Tap varð af rekstri RÚV í fyrra upp á alls 164 milljónir króna þrátt fyrir að rekstrartekjur hafi vaxið um 849 milljónir króna, og verið 7,9 milljarðar króna. Árið 2021 hafði ríkismiðillinn skilað 45 milljóna króna hagnaði.
Þetta er í annað sinn síðan árið 2014 sem RÚV skilar tapi. Athygli vekur að óskilgreindur „annar rekstrarkostnaður“ jókst um 560 milljónir króna milli ári. Gengið hefur nokkuð á eigið fé RÚV á undanförnum árum en eiginfjárhlutfallið var 28,5 prósent árið 2018. Um síðustu áramót var það komið niður í 20,1 prósent.
Rekstrarhagnaður jókst milli ára og var 337 milljónir króna. Hrein fjármagnsgjöld, sem nánast tvöfölduðust milli ára, átu hann hins vegar upp að mestu en þau voru 501 milljónir króna á síðasta ári.
Þetta kemur fram í nýlega birtum ársreikningi RÚV.
Auglýsingatekjur aukist mikið á tveimur árum
Tekjur RÚV eru að uppistöðu tvennskonar: tekjur af almannaþjónustu sem koma í formi framlags úr ríkissjóði og tekjur af samkeppnisrekstri. Alls fékk RÚV næstum 5,1 milljarða króna úr ríkissjóði í fyrra sem var 430 milljónum krónum meira en komu þaðan árið 2021. Þær greiðslur munu aukast verulega á þessu ári, en áætlað er að ríkissjóður greiði RÚV 5,7 milljarða króna á árinu 2023. Auk þess munu greiðslur til ríkismiðilsins úr sameiginlegum sjóðum að óbreyttu fara stighækkandi á næstu árum sökum þess að útvarpsgjaldið fylgir verðlagsbreytingum. Auk þess er öllum fullorðnum einstaklingum og lögaðilum gert að greiða gjaldið. Þegar fólki og fyrirtækjum fjölgar, þá fjölgar krónunum sem renna til RÚV.
Tekjur af samkeppnisrekstri jukust líka skarpt milli ára, eða um 454 milljónir króna, og voru rúmlega 2,8 milljarðar króna. Þar munar mestu um tekjur af auglýsingum og kostunum, sem voru 2,4 milljarðar króna og jukust um 372 milljónir króna milli ára. Á tveimur árum hafa þær aukist um 774 milljónir króna, eða um 48 prósent. Til samanburðar má nefna að styrkir sem greiddir voru út til á þriðja tug einkarekinna fjölmiðla úr ríkissjóði í fyrra voru um 385 milljónir króna. Sú upphæð var því svipuð og sú tekjuaukning sem RÚV tók til sín í gegnum auglýsingasölu á síðasta ári.
Þessara tekna er aflað í gegnum dótturfélagið RÚV sölu, þar sem störfuðu 17 manns í byrjun síðasta árs. Sá sjónvarpsviðburður sem ugglaust hefur skilað RÚV mestum tekjum vegna kostunar og auglýsingasölu er heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fór í Katar í lok síðasta árs. Um er að ræða einn stærsta sjónvarpsviðburð í heimi og áhorfið á hann er gríðarlegt.
Laun útvarpsstjóra hækkuðu um 217 þúsund á mánuði
Stöðugildum fjölgaði um tvö hjá RÚV milli ára og voru 254 á árinu 2022. Launakostnaður jókst samhliða um 225 milljónir króna og var rúmlega 3,2 milljarðar króna.
Heildarlaun og lífeyrissjóðsgreiðslur Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra námu 32,6 milljónum króna í fyrra. Þau hækkuðu um 8,7 prósent milli ára, eða um 217 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Það þýðir að Stefán var með 2,7 milljónir króna á mánuði í laun og mótframlag í lífeyrissjóð fyrir að stýra stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins, og því eina sem er í eigu ríkisins.
Stefán var ráðinn snemma árs 2020 og þá skipaður til fimm ára. Hann er tíundi útvarpsstjóri RÚV frá upphafi og tók við starfinu af Magnúsi Geir Þórðarsyni.
RÚV er rekið í samræmi við þjónustusamning sem gerður er við það ráðuneyti sem fer með málefni fjölmiðla hverju sinni. Nú er það ráðuneyti menningar- og viðskiptamála sem stýrt er af Lilju Alfreðsdóttur. Nýr þjónustusamningur var undirritaður í lok árs 2020 og látinn gilda afturvirkt frá 1. janúar á því ári. Hann rennur út í lok þessa árs.
Fréttablaðið í þrot
Miklar sviptingar hafa verið í íslenskum fjölmiðlum undanfarið. Sú nýjasta, sem átti sér stað í lok síðustu viku, fól í sér að Fréttablaðið, sem hefur verið risaleikandi á markaðnum í meira en tvo áratugi og var eitt af tveimur eftirstandandi dagblöðum landsins, hætti rekstri. Samhliða hætti systurmiðillinn Hringbraut, sem hélt úti sjónvarpsstöð, útsendingum. Fyrirtækið voru gefin upp til gjaldþrotaskipta á mánudag og hátt í 100 manns misstu vinnuna. Áður hafði N4 hætt rekstri á þessu ári. Einkarekna fjölmiðlaflóran hefur því sífellt verið að verða fátæklegri.
Í tölum sem Hagstofa Íslands birti í lok árs í fyrra kom fram að tekjur allra fjölmiðla á Íslandi hafi verið 27 milljörðum króna árið 2021. Á föstu verðlagi er það sama upphæð og þeir þénuðu árið 2015, en 13 prósent minni tekjur en miðlarnir höfðu samanlagt árið 2005. Inni í þessum tölum eru þær tekjur sem RÚV tók til sín, en það var með 25 prósent hlutdeild í fjölmiðlatekjum á árinu 2021. Í þeim kom fram að RÚV hafi verið að auka hlutdeild sína í auglýsingatekjum á undanförnum árum. Miðað við uppgjör RÚV vegna síðasta árs má búast við að hlutdeild RÚV í heildartekjum fjölmiðla hafi aukist á því ári.
Ætla að draga úr umsvifum RÚV
Í nýlega kynntri fjármáláætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er boðað að unnið verði að því „að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði“, en það þýðir að reynt verður að setja hömlur á getu ríkismiðilsins til að sækja sér auglýsingafé. Engin útfærsla á því markmiði er þó lögð fram í áætluninni, en samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar stendur ekki til að taka RÚV að öllu leyti af auglýsingamarkaði.
Í áætluninni segir að unnið verði að endurnýjun þjónustusamnings ráðherra við RÚV sem, líkt og áður sagði, rennur út í lok árs 2023. „Lögð verður áframhaldandi áhersla á að Ríkisútvarpið muni áfram sem hingað til leitast við að fylgja þróun fjölmiðlunar, m.a. með breyttum áherslum í dagskrá og fjölbreyttara efnisframboði á vef, auk þess að gera eldra efni aðgengilegra en áður. [...] Helstu áskoranir næstu árin eru að viðhalda og efla það traust sem almenningur ber til Ríkisútvarpsins, sbr. árlegar mælingar þar að lútandi. Þá stendur Ríkisútvarpið enn frammi fyrir því að lækka skuldir og halda óbreyttum tekjum til að hægt verði að halda úti sambærilegri dagskrá og verið hefur.“
Þar var einnig boðað að auka árlegan stuðning við einkarekna fjölmiðla um 400 milljónir króna á næsta ári og að hann verði þá um 777 milljónir króna. Viðbótarframlagið, sem ætlað er „tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði“ mun verða tryggt til fimm ára, eða út árið 2028.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar stendur meðal annars til að miðla viðbótarfjárhæðinni til fjölmiðla í gegnum skattaívilnun og er aðgerðinni að hluta til ætlað að hvetja fjölmiðla til að taka upp áskriftarfyrirkomulag. Útfærsla á leiðinni er þó ekki tilgreind í áætluninni.
Heimildin er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir skilyrði fyrir rekstrarstyrk úr ríkissjóði.
Athugasemdir