Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Lamaður rithöfundur þráir að geta haldið aftur á penna

Hanif Kureis­hi, ensk­ur rit­höf­und­ur sem varð þekkt­ur um síð­ustu alda­mót, lenti í slysi í Róm á Ítal­íu fyr­ir mán­uði síð­an og hlaut mænusk­aða. Hann hef­ur ver­ið bund­inn við sjúkra­rúm og hafa tvít hans um líf­ið og til­ver­una vak­ið mikla at­hygli.

Lamaður rithöfundur þráir að geta haldið aftur á penna

Skömmu fyrir jól datt enski rithöfundurinn Hanif Kureishi þegar hann var í heimsókn í Róm og hlaut alvarlegan mænuskaða. Kureishi lamaðist fyrir vikið og getur í dag bara hreyft á sér munninn. Síðan þá hefur hann verið bundinn við rúm á sjúkrahúsi í ítölsku höfuðborginni. Tíst hans og blogg, sem sonur hans skrifar fyrir hann, hafa vakið heimsathygli og hefur verið fjallað um þau í blöðum eins og The New York Times, The Guardian, The Atlantic og El País á Spáni. 

„Það ert þú sem heldur mér á lífi“
Hanif Kureishi,
breskur rithöfundur sem lamaðist um jólin

Í skrifum sínum frá Gemelli-sjúkrahúsinu í Róm veltir Kureishi breyttri stöðu sinni í heiminum fyrir sér. Skrif hans eru djúp, létt, sorgleg, fyndin og allt þar á milli. „Þegar ég sá mann sem var að veifa konunni sinni gat ég ekki trúað því að hann áttaði sig ekki á því hversu flókinn þessi verknaður var á djúpstæðan hátt. Ég öfunda þá sem geta notað hendurnar sínar,“ segir hann í einu tístinu. 

Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvað það var nákvæmlega sem kom fyrir Kureishi, af hverju hann datt. Kannski fékk hann flogaveikikast, kannski leið yfir hann. En það sem liggur fyrir er að hann lenti illa og að í fallinu þá skaðaðist hann á mænu. 

Umbreyting KureishiHanif Kureishi hefur verið virkur á Twitter eftir slysið í Róm og lesendur geta fylgst með lífi hans á sjúkrahúsinu.

Byggir mikið á eigin lífi

Tvær af bókum Kureishi hafa verið þýddar á íslensku. Þetta eru bækurnar Náðargáfa Gabríels og Náin kynni. Bókaforlagið Bjartur gaf þær út árin 1999 og 2002 í þýðingu Jóns Karls Helgasonar. Frægðarsól og vinsældir Kureishi voru hvað mestar í kringum aldamótin, þegar hann var á milli 40 og 50 ára. Síðari verk hans hafa hins vegar ekki náð sams konar vinsældum og fengið þá umfjöllun sem þau fengu á sínum tíma.  

Jón Karl Helgason segir við Heimildina að Kureishi sé kannski þekktastur fyrir tvö verk, fyrstu bókina hans The Buddha of Suburbia, sem kvikmynd var gerð eftir, og svo sögu sem einnig var kvikmynduð, My Beautiful Laundrette. Hann segir að Kureishi hafi verið þekktur fyrir að vinna skáldsögur sem byggja mikið á hans eigin lífi.  „Í bókinni Náin kynni lýsir hann lífi manns sem er að skilja og þegar umræða var um bókina í Englandi sagði eiginkona hans fyrrverandi, en hann hafði sjálfur verið að skilja: „Þetta er ekki skáldsaga, þú gætir alveg eins kallað þetta fisk. Skilaboðin voru að þetta væri ekki skáldsaga heldur lýsing á því sem raunverulega hafði gerst.

Jón Karl segir að það þurfi því kannski ekki að koma á óvart hvað það gengur vel hjá Kureishi að skrifa tístin um eigin lömun á sjúkrahúsinu í Róm. „Þetta er í raun það sem hefur verið mjög sterkt í hans skrifum. Þegar Buddha of Suburbia kom út þá töluðust faðir Kureishi og hann ekki við í eitt ár því hann sá að Kureishi var að vinna með sögu fjölskyldunnar en fannst hann ekki gera það með raunsönnum hætti. Þannig að það er ekki eins og þetta sé hliðarskref eða eitthvað slíkt því hann  hefur alltaf unnið mikið með samtímann og eigin reynslu.

Stólpípur, ristilskoðanir og  Heimlich

Lýsingar Hanif Kureishi á lífinu eftir lömunina snúast mikið um það sem hann getur ekki gert lengur og hversu ósjálfbjarga hann er. Hann þarf að fá stólpípu til að láta fjarlægja úrgang úr líkamanum og hann er með þvaglegg og gerir því þarfir sínar liggjandi og þarf ekki – getur ekki – lengur staðið upp til að sjá um þetta sjálfur. Í gamansömum tón lýsir Kureishi því þannig að þetta sé alls ekki slæmt hlutskipti. „Afsakið mig aðeins, ég þarf að fá stólpípu núna,“ segir hann í einu tístinu þar sem hann tekur sér hlé fré skrifunum. 

Tal Kureishis um miðlægar líkamsrannsóknir og verknaði kallar fram hjá honum alls kyns minningar og hann segir sögu af því því þegar hann var í læknisskoðun á ristli í Englandi og heilbrigðisstarfsmaður tók feil á honum og bresk-íranska rithöfundinum Salman Rushdie sem meðal annars skrifaði skáldsöguna Miðnæturbörn. „Þegar hjúkrunarkonan sneri mér við spurði hún mig: „Hversu lengi varstu að skrifa Miðnæturbörn?“ Ég svaraði: Ef ég hefði í reynd skrifað Miðnæturbörn, heldurðu þá ekki að ég hefði farið á einkasjúkrahús?

Vegna þess að hann er lamaður fyrir neðan háls á hann erfitt með að borða. Hann lýsir því í einu tísti hvernig hann kafnaði næstum því þegar hann fékk fisk að borða á spítalanum í Róm.  Heimlich-aðferðin bjargaði honum: „Ísabella [konan hans] matar mig með hádegismatnum og ég reyni að borða frekar stóran bita af fiski. Nokkrum sekúndum síðar liggur mér við köfnun. Ísabella öskrar á hjálp og fjórir heilbrigðisstarfsmenn hlaupa inn í herbergið og eftir að hafa slegið á bakið á mér og ýtt framan á mig losna ég við fiskbitann úr hálsinum. 

Breytt lífHanif Kureishi tístir mikið um breytingarnar sem hafa orðið á lífi hans, meðal annars það sem hann getur ekki gert lengur.

Draumur Kureishi

Gegnumgangandi í tístum Kureishi og skrifum hans á bloggsvæðið hans er þráin hans eftir því sem hann getur ekki lengur gert eða mun kannski aldrei geta gert aftur. Eitt af þessum atriðum er að skrifa texta með penna. „Það sem ég myndi vilja gera, það sem ég óska mér, það sem mig dreymir um, er möguleikinn á því að geta tekið upp blekpenna og skrifa með honum á blað; að rita nafn mitt með fjólubláu bleki. Þetta er markmið mitt. 

Það eru litlu hlutirnir í lífinu sem rithöfundurinn staldrar við og saknar: Að snerta hluti, nota hendurnar, að geta hreyft sig. 

Og rithöfundinum er hugleikið hvað það skiptir hann miklu máli að geta átt í þessu samtali við fólkið sem les það sem hann skrifar eftir að hann lenti í slysinu: „Á hverjum degi, þegar ég diktera hugsanir mínar, opna ég upp það sem er eftir af brotnum líkama mínum til þess að reyna að ná til þín, til þess að koma í veg fyrir að ég deyi inni í mér. Það ert þú sem heldur mér á lífi.

Talar um sjálfsögðu hlutinaHanif Kureishi tístir mikið um litlu, sjálfsögðu hlutina í lífinu og söknuðinn eftir þeim.

Gengur í endurnýjun lífdaga

Túlkanir margra sem hafa fjallað um þetta breytta líf Hanif Kureishi snúast um það að hann hafi gengið í endurnýjun lífdaga sem rithöfundur eftir að hann lenti í slysinu, eins og blaðamaður The Atlantic orðar það. „Vonandi hljómar það ekki kaldranalega að segja það að Kureishi hefur endurnýjað sig sem höfundur í kjölfar hörmunga sem hann lenti í.“

Meðal annars er vitnað í orð sonar rithöfundarins, Carlo Kureishi, sem hefur sagt um föður sinn að hann sé að: „Skrifa meira núna en hann hefur gert árum saman. Hann er að skrifa næstum því þúsund orð á dag, sem er ótrúlegt, miðað við stöðu hans. Og núna er hann líka kominn með umfjöllunarefni til að skrifa um en það er auðvitað alltaf það sem rithöfundur þarf.“

Þessari tilgátu til stuðnings er vitnað í orð Hanif Kureishi sjálfs sem hefur sagt að það sé gott fyrir ímyndunaraflið að liggja „algjörlega hreyfingarlaus og þögull“ í herbergi: „Ef maður getur ekki lesið dagblað eða hlustað á tónlist finnur maður fyrir því að maður verður mjög skapandi.“

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.

Mest lesið undanfarið ár