Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur seinni partinn í dag sveimað yfir strandlengjunni á höfuðborgarsvæðinu vegna leitar í samvinnu við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Leitað hefur verið á Suðurströnd Seltjarnarness, við Kársnes í Kópavogi og nærri Bessastöðum.

Fyrr í dag lýsti lögreglan eftir Sigurði Kort Hafsteinssyni, 65 ára, sem hefur ekki sést síðan á fimmtudagsmorgun. „Hann er 184 sm á hæð, grannvaxinn og með grásprengt hár,“ segir í eftirlýsingu lögreglu. „Sigurður er klæddur í bláar gallabuxur, dökkbláan jakka og með húfu (hugsanlega rauða). Síðast er vitað um ferðir Sigurðar í vesturbæ Kópavogs snemma á fimmtudagsmorgun, 17. febrúar. Þau sem geta gefið upplýsingar um ferðir Sigurðar, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðin um að hafa tafarlaust samband við lögregluna í síma 112.“
Á sama tíma og leitin stendur yfir fer veður versnandi og almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi.
Athugasemdir