Stjórn Knattspyrnusambands Íslands ákvað á fundi sínum nú fyrir stundu að ekkert íslenskt knattspyrnulandslið muni leika við landslið frá Rússlandi á meðan á hernaði Rússa í Úkraínu stendur. Það sama verður látið gilda um landslið Hvíta-Rússlands vegna stuðnings þeirra við innrásina.
Ákvörðunin var tekin á fyrsta fundi nýrrar stjórnar, sem kjörin var um liðna helgi. Ákvörðun um að ekki verðir leikið við Rússa nær meðal annars til þeirra leikja sem framundan eru í Þjóðadeild Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) en til stóð að karlalandsliðið mætti Rússum í júlí. Engu skiptir, segir í yfirlýsingu KSÍ, þó rússneska liðið leiki ekki undir nafni eða fána Rússlands. Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) gaf út að Rússum væri óheimilt að leika á heimavelli, með áhorfendum, undir fána eða nafni Rússlands en að öðru leyti hefur ekki verið tekin ákvörðun um frekari aðgerðir gegn Rússum.
Þá munu íslensk landslið heldur ekki mæta Hvít-Rússum í Hvíta-Rússlandi á meðan á hernaðinum stendur, í ljósi stuðnings Hvíta-Rússlands við hernað Rússa. Nær sú ákvörðun meðal annars til leiks kvennalandsliðsins sem fram átti að fara í Hvíta-Rússlandi í marsmánuði.
Athugasemdir