Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Íslandsbanki flokkaði almenna fjárfesta sem fagfjárfesta og veitti rangar upplýsingar gegn betri vitund

Fjár­mála­eft­ir­lit Seðla­banka Ís­lands hef­ur birt 96 blað­síðna svarta skýrslu um þau lög­brot sem fram­in voru inn­an Ís­lands­banka á með­an bank­inn tók þátt í að selja hlut rík­is­ins í bank­an­um. Hátt­semi bank­ans, stjórn­enda hans og starfs­manna, fól í sér al­var­leg brot á mik­il­væg­um ákvæð­um laga og var til þess fall­in að hafa skað­leg áhrif á traust og trú­verð­ug­leika fjár­mála­mark­aða.

Íslandsbanki flokkaði almenna fjárfesta sem fagfjárfesta og veitti rangar upplýsingar gegn betri vitund

Íslandsbanki flokkaði átta viðskiptavini sína, sem voru almennir fjárfestar, sem fagfjárfesta svo þeir gætu tekið þátt í lokuðu útboði á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í bankanum í mars í fyrra. Sú flokkun átti sér stað án þess að skilyrði til laga til þess hafi verið uppfyllt. Íslandsbanki hafði ýmist frumkvæði að því eða hvatti umrædda almenna fjárfesta til að óska eftir að fá stöðu fagfjárfestis og breytti flokkun viðskiptavina sem tóku þátt í útboðinu, sem var einungis ætlað hæfum fjárfestum, eftir að það hófst. Þetta er meðal þess sem kemur fram í samkomulagi Íslandsbanka um að ljúka rannsókn Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands með sátt sem birt var á vef Seðlabankans í morgun. Sáttarskjalið er alls 96 blaðsíður að lengd. 

Útboðið sem fór fram fyrir um 15 mánuðum síðan var einungis ætlað þeim sem skilgreindir eru sem fagfjárfestar samkvæmt lögum. Þess vegna fengu einungis 207 aðilar að kaupa hlutinn sem var til sölu, á verði sem var undir markaðsverði, fyrir samtals 52,6 milljarða króna. 

Íslandsbanki sendi tilkynningu til Kauphallar Íslands á fimmtudagskvöld þar sem hann sagðist hafa þegið boð Fjármálaeftirlitsins „um að ljúka máli með samkomulagi um sátt“. Í þeirri sátt felst að bankinn greiðir 1.160 milljónir króna í sekt í ríkissjóð vegna alvarlegra lögbrota. Finnur Árnason, stjórnarformaður Íslandsbanka, sagði í tilkynningunni að ljóst sé að bankinn muni draga „mikinn lærdóm af þessu verkefni.“ 

Í sáttinni sem birt var í morgun kemur mun skýrar í ljós hvað það er sem Íslandsbanki, starfsmenn hans og stjórnendur, gerðu sem leiddi til þess að Fjármálaeftirlitið lagði á hann hæstu sekt sem hann hefur nokkru sinni lagt á fjármálafyrirtæki. Hún er raunar rúmlega þrettán sinnum hærri en fyrri metsekt, sem var 88 milljónir króna. 

Höfðu ekki forsendur til að meta þátttöku starfsmanna

Í sáttinni segir að Íslandsbanki hafi ekki framkvæmt né skjalfest greiningu á hagsmunaárekstrum í tengslum við verkefni málsaðila vegna söluferlisins. „Þar með fór ekki fram mat á því hvort ráðstafanir málsaðila vegna hagsmunaárekstra hafi verið fullnægjandi, hvort þörf væri á frekari ráðstöfunum vegna verkefnisins eða hvort málsaðili ætti að láta ógert að taka að sér hlutverk umsjónar- og uppgjörsaðila útboðsins. Skortur á greiningu hagsmunaárekstra leiddi einnig til þess að málsaðili hafði ekki forsendur til að taka ákvörðun um hvort starfsmönnum væri heimilt að taka þátt í útboðinu hinn 22. mars 2022 á grundvelli reglna málsaðila um ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum.“ Auk þess gerði Íslandsbanki ekki allar viðeigandi ráðstafanir til að greina og koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra vegna þátttöku starfsmanna málsaðila í útboðinu. „Enn fremur skorti á að málsaðili tryggði fullnægjandi aðskilnað Fyrirtækjaráðgjafar og Verðbréfamiðlunar, gerði fullnægjandi ráðstafanir til að uppfæra innri reglur og stefnu málsaðila um hagsmunaárekstra í samræmi við lög um markaði fyrir fjármálagerninga og færi að innri reglum og verklagi sem málsaðili hafði sett sér um hagsmunaárekstra.“

Veittu rangar upplýsingar gegn betri vitund

Þá kemur fram að Íslandsbanki hafi veitt Bankasýslu ríkisins villandi upplýsingar um fyrirliggjandi tilboð í tilboðsbókinni sem lögð var fyrir Bankasýsluna að kvöldi 22. mars 2022 með því að upplýsa ekki um að almennir fjárfestar stæðu að baki ákveðnum tilboðum. „Þar af leiðandi fékk Bankasýslan ekki upplýsingar um nöfn þátttakenda og fjárhæð tilboða frá hverjum og einum þrátt fyrir að upplýsingar þess efnis lægju fyrir hjá málsaðila. Bankasýslu ríkisins voru einnig veittar villandi upplýsingar um flokkun þátttakenda í útboðinu þar sem níu viðskiptavinir málsaðila sem stóðu að baki tilboðum í tilboðsbókinni sem lögð var til grundvallar rökstuddu mati Bankasýslunnar til fjármála- og efnahagsráðherra voru ekki flokkaðir sem fagfjárfestar á því tímamarki. Þá veitti málsaðili viðskiptavinum Eignastýringar rangar og villandi upplýsingar, gegn betri vitund, í níu tilfellum um að lágmarksfjárhæð tilboða í útboðinu væri 20 milljónir króna þegar ekki var um slíka skilmála að ræða.“

Með hátterni sínu hafi Íslandsbanki ekki uppfyllt að öllu leyti skylduna til að starfa heiðarlega, af sanngirni og fagmennsku, í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi við undirbúning og framkvæmd útboðsins. „Með þeirri háttsemi að bjóða almennum fjárfestum að taka þátt í útboði sem eingöngu var ætlað hæfum fjárfestum virti málsaðili ekki útboðsskilmála Bankasýslunnar og gætti því ekki að hagsmunum hennar af því að farið væri að skilmálum útboðsins. Um sölu á ríkiseign var að ræða og voru hlutabréf í málsaðila sjálfum boðin til sölu sem hefði átt að leiða til þess að málsaðili vandaði sérstaklega til verka við framkvæmd þess. Háttsemi málsaðila er til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á traust og trúverðugleika fjármálamarkaða. Háttsemi málsaðila sem lýst hefur verið felur í sér alvarleg brot á mikilvægum ákvæðum laga um markaði fyrir fjármálagerninga og lögum um fjármálafyrirtæki.“

Bankastjórinn ekki að hugsa um að hætta

Í sáttinni kemur fram að niðurstaða eftirlitsins sé sú að stjórn og bankastjóri Íslandsbanka hafi ekki með fullnægjandi hætti innleitt stjórnarhætti og innra eftirlit sem tryggir skilvirka og varfærna stjórnun sem birtist meðal annars í því að ekki var tryggt að bankinn uppfyllti lagakröfur sem gilda um veitingu fjárfestingarþjónustu og fylgni við innri reglur sem stjórn hans hefur sett. 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði við Heimildina á föstudag, eftir að tilkynning Íslandsbanka var birt en fyrir birtingu sáttarinnar í heild sinni, að með því að bjóða sátt væri „fjármálaeftirlitið að sýna stjórn og bankastjóra traust til þess að innleiða þær breytingar sem þarf. Og það er að sjálfsögðu mikilvægt. Og það er mikilvægt að okkur er boðin sátt.“

Birna viðurkenndi að orðspor bankans hefði skaðast vegna málsins en sagði það ekki hafa komið til tals að hún myndi taka pokann sinn og hætta.

Frummatið lá fyrir 30. desember í fyrra

Líkt og Heimildin hefur áður greint frá þá lá frummat eftirlitsins á brotum Íslandsbanka fyrir á síðasta ári, nánar tiltekið 30. desember 2022. Viku síðar óskaði bankinn eftir því að fá að ljúka málinu með sátt.

Sáttaviðræðurnar fóru fram á grundvelli reglna frá árinu 2019 um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að ljúka málum með slíkum hætti. Í sátt felst að málsaðili, í þessu tilfelli Íslandsbanki, gengst við að hafa brotið gegn ákvæðum laga eða ákvörðunum Fjármála­eftirlitsins, upplýsi að fullu um brotið og geri samkomulag við stofnunina um tiltekna sektar­greiðslu. Auk þess þarf að liggja fyrir að bankinn hafi þá þegar látið af þeirri háttsemi sem braut gegn lögum og að hann hafi gert viðeigandi úrbætur.

Heimildin til sáttar nær ekki til þess sem kallast meiri háttar brot, en það eru brot sem refsiviðurlög, fangelsisvist, liggja við. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins.

Sektir sem Fjármálaeftirlitið getur lagt á geta numið frá 100 þúsund krónum og upp í 800 milljónir króna. Sektir sem lagðar eru á lögaðila, eins og Íslandsbanka, geta þó verið mun hærri, eða allt að tíu prósent af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi. Rekstrartekjur Íslandsbanka árið 2022 voru 57,2 milljarðar króna, auk þess sem virðisbreyting fjáreigna var um 1,6 milljarðar króna. Hámarkssekt sem hægt var að leggja á bankann var því nálægt sex milljörðum króna.

Sáttaviðræðurnar fóru fram á grundvelli reglna frá árinu 2019 um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að ljúka málum með slíkum hætti. Í sátt felst að málsaðili, í þessu tilfelli Íslandsbanki, gengst við að hafa brotið gegn ákvæðum laga eða ákvörðunum Fjármála­eftirlitsins, upplýsi að fullu um brotið og geri samkomulag við stofnunina um tiltekna sektar­greiðslu. Auk þess þarf að liggja fyrir að bankinn hafi þá þegar látið af þeirri háttsemi sem braut gegn lögum og að hann hafi gert viðeigandi úrbætur.

Sektin miklu hærri en bankinn reiknaði með

Þegar Íslandsbanki birti ársreikning sinn þann 9. febrúar kom fram að bankinn gerði ráð fyrir því að greiða stjórnvaldssekt vegna brota á lögum og reglum í tengslum við söluferlið. Bankinn færði sérstaka skuldbindingu vegna þessa í ársreikninginn. Forsvarsmenn Íslandsbanka vildu á þeim tíma ekki upplýsa um hversu há sú upphæð sem bankinn reiknaði með að greiða í sekt sé.

Í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallar, sem birt var í gærkvöldi, kom fram að hin sérstaka skuldbinding sem færð var í ársreikninginn hafi verið allt of lág, eða 300 milljónir króna. Vegna þessa þarf Íslandsbanki, sem er enn í 42,5 prósent eigu íslenska ríkisins, að gjaldfæra 860 milljónir króna til viðbótar í uppgjöri sínu fyrir annan ársfjórðung yfirstandandi árs. Því er endanleg sekt næstum fjórum sinnum sú upphæð sem Íslandsbanki reiknaði með að þurfa að greiða þegar bankinn birti ársreikning sinn í febrúar.

Kjósa
29
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • VH
    Viðar Hjartarson skrifaði
    "Allt er það eins liðið hans Sveins".!
    0
  • MGÁ
    Marteinn Gísli Árnason skrifaði
    Ef rett er smkv. skyrslunnu að lögbrot hafi verið framin ber að lögsækja
    þa sem þar koma að mali.það vita þeir sem vita vilja hverjir það
    eru.
    Eg segi ennu aftur segið af ykkur STRAX OG AXLIÐ einusinni abyrgð.
    Birna og co, þið eruð ekki osnertanleg þid eru veruleikafyrrt,abyrgðalaust "folk" sem
    sem vasat með peninga annara og ættu að að hundskast burt STRAX MEÐ SKOTTIÐ A
    MILLI LAPPANNA.
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Salan á Íslandsbanka

Bjarni segir það Alþingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu
FréttirSalan á Íslandsbanka

Bjarni seg­ir það Al­þingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu

Bjarni Bene­dikts­son, fyrr­ver­andi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, seg­ir að hann hafi gert ráð fyr­ir bless­un þings­ins á að ekki þyrfti að gæta að hæfi hans gagn­vart hverj­um og ein­um kaup­anda á Ís­lands­banka í mars 2022. Þing­inu hefði átt að vera aug­ljóst að ekki væri hægt að fylgja hæfis­regl­um í sölu­með­ferð­inni sem val­in var. Bjarni sat fyr­ir svör­um á opn­um fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar í dag.

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.

Mest lesið undanfarið ár