum ám og lækj­um. Lúpínan þekkir engin jarða­mörk.“

Hann segir lúpínu­stríðið í raun þegar tap­að. „Á stórum svæðum á land­inu munum við aldrei losna við hana. Síðan þetta stríð hófst hafa menn skipt um stefnu og reynt að halda henni frá ákveðnum svæð­um. Meira að segja Land­græðslan, sem not­aði lúpínu til upp­græðslu áður hefur algjör­lega snúið við blað­inu. Hún er bönnuð í yfir 400 metra hæð og á öllum frið­lýstum svæð­um. En þú losnar ekk­ert við hana.“

Jón Gunnar hefur alla sína tíð verið andsnú­inn því að nota lúpínu, þá ágengu jurt, til land­græðslu. „Ég fann einmitt nýverið úrklippu með við­tali við mig sem tekið var fyrir um 30 árum. Og það hefði getað verið skrifað í dag.“

Hefur þú verið gagn­rýndur fyrir að tala gegn henni?

„Já, já. Þetta er hatrömm deila. Vinir lúpín­unnar hafa notað þá aðferð skipu­lega að ef ein­hver opnar munn­inn gegn þeim þá fær við­kom­andi her­sveit á sig í fjöl­miðl­u­m.“

Lúpína er ágeng tegund sem sáð var víða hér á landi á árum áður. Hún er nú bönnuð innan ákveðinna svæða en Jón Gunnar segir okkur aldrei eiga eftir að losna við hana.

En það eru fleiri teg­undir sem eru allt að því þyrnir í augum Jóns Gunn­ars. Hann hefur ákveðnar áhyggjur af þróun skóg­ræktar í land­inu, mað­ur­inn sem um ára­bil starf­aði hjá rann­sókn­ar­stöð Skóg­ræktar rík­is­ins á Mógilsá, m.a. sem for­stöðu­mað­ur. Margir sjá fram­andi teg­undir skógar­planta í rós­rauðum bjarma og að út í þær þurfi nú ekki að fetta fingur heldur miklu heldur fagna fjöl­breyti­leik­an­um. Sumar þeirra eru ekki einu sinni fram­andi í okkar huga leng­ur. Þær eru út um allt. Við erum hér að tala um stafa­f­uru og sitka­greni, svo dæmi séu tek­in.

Afláts­bréf á færi­bandi

Kolefn­is­jöfn­un, það nýyrði sem fyr­ir­tækjum er þegar orðið tamt að nota í aug­lýs­ing­um, er að mati Jóns Gunn­ars ekk­ert annað en afláts­bréf. Synda­af­lausn fyrir neyt­endur sem telja sig með­vit­aða en eru í raun að láta spila með sig. „Þetta gengur út á það að láta fólk kaupa ein­hverja hríslu svo það geti hagað sér eins og það vill,“ segir Jón Gunnar og hristir höf­uð­ið. „En þetta er aldrei hugsað til enda. Skógur bindur hratt á meðan hann er að vaxa en svo kemur að því að hann bindur minna heldur en að hann and­ar. Skógur er eins og hver önnur líf­vera. Hann eld­ist, hrörnar og deyr.“

En hvað er þá hægt að gera hvað varðar lofts­lags­mál­in?

„Ein­fald­lega að fara að haga sér allt öðru­vísi,“ svarar Jón Gunnar um hæl. „Fara að draga úr losun í stað­inn fyrir að auka hana enda­laust og finna svo upp á ein­hverjum bind­ing­ar­að­ferð­um. Þetta snýst allt um lífs­hætti í raun. Að vernda ákveðna lífs­hætti sem fólk telur sig eiga rétt á og ekki geta verið án.“

Undir lok síð­ustu ald­ar, nokkrum árum eftir að Jón Gunnar tók við starfi for­stjóra Nátt­úru­fræði­stofn­un­ar, voru miklar virkj­ana­hug­myndir uppi á Aust­ur­landi og til stóð að sökkva Eyja­bökk­um, vot­lend­is­svæði upp af Fljóts­dal, undir uppi­stöðu­lón. Áformin voru gríð­ar­lega umdeild og um alda­mótin var ákveðið að hverfa frá þeim en ráð­ast þess í stað í Kára­hnjúka­virkj­un.

„Kár­an­hnjúka­virkj­un, langstærsta virkjun sem hefur verið byggð á Íslandi, fékk fólk til að hugs­a,“ segir Jón Gunn­ar. „Það fór gríð­ar­legt land­flæmi undir lón­ið. Við hjá Nátt­úru­fræði­stofnun urðum fyrir mik­illi gagn­rýni því við tókum að okkur und­ir­bún­ings­rann­sókn­ir. Í þeim reyndum við fyrst og fremst að meta áhrifin á nátt­úr­una, gera okkar eigin skýrslur sem Lands­virkjun og aðrir gætu þá not­að. Við vorum eini aðil­inn á Íslandi sem gat gert svona verk­efni á þessum tíma. Ef við hefðum ekki gert það hefðu þessar rann­sóknir orðið í skötu­lík­i.“

Kall­aður á teppið

Gagn­rýnin kom úr öllum átt­um. Stofn­un­in, og líka Jón Gunnar per­sónu­lega, var gagn­rýnd fyrir að fara í verk­efnið fyrir Lands­virkjun en nið­ur­staða rann­sókn­anna, þar sem ítar­lega var farið yfir þau miklu umhverf­is­á­hrif sem virkj­unin hefði í för með sér, einnig. „Ég var kall­aður á teppið hjá ráð­herra aftur og aftur fyrir að ég og mitt starfs­fólk skyldum hafa látið hitt og þetta út úr okk­ur.“

Aðrar virkj­ana­hug­myndir hafa einnig valdið sam­bæri­legum og jafn­vel enn harð­ari deil­um. Mývatns- og Lax­ár­slag­ur­inn á sínum tíma var gríð­ar­lega harð­ur. Þar átti að drekkja öllum Lax­ár­dalnum upp að Mývatni. En heima­menn stopp­uðu fyr­ir­ætl­an­irn­ar. „Þetta hafði áhrif á mig sem nátt­úru­fræð­ing,“ við­ur­kennir Jón Gunn­ar. „Ég er líka alinn upp í Mývatns­sveit, við Laxá sem átti að kaf­færa. Alinn upp í kringum allt þetta fólk.“

Bar­áttan um Þjórs­ár­verin var líka óvægin og er mörgum enn í fersku minni. „Frá því ég man eftir mér hafa verið slags­mál í gang­i,“ segir Jón Gunn­ar.

Eyjabökkum var þyrmt á sínum tíma. Náttúrufræðistofnun tilnefnir þá, sem og allan Vatnajökulsþjóðgarð, á náttúruminjaskrá vegna vistgerða á landi, ferskvatnsvistgerða, fugla og sela.

Á aðeins nokkrum miss­erum hafa verið settar fram tugir hug­mynda að vind­orku­verum víðs­vegar um land­ið. Nátt­úru­fræði­stofnun vildi hafa vaðið fyrir neðan sig og hóf að afla sér þekk­ingar fyrir mörgum árum og á meðan fyrstu hug­mynd­irnar voru enn á frum­stigi. Með þá þekk­ingu að vopni hafa sér­fræð­ingar stofn­un­ar­innar átt marga fundi með þeim sem slík orku­ver vilja reisa. „Þetta vildum við gera til að vera betur í stakk búin að fjalla um vind­orku­mál­in. Það er nefni­lega oft notað á Íslandi að þekk­ingin sé ekki fyrir hendi og þess vegna sé allt í lagi að gera hlut­ina. Við höfum alltaf sagt við þessa aðila, til að kom­ast hjá vand­ræð­um, reynið að finna staði þar sem er ekki mikið fugla­líf eða far­leiðir fugla. Ekki benda á kort og segja: Við ætlum að vera hér.“

Rann­sóknir á fugla­lífi á Íslandi eru umfangs­miklar og eitt síð­asta verk Jóns Gunn­ars hjá Nátt­úru­fræði­stofn­un, voru kaup á sendum til að setja á erni til að kort­leggja helstu far­leiðir þeirra. Út úr því verk­efni eru þegar komnar mjög merki­legar nið­ur­stöð­ur. Til dæmis hvað ernir þvæl­ast mik­ið. „Einn, sem bjó við Breiða­fjörð­inn, tók sig einu sinni til og flaug með þjóð­veg­inum og Þing­valla­hring­inn og til bak­a,“ segir Jón Gunn­ar. „Svo sjáum við til dæmis að aðal far­leið arna milli Húnaflóa og Breiða­fjarðar er Lax­ár­dals­heiði. Þar er nú verið að skipu­leggja tvo vind­myllu­garða. Akkúrat í far­leið­inni. Ernir eru einna við­kvæm­astir af öllum fuglum Íslands fyrir vind­myll­um. Þannig að miðað við þessar upp­lýs­ingar sem við erum að fá núna þá eru þetta ekki góðir staðir fyrir vind­orku­ver.“

Jón Gunnar á heimili sínu á Selfossi. Að baki honum er stytta af hrafni sem samtarfsmenn hans á Náttúrufræðistofnun gáfu honum við starfslokin.

Hvernig finnst þér ramma­á­ætlun hafa virkað sem stjórn­tæki?

„Hún hefði virkað vel, ef menn hefðu fylgt því sem lagt var upp með,“ svarar Jón Gunn­ar. „Ferlið hefur auð­vitað gengið miklu hægar en það átti að gera vegna eilífra deilna um ein­staka kosti. Þegar lögin voru fyrir Alþingi á sínum tíma benti Nátt­úru­fræði­stofnun á galla þess að verk­efn­is­stjórn ætti að hand­velja ein­stak­linga til að vera í fag­hóp­um. Að það væri röng stefna. Frekar ætti fela stofn­unum þar sem þekk­ingin er mikil að gera fag­vinn­una enda væri það í sam­ræmi við lög­boðið hlut­verk þeirra. Ákvarð­ana­takan gæti eftir sem áður verið hjá verk­efn­is­stjórn.“ Á þetta var ekki hlust­að.

Líkt og margt annað í nátt­úru­vernd­ar­málum segir Jón Gunnar að bar­áttan fyrir ramma­á­ætlun hafi verið löng og ströng. Lögin um nýt­ingu og vernd land­svæða voru svo sett árið 1999.

Því þetta er fag

Jón Gunnar sat í fyrstu verk­efn­is­stjórn­inni. „Eftir þá vinnu, þennan fyrsta áfanga, fannst mér ljóst að þetta fyr­ir­komu­lag, með þessa fag­hópa, gengi ekki upp. Því þetta er fag. Og það er ekki í lagi að láta þessa grunn­vinnu, mat á virkj­ana­kost­unum og áhrifum þeirra, í hend­urnar á Pétri og Páli.“

Fjögur og hálft ár eru síðan til­laga til þings­á­lykt­unar um þriðja áfang­ann var lögð fyrst fram. Það var svo gert aft­ur. Og aft­ur. Nú síð­ast í des­em­ber. Og enn er hún ekki afgreidd. „Ég skil ekki af hverju umhverf­is­ráð­herra hefur ekki lagt hana fyrr inn á þing­ið. Hann hefur setið á ráð­herra­stóli í tæp fjögur ár. Til­lagan eins og hún lítur út í dag var til­búin þegar hann tók við.“

Svartá og Suðurá á Norðurlandi eru tilnefndar á náttúruminjaskrá vegna ferskvatnsvistgerða og fugla.

Hver er þín skoðun á hálend­is­þjóð­garði?

„Mér finnst gott og blessað að eiga draum um mið­há­lend­is­þjóð­garð. En ég hefði viljað stíga styttri skref í einu og búa til net frið­un­ar­svæða eins og þau eru skil­greind í til­lögum Nátt­úru­fræði­stofn­un­ar. Vernda það sem er vernd­ar­þurfi. Þegar netið væri komið á tel ég að eft­ir­leik­ur­inn yrði auð­veld­ari. Rök­stuðn­ing­ur­inn sterk­ari.“

Áherslan á ferða­mennsku innan hálend­is­þjóð­garðs­ins sé of mikil og hann telur skýr­ing­una m.a. fel­ast í því að umhverf­is­ráð­herra sé mennt­aður í Banda­ríkj­un­um. Þar sé nátt­úru­vernd­ar­kerfið allt annað en hér á landi og skipu­lag þjóð­garða lík­ara fólkvöng­unum okkar - úti­vist­ar­svæði. „Í Banda­ríkj­unum er lagt mikið upp úr ferða­mönn­um,“ segir hann. Í Evr­ópu sé unnið skipu­legar og með skýr­ari aðferða- og hug­mynda­fræði. „En ráð­herr­ann virð­ist ekki vilja horfa til Evr­ópu heldur halla sér að banda­ríska kerf­inu. Og hálend­is­þjóð­garð­ur, eins og hann er áform­að­ur, er hluti af því.“

Að vernda nátt­úr­una hennar sjálfrar vegna

Jón Gunnar segir umræð­una farna að minna sig á hinar gömlu heim­speki­deil­ur; hvort verið sé að vernda nátt­úr­una hennar sjálfrar vegna eða fyrir mann­inn. „Mér finnst ráð­herr­ann tala á þann veg að við eigum að vernda nátt­úr­una fyrir mann­inn á meðan hugs­unin í nátt­úru­vernd­ar­lög­unum er þver­öf­ug.“

Í ráð­herra­tíð Guð­mundar Inga hafa nokkur svæði verið frið­lýst en Jón Gunnar bendir á að flest séu þau friðuð að ósk heima­manna. Þetta eru svæði eins og Geys­ir, Goða­foss, Akurey og Látra­bjarg, sem margir Íslend­ingar héldu eflaust að væru nú þegar frið­uð, svæði sem engin bein ógn steðjar að, ekki nema þá vegna ágangs ferða­manna. „Hag­ræni hvat­inn er fyr­ir­ferð­ar­mik­ill í þessum frið­lýs­ing­um. Enda notar ráð­herr­ann það alveg stöðugt, að friðun svæðis laði að svo marga ferða­menn. En við viljum ekki endi­lega fá ferða­menn á alla þessa staði sem þarf að vernda.“

Það er ekki tilviljun að hrafn er í merki Náttúrufræðistofnunar. Hann er þar að ósk og tillögu Jóns Gunnars.

Þú hættir sem for­stjóri Nátt­úru­fræði­stofn­unar í des­em­ber þegar þú varðst sjö­tug­ur. Hefðir þú viljað vinna leng­ur?

„Fyrir hálfu ári hefði ég svarað þess­ari spurn­ingu ját­andi. En núna er ég feg­inn að hafa hætt. Þetta var alveg komið gott.“

Spurður hvort að það sé eitt­hvað í fræð­unum sem hann langi að halda áfram að grúska í seg­ist hann vera búinn að fá nóg af slíku – í bili að minnsta kosti. En hver veit, kannski sest hann við ein­hvern dag­inn og skrifar bók.

Jón Gunnar hefur alla tíð verið mik­ill úti­vist­ar­maður og stundað veiðar þegar því hefur verið við­kom­ið. Á sínum yngri árum var hann með hagla­byssu til taks í skott­inu á bíln­um. „Ég skaut rjúpu og gæs þegar ég var ungur en svo óx ég upp úr því og fór í stang­veið­ina,“ segir hann.

Hrafnar hafa fylgt Jóni Gunn­ari í gegnum lífið allt frá æsku­ár­um. Spurður hvað það sé við hrafn­inn sem heilli segir hann þá ein­fald­lega skemmti­lega. Það er því engin til­viljun að hrafn sé í merki Nátt­úru­fræði­stofn­un­ar. „Hrafn­inn er alls stað­ar,“ segir hann. Þó að við Íslend­ingar séum aldir upp við að sjá hann bæði í sveit og borg er hann ein­stakur á heims­mæli­kvarða eins og svo margt annað í okkar nátt­úru. „Ís­lenski hrafn­inn er sér­stök deili­teg­und,“ bendir Jón Gunnar á. „Vængirnir á honum eru styttri en á hröfnum sem finn­ast ann­ars staðar í Evr­ópu miðað við sté­lið. Hann hefur verið á Íslandi miklu lengur en við mann­fólk­ið.“

Og það er fleira sem skýrir áhug­ann á hrafn­in­um. Í kringum hann er alls konar þjóð­trú sem Jón Gunnar hefur gaman að. „Guð launar fyrir hrafn­inn.“

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár