Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Sagan hennar Alinu

Al­ina Kaliuzhnaya flúði Hvíta-Rúss­land eft­ir að hafa ver­ið hand­tek­in, fang­els­uð, pynt­uð og loks sett á lista yf­ir eft­ir­lýsta glæpa­menn fyr­ir það eitt að mót­mæla kosn­inga­svik­um Lukashen­ko. Henni hef­ur í tvígang ver­ið neit­að um vernd af ís­lensk­um stjórn­völd­um á grund­velli Dyfl­inn­ar­reglu­gerð­ar­inn­ar. Al­var­leg veik­indi henn­ar og fötl­un, það að hún sé eft­ir­lýst í heimalandi sínu og fað­ir henn­ar þekkt­ur póli­tísk­ur flótta­mað­ur, hafði ekk­ert að segja.

Alina Kaliuzhnaya verður 24 ára eftir aðeins nokkra daga. Hún fæddist 17. apríl 1998 í Hvíta-Rússlandi. Fjórum árum fyrr varð Alexander Lukashenko fyrsti forseti landsins eftir að Sovétríkin voru leyst upp árið 1991 og Hvíta-Rússland öðlaðist sjálfstæði. Lukashenko, sem síðan hefur stoltur kallað sig síðasta einræðisherra Evrópu, var reyndar eini fulltrúi stjórnmálahreyfingarinnar sem hann stofnaði, sem var á móti því að Sovétríkin yrðu leyst upp þarna árið 1991 og talaði fyrir því í Moskvu árið 1994 að stofnað yrði nýtt bandalag slavneskra ríkja, en það er önnur saga.

Þetta er saga Alinu, pólitískrar flóttakonu, sem nú býr á Íslandi en bíður þess að verða vísað úr landi. Til Póllands, þar sem hún hefur þó hvorki sótt um eða hlotið hæli. Íslensk yfirvöld hafa í tvígang neitað henni um vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Og það jafnvel þótt Alina sé fötluð og glími við erfið veikindi.

Íslensk stjórnvöld vilja nefnilega meina að Alina geti vel sótt um vernd í Póllandi og notið þar þjónustu sem hún á rétt á. Þar muni hún hafa aðgang að allri þeirri læknisþjónustu sem hún þurfi á að halda; örugg þrátt fyrir að vera eftirlýst í heimalandi sínu.

Alina er á lista yfir óvini hvít-rússneska ríkisins, rétt eins og faðir hennar, Dmitry Petrushkevich. Hann er einn þekktasti pólitíski flóttamaður landsins, eftir að hafa sjálfur flúið land, þá orðinn skotmark dauðasveita stjórnvalda sem hann hafði sjálfur komið upp um. Nokkuð sem hvít-rússneska lögreglan komst að þegar hún handtók Alinu og færði í þekkt einangrunarfangelsi þar sem hún sætti pyntingum í 15 daga einangrunarvist.

Alina kom til Íslands því hún var viss um að hér yrði hún örugg, að hér væri málfrelsi og lögregla og stjórnvöld myndu vernda hana.   

Sagan byrjar í Minsk

Vorið 1998 í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, eignuðust þau Julia Kaljuzhnaja og Dmitry Petrushkevitsj  sitt fyrsta barn. Stúlku sem nefnd var Alina Dmitrijeva, sem venju samkvæmt hlaut þó ættarnafn föður síns, Petrushkevitsj. 

Dmitry var á þessum tíma liðsmaður sérstaks teymis rannsóknarlögreglumanna saksóknarans í Minsk. Þegar Alina var nýorðin tveggja ára leiddi rannsókn umfangsmikils sakamáls til handtöku nokkurra glæpamanna sem grunaðir voru um aðild að hrottalegu morði og innbroti.

Á heimili eins þeirra rákust Dmitry og kollegar hans á nokkuð sem vakti forvitni þeirra, úrklippu úr dagblaði. Viðtal við Dmitry Zavadsky, þekktan hvítrússneskan blaðamann, sem skömmu áður hvarf sporlaust eftir að hafa átt í opinberum útistöðum við stjórn Lukashenko.    

Það liðu ekki nema nokkrar vikur frá því pabbi Alinu rakst á þessa úrklippu að hann áttaði sig á því að hann væri kominn í miðju einhvers sem hann vissi að snerist um annað og meira en morðið sem hann hafði upprunalega haft til rannsóknar.

Glæpamennirnir sem rannsóknarlögreglan hafði handsamað reyndust meðlimir í leynilegri sérsveit lögreglustjórans í Minsk. Og þegar þessi sami lögreglustjóri var handtekinn, vísaði hann pabba Alinu á hvar lík blaðamannsins Zavadsky væri að finna. 

Með risavaxið sakamál í höndunum vildu Dmitry og félagar rannsaka það nánar. Þeir voru með sannanir fyrir aðild sérsveitar lögreglustjórans að hvarfi þriggja annarra andstæðinga Lukashenko. Og það leið ekki á löngu þar til Lukashenko sjálfur skarst í leikinn, yfirmaður hjá saksóknara var rekinn og æðsti yfirmaður KGB líka. Lögreglustjórinn var leystur úr haldi og verðlaunaður af forsetanum. 

Pabbi Alinu og kollegi hans, Oleg Sluchek, flúðu hins vegar land til Bandaríkjanna árið 2001, eða ári eftir að rannsóknin hófst. Þá höfðu þeir stigið fram og lýst uppgötvun sinni í óháðum fjölmiðlum [sem þá voru enn nokkrir í landinu], sannfærðir um að gengið sem myrti Zavadsky væri dauðasveit sem hefði á þriggja ára tímabili myrt allt að 30 manns. Og nú væru þeir Dmitry og Oleg sjálfir orðnir skotmark hennar.

Pabbi Alinu lýsir þessari atburðarás í viðtali við blaðamann Washington Post skömmu eftir að hann flúði til Bandaríkjanna. Hvernig hann hætti lífi sínu við að koma þessum upplýsingum til almennings og hvernig hann vonaði að þær myndu vekja athygli Vesturlanda á ástandinu í Hvíta-Rússlandi undir stjórn einræðisherrans Lukashenko.  

Nýtt nafn og nýtt líf

Alina var því aðeins þriggja ára þegar faðir hennar flúði land óttasleginn um líf sitt og kominn á lista stjórnvalda sem óvinur ríkisins. Sem refsingu fyrir brotthlaupið sviptu yfirvöld Dmitry forsjá yfir Alinu.

Sannfærð um að Alina myndi hljóta sömu örlög og faðir hennar ákvað móðir hennar að breyta eftirnafni hennar úr Petrushkevich yfir í ættarnafn móðurfjölskyldunnar, Kaljuzhnaja, til þess að beina kastljósi stjórnvalda frá henni, enda hafði Alina ekkert gert til þess að verðskulda athygli þeirra annað en að vera dóttir föður síns. 

Ári síðar missir mamma Alinu líka forræðið yfir henni vegna veikinda. Alina var því fjögurra ára gömul færð í varanlega umsjá ömmu sinnar. Til þess að skýla henni og vernda ákvað amma hennar að segja Alinu ekki frá því hvers vegna pabbi hennar væri ekki hluti af lífi hennar, segir Alina, sem kveðst hafa fullan skilning á þeirri ákvörðun ömmu sinnar.

Heilsan verri með hverju árinu

ÖrorkuskírteiniAlina gat lagt fram fjölda gagna sem studdu frásögn hennar um bágt heilsufar, meðal annars örorkuskírteini gefið út í Hvíta-Rússlandi.

Engu að síður upplifði hún sig „hálfmunaðarlausa“ sem barn vegna fjarveru pabba síns og veikinda móður sinnar. Sjálf veiktist hún mikið sem barn og talar um að hafa eytt lunganum úr æsku sinni á sjúkrahúsi. Það tók lækna langan tíma að átta sig á hvað hrjáði hana enda voru einkennin margvísleg. Hún þjáðist til dæmis lengi af magaverkjum en á sama tíma hrakaði sjón hennar hratt. 

Ellefu ára var hún greind með Crohns-sjúkdóminn, sjálfsofnæmissjúkdóm sem herjar helst á meltingu fólks en veikir einnig ónæmiskerfið, svo Alina er viðkvæm fyrir hvers kyns sýkingum. 

Þrátt fyrir þessa greiningu áttuðu læknar sig illa á því hver orsök allra hennar veikinda voru. Crohns gat ekki verið ekki það eina sem hrjáði hana. Eftir ítarlegar rannsóknir komust læknarnir loks að því að auk Crohns-sjúkdómsins var Alina einnig með alvarlegan og sjaldgæfan erfðasjúkdóm, Marfan-heilkenni. Hún þarf því stöðuga lyfjagjöf og læknishjálp enda getur Marfan-heilkenni verið lífshættulegur sjúkdómur, þar sem hann leggst á hjarta- og æðakerfið, augun og stoðkerfið, sem útskýrir hvers vegna Alina var sem barn strax farin að missa hluta af sjóninni.

„Að vera fatlað barn í Hvíta-Rússlandi er hryllingur.“

Samkvæmt íslenskum skrifum um heilkennið leggst það mismunandi í hvern og einn sem ber það, en í einhverjum tilvikum er það lífshættulegt og dregur fólk til dauða langt fyrir aldur fram. 

 „Heilsan mín verður bara verri með hverju árinu og þetta er þannig að ég veit aldrei í hvernig standi ég verð eftir hálft eða heilt ár, þannig að ég þarf stöðuga læknishjálp,“ útskýrir Alina. 

Heima í Hvíta-Rússlandi fékk hún litla hjálp og stuðning sem barn. Engin sérkennsla var í boði fyrir hana og vegna þess hve oft hún þurfti að dvelja á spítala var hún lítið sem ekkert í staðnámi. Sem táningur var henni sagt af læknum að vegna ástands hennar væri ósköp margt sem henni myndi aldrei takast að gera, eins og að stunda háskólanám.

„Að vera fatlað barn í Hvíta-Rússlandi er hryllingur,“ útskýrir hún.

Það varð því snemma draumur hennar að verða að gagni í lífi fatlaðra og langveikra barna. Hún vildi læra sérkennslu og veita þá aðstoð og stuðning sem hún sjálf fékk aldrei.

Ekkert tengd pólitík sem barn

Amma Alinu sagði henni sannleikann um föður hennar og flóttann þegar Alina var tólf ára. Hún hafði lítið leitt hugann að stjórnmálum fram að því en segist muna hversu henni sárnaði aðgerðarleysi stjórnvalda í garð veikinda hennar og annarra í sömu stöðu. Um Lukashenko vissi hún lítið annað en að ekki þætti ráðlegt að mótmæla honum eða stjórnvöldum. Nú varð henni þó ljóst að það væri beinlínis hættulegt að ögra stjórnvöldum.

„Það hefði verið hættulegt fyrir líf mitt og minna nánustu að skipta mér af pólitík vegna pabba.“

Alina fór að leita frekari upplýsinga um föður sinn og leiða til að komast í samband við hann. Hún fann hann en sá um leið að hann hefði stofnað til nýrrar fjölskyldu hinum megin við hafið. Hún ákvað því að bíða með að hafa samband um sinn.

„Heilsan mín verður bara verri með hverju árinu og þetta er þannig að ég veit aldrei í hvernig standi ég verð eftir hálft ár“

Fimm ár liðu þar til hún setti sig í samband við pabba sinn en síðan þá hafa þau verið í reglulegum samskiptum. Hann hefur að sögn hennar stutt hana og hvatt til dáða í krefjandi aðstæðum í hennar lífi. 

Varð vitni að kosningasvindli 

Árið sem Alina varð tuttugu og tveggja ára, árið 2020, var efnt til forsetakosninga í Hvíta-Rússlandi. Um vorið tilkynnti Siarhei Tsikhanovskyi, rúmlega fertugur baráttumaður fyrir mannréttindum, framboð sitt til forseta. Aðeins tveimur dögum seinna var hann handtekinn og gefið að sök að hafa ráðist á lögreglumenn, þótt myndband sýni annað. Hann situr þó enn í fangelsi og mun gera í fjölda ára til viðbótar, dæmdur fyrir að hvetja til ólöglegrar uppreisnar gegn stjórnvöldum. 

Í mótmælaskyni við handtöku Tsikhanovskyi bauð eiginkona hans, Svetlana Tsikhanovskaya,  sig fram til forseta og hlaut mikinn stuðning almennra borgara, svo mikinn raunar að 70 þúsund manns mættu á kosningafund hennar þrátt fyrir hótanir yfirvalda við þá sem sýndu henni stuðning.

„Það hefði verið hættulegt fyrir líf mitt og minna nánustu að skipta mér af pólitík vegna pabba.“

Alina hafði fengið vitneskju um að hverjum sem er væri heimilt að gerast eftirlitsmaður við kosningarnar og ákvað hún að bjóða sig fram til kosningaeftirlits. Þar varð hún vitni að víðtæku kosningasvindli. Til dæmis því þegar starfsmenn kosninganna settu fleiri en einn merktan kjörseðil ofan í kjörkassa. Nokkuð sem fjöldi eftirlitsmanna varð vitni að. Enda stemmdi fjöldi kjörseðla ekki við tölur um kjörsókn.

Alexander Lukashenko var þrátt fyrir þetta lýstur sigurvegari með um 80 prósent atkvæða. „Við vissum að það væri ekki satt, það voru til sannanir,“ útskýrir hún. Mótframbjóðandi Lukashenko, Svetlana, var á sama máli og alþjóðasamfélagið samþykkti ekki niðurstöður kosninganna og lítur enn á Svetlönu sem kjörinn fulltrúa meirihluta almennings í Hvíta-Rússlandi.

Um leið og úrslitin voru kynnt hófust mótmæli á götum höfuðborgarinnar, Minsk.

Alina kveðst hafa ákveðið að láta yfirkjörstjórn og saksóknara vita af því sem hún varð vitni að og sendi báðum þessum stofnunum bréf og fékk svar. Skrifstofa saksóknara svaraði með því að erindið yrði sent áfram til viðeigandi aðila en svo fékk hún persónulegt svar frá Lidiu Yermoshinu, formanni yfirkjörstjórnar.

Svar frá Lidiu YermoshinuLidia hefur verið formaður yfirkjörstjórnar í Hvíta-Rússlandi frá árinu 1996. Eftir kosningarnar 2020 var Lidia látin sæta farbanni til landa Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Bretlands, Sviss og Kanada. Eftir forsetakosningarnar 2010 fór forsetaframbjóðandinn Andrei Sannikov fram á það að Lidiu yrði vikið úr embætti sínu vegna aðildar sinnar að kosningasvindli og tengslum hennar við Lukashenko.

„Hún sagði mér mjög kurteislega að þetta væri ekki mitt mál og að kjörstjórnin hefði gert allt samkvæmt lögum og að auki hefðu engin lög verið brotin í þessum kosningum. Samt voru persónuupplýsingar mínar vistaðar því ég dirfðist að spyrja spurninga,“ segir Alina í viðtali við Stundina á dögunum. 

Svarið olli henni vonbrigðum og henni kveðst hafa liðið illa yfir því að vitnisburður hennar um kosningasvindl væri hunsaður með þessum hætti. Við þetta breyttist afstaða Alinu um að blanda sér ekki um of í stjórnmál:

„Þegar ég sá hvað Lukashenko er tilbúinn að gera til að halda völdum þá ákvað ég að slást í för með vinum mínum og öðru eftirlitsfólki og mótmæla.“

Friðsamlegum mótmælum almennra borgara var mætt með sífellt meiri hörku eftir því sem leið á haustið 2020. „Sérsveit lögreglunnar réðst á fólk, þeir börðu, nauðguðu og handtóku mótmælendur og ekki aðeins á mótmælunum sjálfum heldur utan þeirra líka. Á þremur dögum voru sjö þúsund manns handtekin. Þetta var hræðilegt.“

Ástandið var orðið þannig að Alina kvaðst hafa verið „dauðhrædd“ við mótstöðuna sem mætti mótmælendum. Sérsveit lögreglunnar veittist að borgurum með hvellsprengjum og skutu á þau með gúmmíkúlum. Alina segir að á öðrum degi mótmælanna hafi maður dáið þegar séraðgerðarsveitin skaut hann.

„Það eru til myndbönd af honum rétt fyrir andlátið þar sem hann er óvopnaður að mótmæla friðsamlega,“ segir Alina. Það er augljóst að upprifjun á dauðastríði mannsins tekur á hana.

Hryllilegasti staðurinn í Minsk

Mótmælunum í Minsk linnti ekki og í lok september sór Lukashenko embættiseiðinn með leynd. Degi síðar sendi Evrópusambandið frá sér yfirlýsingu. Fordæmdi ofbeldi stjórnvalda gegn mótmælendum, hafnaði niðurstöðu kosninganna og kallaði eftir nýjum. Þann dag var fjöldi fólks handtekinn og hnepptur í varðhald, þar sem margir sættu ógeðfelldum pyntingum.

Þegar liðið var á desembermánuð voru mótmælendur langt frá því að gefast upp, þrátt fyrir kuldann og ofbeldið sem mætti þeim daglega. Einn dag var Alina á gangi um borgina með kunningjum sínum í nokkuð stórum hópi. Það sem hvorki hún né aðrir vissu var að á meðal þeirra væri óeinkennisklæddur lögreglumaður sem hafði sent sérsveitinni meldingu um hópamyndun og röskun á allsherjarreglu.  

Hneppt í varðhaldAlina var hneppt í varðhald í desember 2020 og færð í eitt þekktasta einangrunarfangelsi Minsk-borgar.

Áður en Alina áttaði sig birtust tvær fullar rútur af sérsveitarmönnum sem réðust að þeim svo úr varð mikil ringulreið og örvinglan.

„Fólk reyndi að forða sér, fela sig og hlaupa í burtu. Það var hálka þegar þetta var svo fólk fór að detta og þetta var allt mjög kaotískt. Þetta var hræðilegt,“ rifjar Alina upp.

Hún var handtekin ásamt vinum sínum. Vegabréfið var tekið af henni ásamt símanum og stuttu síðar var hún færð í gæsluvarðhald þar sem hún fékk hvorki mat né drykk í átta klukkustundir. En það versta var ekki afstaðið. Næst var Alina færð í eitt þekktasta fangelsi Minsk-borgar, Okrestina, í frekara gæsluvarðhald.

„Þetta er hryllilegasti staðurinn í Minsk, fólk er pyntað, því er nauðgað og barið niður andlega og líkamlega,“ segir hún.

Eftir þrjá daga í Okrestina var ákveðið að færa Alinu um set í annað fangelsi fjarri höfuðborginni. Hún vissi ekki af þeim fyrirætlunum fyrr en klefinn hennar var opnaður upp á gátt og hún borin út í fangabíl, algjörlega óviss um það hvert hún væri að fara og hvað byði hennar.

Í afturhluta bílsins var hún sett í klefa sem var um það bil fermetri, eins og hún man það. Þegar bíllinn fór af stað slökktu fangaverðirnir á loftræstikerfinu og kveiktu sér í sígarettu svo loftið varð óbærilegt. „Ég barði í bílinn og öskraði svo þeir myndu stoppa og gefa mér vatn eða eitthvað. Ég vissi ekkert hvert við værum að fara, við hefðum alveg eins getað verið að fara að gröf,“ segir hún. Þeir stöðvuðu loksins bílinn og gáfu Alinu sopa af vatni og þegar þeir opnuðu læsta hurðina segir hún að það hafi verið í fyrsta skipti frá því að þeir tóku hana úr klefanum sem hún vissi hvort það væri nótt eða dagur.

„Þegar ég sá hvað Lukashenko er tilbúinn að gera til að halda völdum, þá ákvað ég að slást í för með vinum mínum og öðru eftirlitsfólki og mótmæla.“

Í fangelsinu var Alina sett í kaldan klefa og fékk hvorki mat, vatn né lyfin sem hún var vön að taka og voru henni lífsnauðsynleg. Heilsu hennar var því farið að hraka allverulega þegar þeir loks yfirheyrðu hana. Þeir vildu vita hver hefði skipulagt mótmælin og hvort hún hefði fengið greitt fyrir að mótmæla. „Þeir neituðu að trúa því að fólkið skipulagði mótmælin sjálft því það vissi að niðurstöðurnar voru rangar,“ segir hún.

Þeir sögðu henni að þeir vissu hver pabbi hennar væri og héldu áfram að brjóta hana niður „bæði líkamlega og andlega“ til þess að fá hana til að segja það sem þeir vildu heyra. Þeir sögðu henni að ef hún yrði ekki samvinnuþýð myndu hún aldrei sleppa þaðan út, að hún yrði dæmd til að dúsa þar í fimm ár til viðbótar. „Þeir sögðust ætla að láta það bitna á mínum nánustu ef ég væri ekki samvinnuþýð og ég vissi að þeir gátu það,“ segir hún og bætir við:

„Þegar mér var hleypt út var ég í mjög slæmu líkamlegu ástandi.“ Svo slæmu að samkvæmt gögnum sem Alina veitti Stundinni aðgang að, tók hormónakerfi hennar breytingum eftir pyntingarnar.

Sett á óvinalista

Eftir að Alinu var sleppt úr haldi fékk hún formlega beiðni um að mæta í viðtal til saksóknara. Ég skildi þarna að þeir myndu ekki láta mig í friði,“ útskýrir hún. Hún var komin á lista yfir þá sem höfðu framið glæpi gegn allsherjarreglu, lista sem var sendur á allar ríkisstofnanir og ráðuneyti, þar á meðal háskólann sem hún gekk í. Á fundinum var henni meinað að taka þátt í frekari mótmælum eða aðgerðum í andstöðu við stjórnvöld, ella yrði hún fangelsuð. 

Hún fékk einnig að vita að hún hefði þarna misst réttinn til að mennta sig á kostnað ríkisins og gæti því ekki haldið áfram í skólanum. Hún þyrfti líka að segja upp vinnu sinni á leikskóla, annars yrði hún rekin fyrir vanrækslu. Hún hafði misst réttinn til að vinna með börnum með því að mótmæla Lukashenko.

„Draumur minn um að vinna með börnum var orðinn að engu,“ segir hún sorgmædd á svip. Við tók að leita sér að nýrri vinnu en alls staðar kom hún að lokuðum dyrum vegna listans. 

Vegna veru hennar á lista stjórnvalda átti hún raunar alltaf á hættu að verða handtekin aftur og hneppt í varðhald eða hljóta jafnvel fangelsisdóm. „Það var fylgst með mér. Það var hryllingur og ég fékk oft kvíðakast þegar bíll keyrði framhjá af ótta við það að hann myndi staðnæmast og ég yrði tekin. Ég óttaðist stanslaust að vegna skoðana minna myndi ég missa eitthvað vitlaust út úr mér og mér yrði refsað. Ég bjó við stöðugan ótta og það er í raun ein af þeirra pyntingaraðferðum að halda manni í stöðugri óvissu.“

Varð að flýja

Þegar þarna var komið sögu vissi Alina að hún þyrfti að koma sér í burtu frá Hvíta-Rússlandi sem fyrst áður en henni yrði meinað að yfirgefa landið. Hvert hún ætti að fara vissi hún ekki en hún fór að lesa sér til um lönd þar sem hún gæti verið örugg. Allra síst vildi hún fara til Póllands þótt leiðin þangað væri auðveld í samanburði við aðrar flóttaleiðir, en auðvelt var að verða sér úti um vegabréfsáritun þangað. Hún hafði heyrt frá vinum sínum að Hvít-Rússar yrðu fyrir fordómum þar og að hún sem fötluð flóttakona ætti í frekari hættu á að lenda á jaðri samfélagsins.

Auk þess vissi hún að sérsveit stjórnvalda væri sífellt á ferðinni yfir landamærin með flóttafólk frá Sýrlandi og Afganistan og að hún nýtti ferðirnar til að leita að þeim sem merktir höfðu verið sem óvinir ríkisins. 

„Þetta er hryllilegasti staðurinn í Minsk, fólk er pyntað, því er nauðgað og barið niður andlega og líkamlega“

Eitt af þeim löndum sem hún hafði skoðað var Ísland. „Ég las að hér væri öryggi og málfrelsi. Að hér óttaðist almenningur ekki lögregluna og að hér væri hægt að tala frjálst án þess að eiga á hættu að vera handtekinn. Ég las mér líka til um að hér væru börn með alls konar fatlanir sem ég gæti aðstoðað og hér gæti ég verið til gagns.“ Og Íslands varð fyrir valinu. 

Leiðin þangað var töluvert erfiðari en til Póllands, hún gat ekki orðið sér úti um vegabréfsáritun hingað svo hún neyddist til að fara aðra leið. Hún ákvað að fljúga hingað frá Moskvu með millilendingu í Lettlandi. Ferðalagið frá Moskvu til Lettlands gekk vel fyrir sig en á flugvellinum í Lettlandi var för þeirra, hennar og vinkonu hennar sem ferðaðist með henni, skyndilega stöðvuð.

„Þá vorum við spurðar hvað við ættum mikið af peningum, af hverju við værum að fara til Íslands og af hverju við færum ekki bara til Póllands og svo vorum við sakaðar um að vera með falsaða vegabréfsáritun.“ 

Á meðan tollvörður hélt þeim föstum með spurningum misstu þær af flugvélinni til Íslands. Þær komust enda hvergi nema með leyfi mannsins. Í kringum þær voru Hvít-Rússar í sömu stöðu, fastir á milli landa, hvort sem þeir voru að flýja eða ferðast. Yfirmaður tollsins gaf þeim tvo kosti, þær gætu annaðhvort komið sér til Póllands, verandi með pólska vegabréfsáritun, eða hann myndi senda þær aftur heim til Hvíta-Rússlands. 

Af tveimur slæmum kostum var Pólland betri og því flugu þær þangað með líf sitt í tösku. Þær vissu hins vegar ekki hvert þær ættu að stefna í Póllandi svo Alina ákvað að hafa samband við vin föður síns sem hún vissi að ætti heima í Póllandi. Hann hafði flúið sérsveitir stjórnvalda og var því í felum þar, ásamt því að vinna í lýðræðishreyfingu með öðrum Hvít-Rússum í Póllandi. 

Hann kom þeim fyrir á felustað sínum, í pínulitlu hótelherbergi. Þar sagði hann þeim frá því að hann væri viss um að það væri verið að fylgjast með sér í Póllandi og að hann væri í hættu þar. Þær tóku hann á orðinu enda hafði nýverið verið fjallað um það í fréttum að aðgerðarsinni í lýðræðishreyfingu Hvít-Rússa hefði fundist látinn í Úkraínu, andlátið var samkvæmt óháðum fjölmiðlum látið líta út eins og sjálfsmorð en fólk var farið að gruna að dauðasveitir stjórnvalda, sem faðir Alinu hafði komið upp um, væru komnar á kreik að nýju. 

Þær stoppuðu því aðeins í tvo daga í Póllandi en keyptu sér svo flugmiða til Íslands. „Við urðum bara að komast til Íslands, sama hvernig við færum að því.“

Hvers vegna ekki Pólland?

Alina og vinkona hennar komust loks á leiðarenda í ágúst í fyrra. Þær sóttu strax um hæli við komu sína og fljótlega varð þeim útvegaður talsmaður á vegum Rauða krossins sem átti að leiðbeina og hjálpa þeim að komast í gegnum ferlið að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Í fyrsta viðtalinu sem Alina á við Útlendingastofnun var áhersla lögð á að fá skýringu á því hvers vegna hún vilji ekki fara til Póllands eftir að hún hafði ferðast alla þessa leið  til Íslands.

Samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni svokölluðu ber Pólland ábyrgð á umsókn Alinu um alþjóðlega vernd, eingöngu vegna þess að íslensk stjórnvöld fóru sérstaklega fram á það við þarlend yfirvöld, vegna þess að hún kom hingað á pólskri vegabréfsáritun. Fyrir vikið koma íslensk stjórnvöld sér þannig hjá því að taka efnislega afstöðu til máls Alinu. Nokkuð sem hefur oftsinnis verið harðlega gagnrýnt. 

Hún útskýrði fyrir stofnuninni, með hjálp túlks, að hún hefði ekki átt annarra kosta völ en að fara til Póllands eftir að hafa verið stöðvuð á flugvellinum í Lettlandi. Hana langaði alls ekki til Póllands enda hefði hún verulegar áhyggjur af öryggi sínu þar, verandi langveik og fötluð kona á flótta. En ekki síður verandi hvít-rússnesk og eftirlýst. Hún útskýrði sömuleiðis flóttamannastrauminn við landamæri Hvíta-Rússlands og Póllands, hvernig sérsveitin nýtti sér ferðir þar yfir með flóttamenn til þess að reyna að hafa uppi á óæskilegum löndum hennar sem hefðu flúið land. 

„Við urðum bara að komast til Íslands, sama hvernig við færum að því.“

Talsmaður hennar benti á ástand hælisleitendakerfisins í Póllandi, þar væri ekki aðeins slæmt ástand fyrir flóttamenn heldur lagði hann sérstaka áherslu á hversu erfitt það væri fyrir Alinu að verða sér úti um þá læknisaðstoð sem hún þarfnaðist og þörfin myndi halda áfram að vaxa næstu árin.

Hann biðlaði til þeirra að líta til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og veita á þeirri forsendu undanþágu frá Dyflinnarreglugerðinni. 

Alina hafði óvenju mikið af gögnum sér til halds og trausts sem þýddi enn fremur að hún gat fært betri sönnur á það sem hún var að segja. Hún lagði fram örorkuskírteini frá Hvíta-Rússlandi, sjúkraskrá með greiningu á bæði Crohns og Marfan-heilkennum, nákvæma heilsufarslýsingu með upplýsingum um það hvernig sjúkdómur hennar hefði leikið hjarta- og æðakerfi hennar og staðfestu breytingu á hormónakerfi hennar eftir handtökuna. Auk þess lagði hún fram staðfest faðernis-og fæðingarvottorð og umsókn um nafnabreytingu hennar. Eins líka boðun í yfirheyrslu til saksóknara í Minsk, bréfin sem hún fékk frá yfirkjörstjórninni og saksóknara vegna kosningasvindlsins sem hún varð vitni að og fleira.

„Landssamtökin Þroskahjálp og Blindrafélagið lýsa yfir miklum áhyggjum á því skilningsleysi og áhugaleysi Útlendingastofnunar, sem meðferð hennar á máli Alinu ber með sér“
Umsögn vegna endurupptöku

Enn frekar lagði talsmaður hennar fram gögn um það að flóttamönnum væri ítrekað meinað um vernd í Póllandi og þau send aftur í aðstæður sem þeir flúðu. Hann færði fram gögn um það neyðarástand sem skapast hefur á landamærum Hvíta-Rússlands og Póllands, sem pólska þingið hefur sjálft staðfest sem neyðarástand. 

Að lokum benti hann Útlendingastofnun á, og vísaði í gögn því til stuðnings, að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Póllandi væru oft settir í langt varðhald, að ekki væri skimað fyrir einstaklingum í viðkvæmri stöðu í því ferli og því úrræði væri sérstaklega beitt þegar um væri að ræða endursendingar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eins og í tilfelli Alinu. 

Íslensk stjórnvöld höfnuðu beiðni Alinu um að sérstakt tillit væri tekið til hennar máls vegna fötlunar hennar og því höfnuðu þeir alfarið að taka málið hennar til meðferðar. Talsmaður hennar áfrýjaði ákvörðuninni til kærunefndar útlendingamála sem neitaði Alinu í annað sinn.

Í úrskurðinum er tekið fram að Alinu standi til boða húsnæði, viðeigandi heilbrigðisþjónusta og önnur grunnþjónusta við komuna til Póllands og raunar var það mat Útlendingastofnunar að þeir kvillar sem Alina þjáist af „geti ekki talist skyndilegir eða lífshættulegir og að ekkert bendi til þess að meðferð við þeim sé ekki aðgengileg“ í Póllandi. 

Samtök blindra í Póllandi töldu til dæmis „útilokað að Alina fái þar þá þjónustu sem hún þarf nauðsynlega á að halda og segja að henni væri betur borgið í öllum öðrum löndum en Póllandi.“

Þeir blésu á áhyggjur hennar af því að verða fyrir fordómum og jaðarsetningu vegna fötlunar sinnar og uppruna. Tekið var skýrt fram að í Póllandi væri til staðar lögregla sem væri „skilvirk og áhrifarík“.  Sama eigi við um áhyggjur hennar að verða hneppt í varðhald og þurfa að eiga möguleika á því að endurupplifa „hryllinginn“ sem hún varð fyrir í einangrunarfangelsunum í Minsk.

Stofnunin metur það sem svo að það sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til þess að hún verði hneppt í varðhald við komu hennar til landsins. 

„Stórkostlegar athugasemdir“ við Útlendingastofnun

Alina hefur, þrátt fyrir orð Útlendingastofnunar, töluverðar áhyggjur af því að verða send aftur til Póllands. Að höfðu samráði við hana hefur talsmaður hennar farið fram á endurupptöku á málinu, sérstaklega í ljósi þess að stríð geisar nú í Evrópu og tvær milljónir Úkraínumanna hafa sótt um hæli í Póllandi, sem enn þenji þolmörk þess kerfis sem var í hættu statt fyrir. 

Landssamtök Þroskahjálpar og Blindrafélagið hafa sent inn umsögn vegna endurupptökubeiðnar Alinu og gera samtökin „stórkostlegar athugasemdir“ við meðferð málsins og niðurstöðuna. Samtökin segja hana „augljóslega fatlaða“ í skilningi laga og því eigi undanþáguákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar við í hennar tilfelli.

Alina eigi því að fá að vera á Íslandi þar sem hún getur sótt sér þá heilbrigðisþjónustu sem hún þarf. 

Þá öfluðu bæði samtökin einnig upplýsinga hjá erlendum systursamtökum og sem bentu til þess að fötluðu flóttafólki sé vissulega mismunað á grundvelli í Póllandi, auk þess sem álag á flóttamannakerfið þar sé margfalt meira nú, vegna flóttamannastraums frá Úkraínu. Samtök blindra í Póllandi töldu til dæmis „útilokað að Alina fái þar þá þjónustu sem hún þarf nauðsynlega á að halda og segja að henni væri betur borgið í öllum öðrum löndum en Póllandi.“

„Að mínu mati er of sjaldgæft að það sé raunverulega horft á aðstæður fólks þegar verið er að meta hvort það geti verið ástæða til að taka málið til efnislegrar meðferðar.“
Jón Sigurðsson
talsmaður Alinu fyrir hönd Rauða krossins

Samtökin saka Útlendingastofnun um að hafa ekki gert ítarlegt mat á fötlun hennar og veikindum. „Landssamtökin Þroskahjálp og Blindrafélagið lýsa yfir miklum áhyggjum á því skilningsleysi og áhugaleysi Útlendingastofnunar, sem meðferð hennar á máli Alinu ber með sér, á því að taka það tillit til fötlunar og veikinda umsækjanda um alþjóðlega vernd sem alþjóðlegir mannréttindasamningar, sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist, krefjast.“ 

Von um réttlæti að engu

Alina segist skilja rétt stjórnvalda til að neita henni um vernd og að hún hafi séð fyrstu neitunina fyrir en seinni neitunin hafi hins vegar komið henni meira á óvart og verið sárari reynsla. Hún hafi búist við því að í seinna skiptið yrði ítarlegar farið yfir mál hennar og öll þau gögn sem hún skilaði inn. 

„Ég skil að ég get fengið neitun en þetta var von, von um að draumurinn rættist, von um réttlæti og að mér yrði leyft að vera hér. Ég fékk að vita að hér væri hægt að laga augun mín, að hér gæti ég fengið hjálp, þetta var svo sárt að fá nei,“ segir hún og gerir hlé á máli sínu. „Ég er mjög hrædd um mína heilsu og svo hófst stríðið. Eftir það hugsaði ég, hvert get ég farið? Hvernig get ég farið til Póllands, þar sem nú eru tvær milljónir flóttafólks? Ég er hrædd. Það er hættulegt að senda mig til Póllands,“ segir hún en vill fá að ítreka aftur að hún skilji að ríkisstjórnin geti neitað henni um vernd þar sem hún kom hingað á pólskri vegabréfsáritun. „Ég vona bara að málið mitt verði tekið upp aftur,“ segir Alina að lokum áður en hún stendur upp, tekur dótið sitt saman og gengur út úr húsi og út í óvissuna. 

Löglega má vísa Alinu úr landi

Aðspurður um það hvar mál Alinu standi eins og staðan er núna, segir Jón Sigurðsson, talsmaður Alinu á vegum Rauða krossins, að hún hafi fengið endanlega neikvæða niðurstöðu á stjórnsýslustigi.

Talsmaður AlinuJón Sigurðsson, talsmaður Alinu á vegum Rauða kross Íslands, segir það óásættanlegt að umsækjendur um alþjóðlega vernd finni sig knúna til að opinbera sig í fjölmiðlum til að eiga möguleika á öruggu lífi.

„Sem þýðir það þá að löglega má vísa henni aftur til Póllands. Ég hef hins vegar farið fram á endurupptöku á málinu hennar, meðal annars í ljósi breyttra aðstæðna í Póllandi vegna flóttamannastraumsins frá Úkraínu,“ segir hann.  

„Endurupptökubeiðni frestar engum réttaráhrifum þannig að löglega gæti lögreglan í raun og veru hvenær sem er, að því gefnu að hún fái senda beiðni þess efnis frá Útlendingastofnun, vísað henni úr landi. Það er hins vegar ólíklegt vegna stríðsins í Úkraínu en eftir að það hófst hefur engum verið vísað úr landi. Það er því ólíklegt að henni verði vísað úr landi en ef það yrði gert væri það ekki ólöglegt.“

Jón segir að Útlendingastofnun taki ekki fullnægjandi tillit til „viðkvæmrar stöðu fólks“. „Það er eitthvað sem mætti gera betur hjá bæði Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, að það sé meðal annars horft aðeins öðrum augum á hvað það þýðir fyrir fólk að vera haldið einhverjum alvarlegum heilsukvillum eða fötlun, að það sé raunverulega metið í viðkvæmri stöðu,“ segir hann og bætir við:

„Að mínu mati er of sjaldgæft að það sé raunverulega horft á aðstæður fólks þegar verið er að meta hvort það geti verið ástæða til að taka málið til efnislegrar meðferðar. “

   

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár