Stafrænum kynferðisbrotum fer fjölgandi að sögn Maríu Rúnar Bjarnadóttur, verkefnastjóra gegn stafrænu kynferðisofbeldi hjá Ríkislögreglustjóra, og hvað börn varðar segir hún brotunum ekki aðeins hafa fjölgað heldur hafi orðið „sprenging“ í aukningu. Flestir þolendur slíkra brota eru að sögn hennar konur og stúlkur en í því samhengi segir María augljóst að kvenfyrirlitning, hvort sem hún eigi sér stað á internetinu eða ekki, sé bensínið sem drífi stafrænt kynferðisofbeldi áfram.
Stafræn kynferðisbrot hafa verið ólögleg og því refsiverð frá því í febrúar 2021 þegar Alþingi samþykkti frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, um breytingu á almennum hegningarlögum sem myndi ná yfir brot á kynferðislegri friðhelgi og gera meðal annars dreifingu á kynferðislegum myndum af öðrum án samþykkis refsiverða, hvort sem það væri gert af gáleysi eður ei.
Athugasemdir