Hagsmunasamtök atvinnurekenda standa nú í áróðursherferð gegn hækkun atvinnuleysisbóta með pistlaskrifum og kostuðum auglýsingum á samfélagsmiðlum.
Herferðin er fjármögnuð með félagsgjöldum fyrirtækjanna sem tilheyra Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráðs, en mörg hver hafa undanfarnar vikur fengið beina styrki úr ríkissjóði fyrir að reka starfsfólk.
Slíkur stuðningur er veittur á grundvelli laga sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, stóð að um stuðning úr ríkissjóði vegna launakostnaðar í uppsagnarfresti.
Ráðherrann gefur lítið fyrir gagnrýni þess efnis að með því að borga fyrirtækjaeigendum peninga fyrir að reka fólk sé skapaður hvati til uppsagna og atvinnuleysis en hefur, líkt og talsmenn atvinnurekenda, meiri áhyggjur af óæskilegum hvötum og „bjögun“ vegna atvinnuleysisbóta.
Í Kastljósi þann 19. ágúst fylgdi hann línu SA og VÍ, lagðist gegn hækkun bótanna og rökstuddi á þann veg að hann hefði spjallað við ýmsa atvinnurekendur sem kvörtuðu undan því að erfitt væri að fá fólk til að gegna láglaunastörfum því atvinnuleysisbætur á Íslandi væru ekki nógu lágar.
Áherslur fjármálaráðherra og málflutningur hagsmunavarðanna endurspeglar athyglisverða sýn á efnahags-, atvinnu- og velferðarmál. Um leið og skrúfað er frá ríkiskrananum til að að verja hlutafé fyrirtækjaeigenda er kallað eftir því að félagslega kerfinu sé beitt sem svipu á fólkið sem missir vinnuna.
Meðan fjármálaráðherra vitnar til samtala við ónefnda fyrirtækjarekendur vísa talsmenn atvinnurekenda til hagfræðirannsókna og gefa í skyn að andstaðan við hækkun atvinnuleysisbóta sé allt að því vísindaleg niðurstaða. Við þetta er rétt að gera nokkrar athugasemdir.
Engin einhlít fræðileg niðurstaða
Í fyrsta lagi ríkir enginn einhugur meðal fræðimanna um áhrif atvinnuleysisbóta á atvinnuleysisþróun, til dæmis hvort og hvenær áhrifin á vinnuvilja fólks séu merkjanleg og við hvaða kringumstæður kostnaðurinn af slíku vegi þyngra en ýmis jákvæð áhrif af hækkun bóta.
Margir hafa leitt rök að því að háar bótafjárhæðir, veittar yfir langt tímabil, geti kynt undir atvinnuleysi (sjá t.d. Nickell et. al. 2001; Nunziata, 2002; Lalive, 2007; Messacar, 2014), en eins er til fjöldinn allur af rannsóknum sem benda til þess að áhrifin séu hverfandi og blikni í samanburði við aðra þætti (Baccaro & Rei 2007; Baker et al. 2005; Howell & Rehm, 2009), jafnvel að neikvætt samband geti verið milli atvinnuleysisbóta og atvinnuleysis (Belot & van Ours, 2004). Margsinnis hefur verið sýnt fram á samfélagslegan og efnahagslegan ávinning af því að atvinnuleysisbætur séu nógu háar til að atvinnuleitendur geti lifað með reisn og hafi svigrúm til að finna sér starf sem hæfir menntun þeirra, bakgrunni og reynslu (sjá Acemoglu & Shimer, 2000; Gangl, 2006).
Hver sá sem lætur eins og til sé einhlítt vísindalegt svar við spurningunni um áhrif hækkunar atvinnuleysisbóta á atvinnuleysi er ekki að segja satt. Þeir sem standa fastir á því að háar atvinnuleysisbætur valdi miklu og langvarandi atvinnuleysi verða líka að útskýra hvernig stendur á því að þau ríki sem búa við mesta atvinnuþátttöku eru yfirleitt þau sömu og viðhalda sterkustu og örlátustu atvinnuleysistryggingakerfum heims.
Annað sem er mikilvægt að hafa í huga er samspil atvinnuleysistrygginga og mismunandi stofnanaumhverfis vinnumarkaðar. Í nýlegri rannsókn á atvinnuleysisþróun í 20 Evrópuríkjum koma til að mynda fram vísbendingar um að í þjóðfélögum þar sem víðtæk stéttarfélagsaðild fer saman við miðlæga kjarasamningsgerð eins og á Íslandi séu háar atvinnuleysisbætur síður til þess fallnar að ýta undir atvinnuleysi (Biegert, 2017).
Þá bendir ýmislegt til þess að „bjögunar“-áhrif atvinnuleysisbóta séu minni þegar atvinnuleysi er mikið heldur en þegar það er lítið (Kroft & Notowidigdo, 2011). Krueger og Meyer (2002) halda því fram að skynsamlegra sé að hækka atvinnuleysisbætur þegar það er slaki í hagkerfinu heldur en á góðæristímum. Andersen (2014) leggur til að bæturnar verði beinlínis bundnar við hagsveifluna, þannig að bótafjárhæðir hækki þegar atvinnuleysi eykst og öfugt.
Berum okkur saman við önnur velferðarþjóðfélög
Talsmenn atvinnurekenda hengja sig í að Ísland komi vel út í OECD-samanburði á atvinnuleysisbótum. En samanburður við nýmarkaðsríki í Suður-Ameríku og engilsaxnesk lönd með veik velferðarkerfi þjónar ósköp takmörkuðum tilgangi. Það væri auðvitað saga til næsta bæjar ef auðugt en fámennt velferðarþjóðfélag eins og Ísland, þar sem skattar eru háir, verkalýðshreyfingin sterk og samneysla mikil, væri fyrir neðan OECD-meðaltalið þegar kemur að atvinnuleysisbótum. Þótt einstaka hagsmunaverðir atvinnurekenda súpi ef til vill hveljur yfir því, þá ríkir einfaldlega víðtæk samstaða um það á Íslandi að viðhalda sterku öryggisneti fyrir fólk sem missir vinnuna. Í stað þess að einblína á OECD-meðaltöl er miklu nærtækara að skoða stöðu atvinnuleitenda í samanburði við önnur velferðarríki og háskattalönd í Evrópu þar sem stofnanaumhverfið er líkara hinu íslenska.
Hér að ofan má sjá samanburð á kjörum nokkurra hópa atvinnulausra í Austurríki, Belgíu, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Íslandi og Svíþjóð auk OECD-meðaltals. Ísland stendur misvel eftir því til hvaða hópa er litið og hve lengi þeir hafa verið án vinnu: Við erum hvorki sérstakur eftirbátur nágrannalandanna að því er varðar stuðning við atvinnulausa né stöndum við þeim framar.
Yrði atvinnuleysi meira og langvinnara ef grunnatvinnuleysisbætur væru hækkaðar svolítið, ýtt nær lágmarkslaunum og tekjuhlutföllunum í Belgíu, Danmörku og Noregi? Ef til vill verða sumir lengur á atvinnuleysisbótum en þeir ellegar væru. Einhverjir munu geta neitað sér um að taka við starfi sem samrýmist illa menntun og fyrri starfsreynslu en fá starf nokkrum vikum eða mánuðum seinna þar sem kraftar þeirra nýtast betur. Aðrir fá ráðrúm til að sækja sér endurmenntun eða starfsþjálfun sem nýtist á nýjum vettvangi. Fyrir sumar fjölskyldur geta nokkrir þúsundkallar skorið úr um hvort þeim takist að standa við skuldbindingar sínar og láta enda ná saman um mánaðamót. Hærri atvinnuleysisbætur spara þessu fólki þjáningar, svo einfalt er það.
Gleymum því heldur ekki að peningarnir sem er varið í hærri atvinnuleysisbætur renna ekki ofan í eitthvert svarthol heldur er fleytt áfram út í hagkerfið og skila sér í aukinni eftirspurn eftir vörum og þjónustu, meðal annars auknum viðskiptum við fyrirtækin sem þurfa að búa við að Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð noti félagsgjöldin þeirra í að reka áróður gegn hækkun atvinnuleysisbóta, gegn hóflegum lífskjarabótum fyrir þá hópa íslensks samfélags sem koma verst út úr kórónukreppunni.
Sýnum mannúð og samstöðu
Á endanum snúast þessi mál ekki um hagfræðirannsóknir og vinnumarkaðslíkön. Þetta er ekki spurning um eitthvað reikningsdæmi heldur um hvaða gildi við viljum hafa í hávegum, hvernig framtíð við sjáum fyrir okkur á Íslandi og hvernig við komum fram við fólk sem verður fyrir því áfalli að missa vinnuna.
Af málflutningi fjármálaráðherra og talsmanna atvinnurekenda má ráða að þau vilji beita félagslega kerfinu sem ögunartæki til að knýja fólk til að taka hvaða vinnu sem býðst. Þetta gengur í berhögg við þær leiðir sem best hafa reynst í Evrópu til að skapa atvinnu og verja um leið jöfnuð og félagslegt réttlæti.
Eftir síðasta hrun var ráðist í virkar vinnumarkaðsaðgerðir að norrænni fyrirmynd, átaksverkefni gegn atvinnuleysi sem fólu í sér að þúsundum atvinnuleitenda var boðið upp á virkniúrræði af ýmsum toga, ungu fólki var hjálpað af bótum í nám og fyrirtækjum veittir hvatar til að ráða fólk inn af atvinnuleysisskrá. Þetta og fleira, til að mynda veik króna sem studdi við útflutningsgreinarnar, varð til þess að örfáum árum eftir bankahrun gat Ísland státað af einhverju lægsta atvinnuleysi á Vesturlöndum.
Kórónukreppan er annars eðlis en sú síðasta og mun kalla á enn umfangsmeiri aðgerðir til að hjálpa atvinnuleitendum að fóta sig og sporna gegn langtímaatvinnuleysi. Þá þarf að leita leiða til að skapa ný störf og ný tækifæri, liðka fyrir tilfærslu fjármagns og vinnuafls milli atvinnugreina með eins sársaukalitlum hætti og unnt er. Til að svo megi verða þarf að halda uppi eftirspurnarstigi og aftra því að tekjufall heimila hafi dómínóáhrif á efnahagslega starfsemi í landinu.
Ríkisstjórnin brást seint og illa við efnahagslegum afleiðingum kórónuveirunnar í samanburði við nágrannalöndin, en í orðum og viðmóti ráðherranna mátti þó alltaf greina skilning á því að þörf væri á verulegum örvunaraðgerðum til að styðja við innlenda eftirspurn. Bjarni Benediktsson sagðist frekar vilja gera meira en minna; tilkostnaðurinn af því að gera of mikið yrði alltaf minni en tjónið af því að gera of lítið.
Fyrir liggur að einungis hluti af þeim aðgerðum sem kynntar voru á blaðamannafundum í mars og apríl hafa raunverulega skilað sér út í hagkerfið. Rúmum milljarði hefur verið veitt í brúarlán þótt gert hafi verið ráð fyrir 80 milljarða útlánasvigrúmi og markaðsátak í þágu ferðaþjónustunnar fór fyrir lítið þegar hert var á sóttvörnum við landamærin.
Nú er hlutabótaleiðin að renna sitt skeið. Æ fleiri fara af uppsagnafresti yfir á atvinnuleysisbætur og af tekjutengdum bótum yfir á strípaðar og áhrifin af þegar fram komnum aðgerðum stjórnvalda taka brátt að dvína. Það er erfiður vetur framundan og við blasir að ríkið þarf að stíga inn af miklu meiri krafti.
Í kreppu sem bitnar langsamlega verst á afmörkuðum hópi, þeim sem missa vinnuna, er sanngjarnt og eðlilegt að auka stuðning við þann hóp, hækka grunnatvinnuleysisbætur og lengja tímabil tekjutengingar samhliða því að setja aukinn kraft í átaksverkefni í þágu atvinnuleitenda.
Fátt ef nokkuð bendir til þess að hófleg hækkun bóta muni hafa merkjanleg áhrif á umfang atvinnuleysis. Hitt er morgunljóst að slík hækkun dregur úr sársauka og neyð og vinnur gegn ójafnaðaráhrifum kreppunnar.
Athugasemdir