Matvælaráðuneyti og Fiskistofa hafa ekki brugðist við úrbótatillögum Ríkisendurskoðunar frá árinu 2018 með viðunandi hætti tíu af ellefu úrbótatillögum sem Ríkisendurskoðun lagði fram í skýrslu sinni árið 2018.
Þetta kemur fram í nýrri eftirfylgniúttekt Ríkisendurskoðunar sem stofnunin kynnti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrr í dag. Úrbótatillögurnar varða eftirlit stofnunarinnar með vigtun sjávarafla, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda. Nauðsynlegar úrbætur hafa ekki náð fram að ganga og flestir þeirra veikleika sem Ríkisendurskoðun fjallaði um eru enn til staðar.
Ríkisendurskoðun telur tilefni til að ítreka í heild eða að hluta 10 af 11 úrbótatillögum sem stofnunin lagði fram í skýrslu sinni árið 2018.
Að mati Ríkisendurskoðunar er eftirlit Fiskistofu með vigtun afla og brottkasti enn takmarkað og „efast má um að það skili tilætluðum árangri“. „Vísbendingar eru um að umfang brottkasts hafi verið vanmetið,“ segir í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun.
Í eftirfylgnisskýrslunni kemur meðal annars fram að Fiskistofa hefur ekki tekið upp verklag sem tryggir að yfirráð tengdra aðila yfir aflahlutdeildum séu könnuð með markvissum og reglubundnum hætti. „Stofnunin skortir greinargóða yfirsýn um bein og óbein tengsl aðila í íslenskum sjávarútvegi.“
Eina tillagan sem Ríkisendurskoðun ítrekar ekki snýr að því að kanna þurfi hvort og þá hvernig hægt verði að auka samstarf við Fiskistofu og Landhelgisgæslu Íslands við eftirlit með brottkasti. Unnið hefur verið að auknu samstarfi stofnananna, meðal annars hvað snýr að notkun fjarstýrðra loftfara. Það eftirlit miðast hins vegar fyrst við smábáta en ekki togara, líkt og Stundin, annar fyrirrennara Heimildarinnar, greindi frá í desember.
Athugasemdir