Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Hagsmunaöflin höfðu betur

Ekki verð­ur fram­hald á tákn­ræn­um og efna­hags­leg­um stuðn­ingi Ís­lands við Úkraínu með nið­ur­fell­ingu tolla. Hags­muna­öfl í land­bún­aði lögð­ust þungt á þing­menn í því skyni að koma í veg fyr­ir áfram­hald­andi tolla­leysi á kjúk­lingi, sem hin sömu öfl hafa með­al ann­ars flutt inn sjálf. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn lagð­ist þver gegn áfram­hald­andi tolla­leysi og hluti Sjálf­stæð­is­flokks­þing­manna, í óþökk ut­an­rík­is­ráð­herra með­al annarra.

Andstaða Framsóknarflokks og hluta þingmanna Sjálfstæðisflokksins varð til þess að ekki verður áframhald á stuðningi við Úkraínu í formi tollfrelsis á innfluttar vörur þaðan. Andstæðingar áframhaldandi tollfrelsis innan efnahags- og viðskiptanefndar beygðu aðra nefndarmenn stjórnarflokkanna í málinu og varð það niðurstaða meirihlutans í nefndinni að leggja ekki fram frumvarp til að framlengja bráðabirgðaákvæði við tollalög í ætt við ákvæði sem sett var á í júní á síðasta ári.

Bráðabirgðaákvæðið rann út um síðustu mánaðamót. Þá þegar höfðu Bretland og Evrópusambandið endurnýjað sambærileg ákvæði, um niðurfellingu tolla til stuðnings við úkraínskt atvinnulíf. Hins vegar hafði lítið heyrst hvað varðaði framlengingu á tollfrelsinu hér á landi. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi 30. maí síðastliðinn lýsti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra því að hún teldi rétt að framlengja stuðninginn. Hún sagði að rétt væri að hafa eftirlit með umfangi á innflutning vara frá Úkraínu, „en um leið hefði ég talið það skynsamlega ákvörðun að halda þessu áfram“.

Snýst um kjúkling og annað ekki

Þegar Katrín talaði um eftirlit með umfangi á innflutningi var hún að setja það í samband við aukningu á innflutningi á alifuglakjöti. Og það er þar sem hnífurinn stóð í kúnni, eða öllu heldur í kjúklingnum. Innflutningur á kjúklingakjöti frá Úkraínu er það sem verið hefur að bögglast fyrir þingmönnum stjórnarflokkanna þegar kemur að því að framlengja tollfrelsið, en það sem af er ári voru flutt inn um það bil 200 tonn af kjúklingakjöti frá Úkraínu.

Og það var eitur í beinum bænda, sem og Samtaka fyrirtækja í landbúnaði (SAFL), sem furðulegt nokk eru þó meðal annars byggð upp af einmitt þeim sömu fyrirtækjum sem flutt hafa kjúklingakjötið inn til þessa. Kúnstugt.

Segja íslenskan landbúnað berjast í bökkum

SAFL sendu í síðasta mánuði fjármála- og efnahagsráðherra bréf þar sem þau lögðust eindregið gegn því að einhliða niðurfellingar á tollum á úkraínskar vörur yrðu framlengdar. Það væri afar óvarlegt „á sama tíma og íslenskur landbúnaður berst í bökkum“.

Bændur hafa enn sterka málsvara á þingi. Framsóknarflokkurinn lagðist gegn því sem einn maður gegn áframhaldandi tollfrelsi. Hluti Sjálfstæðisflokksins lagðist á sömu árar, þó innan flokksins væru líka raddir sem andæfðu því, og af krafti. Vinstri græn voru meðmælt því að ákvæðið um tollfrelsi yrði framlengt en þóttu lítt beita sér.

Til að ákvæðið yrði framlengt þurfti lagabreytingu til, og það var á valdi efnahags- og viðskiptanefndar að ganga frá málinu svo að af gæti orðið. Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, er formaður efnahags- og viðskiptanefndar og ásamt henni sitja í nefndinni, fyrir hönd stjórnarflokkanna þriggja, þau Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi, Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður og Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Vitað er að Diljá Mist studdi áframhaldandi stuðning við Úkraínu með tollfrelsi af ákafa. Hún var hins vegar stödd á þingi Samtaka kvenleiðtoga í Brussel bæði í gær og fyrradag og gat því takmarkað beitt sér í málinu. Varamaður hennar Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, tók sæti í nefndinni í gær.

Nefndarmaður giftur framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja bænda

TengdMargrét Gísladóttir, formaður SAFL, er eiginkona Teits Björns Einarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Þær Guðrún og Hafdís Hrönn koma því báðar af Suðurlandinu, einhverju helsta landbúnaðarhéraði Íslands. Teitur Björn, sem tók sæti Haraldar Benediktssonar, fyrrverandi formanns Bændasamtaka Íslands á þingi fyrir skemmstu, er þá giftur Margréti Gísladóttur, sem vill þannig til að er framkvæmdastjóri SAFL.

Þá má geta þess  að stjórnarformaður SAFL er Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga (KS). Einn helsti samstarfsmaður Sigurjóns Rúnars, Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS, er kjörræðismaður Rússlands á Íslandi.

Á aðalfundi KS, sem haldinn var 6. júní síðastliðinn, var samþykkt ályktun þar sem því var beint til stjórnar að félagið og dótturfélög þess stæðu ekki í innflutningi á erlendum búvörum. Dótturfyrirtæki KS, kjötvinnslan Esja gæðafæði, flutti á síðasta ári inn um 40 tonn af úkraínsku kjúklingakjöti, en Esja er einmitt eitt af stofnfélögum SAFL. Í viðtali við Bændablaðið sagði Sigurjón Rúnar ályktun aðalfundarins skýr skilaboð til fyrirtækisins.

Að minnsta kosti tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokks vildu áframhald

Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar stóðu, eins og áður hefur verið nefnt, harðar deilur um framlengingu á ákvæði um tollfrelsi innan Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að úr ráðherraliði flokksins voru að minnsta kosti Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra mjög á þeirri skoðun að framlengja ætti ákvæðið og styðja þar með áfram við Úkraínu með þeim hætti. Þá voru fleiri þingmenn sömu skoðunar, meðal annars Diljá Mist, sem fyrr segir.

Á fundi ríkisstjórnarinnar síðastliðinn þriðjudag var málið tekið til umræðu utan dagskrár og urðu deilur um það töluverðar. Seinna sama dag náðist samkomulag þingflokksformanna um þinglok og þau mál sem til stæði að afgreiða áður en Alþingi færi í sumarfrí. Framlenging bráðabirgðaákvæðisins um tollfrelsi, eða einhver útfærsla þar á, var ekki á meðal þeirra mála. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sendi þann sama dag tölvupóst þar sem hún spurðist fyrir um hvort um mistök væri að ræða, hvort ekki stæði til að framlengja ákvæðið. Við því fékk hún engin svör.

Í umræðum í þinginu miðvikudaginn 7. júní síðastliðinn komu þingmenn Viðreisnar hver á fætur öðrum í ræðustól og bentu á að framlenging ákvæðisins væri hvergi að finna á dagskránni, „þrátt fyrir eindregna skoðun hæstvirts forsætisráðherra, eindregna skoðun hæstvirts utanríkisráðherra og ég veit að fleiri ráðherrar þessa beggja flokka beri sama hug til undanþágu fyrir vörur frá Úkraínu,“ eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar orðaði það.

„Herkvaðning, að mínu mati, hagsmunaaflanna hefur náð hingað til þess að stoppa þetta mál, sem er mjög táknrænt“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
formaður Viðreisnar

„Við vitum það alveg, sem erum hér, að það er einn flokkur fyrst og fremst, og eitthvað brot innan úr Sjálfstæðisflokknum, sem er að stoppa þetta mál. Framsóknarflokkurinn vill ekki að þetta mál njóti framgangs eða forgangs hér. Herkvaðning, að mínu mati, hagsmunaaflanna hefur náð hingað til þess að stoppa þetta mál, sem er mjög táknrænt,“ sagði Þorgerður Katrín enn fremur.

Titringur innan ríkisstjórnarinnar

Ræður þingmanna Viðreisnar hristu upp í þingmönnum stjórnarflokkanna, samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar. Var því lýst þannig að í kjölfarið væru ráðherrar og stjórnarþingmenn í samtölum „í öllum skúmaskotum“ þinghússins.

Leið svo og beið, og gærdagurinn rann upp. Töluverður titringur var á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gærmorgun, eftir umræðu um málið deginum áður. Var því lýst þannig við blaðamann Heimildarinnar að nefndarmenn stjórnarmeirihlutans hefðu verið eins og „þeytispjöld“ inn og út af fundinum í símtölum og mátti ljóst vera að það væri vegna hins úkraínska kjúklings. Málið var hins vegar ekki tekið á dagskrá þess fundar.

Guðrún sögð hafa beitt sér gegn framlengingu

Sætir gagnrýniStjórnarandstöðuþingmenn segja Guðrúnu Hafsteinsdóttur hafa lagst gegn áframhaldandi tollaleysi.

Upplýsingar Heimildarinnar herma að Guðrún Hafsteinsdóttir hafi, sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar, beitt sér gegn því að framlenging ákvæðisins fengi framgang. Þingmenn sem Heimildin hefur rætt við segja málið raunar hafi verið komið inn á borð nefndarinnar, frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, fyrir all nokkru en Guðrún hafi beinlínis dregið lappirnar við afgreiðslu þess. Í athugasemd um fundarstjórn forseta á þingi í gær sagði Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd að hann hefði óskað eftir því „fyrir einhverju síðan" að málið yrði sett á dagskrá. „Þá kom berlega í ljós að ágreiningur var í meiri hlutanum um hvort það ætti að halda þessu áfram eða ekki. Ég óskaði eftir því að þetta yrði tekið til meðferðar og formaður nefndarinnar tjáði mér að þetta væri í vinnslu.“

Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, lýsti því þá einnig úr ræðustól í gær að hann hefði fyrir rúmri viku sent bréf til Guðrúnar þar sem hann hvatti hana til að taka málið upp og klára það. „Þetta er búið að liggja fyrir í talsverðan tíma og ég ítreka að það er hálfskammarlegt fyrir þingið ef við förum héðan burt án þess að framlengja þetta.“

Utanríkisráðherra misboðið

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í þinginu í gær sagði Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra að bráðabirgðaákvæði um tollfrelsi á úkraínskar vörur yrði ekki framlengt fyrr en í fyrsta lagi í haust. „Ég ætla ekki að útiloka að okkur takist að finna einhverja leið til þess að halda þessu áfram, það er þá ljóst að það verður ekki hér núna. Það verður þá ekki fyrr en í haust, sem mér finnst ekki mikill sómi að,“ sagði Þórdís Kolbrún og engum mátti dyljast að henni var all misboðið.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, átti orðastað við Þórdísi Kolbrúnu og fór fram á skýringar á því hverjir það væru sem bæru ábyrgð á því að málið væri stopp. Þórdís Kolbrún svaraði því ekki efnislega. „Hinsvegar næst einfaldlega ekki samstaða um það, eins og sakir standa, með hvaða hætti eigi að framlengja þetta mál. Ég hefði viljað að við hefðum getað komið því í frekari umræðu á þinginu.“

Síðar á þingfundinum kom hver þingmaður stjórnarandstöðunnar á fætur öðrum upp undir liðnum fundarstjórn forseta og kallaði eftir því að nefndarmenn efnahags- og viðskiptanefndar tækju málið til sín og ynnu það þannig að hægt væri að taka afstöðu til þess í þingsal. Skorað var á þingforseta að gera hlé á þingfundi til að stjórnarflokkarnir gætu sest saman og „ákveðið hvort þeir ætli að standa með Úkraínu eða ekki,“ eins og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata orðaði það.

„Það er enginn bragur á því að á meðan Úkraínumenn eru að berjast fyrir sínu lífi sínu, sínu landi og okkar frelsi að við séum ekki að framlengja það viðskiptafrelsi sem við settum á að þeirra ósk“
Guðlaugur Þór Þórðarson
umhverfisráðherra

Þá nýtti Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra tækifærið, í umræðu um atkvæðagreiðslu fjölmiðlafrumvarpsins, til að lýsa óánægju sinni. „Það er enginn bragur á því að á meðan Úkraínumenn eru að berjast fyrir sínu lífi sínu, sínu landi og okkar frelsi að við séum ekki að framlengja það viðskiptafrelsi sem við settum á að þeirra ósk,“ sagði Guðlaugur Þór en fáheyrt er að þingmenn nýti orðið í umræðum um önnur og óskyld mál með þessum hætti.

Birgir og Ásmundur sögðu sinn hug

Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins stigu hins vegar fram og lýstu öndverðri skoðun í málinu í umræðunum í gær, þeir Birgir Þórarinsson og Ásmundur Friðriksson í pontu og lýstu því að eðlilegra væri að styðja Úkraínu með öðrum hætti, hætti sem ekki setti „okkar eigin landbúnað í vanda,“ eins og Birgir orðaði það. „Að við séum að rífast um það hvort einhverjir kjúklingar til eða frá bjargi málunum finnst mér mjög meiðandi umræða vegna þess að við viljum öll gera vel og við viljum öll gera betur,“ var meðal þess sem Ásmundur hafði fram að færa í sínum málflutningi.

Á síðari fundi efnahags- og viðskiptanefndar, í gærkvöldi, varð svo ljóst að ekkert yrði úr málinu, hvorki óbreyttu tollfrelsi né einhvers konar útfærslu.

Lúalegt gagnvart ÚkraínumönnumDiljá Mist er mjög ósátt við niðurstöðu málsins.

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Heimildina að hún sé mjög ósátt með niðurstöðuna. „Ég tek undir með utanríkisráðherra með að það er enginn sómi að þessu. Þetta er stuðningur sem Úkraínumenn hafa sérstaklega leitað eftir því þeir vilja reyna að reisa við efnahagskerfi sitt, sem er auðvitað í molum. Mér finnst lúalegt að á meðan Úkraínumenn eru að fórna lífi sínu, limum, frelsi og öllu sem þeir eiga til að berjast fyrir okkar frelsi og okkar gildum, að við getum ekki gengið eins langt og við mögulega komumst. Það er alls ekki svo að ég skilji ekki þau varnaðarorð sem eru uppi í íslenskum landbúnaði en ef þetta er áhyggjuefni þá þurfum við bara að taka það samtal og bregðast við því.“

„Mér finnst lúalegt að á meðan Úkraínumenn eru að fórna lífi sínu, limum, frelsi og öllu sem þeir eiga til að berjast fyrir okkar frelsi og okkar gildum, að við getum ekki gengið eins langt og við mögulega komumst“
Diljá Mist Einarsdóttir
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

Spurð hvort að hún telji það muni hafa einhverjar afleiðingar innan Sjálfstæðisflokksins að þessar deilur hafi skapast segir Diljá að flokksmenn séu vanir því að uppi séu mismunandi sjónarmið. „Þetta fólk verður bara að svara fyrir sjálft sig þegar það er að vega og meta hagsmuni, það sem raunverulega skiptir máli og hvernig hægt er að komast að niðurstöðu. Ég er að segja að þegar ákallið er svona sterkt, svona mikið er undir og svona miklu hefur verið fórnað fyrir okkar hönd, þá er mjög erfitt fyrir okkur að færa góð rök fyrir því að hafa ekki getað fundið út úr þessu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki góður bragur á þessu og að við hefðum átt að leita allra leiða til að taka samtalið og finna út úr því hvernig við gætum haldið áfram að sýna Úkraínumönnum þann stuðning sem þeir óska eftir. Ekki það sem hentar okkur best eða skást eða hefur minnstar afleiðingar fyrir okkur.“

Kjósa
13
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Óskar Guðmundsson skrifaði
    Catch 22.
    Það skiptir engu máli hvað gert verður því fylgir fordæming.
    Í sömu viku og verið er að ræða hækkun afurðaverðs um nálega 20% er umræða um erlendann innflutning olía á eldinn.
    -3
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár