Í Heimildinni birtist grein eftir Báru Huld Beck, Frá Berlín til Íslands – Útvíkkun á formi, afbygging og póstdramatík og hefst á þessum orðum: „Tenging hefur verið á milli þýsks leikhúss og þess íslenska síðan íslenskir listamenn fóru að venja komur sínar í leikhús sérstaklega í Berlín á tíunda áratug síðustu aldar.
Áhrifin voru áþreifanleg í íslensku leikhúsi um og eftir aldamótin og fram á nýja öld þar sem afbygging var áberandi – og hrist var upp í viðteknum venjum, normið rifið niður og eitthvað nýtt byggt úr rústunum.“ Var þessi kenning studd með viðtalsbútum við þrjá leikstjóra sem starfað hafa mestan sinn starfsferil á þýska leikhúsmarkaðnum: Þorleif Örn Arnarsson, Arnbjörgu Maríu Danielsen og Egil Heiðar Anton Pálsson. Var hún síðar birt á heimasíðu blaðsins og er þar opin öllum sem vilja sjá.
Frekari vitni
Grein Báru kallast á við grein Sölku Guðmundsdóttur á sömu opnu: Eitt þekktasta nafn evrópsku sviðslistasenunnar. Þar var líka kenningarsmíð í boði höfundar um þýsku áhrifin á samtímaleikhús okkar: „Gjarnan eru nefndar minnisstæðar ferðir nemenda og kennara (LHÍ innskot pbb) á Theatertreffen (árlegt mót nýstárlegra sviðsetninga á þýska málsvæðinu, innskot pbb) og ýmsar sýningar í Berlín. Þar ... hafði mikil áhrif leiklistarfræðingurinn Magnús Þór Þorbergsson, sem lærði í Berlín, þekkti senuna út og inn og tók síðan við lektorstöðu við LHÍ.“ Magnús starfar nú sem listrænn ráðunautur LR í Borgarleikhúsi. Salka vitnar til sviðsetninga Þorleifs Arnar, Egils Heiðars og Grétu Kristínar kenningu sinni til stuðnings um sveipi og sviptingar í sviðsetningum okkar daga.
Hvað er til tals?
Egill og Gréta gera tilraun til að skilgreina vinnuaðferð þeirrar deildar í þýsku leikhúslífi sem um ræðir: „Þú afbyggir samfélagið til að komast að því hverjar byggingareiningarnar séu.“ Hann segir að listamenn hafi notað ýmsar aðferðir til þess, m.a. með því að leika illa, vera þau sjálf, lesa upp sviðslýsingar – sem sagt ekki gert það sem var ætlast til af þeim. Þannig hafi þeir „tekið heiminn í sundur, rifið hann niður“. Hún segir í tilefni af sviðsverkasmíð von Mayenburg sem er kveikja að grein Sölku: „Karakterarnir hans eru alltaf til í a.m.k. tveimur víddum í einu. Hann ... nálgast það í gegnum þrívíðar persónur sem eiga sér boga, dýpt og margræðni.“ Þá spyr lesandi: Er það eitthvað nýtt – hafa ekki margir reynt það áður? Sjáið bara Marat/Sade.
Sagan byrjar núna
Við erum í margra hugum stödd á Stund 1, sagan er ekki til því við þurfum ekki að læra neitt af henni. Ef litið er í svipstund yfir íslenska leikhússögu má greina fáeinar „þýskar“ bylgjur sem vert er að hafa í huga. Sú fyrsta verður fyrir tilstuðlan Emils Thoroddsen sem þýðir og staðfærir farsa Arnolds og Bach sem halda lífinu í rekstri LR um langt árabil á fjórða áratugnum.
Staðfærsla þeirra og málsnið hafa fræðimenn ekki kannað, né heldur hugmyndasögulegt innihald. Hvað fólst í staðfærslu Emils? Þessi verk fóru síðan um allt land á vegum áhugamanna. Þar kom fyrsta þýska bylgjan.
Næsta bylgja
Önnur bylgjan hefst þegar heim snúa ungir menn, karlar og konur, sem komu sum úr leiklistarskóla Þjóðleikhússins, önnur kynslóð menntaðra leikara: Erlingur og Þorgeir, Erlingur Ebeneser og Guðmundur Steinsson, Bríet og Brynja. Það fólk bar með sér nýja strauma, nýja sýn, sloppið út úr haftasamfélagi á Íslandi í rústir þýska málsvæðisins. Sú bylgja ríður yfir frá 1960. Gæti best trúað að þau hafi öll í formtilraunum sínum stefnt á sömu mið og Gréta lýsir vel hér að ofan í sviðsetningum á verkum Brecht, Frisch og Durenmatt hjá Grímu, LR og í Þjóðleikhúsi.
Gíó & Kó
Sjaldan er ein báran stök: Þriðju bylgjuna má kenna við þríeykið Gíó, Hafliða og Gretar en innkoma þeirra í íslenskt leikhúslíf var ekki áhrifalaus. Sviðsetningar einkenndust af einstakri rýmisgreind og myndsýn Gretars, lestri Hafliða og stílfærni Guðjóns. Frá því úrvali verka sem þeir fengu tækifæri að vinna, bæði í Borgó (Ég vil ekki vera með í þessu asnalega leikriti) yfir í langa röð sviðsetninga í Þjóðleikhúsinu. Gísli Rúnar heitinn kallaði þetta „sokkabuxna- og tangóleikhúsið“. Var ekki hrifinn.
Úr skúffunni
Og þá að fjórðu bylgjunni og greinarskrifum Báru og Sölku sem eru vel unnar og skilmerkilegar báðar tvær má leiða talinu að öðru: gamalli kommóðu. Á Rás 1 í Víðsjá las Óskar Örn Arnórsson okkur pistilinn þann 7. febrúar og var tilefnið að hann er á hrakhólum með gamla kommóðu sem Pálmar Kristmundsson hannaði á tíunda áratugnum fyrir ungt fólk í Garðabæ. Óskar Örn segir um gripinn: „Kommóða Pálmars er ekki nýmódernísk eins og arkitektúrinn hans, heldur er hún angi af þeim kima byggingarlistar sem nefndur var „afbygging“. Afbygging gekk út á að hönnuðurinn gaf sér fyrir fram ákveðið form, oft prímform sem síðan var deilt niður og skorið þar til varð bygging sem er áhugaverð og ögrandi og jafnvel dálítið óþægileg.“ Grein hans í heild má lesa á vef RUV undir menning og þá hefur hún birst á síðu RUV á Fjesinu. Óskar Örn er nýráðinn lektor við LHÍ og vinnur að ritverki um „The Architectures of the Marshall Plan in Europe, 1948-1952“ – spennandi stöff. Maður sem veit að sagan er undirstaða samtímans. En aftur að kommóðunni og afbyggingu hennar með sínum mörgu skúffum.
Skilgreining
Óskar Örn segir: „Afbyggingin er arkitektúr Reagan- og Thatcher-áranna og yfir í ár Bush eldri, þegar allur vindur var úr hugsjónunum sem höfðu blásið módernismanum byr undir báða vængi á þriðja áratugnum. Á fjórða og fimmta áratugnum var hann aðlagaður sósíaldemókratíska velferðarríkinu sem hrundi á árunum 1968-72. Póstmódernistarnir sem komu í kjölfar hippanna á Reagan-árunum sögðu að kommóða þyrfti ekki að vera naumlega hannað prímform til að vera nútímaleg. Það væri bara leiðinlegt. Kommóður gætu litið út eins og skjöldóttar kýr eða grísk hof, af því þegar allt var komið til alls þá var fólk ekki að leita að hinni fullkomlega nothæfu kommóðu, existens-minimum-kommóðunni, heldur vildi það eitthvað áhugavert í kringum sig til að geta notað 80's-gróðann sinn í. Póstmódernisminn skiptist aftur í tvennt, annars vegar gráglettnar tilvísanir í fortíðina, eins og til dæmis græna byggingin á Lækjargötu 4 eftir ÖO-arkitekta, þar sem Jómfrúin er á jarðhæð; og hins vegar áðurnefnt niðurbrot og afbygging á formheimi módernismans. Við getum sagt að arkitektúr Stúdíó Granda sé hvort tveggja, bæði tilvísanir og afbygging, eins og sjá má í ráðhúsi Reykjavíkur og Hafnarhúsi.“
Nýjustu dæmin
Þar hafið þið samhengi þess afbyggða í stærra máti. Afbyggingarleikhúsið sem við sjáum ávæning af með skýrum hætti þessa dagana í Makbeð LR og víða í sviðsetningum sjálfstæðra hópa er vitundarleg afurð. Þau þýsku leikhús sem hluti senunnar sækir stopult og dáist að í húmi Berlínar eru öll sem eitt skrautfjaðrir, utan þeirra eru fjölbreytt, úrelt, ný form sviðslistanna. „Nú skulum við breyta íslensku leikhúsi,“ sagði einn forráðamanna LHÍ fyrir aftan mig fyrir fáum árum í stóra sal Þjóðleikhússins. „Þeir hlæja að þessu í París,“ var setning í leikverki Halldórs Laxness Halldórssonar og hafði þá verið fleyg um nokkurn tíma og höfð eftir Sveini Einarssyni. Báðir höfðu rétt fyrir sér.
Make it new
Afbyggingin kallar á splundrun höfundarverka textans, brýtur leikmyndina „live“, kastar persónunni fyrir róða, vill svívirða áhorfendur í sætum sínum. Hún er í eðli sínu nýhilísk og getur verið bráðskemmtilegur snúningur, en hún er ekki ný, tilheyrir í raun eldri tíma og kenningum um hið undursamlega frelsi að rífa niður allt sem fyrir var. Þaðan er hún ættuð og við erum að sjá mörg merki þess að hún eins og ameríski draumurinn er að sjúga mannleg gildi úr samfélögum. Og sú kveikja sem var upphaf skrifa um „nýju þýsku bylgjuna“ eru tvö þriggja manna leikrit sem mér sýnist á orðsporinu að séu aristoteliskur naturalismi úr sömu kokkabók og Jóhann Sigurjónsson sauð saman í öllum sínum verkum: paraslagur. Þau verður gaman að sjá. Verra er með kommóðuna: hana vill enginn varðveita lengur, sem er synd.
Og leikhúsfólk sem heima situr, er í annarri vinnu eða sínu húsi eða hóp – leitið og þér munið finna. Nýja byggingu. Nýja kommóðu, með mörgum skúffum. Hvar sem er í samfélaginu í kringum ykkur, út fyrir ykkar raðir. Þar er kúnninn, sá sem þið viljið tala við og finna.
Athugasemdir