Þessi grein birtist fyrir meira en 2 árum.

Haraldur lagði ríkasta mann í heimi sem baðst afsökunar og bauð honum áframhaldandi vinnu

Har­ald­ur Þor­leifs­son, Halli, spurði Elon Musk fyr­ir rúm­um sól­ar­hring hvort hann væri enn með vinnu hjá Twitter. Rík­asti mað­ur heims hló að hon­um, hædd­ist að fötl­un hans og ef­að­ist um vinnu­fram­lag Har­ald­ar. Allt op­in­ber­lega í tíst­um á Twitter. Har­ald­ur setti inn þráð þar sem hann lýsti áhrif­um fötl­un­ar sinn­ar á getu sína til að starfa af auð­mýkt og kall­aði eft­ir því að Musk greiddi sér það sem gerð­ir samn­ing­ar gerðu ráð fyr­ir. Næst­um 50 millj­ón manns sáu þráð­inn, er­lend­ir fjöl­miðl­ar fjöll­uðu um hann og Musk hef­ur nú beðist af­sök­un­ar.

Haraldur lagði ríkasta mann í heimi sem baðst afsökunar og bauð honum áframhaldandi vinnu

Elon Musk, forstjóri Twitter og Tesla, bað í gær Harald Þorleifsson afsökunar og sagði hann vera að íhuga að starfa áfram fyrir Twitter. Afsökunarbeiðnin birtist í svari við færslu ljósmyndarands Daniel Houghton á Twitter rétt fyrir miðnætti í gær. Houghton hafði sagði frá því að hann hafi unnið með Haraldi og hrósaði honum hástert fyrir vinnusemi, hæfileika og auðmýkt. Houghton sagði að það hlyti að byggja á misskilningi þegar Musk sagði, í færslu fyrr í gærdag, að Haraldur hefði í raun ekki gert neitt hjá Twitter. 

„Í kjölfar ummæla þinna þá hringdi ég myndsímtal í Halla til að átta mig á hvað væri rétt af því sem mér var sagt. Þetta er löng saga. Það er betra að tala við fólk en að eiga samskipti við það í gegnum tíst.“

Svo skrifaði Musk: „Ég vil biðja Harald afsökunar fyrir að hafa misskilið aðstæður hans. Það var byggt á hlutum sem mér voru sagðir en voru ósannir, eða sannir en höfðu enga merkingu. Hann er að íhuga að vera áfram hjá Twitter.“

Þar með lauk afar opinberri deilu Haraldar, manneskju ársins á Íslandi í fyrra sem seldi fyrirtækið sitt Ueno til Twitter fyrir rúmum tveimur árum og hefur starfað þar síðan, og Elon Musk, ríkasta manns heims. 

Vinn ég enn hjá þér?

Deilan hófst þegar Haraldur kallaði eftir svörum um hvort hann væri enn starfsmaður Twitter, með því að senda skilaboð á Musk á samfélagsmiðlinum, en þá voru liðnir níu dagar síðan að aðgengi hans að skjáborði vinnutölvu og tölvupósti hafði verið lokað samhliða því að greint var frá að 200 manns hefði verið sagt upp hjá Twitter. 

Haraldur Þorleifsson fékk í kjölfarið loks staðfest að hann starfi ekki lengur hjá Twitter. Þegar hann og Musk náðu loks saman, í tístarsamskiptum fyrir allra augum á Twitter, óskaði Haraldur eftir því að Musk myndi greiða honum það sem eftir stæði af samningi hans við fyrirtækið.  „Eða mun @elonmusk, einn ríkasti maður í heimi, reyna að komast undan því að greiða? Fylgist með!!“

Musk hló að honum og setti síðan fram ýmsar færslur þar sem hann hélt því fram að Haraldur hefði ekki sinnt neinu vinnuframlagi síðustu mánuði, hæddist að honum fyrir að glíma við fötlun og sagðist ekki bera neina virðingu fyrir Haraldi.  Þá sagði Musk Harald vera í vegferð til að fá stóra summu greidda. 

Haraldur, sem er með með­fæddan vöðva­rýrn­un­ar­sjúk­dóm sem gerir það að verkum að Har­aldur hefur not­ast við hjóla­stól frá 25 ára aldri og hefur líka dregið úr geti hans til að nota hendur sínar, skrifaði langan þráð þar sem hann lýsti ástandi sínu og aðstæðum á kurteisilegan og yfirvegaðan hátt og endaði með því að biðja Musk á ný um að standa við gerða samninga og gera upp við hann. 

Deilur mannanna vöktu mikla athygli, enda Musk með 131 milljón fylgjendur á Twitter. Um þær var fjallað í fjölmörgum alþjóðlegum fjölmiðlum og samhliða stórjókst fylgjendafjöldi Haraldar. Þeir eru ný orðnir næstum 178 þúsund. Yfir tíu milljón manns sáu fyrstu færsluna í þræðinum sem Haraldur sendi á Musk eftir að sá síðarnefndi hæddist að honum. Sem stendur hafa meira en 48 milljón manns séð síðari þráð Haraldar.

Seldi fyrirtækið sitt til Twitter og borgaði skatta á Íslandi

Haraldur var enginn venjulegur starfsmaður hjá Twitter. Hann seldi fyrirtækið sitt Ueno til samfélagsmiðlarisans fyrir tveimur árum fyrir ótilgreinda upphæð og samþykkti samhliða, líkt og stofnendur fyrirtækja sem keypt eru gera stundum, að starfa áfram fyrir yfirtökufyrirtækið.

Ueno var tækni- og hönnunarfyrirtækið, stofnað 2014 og hafði áður verið með starf­semi í San Francisco, New York og Los Angeles, auk skrif­stofu í Reykja­vík, og stækkað hratt. Fyrirtækið velti um tveimur milljörðum króna á árinu 2019 og hafði sinnt verk­efnum fyrir fjöl­mörg stór­fyr­ir­tæki, til dæmis Google, Apple og Facebook, auk AirBnB, Slack, Uber og fjölda ann­arra. Það var rekið í hagnaði þegar Twitter keypti það og samkvæmt umfjöllun erlendra fjölmiðla, meðal annars The New York Times, endurspeglaðist það í þeim samningi sem gerður var við Harald. Þegar Ueno hafi verið keypt hafi Haraldur fengið greiðslu og Twitter þurfi svo að greiða stofnandanum út bónusa og kaupa af honum hlutabréf þegar hann lýkur störfum fyrir fyrirtækið. 

Upphlaup Musk á Twitter í gær, þar sem hann staðfesti uppsögn Haraldar, hæddist að honum og hló, gæti því orðið honum, sem er langstærsti eigandi Twitter, dýrt. 

Næstum 600 milljónir króna í skatta á einu ári

Til að átta sig á umfanginu má benda á að Haraldur sagði frá því í færslu á Twitter skömmu eftir söluna á Uenoi að allir skattar vegna sölu fyr­ir­tæk­is­ins til Twitter yrðu greiddir á Íslandi. Þá fór hann fram á það við Twitter að kaupverðið yrði greitt sem launagreiðslur en með því hámarkaði hann þá skatta sem hann borgaði af sölunni. Þetta var þvert á alla skattaráðgjöf sem hann fékk. 

Har­aldur sagð­ist hafa tekið þessa ákvörðun þar sem hann hafi fæðst á Íslandi og að for­eldrar hans hafi verið lág­­tekju­­fólk. Auk þess glími hann við alvar­­lega fötl­un. „En þar sem þetta land býður upp á fría skóla og fría heil­brigð­is­­þjón­­ustu þá gat ég ég dafn­að,“ sagði Har­aldur í stöðu­upp­færsl­unni.

Hann fór svo í við­tal í Kast­ljósi og greindi nánar frá þess­ari ákvörð­un. Þar sagði Har­aldur frá því að þegar hann hafi áttað sig á því að mögu­legt væri að greiða skatta af söl­unni hér­lendis þá hafi hann átt tíu sek­úndna sam­tal við eig­in­konu sína „þar sem ég sagði „heyrðu ég var að kom­ast að því að við getum borgað alla skatta á Íslandi, eigum við ekki að gera það? og hún sagði jú.“

Fyrir vikið var Haraldur í öðru sæti á lista yfir launahæstu Íslendingana á árinu 2021. Samkvæmt hátekjulista Stundarinnar, sem nú er hluti af Heimildinni, greiddi hann 592,4 milljónir króna í skatta á árinu 2021, sem þýðir að mánaðarlaun hans námu að meðaltali rúmum 102 milljónum króna samkvæmt greiddu útsvari.

Hátekjufólk á að borga hærri skatta

Í viðtali við annan af fyrirrennurum Heimildarinnar sagði Haraldur að eðlilegt væri að hátekjufólk borgi hærra hlutfall af tekjum í skatta og að fólk með lægri tekjur beri lægri byrðar. „Það er mikill munur á því að borga 40 prósent af 100 þúsundkalli eða 40 prósent af milljón. Við þurfum öll að borða, eiga húsaskjól, komast á milli staða og svo framvegis. Allar skerðingar á lágum launum skera inn í grunnþarfir sem við eigum öll rétt á.“

Haraldur var valinn manneskja ársins í fyrra víða í íslenskum fjölmiðlum, meðal annars fyrir að leiða verkefnið „Römpum upp Ísland“ sem hefur það markmið að fjármagna uppsetningu hjólastólarampa á alls 1.500 stöðum á Íslandi.

Kjósa
46
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu