Það er alltaf verið að tala um mat, á samfélagsmiðlum, útvörpum og í auglýsingum, mat, mat, mat, fimm rétta máltíðir. Á meðan sveltur fólk í landinu, fátæktin er skelfileg, það er eins og stjórnvöld vilji hafa viðvarandi fátækt. Einstæðar mæður þurfa að leita í auknum mæli til góðgerðarstofnana. Ef einhver heldur að þetta séu ýkjur eða vitleysa, leyfi ég mér að tala um sjálfa mig, þegar ég var einstæð móðir og þurfti að leita til mæðrastyrksnefndar, eða kirkjunnar, og svo framvegis fyrir jólin. Svo ég veit að þetta er satt. Ég held að synir mínir hafi varla enn þá jafnað sig að öllu leyti því svo gátu geðhvörf bæst við. Fátækt er svo niðurlægjandi fyrir eitt land að það tekur engu tali. Hvernig í ósköpunum geta stjórnvöld presenterað fátækt í þessu landi?
Sami hugsunarháttur virðist upp á teningnum þegar kemur að heimilislausum (bara orðið útigangsmenn virkar eins og það sé verið að tala um hesta í vandræðum) og það þurfti ekta frost til að hleypa heimilislausum inn í athvörfin og kirkjurnar.
Og svo á að loka Vin!
Annars er ég svo gleymin að ég var búin að gleyma hvort það hefðu verið alþingiskosningar á þessu ári eða síðasta. Því ég harmaði að missa Guðmund Inga úr stól umhverfisráðherra og fá í staðinn sjálfstæðismanninn Guðlaug Þór. Og nú er búið að boða til mikilla virkjanaframkvæmda, það hefur verið friður í landinu um nokkurra ára skeið – síðan hætt var við Ófeigsfjarðarvirkjun – og þetta er eins og raunverulegur friður því svo hefst raunverulegur hernaður gegn landinu. En hvað sem því líður hefur Guðmundur Ingi verið meira áberandi í stól vinnumálaráðherra en umhverfisráðherra, við vitum ekki einu sinni hvort hann flokkar.
„Sálin þarf breytingar til að endurnýjast og gleðjast og takast á við ný verkefni, breytingar“
En það voru reyndar kosningar á þessu ári, sveitarstjórnarkosningar og ég sem hafði flutt í Hveragerði kaus í fyrsta sinn. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað ég sé að gera í Hveragerði, ég flutti í bæinn því þetta er heilsubær og svo er foss í miðjum bænum með stökkvandi löxum. En samt. Og þó. Ég er búin að fá tvær andlegar vakningar og í númeraröð eru þær númer eitt, þá birtist mér í sviphendingu að ástin sé það merkilegasta í lífinu, þar með talin vináttan, allt sem hefur í sér kærleika, en ástin, þessi furðuskepna sem færir mann inn í nýjan menningarheim og litar síðan allt lífið upp frá því, ástin já. Allir vita það þegar ég segi það. Og svo var númer tvö en þá vitraðist mér að sálin þarf breytingar til að endurnýjast og gleðjast og takast á við ný verkefni, breytingar. Svo þarna voru komin tvö mikilvæg atriði til að flytja í Hveragerði. Og hér voru líka sveitarstjórnarkosningar sem fyrr er sagt, meirihlutinn féll eftir áralanga setu og forystu í bæjarstjórn. Ég hélt upp á Aldísi, því hún hafði nef fyrir höggmyndinni okkar Matthíasar Rúnars Sigurðssonar, og hennar skörungsskap en breytingar eru af hinu góða í bænum.
Svo er annað sem brennur á mér, maðurinn með rampana, milljónamæringurinn sem er að byggja alla rampana í bænum, af hverju í ósköpunum hefur sú aðgerð ekki vakið hina milljónamæringana, hvar sem þeir sofa?
Og svo höfum við komist að því að á þessu landi er gerður greinarmunur á hælisleitendum og stríðshrjáðu fólki. Fólkið frá Úkraínu hefur forgang fram yfir hælisleitendur frá fjarlægari heimshlutum. Þetta er að öllu leyti forkastanlegt. Hvernig í ósköpunum á það að geta talist kristilegur hugsunarháttur? Fyrir utan að við þurfum að fá fólk hingað úr annarri menningu til að blandast og ekki blandast okkar menningu.
En það sem ber hæst á árinu er auðvitað stríðið í Úkraínu, það er svo nálægt okkur. Önnur stríð og önnur vesöld gleymist. Úkraínustríðið er skelfilegt. Eða hvaða orð á að nota? En hér er ég að tala um alþjóðavettvang. Mér skilst að fyrst hafi fólk lesið fréttir úr því stríði en eftir því sem á líður minnkar áhuginn á stríðinu.
En svo er það Elísabetarvettvangur. Og mér tókst á þessu ári að láta draum rætast. En mig hafði dreymt um það í nokkur ár að bjóða fjölskyldunni í ferðalag utanlands (Skálinn á Sprengisandi kom líka til greina og hefur ekki verið kastað út af borðinu, nei, alls ekki.) En af því bókin mín hafði selst vel og synir mínir gátu útvegað ódýrt flug á netinu og hagstæða gistingu þá tókst þetta. Og saman fórum við – öll í sömu flugvélinni – til Napolí að fá okkur pitsu, en uppeldið í gamla daga fólst í því að eiga fyrir pitsu.
.....maðurinn með rampana, milljónamæringurinn sem er að byggja alla rampana í bænum, af hverju í ósköpunum hefur sú aðgerð ekki vakið hina milljónamæringana, hvar sem þeir sofa?