Byrjum 1989 við upphaf endalokanna sem urðu 1991. Tiltækar hagskýrslur þá ýktu umfang sovézka hagkerfisins fram að hruni. En þegar rykið settist virtist kaupmáttur landsframleiðslu á mann í Rússlandi vera aðeins fjórðungur af kaupmætti landsframleiðslu á mann í Bandaríkjunum. Nýrri skýrslur Alþjóðabankans benda til minni munar því nú er talið að kaupmáttur landsframleiðslu á mann í Rússlandi hafi strax eftir hrunið numið helmingi af kaupmætti landsframleiðslu á mann í Bandaríkjunum. Það tók 16 ár fyrir landsframleiðslu á mann í Rússlandi að komast aftur þangað sem hún var þegar Sovétríkin hrundu 1989-1991.
Þegar vafi leikur um áreiðanleika hagtalna um lífskjör er það góð regla að athuga staðtölur um lýðheilsu til samanburðar. Þegar verst lét í Rússlandi árin eftir 1990 gátu rússneskir nýburar átt von á að lifa tólf árum skemur en jafnaldrar þeirra í Bandaríkjunum. Síðan hefur bilið þrengzt í þrjú ár, en það stafar að hluta til af því að meðalævi Bandaríkjamanna hefur stytzt undangengin ár enda þótt hún hafi haldið áfram að lengjast í ESB-löndum líkt og um allan heim.
Hvers vegna hrun?
Í efnahagslífi Sovétríkjanna stóð varla steinn yfir steini. Í fyrsta lagi hefur engu landi tekizt að sjá almenningi fyrir góðum lífskjörum í miðstýrðu hagkerfi þar sem ríkið á og rekur öll framleiðslufyrirtæki. Í Rússlandi, eins og annars staðar, leiddu miðstýringin og meðfylgjandi einangrun að heita má frá heimsmörkuðum til mikillar offjárfestingar í verksmiðjum, vélum og tækjum. Til hvers? Til að framleiða vörur sem fáa fýsti að kaupa. Enn í dag framleiða rússnesk fyrirtæki varla neitt sem útlendingar vilja kaupa nema jarðefnaeldsneyti, steinefni úr grjóti, áburð, vodka, vopn og korn. Rússland er í reyndinni olíuríki eins og til dæmis Sádi-Arabía. Hvorugu landinu hefur tekizt að skjóta fjölbreyttum og styrkum stoðum undir efnahagslífið. Iðnframleiðsla nam 21% af vöruútflutningi Rússlands 2020 borið saman við 69% í OECD-löndunum.
„Frekar en að kynna sér hvernig nútímalegt efnahagslíf gengur fyrir sig einblíndu Kremlverjar áfram á „undirstöðuatvinnuvegina“ iðnað og landbúnað, hamarinn og sigðina“
Lítum einnig til þess að á síðustu áratugum Sovétríkjanna grófu draugar sligandi hugmyndafræði Leníns og Stalíns undan vexti og viðgangi efnahagslífsins. Frekar en að kynna sér hvernig nútímalegt efnahagslíf gengur fyrir sig einblíndu Kremlverjar áfram á „undirstöðuatvinnuvegina“ iðnað og landbúnað, hamarinn og sigðina, sem lykilinn að því að komast af í fjandsamlegum heimi. Þjónusta, aðaluppspretta blómlegs efnahagslífs í okkar heimshluta, nam innan við þriðjungi af landsframleiðslu Rússlands fyrir hrunið borið saman við 60% til 70% í OECD-löndunum. Enn í dag nemur þjónusta, til dæmis læknishjálp, sem er undirstaða góðra lífskjara og langlífis, einungis helmingi af landsframleiðslu Rússlands borið saman við 80% í Bandaríkjunum og 67% í heiminum öllum.
Í heimi áætlunarbúskapar og miðstýringar í Sovétinu, þar sem engum mörkuðum var til að dreifa til að leiðbeina fólki og fyrirtækjum um hvað hlutirnir kosta í reynd og hvernig sé bezt að fara með fé, var dagskipunin þessi: „Því meira, þeim mun betra“. Nikita Krústsjov aðalritari Kommúnistaflokksins að Stalín gengnum sagði berum orðum: „Magn er gæði“. Kremlverjar töldu auk þess vænlegast að hafa fyrirtækin sem stærst og fæst og byggðu því upp risavaxin einokunarfyrirtæki til að auðvelda stjórnarherrunum að hafa hemil á þeim. Hagkvæmni stórrekstrar – ef henni var yfirhöfuð til að dreifa – grófst undir óhagkvæmninni sem fylgir markaðsfirringu og þrúgandi einokun eins og nótt fylgir degi. Stjórnarhættir nómenklatúrunnar voru gegnsýrðir af fáfræði, svikum, spillingu og – já! – glæpum. Fólkið í landinu fékk ekki rönd við reist, það þekkti ekki annað.
Þegar kerfið hrundi og hörmungarnar blöstu við hafði nómenklatúran ekki hugmynd um hvernig ætti að bregðast við. Þegar allt stefndi í óefni 1985 var Mikhail Gorbachev kjörinn aðalritari Kommúnistaflokksins með 2ja til 3ja atkvæða mun. Hann var sömu gerðar og Krústsjov og taldi sig geta beitt sér fyrir efnahagsumbótum án þess að slaka á taki flokksins. Gorbachev mælti í þessum anda fyrir glasnost og perestroika – „opnun“ og „umskiptum“ – án þess að átta sig til fulls á alvöru málsins. Hann kveikti ekki fyrr en allt var um garð gengið.
Hvers vegna stöðnun?
Sovétkerfið er gjöfin sem gefur áfram. Í ljósi þess að Rússland býr að gnótt náttúruauðlinda og nýtur viðurkenningar meðal annars fyrir æðri menntun í tækni og vísindum hefði mátt búast við að umskiptin frá miðstjórn til fjölbeytts markaðsbúskapar gætu gengið hratt fyrir sig. Svo fór þó ekki.
Samanburður Rússlands við Pólland sem brauzt undan oki Sovétríkjanna 1989 bregður birtu á málið.
Kaupmáttur landsframleiðslu á mann í Rússlandi var næstum tvöfalt meiri 1990 en hann var þá í Póllandi. En Pólverjar hafa náð að halda uppi stöðugum og hröðum hagvexti allar götur frá 1992. Þjóðarbúskapur Pólverja hefur vaxið þrisvar sinnum hraðar en í Rússlandi. Landsframleiðsla á mann í Póllandi er nú komin langt fram úr Rússlandi. Myndin sýnir kaupmátt landsframleiðslu á mann í löndunum tveim 1990-2021 í Bandaríkjadollurum á föstu verðlagi ársins 2017.
Vaxtarmuninn á löndunum tveim er hægt að rekja meðal annars til ólíkra upphafsskilyrða. Pólverjar gátu, þótt þeir væru undir oki Sovétríkjanna, notað árin 1980-1990 til að búa sig undir betri tíð. Milljónir þeirra ferðuðust til annarra landa og margir lærðu ensku, þýzku og önnur tungumál. Pólverjar höfðu hæfum hagfræðingum á að skipa, þar á meðal Leszek Balcerowicz, sem var fyrst fjármálaráðherra Póllands eftir umskiptin og síðan seðlabankastjóri og lét margt gott af sér leiða.
Samstaða, hryggjarstykkið í pólsku verklýðshreyfingunni, ruddi Kommúnistaflokknum úr vegi í almennum kosningum sem voru að hluta til frjálsar – að hluta til þar eð kommarnir tóku sér fullt af þingsætum í forgjöf. Þetta gerðist 1989. Ný ríkisstjórn taldi skjótar umbætur í einum rykk (e. shock therapy) vænlegri til árangurs en hægar umbætur í áföngum. Hugmyndin var að bezta leiðin til að komast yfir bæjarlækinn væri í einu stökki til að aftra hagsmunahópum sem höfðu miklu að tapa frá að skipuleggja skemmdarverk gegn umbótunum. Ríkisstjórninni tókst þetta með umtalsverðri aðstoð frá Bandaríkjunum og ESB. Jeffrey Sachs, þá prófessor í Harvard-háskóla, var Pólverjum innan handar sem ráðgjafi og lýsti umskiptunum innan frá í bók sinni, Poland's Jump to the Market Economy (1993).
Sachs var einnig á dekki í Moskvu litlu síðar sem ráðgjafi ríkisstjórnar Borisar Jeltsín, fyrsta forseta Rússlands. Ráð hans féllu þó í grýttari jarðveg í Rússlandi en í Póllandi, sumpart vegna þess að Rússland lagði fleiri freistingar fyrir gráðuga innherja sem seildust eftir að sölsa undir sig ríkisfyrirtæki þegar þau voru seld, ekki sízt olíufyrirtæki og náttúrunámur. Pólverjar stóðu ekki frammi fyrir sambærilegum vanda þar eð ekki landið á fáar auðlindir auk þess sem ekki var hægt að nýta eignir ríkisins án vestrænnar tækni og sérþekkingar.
Sachs og fleiri skoruðu á Bandaríkjastjórn að styðja umbætur í Rússlandi með ráðum og dáð, en brýning þeirra vakti of lítil viðbrögð og of seint. Jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem hefði að réttu lagi átt að vera fyrstur á vettvang, tók sér alllangan tíma áður en hann bauð fram aðstoð sína. Grunur lék á að Bandaríkjastjórn hefði haldið að sér höndum við þessi mikilvægu vatnaskil til að halda Rússlandi veiku.
Ef svo er, gerðu Bandaríkjastjórn og bandamenn hennar í Evrópu afdrifarík mistök. Þótt brugðið gæti til beggja vona fleygðu þau frá sér gullnu tækifæri til að lyfta Rússlandi upp úr öskunni í anda Marshall-aðstoðarinnar sem hjálpaði til við að reisa Evrópu úr rústum eftir síðari heimsstyrjöldina, jafnvel þótt þau notuðu skuldsetninguna sem leiddi af fjárhagsaðstoð þeirra síðar til að efla lýðræði og girða fyrir enn frekari gripdeildir en þær sem áttu sér stað.
Frá vonbrigðum til þjófræðis
Áður en Jeltsín steig til hliðar eftir að hafa gegnt forsetaembættinu í tæpan áratug gerði hann Vladímír Pútín að eftirmanni sínum, reyndan skrifráð sem virtist kunna að koma á röð og reglu. Pútín gerði það með sínu lagi, en hann notaði gömul og ný sambönd sín í leyniþjónustunni og stjórnsýslunni til að herða smám saman tök sín á stjórnkerfinu og beygja spilltu sjálftökusveitirnar, fávaldana, arftaka gömlu nómenklatúrunnar, undir vilja sinn frekar en að ráðast gegn þeim og granda þeim. Á sama tíma lokkaði Evrópa Rússa til viðskipta á nýjum innri markaði fyrir iðnaðarvörur til að öðlast aðgang að ódýru rússnesku jarðgasi og mótmælti auknu harðræði í stjórnarfari Rússlands einungis til málamynda að því er virtist.
„Rússar geta varla gert sér vonir um betri lífskjör í bráð“
Hvað hefur Rússland Pútíns sem Sovétríkin höfðu ekki? Lífskjör eru að sönnu skárri en þau voru á tímum Leoníds Brésnev sem tók við völdum af Krústsjov 1964, en framförin frá 1990 hefur verið dræm og skrykkjótt. Rússar hafa í efnahagslegu tilliti dregizt aftur úr öllum gömlu kommúnistaríkjunum í Austur-Evrópu nema Albaníu og Búlgaríu sem búast nú bæði tvö til að skjóta Rússlandi aftur fyrir sig þar eð Búlgaría er komin inn í ESB og Albanía hefur fengið sér sæti á biðstofunni í Brussel. Harðstjórn, spilling og fábreytni efnahagslífsins í Rússlandi sem á næstum allt sitt undir olíu, gasi og öðrum auðlindum náttúrunnar standa vexti og viðgangi efnahagslífsins fyrir þrifum líkt og víða annars staðar um heiminn.
Rússar geta varla gert sér vonir um betri lífskjör í bráð. Innrásin í Úkraínu og meðfylgjandi efnahagsleg og pólitísk einangrun Rússlands dregur enn frekar úr framfarahorfum almennings en orðið er. Þökk sé kjarnorkuvopnabúri Rússlands stafar landinu að sönnu engin ytri ógn að öryggi sínu, að minnsta kosti ekki úr vestri, en Brésnev hefði getað sagt það sama. Vegna innrásarinnar í Úkraínu virðist líklegt að Pútín og menn hans herði enn frekar á harðstjórninni heima fyrir veitist þeim færi á því. Ekki er þó víst að þeim takist það.
Í fyrsta lagi er ekki víst að Pútín nái að halda völdum fari rússneski herinn halloka í Úkraínu.
Í annan stað ýjaði Pútín forseti nýlega að því í rússnesku sjónvarpi að hægt væri að hugsa sér að endurheimta land sem tilheyrði Rússum í Eistlandi, Lettlandi, Finnlandi og Svíþjóð á fyrri tíð. Hann þarf að muna að áður en Vladivostok, sem þýðir drottnari austursins, var innlimuð í Rússland 1860 var hún kínversk borg. Samkvæmt kínversku tímatali er ekki langur tími liðinn frá 1860, ekki miklu lengri en frá í fyrradag.
Því meira sem Rússland breytist, þeim mun minna breytist það.
Athugasemdir