Við innganginn í einni stærstu bókabúðinni í miðborg Moskvu hefur þremur bókum verið stillt sérstaklega upp. Þetta eru helstu metsölubækurnar um þessar mundir og þær sem mest umtal hafa vakið. Ein bókin er um Stalín. Önnur heitir Leið Pútíns og er dásemdaróður um núverandi forseta Rússlands. Og sú þriðja heitir Endalok þriggja evrópskra einræðisstjórna.
Hún fjallar um hvernig hálf- eða alfasískar ríkisstjórnir Grikklands, Portúgals og Spánar lögðu upp laupana á árunum 1974–1975.
Skiljanlegt er að fyrstnefndu tvær bækurnar séu vinsælar í búðinni í Moskvu. En hvað í ósköpunum veldur því að Rússar kaupi nú í stórum stíl og drekki í sig bók um það hvernig fáeinum fasistastjórnum í Suður-Evrópu var komið frá völdum fyrir rétt tæplega hálfri öld?
Höfundurinn Alexandr Baunov er steinhissa á þessu – og þó ekki.
Skrifað frá Grikklandi
Baunov er rúmlega fimmtugur. Hann starfaði um tíma í sendiráði Rússlands í Grikklandi og hefur mikil tengsl við Grikkland, skrifað ferðapistla þaðan og svo framvegis. Svo gerðist hann fræðimaður og blaðamaður og hefur skrifað mikið um alþjóðatengsl Rússlands og ýmislegt þar að lútandi. Hann hefur skrifað þrjár bækur, þar á meðal eina um Wikileaks. Baunov skipaði sér ekki í hóp virkra stjórnarandstæðinga í Rússlandi en hefur lagt sig fram við að skrifa heldur ekki sem dyggur þjónn hinnar æ strangari stjórnar Pútíns.
Frá 2015 starfaði Baunov hjá Moskvudeild hinnar alþjóðlegu Carnegie-rannsóknarstofnunar en hún var lögð niður í fyrra í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Flestir hinir rússnesku sérfræðingar stofnunarinnar eru nú komnir til Berlínar þar sem þeir búa sig undir að taka upp þráðinn við óháðar rannsóknir á alþjóðasamskiptum Rússa síðustu þrjátíu árin.
Lesið milli línanna
En Baunov fór hvergi. Þegar hann missti vinnuna hjá Carnegie-stofnuninni gekk hann í að klára bók sem hann hafði verið með í smíðum í þrjú ár og er sem sagt athugun á því hvernig Grikkir, Portúgalir og Spánverjar losuðu sig við einræðis- og kúgunarstjórnir og komu á lýðræði – og tóku sér stöðu í alþjóðasamfélaginu.
Rússar eru frá fornu fari þaulvanir að lesa milli línanna enda má segja að ritskoðun hafi verið við lýði í landinu alla hina sögu landsins – nema þá æsilegu daga þegar Jeltsín var við sögu. Núna er ekki opinber ritskoðun við lýði í landinu (nema hvað varðar hina „sérstöku hernaðaraðgerð“ í Úkraínu) en allir vita þó að hollast er að skrifa ekki hvað sem er.
Baunov þvertekur fyrir að hann hafi skrifað bókina með rússneskar aðstæður í hug en viðurkennir að hann skilji fullvel hvers vegna fólk hafi áhuga á henni nú. Sá áhugi er mikill. Ekki aðeins hefur þurft að endurprenta bókina þrisvar síðan hún kom út í janúar, heldur hefur hún líka verið mikið til umræðu á spjallsíðum um pólitík og samtímaviðburði.
Kjarnorkuveldi hrynur ekki eins og Hitlers-Þýskaland
Í grein sem birtist í hinu danska Politiken segir Baunov:
„Andstætt mörgum vestrænum bókum um svipuð efni, þá er þessi bók skrifuð af íbúa í einveldi og er líka handa íbúum í einveldi. Þannig eru höfundur og lesendur í sérstöku sambandi, sem jafna má við samsæri, um viðfangsefni.
Mikilvægast er að bókin færir lesendum sínum nýja og blæbrigðaríkari sýn á landið sem þeir búa í. Bæði Rússar og vel upplýstir lesendur í öðrum löndum vita alveg að samlíkingar [um hugsanlegt hrun Pútín-veldis annars vegar og hins vegar] um hrun Þýskalands nasista eða hrun Sovétríkjanna eru villandi. Það er erfitt að ímynda sér að kjarnorkuveldi eins og Rússland gæti hrunið jafn gersamlega og [Hitlers-Þýskaland]. Og Sovétríkin hrundu fyrst og fremst vegna trénaðs efnahagskerfis sem olli því að fólk bak við járntjaldið var farið að skorta mat og neysluvörur.
Valdastéttin er að pæla
En þrátt fyrir stríðsrekstur sinn er Rússland eftir sem áður markaðshagkerfi og neyslusamfélag og hefur ekki lokað landamærum sínum. Þetta þýðir að Rússland líkist meira þeim einræðisríkjum sem ég fjalla um í bók minni. Landamæri þeirra voru líka opin og eignarétturinn friðhelgur, þótt borgurunum væri skipt upp í föðurlandsvini og óvini, fjargviðrast væri út í hin spilltu Vesturlönd og lögð áhersla á þær „sérstöku leiðir“ sem þeirra lönd færu.“
Baunov vekur í greininni athygli á að fyrir fram hafi kannski mátt búast við því að bók hans yrði helst rædd í kreðsum yfirlýstra stjórnarandstæðinga og baráttufólks gegn stríðinu í Úkraínu.
„En það kemur á óvart að bókin er mest rædd meðal fólks í efstu lögum valdakerfis Rússlands,“ segir Baunov enn fremur. Í þeim hópum sé bókin notuð sem afsökun fyrir að ræða hluti eins og ríkisstjórnarskipti, heilsu og dauða einræðisherra, ósigra í nýlendustríði, hvernig á að rjúfa einangrun og já, hrun valdakerfis.“
Einræðisstjórnir reyna að finna sér óvini
Og þótt Baunov þvertaki fyrir að hann hafi skrifað bókina með Pútín eða núverandi ástand í Rússlandi í huga kveðst hann gera sér grein fyrir að ýmislegt í bókinni hljóti að verða til þess að rússneskur lesandi hugsi sitt.
Svo sem eins og þegar sagt er frá því að gríska herforingjastjórnin reyndi að halda sér á lífi og efla stuðning við sig innanlands með hinu klassíska ráði einræðisstjórna að finna sér óvini í útlöndum, og standa fyrir valdaráni á Kýpur er grísku herforingjarnir kváðust líta á sem óaðskiljanlegan hluta Grikklands.
Rétt eins og ... þið vitið.
Eða þegar portúgalska herforingjastjórnin visnar og hrekkur að lokum upp af vegna óvinsæls og grimmilegs nýlendustríðs í Afríku sem portúgalska þjóðin var löngu hætt að sjá nokkurn tilgang í.
Dagblað gefið út fyrir einræðisherra
Og ætli lyftist ekki augabrúnin á Rússum sem lesa um hvernig Salazar, einræðisherra í Portúgal, var að lokum ýtt til hliðar af eigin hirð af því hann réði ekki lengur við landstjórnina vegna hrörnunar og veikinda – en honum var hins vegar talin trú um að hann væri áfram við stjórn og gekk það svo langt að gefið var út handa honum sérstakt dagblað í aðeins einu eintaki með eintómum falsfréttum um gott gengi Portúgals undir dyggri stjórn hins dugmikla Salazars.
„Einræðisherranum var talin trú um að hann væri áfram við völd. Gefið var út dagblað í einu eintaki með eintómum falsfréttum, bara handa honum“
Og frásögnin um Spán – þar sem jafnvel valdastéttin hafði áttað sig á því hvað herforingjastjórn Francos var orðin feyskin og andstyggileg – og uppgötvaði að hún sjálf vildi heldur lýðræði en einræði, og samvinnu á alþjóðavettvangi frekar en einangrun.
Í lok greinar sinnar í Politiken skrifar Baunov:
„Í einum kafla skrifa ég að pólitísk orka hverfur ekki bara – ekki frekar en önnur orka. Hún tekur bara á sig annað form. Áhugi Rússa á Endalokum einræðisherranna sýnir að sú orka hefur nú fengið nýja útrás.“
Spánn
Fasistinn Francisco Franco hleypti af stað borgarastríði á Spáni 1936 þegar hann hugðist ræna völdum frá vinstrisinnaðri ríkisstjórn. Stríðið varð langt og einstaklega grimmilegt en Franco sigraði að lokum með stuðningi félaga sinna, Hitlers og Mussolinis, og hjásetu Vesturveldanna. Stríðið skildi eftir sig mjög djúp sár og sömuleiðis mjög hrottaleg stjórn Francos næstu áratugi. Honum var þó ekki alvarlega ógnað og dó í friðsæld á sóttarsæng 82 ára árið 1975. Eftir það reyndist enginn vilji né þrek á Spáni til að viðhalda fasismanum og lýðræði var komið á.
Portúgal
Árið 1932 tók hagfræðingurinn og fjármálaráðherrann António Salazar völdin í Portúgal og ríkti síðan sem einræðisherra til 1968. Hann kvaðst hafna jafnt kommúnisma sem fasisma (og sér í lagi nasisma) en var þó í rauninni bara þjóðernisfasisti og afturhaldsmaður. Mannréttindi voru að engu virt, margir fangelsaðir grunaðir um andstöðu við stjórnina, pyntingar voru alsiða og morð. Eigi að síður tókst Salazar lengi að telja fólki erlendis trú um að stjórn hans væri mild miðað við aðrar fasistastjórnir. Hann var settur frá völdum þegar ljóst var að hann var mjög úr heimi hallur á efri árum. Eftirmaður hans, Caetano, hraktist frá völdum í friðsamlegri byltingu 1975 og dó í útlegð í Brasilíu þar sem þá var herforingjastjórn.
Grikkland
Miklar róstur voru í stjórnmálalífi Grikklands áratugina eftir síðari heimsstyrjöldina og grimmilegt borgarastríð 1946–1948. Í apríl 1967 stýrðu nokkrir afturhaldssinnaðir herforingjar valdaráni og var yfirlýst markmið þeirra að koma á kyrrð í landinu og hindra valdatöku kommúnista. Bandaríkjamenn stóðu ekki að sjálfu valdaráninu en studdu herforingjana lengi vel eftir á. Konstantín konungur féllst í fyrstu á stjórn herforingjanna en reyndi í desember ’67 að ræna frá þeim völdum og var þá rekinn úr landi. Herforingjastjórnin varð strax alræmd fyrir hroðaleg mannréttindabrot, pyntingar og morð á stjórnarandstæðingum. Árið 1974 var stjórnin rúin öllum stuðningi, innan lands sem utan, og hrökklaðist frá eftir misheppnaða tilraun til að auka vinsældir sínar með því að ná völdum á Kýpur sem leiddi til innrásar Tyrklands. Herforingjarnir voru leiddir fyrir rétt og dæmdir til fangelsisvistar.
Andúð Putins (sem og margra hægri flokka og populista) á ESB er því mjög skiljanleg.