„Eritrea er risastórt fangelsi og fólk sem tjáir skoðanir sínar sem stangast á við hugmyndir yfirvalda er umsvifalaust svipt frelsi sínu. Lítið sem ekkert hefur spurst til fjölda fólks sem þannig er komið fyrir og því vita fjölskyldur þeirra ekkert um afdrif ástvina sinna.“ Þetta segja Amnesty International sem reglulega vekja athygli heimsbyggðarinnar á alvarlegum mannréttindabrotum yfirvalda í Eritreu. Samtökin birta meðal annars myndir og upplýsingar um fólk sem hefur verið handtekið í landinu vegna skoðana sinna. „Þau eru samviskufangar,“ segir Amnesty sem óttast að fjöldi þeirra sem þannig er komið fyrir sé ekki á lífi, en ef svo sé lifi þau við hryllilegar aðstæður í fangelsum landsins sem rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sagði árið 2016 að væru meðal annars gámar og járnbúr.
Gagnrýndu forsetann og hurfu sporlaust
Óttast er um afdrif þúsunda manna sem hafa verið fangelsaðir án dóms og laga í Eritreu síðustu þrjátíu …
Isaias Afwerki er orðinn 76 ára gamall og þótt hann virðist enn hraustur þá er hann ekki ódauðlegur. Hann leiddi frelsisbaráttu Eritreumanna gegn Eþíópíu og vann stórsigur 1991 þegar Eritreumenn hertóku höfuðborgina Addis Ababa. Ný stjórn tók við taumunum, samdi nýja stjórnarskrá sem leyfði öllum héröðum að kjósa um sjálfstæði, og 1994 kusu Eritreumenn um sjálfstæði frá Eþíópíu. Isaias er trúlega mjög vinsæll meðal margra Eritreumanna, svipað og Stalín heitinn í Sovétríkjunum forðum, en eflaust eru mjög margir andsnúnir honum og stjórnarfari hans. Nýr leiðtogi myndi ekki hafa nærri því sömu tök á hjörtum íbúa eða stofnunum ríkisins.
Eritrea var nýlenda Ítala frá lokum 19. aldar, þeir reyndu að ná allri Eþíópíu en gjörtöpuðu gegn Eþíópískum her í stórorrustu 1896. Í kjölfarið sömdu Ítölsk stjórnvöld og Menelik keisari um núverandi landamæri, hann hafði meiri áhuga á landvinningum í suður og vestur og vissi væntanlega líka að bæði Frakkar og Englendingar myndu aldrei leyfa honum að ýta Íölum alveg úr landi og teygja yfirráð sín að ströndum Rauðahafsins sem var þá einhver mikilvægasta siglingaleið veraldar.
Ítalir réðu Eritreu fram til 1941 þegar landið var "endursameinað" Eþíópíu, enda eru löndin verulega tengd hvað varðar sögu, menningu og landafræði og fjallendi Eritreu kringum höfuðborgina Asmara og þaðan niður að strönd Rauða Hafsins hefur verið hefðbundið áhrifasvæði Eþíópíu ef ekki beinlínis hluti sögulegra forvera núverandi Eþíópíu, þ.e. Abyssíníu á miðöldum og þar áður Axum stórveldisins á fornöld.
Margir hér á Horni Afríku horfa því spenntir til Ereitreu og hvað muni gerast þegar Isaias Afwerki gefur upp öndina. Væntanlega er mikil ólga undirliggjandi í Eritreisku samfélagi, en það má heldur ekki gleyma því að mjög margir flóttamenn frá Eritreu eru búsettir í Eþíópíu og hafa verið þar lengi, opinberlega er talað um 150.000 manns en gætu verið miklum mun fleiri enda falla Eritreumenn hér vel inn í fjöldann og geta fengið atvinnu- og búsetuleyfi án teljandi vandræða.
Eritrea telur 6 milljón íbúa í samanburði við 120 milljónir í Eþíópíu, og mjög margir Eritreumenn voru ósáttir við aðskilnaðinn og spurning hvort "endursameiningarbarátta" Eritreumanna með stuðningi Eþíópíustjórnar leynt eða ljóst gæti orðið stóra fréttin héðan innan fárra ára.