„Jafnvægi er fyrsta orðið sem mér dettur í hug,“ er svar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við því hvað hamingjan sé fyrir henni. „Næsta orð er sátt. Þannig að ég held að hamingjan snúist mjög mikið um að finna þetta jafnvægi í lífinu milli veruleika og væntinga og vera æðrulaus í því að sætta sig við það sem maður getur ekki breytt. Og þriðja orðið sem kemur upp í hugann er þakklæti; að vera þakklátur fyrir allt það sem manni hlotnast í lífinu.“
Katrín segir að þegar kemur að því að auka og viðhalda hamingjunni í lífinu sé að vera alltaf tilbúinn að segja já við nýjum hlutum og nýju fólki; leyfa sér að fara í ný verkefni og gera eitthvað sem maður hefur ekki gert áður og kynnast nýju fólki. „Þetta er hæfileiki sem maður þarf að leggja á sig að viðhalda því þetta er eitthvað sem maður er kannski tilbúnari að gera þegar maður er ungur heldur en þegar maður eldist. Ég held að ef maður er tilbúinn til að segja já í lífinu geti það gefið manni mikið. Húmor og hamingja eru líka nátengd í huga mínum; að hafa húmor fyrir því sem gerist og missa ekki gleðina þótt ýmislegt gangi á.“
Húmorinn sáluhjálp
Katrín gegnir ábyrgðarfullu starfi sem forsætisráðherra Íslands en hún leyfir gleðinni og húmornum oft að skína í gegn.
„Maður er líka bara manneskja en ekki bara eitthvert embætti. Embættið getur farið og komið, en maður er alltaf maður sjálfur. Mér finnst vera mikilvægt að hætta ekki að hlæja. Það er í raun og veru auðvelt að missa húmorinn og hætta að gera grín og hafa gaman af hlutunum. Það er svolítið mín sáluhjálp. Þegar það eru mjög erfiðir tímar þá er skjótvirkasta leiðin til að finna gleðina aftur að horfa á kvikmynd eins og til dæmis Naked Gun og hlæja svolítið og þá lítur allt einhvern veginn betur út. Það er erfið staða ef maður hættir að geta hlegið.“
Katrín reynir stundum að grínast á ríkisstjórnarfundum. „Ég held ég sé rosalega fyndin,“ segir hún og hlær. „Ég ímynda mér það. Það er er líka mikilvægt þegar þungt er fyrir fæti og mikil verkefni að geta stundum aðeins stigið eitt skref til baka og hlegið. Annars getur þetta lagst allt of þungt á mann. Við segjum brandara á ríkisstjórnarfundum og stundum hlær fólk og stundum ekki. Það er mjög mismunandi.“
„Ég er þannig uppspretta gleði margra af því að ég er alltaf einhvern veginn á hausnum“
Katrín er spurð um uppáhaldsbrandarann. „Ég kann enga brandara og segi aldrei neina brandara. Ég kann bara að bulla. Ég held að mín leið sé svolítið að hafa húmor fyrir því sem gerist og geta sagt sögur; séð það spaugilega í lífinu og sagt sögur af því sem gerist. Það er mitt uppáhald í mjög góðra vina hópi að taka leikþætti; leika samtöl sem ég á stundum og lýsa hvernig þetta er. Mér finnst afskaplega gaman af húmornum í lífinu.
Svo er ég hrikalega seinheppin en ég er týpan sem dett um sjálfa mig, opna bílhurðina þannig að hún skellist á hausinn á mér, festist í snúningshurðum og allt þetta. Ég er þannig uppspretta gleði margra af því að ég er alltaf einhvern veginn á hausnum og þá þarf maður líka að temja sér húmor fyrir sjálfum sér.“
Góð samskipti mikilvæg
Hamingjan er ekki allra, en þegar fólk týnir hamingjunni ráðleggur Katrín því að fylgja daglegum venjum. „Leitin að hamingjunni er flókin og það er erfitt að meta aðstæður hvers og eins. En til að ná þessu dýrmæta jafnvægi er mikilvægt að huga að þessum daglegu venjum. Fá góðan nætursvefn, hreyfa sig reglulega og sjá gleðina í litlu hlutunum.“
Heimsfaraldurinn hefur reynt á andlega líðan margra og nefnir Katrín sérstaklega þá sem búa einir og eiga ekki nákomna aðstandendur eða vini, en hún telur að faraldurinn hafi þung áhrif á þá.
„Það er gott að vita að von er á bóluefni og maður fyllist bjartsýni vegna þess að þetta ástand er búið að vera erfitt. Ég held að það veiti manni styrk inn í næstu vikur. Við munum flest hitta færri um þessi jól en við erum vön og við verðum að muna að það er ljós við enda ganganna og það eru allar líkur til þess að þessi ótrúlega vinna vísindamanna sé að skila því að við séum að hafa betur í baráttunni við veiruna. Við höfum verið í annars konar samskiptum við fólk en við erum vön og auðvitað hefur tæknin hjálpað okkur mikið í því en ég veit að það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir faðmlag og að vera með fólki. Niðurstöður rannsóknar á hamingjunni sem gerð var í Harvard á sínum tíma sýna fram á hvað það skiptir miklu máli að eiga fjölskyldu og nána vini. Gleymum því ekki að maður er manns gaman og samskipti við fólk eru ákveðinn lykill að hamingjunni.“
Athugasemdir