Fjórir sóttu um starf fréttastjóra RÚV sem auglýst var laust til umsóknar í janúar. Það eru þeir Heiðar Örn Sigurfinnsson, varafréttastjóri og starfandi fréttastjóri RÚV, Valgeir Örn Ragnarsson, fréttamaður hjá RÚV, Þór Jónsson, sviðsstjóri og fyrrverandi varafréttastjóri NFS, og Þórir Guðmundsson, fyrrverandi ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.
Nafnalistinn var birtur á vef RÚV í dag.
Þetta eru talsvert færri umsóknir en bárust síðast þegar staðan var auglýst árið 2014. Þá sáttu tólf um stöðuna en Rakel Þorbergsdóttir hreppti hnossið. Hún hafði þá starfað um nokkurt skeið sem varafréttastjóri fréttastofunnar. Hún sagði starfi sínu óvænt lausu fyrir áramót eftir rúmlega sjö ár í fréttastjórastólnum.
Auk fréttastjórastarfsins var starf dagskrárstjóra Rásar 2 auglýst. Fimm sóttu um það starf; þau Ágúst Héðinsson verkefnastjóri, Guðmundur Gunnarsson breytingastjóri, Jóna Valborg Árnadóttir sérfræðingur, Matthías Már Magnússon, aðstoðardagskrárstjóri Rásar 2, og Sigurður Ragnarsson, framkvæmdastjóri.
Athugasemdir