Stuðningur ríkissjóðs Íslands við íslenskan landbúnað á síðasta ári nam að minnsta kosti tæpum 30 milljörðum króna, þegar bæði beinir og óbeinir styrkir eru teknir saman. Beinir styrkir úr ríkissjóði til bænda námu 16,3 milljörðum króna en óbeinn stuðningur, markaðsstuðningur sem skapast með hærra vöruverði til neytenda vegna tollverndar og innflutningstakmarkana, nam 12,8 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í nýlega birtu svari Þórólfs Matthíassonar hagfræðiprófessors á Vísindavefnum. Svarið byggir á styrkjagreiningarkerfi OECD um jafngildisvirði framleiðendastyrkja. Niðurstaða útreikninganna sýna að framleiðendastyrkir nemi 57 prósentum af heildarverðmæti innlendrar landbúnaðarframleiðslu.
Í svari Þórólfs má sjá að dregið hefur úr heildarverðmæti innlendrar landbúnaðarframleiðslu frá árinu 1986, sem er upphafspunktur upplýsinganna sem birtar eru, um tæpa 22 milljarða króna á verðlagi ársins 2020, eða um 40 prósent. Þá hefur markaðsstuðningur dregist saman um 70 prósent á sama tímabili en beinir styrkir hafa lækkað um 20 prósent. Heildarstuðningur við innlendan landbúnað fór lækkandi til ársins 2010, frá árinu 1986, en hefur hækkað frá árinu 2010.
Sem fyrr segir má slá því föstu að styrkir til bænda hafi á síðasta ári numið 29,1 milljarði króna. Þórólfur nefnir hins vegar að þar með sé öll sagan ekki sögð. Reikniaðferðir OECD taki aðeins til ákveðinna þátta, það er þess sem tengist hverju býli fyrir sig. Auk innflutningstakmarkana sem skapi markaðsstyrkina búi úrvinnslugreinar landbúnaðar við undanþágur frá samkeppnislögum, sem geri þeim kleift að stunda sín viðskipti með hætti sem aðilar í samkeppnisrekstri hafi ekki tök á. Vísbendingar séu um að slíkir viðskiptahættir þrýsti upp verði á framleiðslu afurðastöðva í landbúnaði.
Þá sé ekki tekið tillit til þess að bændur hafi gjaldfrjálsan aðgang að afréttum, sem þeir hafi nýtt með ósjálfbærum hætti. „Líklega ber því að líta á þá niðurstöðu að íslenskur landbúnaður fái tæplega 30 milljarða meðgjöf frá skattgreiðendum og neytendum sem lægri mörk hins raunverulega stuðnings.“
Athugasemdir