„Við metum það svo að hag okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins“ er frasi sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa komið sér upp án þess að nokkurt opinbert hagsmunamat styðji það. Öll faglega unnin gögn um hvort Ísland eigi heima í ESB, eða ekki, benda ótvírætt til að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið innan ESB. Samt tyggja ríkisstjórnarflokkarnir þetta upp hvert eftir öðru ár eftir ár.
Þessa dagana horfum við upp á lýsandi dæmi um einmitt hvernig hagsmunum okkar er verr komið utan ESB en innan. Hver á fætur öðrum fara ráðherrar ríkisstjórnarinnar með betlistaf í hendi til Brüssel til að fá undanþágu frá reglum sem varða áætlunarflug til og frá Íslandi, reglum sem Íslendingar hefðu hæglega getað verið undanþegnir ef þjóðin hefði verið í ESB.
„Því skyldu þeir í Brüssel vilja veita einhverri þjóð undanþágu sem ekki hefur áhuga á að taka þátt í því fjölþjóðlega samstarfi sem ESB er og henni stendur til boða ef hún bara kýs svo?“
Ráðherrarnir hafa ekki haft erindi sem erfiði. Það þarf ekki að koma neinum á óvart; því skyldu þeir í Brüssel vilja veita einhverri þjóð undanþágu sem ekki hefur áhuga á að taka þátt í því fjölþjóðlega samstarfi sem ESB er og henni stendur til boða ef hún bara kýs svo?
Frasinn um að hagsmununum eigi að vera betur borgið utan ESB er settur fram eins og til að fela hinar raunverulegu ástæður sem eru að útgerðin setur ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar og nokkuð ljóst að þessi ríkisstjórnin fer ekki gegn vilja útgerðarinnar. Einnig ætti ríkisstjórnin að viðurkenna að innan ríkisstjórnarflokkanna er fólk sem er andsnúið ESB af tilfinningalegum ástæðum. Það er fullkomlega eðlilegt að vera á móti aðild að ESB af þeirri ástæðu. Innganga í ESB er einfaldlega málefni þannig vaxið að það kallar fram sterkar tilfinningar. Þetta eiga ríkisstjórnarflokkarnir að viðurkenna í stað þess að setja eilíflega fram frasa um hagsmuni þjóðarinnar eða hagsmunamat sem hvergi er hægt að finna stað í neinum þeirra úttekta sem gerðar hafa verið um mögulega aðild Íslands að ESB. Hreint hagsmunamat hvetur nefnilega mjög eindregið til þess að Íslendingar eigi að gerast aðilar að ESB.
Höfundur er hagfræðingur.
Þegar kosið verður næst a Islandi sem verður Vonandi sem first Þa þarf að kjosa um aðild að EU.