Ísland hefur þá sérstöðu meðal iðnríkjanna 38 á OECD-svæðinu að hér hefur verðbólga verið meiri frá 1960 til þessa dags en alls staðar nema í Tyrklandi. Meðalverðbólga í Tyrklandi 1960-2021 var 32% á ári borið saman við 15% hér heima. Alls staðar annars staðar á svæðinu – við erum að tala um öll þau lönd sem við berum okkur helzt saman við – var verðbólgan miklu minni að meðaltali og mældist í lágum einsstafstölum.
Forsagan
Árin 1960-1993 var verðbólgan á Íslandi 24% á ári að jafnaði og síðan 4% á ári að jafnaði 1994-2021. Á fyrra tímabilinu markaðist stefna Seðlabankans og ríkisvaldsins af mikilli þenslu á mörgum sviðum efnahagslífsins samhliða agaleysi og undanhaldi í hagstjórn. Þetta lýsti sér meðal annars í því að vinnuveitendur og verklýðsfélög gátu leyft sér næstum hvað sem er í kjarasamningum. Þau vissu sem var að Seðlabankinn myndi bregðast við innstæðulausum kjarabótum með því að fella gengi krónunnar ef með þyrfti til að halda uppi atvinnu. Verðbólgan æddi áfram. Gengi krónunnar hefur frá 1939 fallið um 99,95% gagnvart dönsku krónunni, móðurmyntinni.
„Þjóðarsáttin“
Ástandið breyttist 1990 fyrir frumkvæði fáeinna verklýðsforingja sem ákváðu svo að segja upp á sitt eindæmi að prófa að semja um hóflega hækkun launa í þeirri von að vinnuveitendur myndu þá stilla verðhækkunum í hóf. Þetta tókst bærilega og var kallað þjóðarsátt, en það var rangnefni. Þetta var bara einhliða ákvörðun fáeinna manna sem ákváðu að nota veldi sitt á vinnumarkaði með öðrum hætti en þeir höfðu áður gert.
Vaxtafrelsi og verðtrygging
Nokkru fyrir 1990 höfðu fáein ný fjármálafyrirtæki í einkaeigu tekið til við að veita ríkisbönkunum langþráða samkeppni, vextir höfðu verið gefnir frjálsir og verðtrygging fjárskuldbindinga hafði verið leidd í lög. Allt þrennt stuðlaði að hjöðnun verðbólgunnar.
Verðbólgumarkmið
Röskum áratug síðar, 2001, var skipt um stefnu í peningamálum þegar Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið að erlendri fyrirmynd og hugðist nú halda verðbólgunni í skefjum með því að stýra vöxtum og verðbólgu að settu marki. Þetta gekk bærilega framan af, en hið nýja fyrirkomulag reyndist vera tvíeggjað sverð þar sem önnur eggin var sýnu sljórri en hin. Háir vextir heima fyrir héldu að vísu aftur af innlendri eftirspurn fyrir sitt leyti eins og þeim var ætlað, en þeir löðuðu jafnframt erlent lánsfé til landsins í áður óþekktu umfangi. Gríðarlegt innstreymi erlends fjár gerði bönkunum kleift að auka útlán sín til muna og ýtti þannig undir eftirspurnina öndvert því sem Seðlabankinn þóttist í orði kveðnu keppa að. Bankinn bætti gráu ofan á svart með því að lækka bindiskyldu bankanna frekar en að hækka hana eins og hann hefði þurft að gera og gaf þá skýringu að bankarnir höfðu beðið um lægri bindiskyldu, minna aðhald.
Einkavæðing bankanna
Viðskiptabankarnir voru um svipað leyti fluttir úr ríkiseigu í hendur útvalinna einkavina valdsins sem tóku sig til og skuldsettu bankana upp í rjáfur og þurftu ekki nema fáein ár til að leggja bankakerfið eins og það lagði sig í rúst 2008 og setja landið á annan endann. Verðbólgan rauk aftur upp í 12%-13% 2008 og 2009. Hrunið, þið munið.
Svikamylla
Í eiðsvörnum vitnisburðum frammi fyrir Landsdómi 2012 sögðust yfirmenn í Seðlabankanum hafa gert sér grein fyrir því strax 2006 að bönkunum yrði ekki bjargað og líktu þeim við Ponzi-svikamyllu. Samt hélt Seðlabankinn áfram að veita bönkunum lán í tvö ár enn og eitt lánið rann meira að segja beina leið til Tortólu í miðju hruni. Viðskiptaráð greiddi mikið fé fyrir tvær alræmdar skýrslur, samdar í samvinnu við erlenda sérfræðinga, þar sem því var haldið fram að bankarnir stæðu vel.
Rætur verðbólgunnar
Og nú er verðbólgan sem sagt aftur mætt til leiks innan lands og utan. Hverju sætir það?
Verðbólga á sér vel þekktar orsakir. Málið snýst alls staðar og ævinlega um framboð og eftirspurn. Verðbólga stafar nánar tiltekið af því að eftirspurn eftir vörum og þjónustu fer fram úr framboði á vörum og þjónustu. Þetta getur gerzt annaðhvort vegna þess að eftirspurn eykst meira en framboð eða þá vegna hins að framboð dregst aftur úr eftirspurn. Hvort tveggja gerðist eftir að heimsfaraldurinn brauzt út í ársbyrjun 2020.
Meiri eftirspurn
Þegar faraldurinn hófst töldu stjórnvöld nauðsynlegt að auka til muna útgjöld almannavaldsins til að bæta fólki og fyrirtækjum að einhverju marki tekjumissinn af völdum þeirra sóttvarnaraðgerða sem nauðsynlegar þóttu til að bregðast við farsóttinni. Þessar aðgerðir voru réttmætar og víða markvissar og vandlega undirbúnar. Hér heima var þó ekki vel til þeirra vandað, engin gaumgæfileg athugun fór fram á því hvernig bezt væri að standa að verki svo sem gert var til dæmis í Noregi og víða annars staðar. Þetta er trúlega hluti skýringarinnar á því hvers vegna verðbólgan er nú meiri á Íslandi en í þeim löndum þar sem betur var staðið að hagstjórninni í faraldrinum þótt sóttvarnirnar hér heima væru að flestu leyti til fyrirmyndar. Verðbólgan á Íslandi 2021 var 4,4% borið saman við 2,4% að meðaltali annars staðar um Norðurlönd (sjá mynd).
Minna framboð
Í faraldrinum gerðist það einnig að framboð á vörum og þjónustu dróst saman. Þetta lýsti sér meðal annars í því að vöruflutningar á sjó, til dæmis frá Kína yfir Kyrrahafið til Bandaríkjanna, drógust saman. Olíuverð snarhækkaði jafnframt um skeið og jók framleiðslukostnað og dró með því móti úr framleiðslu, það er úr framboði vöru og þjónustu, og ýtti þannig enn frekar undir verðbólgu.
Hvað er til ráða?
Hagstjórnendur kunna ráð til að halda aftur af verðbólgu þegar hún sprettur af aukinni eftirspurn. Þeir grípa þá til mótvægisaðgerða til að hamla eftirspurninni, til dæmis með því að hækka vexti, hækka skatta eða draga úr ríkisútgjöldum. Gömlu ráðin geta dugað vel við slíkar kringumstæður. Þau dugðu til dæmis til að koma í veg fyrir að fjármálakrísan 2007-2008 yrði að nýrri heimskreppu. Hagfræðin skilaði árangri.
Málið vandast þegar verðbólgan er að nokkru leyti sprottin af samdrætti framboðs á vörum og þjónustu því þá getur vaxtahækkun sumpart gert illt verra með því hækka kostnað fyrirtækja og herða á samdrættinum. Að svo miklu leyti sem verðbólgan nú eða á fyrri skeiðum átti upptök sín framboðsmegin í hagkerfinu voru gömlu ráðin – hækkun vaxta, lækkun ríkisútgjalda – ekki vel til fundin ein sér.
Skoðum málið betur. Seðlabönkum ber samkvæmt lögum að halda verðbólgu í skefjum, tryggja stöðugleika fjármálakerfisins og hér heima nú aftur að líta eftir fjármálastofnunum. Ferill Seðlabanka Íslands gegnum tíðina er í einu orði sagt herfilegur á öllum vígstöðvum: næstmesta verðbólgan á OECD-svæðinu frá 1960, eitt svakalegasta fjármálahrun sem sögur fara af 2008 á marga mælikvarða og veikburða fjármálaeftirlit svo lengi sem það var eins og það er nú aftur orðið deild í Seðlabankanum.
Hvað um það, höldum okkur við verðbólguna. Lögbundin ábyrgð Seðlabankans á því að halda verðbólgunni í skefjum, nú með því að halda henni um eða innan við 2,5% á ári, útheimtir að bankinn beiti, og beiti sér fyrir, aðgerðum sem duga til að rækja þessa lagaskyldu. Þetta þýðir að bankanum ber ekki bara að halda aftur af eftirspurn heldur einnig að leggja á ráðin um aðgerðir á framboðshlið hagkerfisins sem duga til að hemja verðbólguna með því til dæmis að efla hagkvæmni, draga úr fákeppni og svo framvegis. Þetta sjónarmið samrýmist ákvæðum laga um að Seðlabankinn skuli „stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn markmiðum bankans.“ Bankanum ber því að beita fortölum varðandi hagkvæmni (og einnig réttlæti eins og lýst verður að neðan) líkt og hann gerir eðlilega til að brýna ríkisstjórn, vinnuveitendur og launþega til aðhalds í fjármálum og kjarasamningum.
Það gengur ekki að halda Seðlabankanum ábyrgum fyrir þróun verðlags og binda samt aðra hönd hans fyrir aftan bak. Á þessu sjónarmiði hefur þó aldrei ríkt nægur skilningur í Seðlabanka Íslands svo eftir væri tekið né heldur í mörgum öðrum seðlabönkum þar sem bankastjórnendur hafa hneigzt til að einblína á eftirspurnarhlið hagkerfisins, peningamagn og vexti, og horfa fram hjá framboðshliðinni.
Í þessu ljósi bar Seðlabanka Íslands að leggja á ráðin um aukna hagkvæmni í efnahagslífinu, til dæmis með því að draga úr fákeppni og meðfylgjandi óhagkvæmni í bankakerfinu, en það hefur Seðlabankinn ekki gert, jafnvel ekki á eigin heimavelli í bankabransanum. Meiri hagkvæmni í bankarekstri myndi örva framboðshlið hagkerfisins og draga úr verðbólgu.
Seðlabankanum, sem hefur á að skipa mun fleiri hagfræðingum en Háskóli Íslands, var einnig í lófa lagið að leggja á ráðin um álagningu veiðigjalds til að auka hagkvæmni í sjávarútvegi og efnahagslífinu. En það hefur bankinn ekki heldur gert að neinu ráði ef frá eru taldar tvær prýðilegar greinar Jóhannesar Nordal þá seðlabankastjóra í Morgunblaðinu 7. apríl og 2. júní 1979 (og forusta hans í Auðlindanefnd löngu eftir að hann hætti að stýra Seðlabankanum). Seðlabankanum bar og ber enn að mæla fyrir fullu veiðigjaldi til að auka hagkvæmni líkt og bæði AGS og OECD hafa gert þótt í hálfum hljóðum sé og halda þannig aftur af verðbólgu.
Nærri má geta hversu fjármálaráðuneytinu gæti gengið miklu betur að laga ríkisútgjöld og skatttekjur að þörfinni fyrir heilbrigt jafnvægi í þjóðarbúskapnum með hóflegri verðbólgu væri útvegsmönnum gert að greiða réttum eiganda, fólkinu í landinu, fullt gjald fyrir kvótann frekar en að leyfa þeim að hirða bróðurpartinn af sjávarrentunni og braska með hana að vild.
Þarna hafa Seðlabankanum alla tíð verið mislagðar hendur. Bankinn á nú að heita sjálfstæður, það er óháður stjórnmálahagsmunum svo sem tíðkast í mörgum öðrum löndum, en hann er í reyndinni enn í dag valdhlýðnin uppmáluð líkt og á fyrri tíð, samdauna ríkisvaldinu og stjórnsýslunni.
Eitt enn: Misskipting
Í samræmi við greinarmuninn sem gera þarf á verðbólgu sem sprettur af aukinni eftirspurn eftir vörum og þjónustu og verðbólgu sem leiðir af samdrætti framboðs er gagnlegt að gera annan hliðstæðan greinarmun, það er greinarmun á eftirspurnarverðbólgu, sem stafar til dæmis af þenslu útgjalda ríkisins eða einkafyrirtækja, og kostnaðarverðbólgu, sem getur stafað til dæmis af hækkun á verði innfluttrar olíu í löndum sem þurfa á slíkum innflutningi að halda. Aukinn kostnaður leiðir jafnan af sér minna framboð.
Kostnaðarverðbólga getur runnið af ýmsum rótum. Hún getur til dæmis sprottið af átökum um skiptingu auðs og tekna. Ef vinnuveitendur telja sig þurfa að ná 30% þjóðartekna til sín og launþegar telja sig þurfa að bera 80% þjóðartekna úr býtum, þá gengur dæmið ekki upp og getur af því hlotizt togstreita sem brýzt út í verðbólgu. Vinnuveitendur reyna þá að auka sinn hlut með því að hækka verðið á vöru sinni og þjónustu og launþegar heimta þá hærri laun til að reyna að rétta sinn hlut á móti og þannig áfram koll af kolli. Þetta er gamla sagan um víxlhækkun kaupgjalds og verðlags sem var mikilvæg uppspretta verðbólgunnar á Íslandi á fyrri tíð, og Seðlabankinn dansaði með. Eitt tilbrigði vandans er kapphlaup milli ólíkra hópa launþega innbyrðis, til dæmis þegar hjúkrunarfræðingar fara fram á kauphækkun til samræmis við hækkun sem læknum hefur tekizt að semja um sér til handa. Skilvirkara skipulag á vinnumarkaði þarf til að stilla saman strengi og draga úr togstreitu milli launþegahópa.
Aukinn ójöfnuður hneigist til að kynda undir kostnaðarverðbólgu og getur því orðið að sjálfstæðum verðbólguvaldi. Launþegar, einkum láglaunahópar, una því yfirleitt ekki vel til lengdar að forstjórar fyrirtækja taki sér æ hærri laun og ætlist samt til þess að launþegar sætti sig við minni kaupmátt, það er launaþróun sem hefur ekki í fullu tré við verðbólgu. Það er því engin furða að nú er vinnufriðurinn í landinu brostinn eina ferðina enn með því að verkfall tuttugu þúsunda félagsmanna Eflingar virðist vera í þann veginn að bresta á. Svipað er að gerast á Bretlandi, í Frakklandi og víðar. Það hlaut að koma að því.
Vinnuveitendur bera sökina að langmestu leyti. Þeir gáðu ekki að sér, gengu of langt. Hrunið, þið munið.
Athugasemdir