Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Réðust á lýðræðislegar stofnanir í Brasilíu

Þús­und­ir stuðn­ings­manna fyrr­ver­andi Bras­iílu­for­seta, Ja­ir Bol­son­aro, réð­ust á op­in­ber­ar bygg­ing­ar í Bras­il­íu til að mót­mæla embættis­töku nýs for­seta, Lula da Silva. Mann­flaum­ur­inn rudd­ist yf­ir tálma lög­reglu og inn í þing­hús og skrif­stof­ur for­seta þar sem húsa­kynni voru lögð í rúst.

Hundruð eða þúsundir stuðningsmanna Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseta Brasilíu, ruddust sunnudaginn 8. janúar í gegnum tálma lögreglu og öryggissveita og inn í forsetahöll landsins, inn í þinghúsið og byggingu hæstaréttar Brasilíu. Fjölmargir stuðningsmenn forsetans fyrrverandi komust inn í byggingarnar og ollu þar stórtjóni, brutu allt og brömluðu. Kalla þurfti til óeirðalögreglu og herlögreglu sem kvað óeirðirnar niður með táragasi, kylfum og vopnavaldi. Forsetinn Lula kallar óeirðaseggina fasista og óeirðunum er líkt við innrásina í bandaríska þinghúsið fyrir tveimur árum.

Bolsonaro laut í lægra haldi fyrir Luis Inacio Lula da Silva, ávallt kallaður Lula, í forsetakosningunum í Brasilíu í október síðastliðnum. Úrslitin voru tvísýn, Lula hlaut 50,9 prósent atkvæða gegn 49,1 prósenti Bolsonaro. Bolsonaro neitaði að viðurkenna úrslit kosninganna en í byrjun nóvember lýsti hann því þó að hann myndi virða niðurstöðuna. Hann hvatti stuðningsfólk sitt til að mótmæla með friðsamlegum hætti, hygðist það mótmæla úrslitum kosninganna. Hann hefur þó haldið því fram að brögð hafi verið í tafli og að um stórfelld kosningasvik hafi verið að ræða við kosningarnar. Engin gögn hafa komið fram sem styðja þær fullyrðingar.

Úrslit kosninganna voru staðfest 12. desember síðastliðinn og sama dag réðust stuðningsmenn Bolsonaros á lögreglustöðvar í höfuðborginni Brasilíu, meðal annars á höfuðstöðvar ríkislögreglunnar.

Þing undir árásÞúsundir stuðningsmanna Bolsonaros tóku þátt í óeirðunum. Mannfjöldinn safnaðist saman og hluti hans réðst síðan inn í stjórnarbyggingar, meðal annars inn í þjóðþing Brasilíu.

Lula var settur í embætti forseta 1. janúar síðastliðinn, í þriðja sinn, en hann gegndi áður embætti forseta á árunum 2003 til 2011. Forveri hans, Bolsonaro, var ekki viðstaddur innsetningarathöfnina en hann fór til Bandaríkjanna fyrir athöfnina. Áður hafði hann ávarpað stuðningsmenn sína, ítrekað að brögð hefðu verið í tafli í kosningunum en engu að síður fordæmt það ofbeldi sem stuðningsmenn hans höfðu beitt í kjölfarið.

Bolsonaro fordæmdi einnig árás stuðningsmanna sinna á þinghúsið, skrifstofur forsetaembættisins og hæstarétt á Twitter sama dag og árásirnar áttu sér stað. Lula forseti kallaði stuðningsmenn Bolsonaro fasista og ofstækismenn og lýsti því að allir þeir sem tekið hefðu þátt í óeirðunum yrðu leitaðir uppi og þeim refsað. Þjóðarleiðtogar fordæmdu hver af öðrum atburðina, þannig kallaði Alberto Fernandez, forseti Argentínu, þau tilraun til valdaráns. Joe Biden Bandaríkaforseti sagði árásina smánarlega og lýsti stuðningi sínum við brasilísk stjórnvöld og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, kallaði atburðina árás á lýðræðið.

Skemmdarverk og skrílslætiMótmælendur réðust meðal annars á húsakynni hæstaréttar Brasilíu og mölbrutu þar rúður og skemmdu innanstokksmuni.

Hinn 6. janúar síðastliðinn voru tvö ár frá því að æstur múgur réðst inn í þinghús Bandaríkjanna í Washington. Niðurstaða rannsóknarnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings var að þáverandi Bandaríkjaforseti, Donald Trump, bæri meginábyrgð á árásinni með því að æsa stuðningsmenn sína upp með endurteknum og ósönnum fullyrðingum um kosningasvik. Þá hafi hann hvatt stuðningsmenn sína til að mæta til Washington í mótmæli.

Jair Bolsonaro hefur verið kallaður Tropical-Trump, hinn suður-ameríski Trump. Lula hefur í yfirlýsingum sagt Bolsonaro bera ábyrgð á óeirðunum, rétt eins og Trump fyrir tveimur árum. Því hefur Bolsonaro eindregið hafnað.

Kylfum beittÓeirðalögregla á hestum var send á vettvang til að dreifa mannfjölda við skrifstofu forsetaembættisins.
Fallinn af bakiHerlögreglumaður hefur hér fallið af baki hesti sínum og bíður skelfdur þess sem verða vill meðan stuðningsmenn Bolsonaros hópast að honum.
Komið til bjargarMótmælendur koma herlögreglumanninum til aðstoðar og verja hann fyrir óeirðaseggjum.
Ráðist að bifreiðEngu var eirt í óeirðunum, þannig var ráðist á bíla herlögreglunnar jafnt sem önnur farartæki.
Táragasi beittBrasilíska lögreglan beitti meðal annars táragasi til að dreifa lýðnum eftir að mótmælendur höfðu ráðist inn í þinghúsið í Brasilíu.
Flúið af vettvangiMótmælendur flýja öryggislögreglumenn, gráa fyrir járnum, fyrir utan forsetaskrifstofurnar.
Byssum brugðiðLögreglumenn skutu gúmmíkúlum að mótmælendum, úðuðu piparspreyi og sprengdu táragassprengjur til að ná stjórn á ástandinu.
Hundruð handtekinHunduð mótmælenda voru handtekin strax í aðgerðum lögreglu. Lula forseti hefur heitið því að allir þeir sem tóku þátt í óeirðunum verði eltir uppi, handteknir og þeim refsað.
Gríðarleg eyðileggingÖryggisverðir í brasilíska þinginu virða fyrir sér eyðilegginguna, degi eftir árásina. Hugrenningatengsl við árásina á bandaríska þinghúsið árið 2021 eru óhjákvæmileg.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár