Það var pakkaður salur í Columbia University í mars síðastliðnum þegar finnski forsætisráðherrann, Sanna Marin, hélt fyrirlestur sem hluta af opinberri heimsókn sinni til Bandaríkjanna. Stærsta dagblað Finnlands, Helsing Sanomat, sagði frá því að margir stúdentar hefðu í kjölfarið óskað eftir því að fá mynd af sér með forsætisráðherranum þar sem hún væri andstæðan við Donald Trump Bandaríkjaforseta. Af því að hún er kona. Af því að hún er ung kona í valdastöðu. Viðstöddum fannst Sanna Marin vera að lýsa útópíu þegar hún sagði frá heimalandi sínu.
Ég hef margsinnis rekist á þetta orð eftir að hún varð forsætisráðherra: Útópía. Erlendir blaðamenn spyrja mig hvort Finnland sé paradís fyrir konur. Mörgum bregður við að heyra að forsætisráðherrann sé 34 ára gömul kona. Fyrir Finnum gæti hins vegar ekkert verið eðlilegra. Það voru engin mistök sem leiddu til þess að við fengum yngsta kvenkyns forsætisráðherra heims. Það var ekki tilviljun. Þetta er hluti af þróun sem hefur átt sér stað í landi með langa sögu jafnréttisbaráttu.
Ég er aðeins eldri en Sanna Marin og þegar ég fæddist var tilfinnanlegur skortur á konum í finnskum stjórnmálum. Á æskuárum mínum var Urho Kekkonen forseti og ég gat ekki ímyndað mér nokkurn annan í embættinu, enda hafði hann gegnt því lengst allra. Hann var holdgervingur varanlegs stöðugleika. Ég man hvað mér brá þegar hann lét af embætti og einhver annar karl var kosinn forseti í hans stað. Þá lærði ég hvernig lýðræðið virkaði og að maður kæmi í manns stað. Fyrir mig sem barn var þetta byltingarkennd hugmynd. En ef einhver hefði spurt mig hvort kona ætti möguleika á að verða forseti í framtíðinni hefði ég sennilega sagt nei. Jafnvel eftir að ég varð aðeins eldri hefði ég ekki getað séð það fyrir mér. Það var ekki hluti af reynsluheimi mínum.
Ég vissi þó snemma að finnskar konur voru með þeim fyrstu í heiminum til að öðlast full pólitísk réttindi. Þegar ég ólst upp var pólitískt vald í höndum sköllóttra miðaldra karla í jakkafötum og þátttaka kvenna í stjórnmálum var takmörkuð af félagslegum þrýstingi, en hvert skólabarn lærði þó að árið 1906 fengu finnskar konur bæði atkvæðisrétt og kjörgengi í kosningum. Þetta var mikilvægt: Fyrst við gátum eitt sinn verið í fararbroddi á heimsvísu hvað varðar jafnrétti kynjanna, af hverju ekki aftur?
Fyrst við gátum eitt sinn verið í fararbroddi á heimsvísu hvað varðar jafnrétti kynjanna, af hverju ekki aftur?
Áður en kona gat risið til æðstu metorða sem leiðtogi þurfti að plægja jarðveginn og venja fólk við að sjá konur gegna mikilvægum embættum til lengri tíma og á öllum samfélagsstigum. Það tókst, þökk sé ótal konum sem hafa sannað sig sem þingmenn, ráðherrar og fulltrúar á sveitarstjórnarstigum.
Hver ein og einasta þessara kvenna hjálpaði almenningi að venjast því að konur fari með vald. Hver ein og einasta þessara kvenna lagði sitt af mörkum til að gera konur sjálfsagðan hluta af stjórnmálaumræðunni. Hver ein og einasta þessara kvenna tók þátt í að breyta norminu.
Einn þessara frumkvöðla var Miina Sillanpää, sem varð fyrst kvenna til að gegna ráðherraembætti þegar hún var skipuð félagsmálaráðherra árið 1926. Margar aðrar konur áttu eftir að gegna sama embætti þar sem það var helst á sviði heimilisins, barna og menntamála sem konum var treyst fyrir ábyrgð og margir áttu auðveldara með að sjá þær fyrir sér í því hlutverki en öðrum innan ríkisstjórnarinnar.
Þessi „léttu“ mál áttu þó eftir að vega þyngra en flesta grunaði þar sem konur fengu með þessum hætti að hafa aukin áhrif á menntun nýrra kynslóða og innleiða aukið jafnrétti í menntamálum. Stúlkur fengu menntun. Öllum börnum var gefinn réttur á menntun á kostnað ríkisins og án þess hefði verið mun erfiðara fyrir konur að komast í áhrifastöður seinna meir.
Þökk sé árangri fyrri kynslóða fór konum að fjölga í finnskum stjórnmálum á tíunda áratug síðustu aldar og þá fóru hjólin virkilega að snúast. Elisabeth Rehn braut mikilvægt glerþak þegar hún varð fyrst kvenna til að gegna embætti varnarmálaráðherra Finnlands. Varð skipan hennar kveikjan að heitum umræðum um hvort kona, sem aldrei hefði gegnt herþjónustu, gæti valdið slíku embætti. Hvað gæti kona mögulega vitað um stríð og hergögn? Stöðugt var gert lítið úr Rehn og margir bjuggust við að henni myndi mistakast.
Annað átti þó eftir að koma á daginn; Rehn undirritaði meðal annars stærsta vopnasölusamning í sögu Finnlands og hafði mikil áhrif á utanríkisstefnu landsins. Hún stóð sig með slíkum eindæmum vel að í dag líta margir innan hersins á hana sem einn besta varnarmálaráðherra síðari tíma. Á tíma Rehn í embætti var gerð sú stóra breyting á lögum að gefa konum kost á að gegna herþjónustu sem sjálfboðaliðar þó að herskylda næði eftir sem áður aðeins til karlmanna. Þetta var ótrúlegt, vinsældir Rehn voru þvert á allar flokkslínur og naut hún mikilla vinsælda meðal allra kynja. Það kom ekki á óvart þegar hún gaf kost á sér í forsetakosningum árið 1994 og það virtist sem Finnar gætu verið tilbúnir til að kjósa konu sem þjóðhöfðingja.
Sá tími reyndist þó ekki alveg runninn upp. Rehn tapaði fyrir Martti Ahtisaari í kosningunum en það munaði ekki miklu. Ég man eftir einum fréttaskýranda sem útskýrði ósigurinn með því að hún hefði verið með rangan varalit. Hann vildi meina að þó að bleikur færi vel við gráa hárið væri það ekki forsetalegur litur.
Sá andlegi undirbúningur sem átti sér stað í kringum framboð Elisabethar Rehn undirbjó jarðveginn fyrir næstu konu sem gaf kost á sér í embætti forseta, sem var Tarja Halonen. Kosningaþátttaka kvenna var að aukast og varð meiri en þátttaka karlmanna í þeim kosningum sem hún bauð sig fram. Líkt og Rehn hafði Halonen getið sér gott orð á ráðherrastól en hún var fyrsta konan sem gegndi embætti utanríkisráðherra. Að sjá konur í þessum áberandi valdastöðum sýndi finnskum almenningi að þær gætu verið glæsilegir fulltrúar þjóðarinnar út á við og staðið sig frámunalega vel í erfiðum verkefnum á alþjóðavettvangi. Enginn hló að okkur, sem hefur alltaf skipt Finna miklu máli.
Árið 2000 kaus ég í fyrsta sinn í forsetakosningum og líkt og margir í minni stöðu kaus ég konu. Minni kynslóð kvenna fannst mikilvægt að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum af öllu kappi og margir karlmenn á mínum aldri voru sammála. Tarja Halonen varð því fyrsta konan til að gegna embætti forseta Finnlands.
Kosningasigurinn kostaði þó sitt. Í kosningabaráttunni átti sér stað raunveruleg umræða um hvernig ætti að titla Pentti Arajärvi, tilvonandi eiginmann hennar, þar sem ekki væri hægt að kalla hann forsetafrú. Og hvað ætti hann líka að gera af sér á meðan hún væri í vinnunni alla daga? Myndi hann vera eini karlmaðurinn í hádegisverðarboðum með eiginkonum annarra þjóðarleiðtoga? Halonen var í sífellu spurð hvort hún væri að vanrækja fjölskyldu sína, þrátt fyrir að dóttir hennar væri uppkomin. Aðrir lýstu áhyggjum af því að hún þyldi ekki álagið sem fylgdi kosningabaráttunni en enginn hafði sömu áhyggjur af úthaldi karlkyns mótframbjóðanda hennar. Þrátt fyrir sigur Halonen virtist sem Finnar væru kannski ekki alveg tilbúnir fyrir kvenforseta eftir allt saman.
Þegar hún var seinna spurð hvernig tilfinning það hafi verið að vera fyrsta konan í embætti forseta sagði Halonen það hafa verið bæði spennandi og óþægilegt. „Þegar maður er fyrstur til einhvers fylgir því alltaf ákveðin óvissa,“ sagði hún. „Eðli málsins samkvæmt eru allir alltaf að leita í gamlar hefðir.“
Sífellt var verið að reyna að setja Halonen í gömul mót sem ekki pössuðu; ýmist með því að líkja henni við karlmann eða forsetafrú. Fólk hafði engar hefðir eða orðaforða til að tala um kvenkyns forseta og því varð þetta svona klúðurslegt. Þessi vandræði komust í hámæli eftir fyrstu opinberu heimsókn hennar til Svíþjóðar þar sem tekið var eftir áberandi tösku sem hún gekk með sem varð til þess að sænskir fjölmiðlar uppnefndu hana Múmínmömmu. Það varð skandall í Finnlandi þar sem margir voru miður sín vegna málsins.
Halonen var fær lögfræðingur með langan feril að baki en núna var öllum sama um sérfræðikunnáttu hennar. Þess í stað var einblínt á handtöskuna sem var sögð vera af rangri stærð og kvennablöðin birtu greinar um hvort forsetinn væri að fá slæma ráðgjöf frá stílistum. Fljótlega lærði hún að hætta alfarið að láta sjá sig með töskur á almannafæri en nafnið Múmínmamma vildi samt loða við hana. Í dag sést Sanna Marin forsætiráðherra nánast aldrei með handtösku. Er það tilviljun? Ég held ekki.
Þrátt fyrir að konur í stjórnmálum verði fyrir stöðugum kynjuðum fréttaflutningi er enginn skortur á valdamiklum kvenkyns fyrirmyndum í dag. Eftir að Halonen varð forseti vita allar finnskar stelpur að þær geta það líka. Sanna Marin er þriðja konan til að gegna embætti forsætisráðherra Finnlands. Forverar hennar, Anneli Jäätteenmäki og Mari Kiviniemi, sátu báðar frekar stutt í embætti en báðar lögðu þó sitt af mörkum – ekki síst vegna mikilvægi þess að „nomalísera“ kvenkyns forsætisráðherra.
Eftir að Halonen varð forseti vita allar finnskar stelpur að þær geta það líka
Þrátt fyrir það byrjaði slúðurpressan strax að fjalla um fataval og vaxtarlag Mari Kiviniemi eftir að hún tók við embætti árið 2010. Pippu Middleton-áhrifin komu strax fram og náðu svo langt að framkvæmdastjóri stórfyrirtækis hafði opinberlega uppi klámfengið orðalag um líkama hennar. Í þetta sinn risu hins vegar margar konur upp til að benda á hversu óviðeigandi það væri að einblína á vaxtarlag forsætisráðherra frekar en embættisverk.
Útlit kvenna í stjórnmálum getur skipt sköpum fyrir feril þeirra, ólíkt því sem gerist með karlmenn, og því þurfum við að ræða það. Þegar Jutta Urpilainen, fyrrverandi formaður Sósíaldemókrata, beið lægri hlut fyrir Antti Rinne í leiðtogakjöri flokksins á sínum tíma gaf hún honum þessi ráð: „Láttu ekki mynda þig í netsokkabuxum!“ Hún var ekki að grínast, ferill hennar beið þess aldrei bætur eftir að fjölmiðlar birtu myndir af henni þar sem hún sat fyrir í netsokkabuxum fyrir ljósmyndara dagblaðs. Ef þær myndir hefðu aldrei verið teknar hefði hún allt eins getað orðið forsætisráðherra fyrst kvenna, í stað Rinne.
Sanna Marin hefur aldrei rætt opinberlega um fyrirmyndir sínar í stjórnmálum en ímynd hennar og Instagram-reikningur undirstrika að hún hefur dregið lærdóm af því áreiti sem aðrar stjórnmálakonur hafa orðið fyrir vegna útlitsins. Hún situr fyrir á myndum eins og hún sé Elísabet drottning eða Kekkonen forseti, sem eru ágætar fyrirmyndir ef hugsað er til þaulsetu beggja í embætti.
Þegar hún rifjaði upp hvernig sér var fyrst tekið á vettvangi stjórnmála sagði Tara Halonen: „Ég var uppnefnd sem ljótur, lesbískur kommúnisti, einstæð móðir og svo framvegis en það var bara byrjunin. Fólk sakaði mig um að vera hvorki góð né heiðarleg manneskja.“
Þrátt fyrir að meira en 60% kjósenda segist í könnunum ánægðir með störf forsætisráðherrans og ríkisstjórnar hennar, sem er skipuð fleiri konum en körlum, þarf hún að sitja undir stöðugum ummælum á samfélagsmiðlum um að vinsældir hennar á heimsvísu séu aðeins vegna útlitsins. Meira að segja í Finnlandi er alltaf reynt að finna að útliti kvenna í stjórnmálum: Þær eru of fallegar, of ljótar, of feitar, of mjóar, of eitthvað og ekki nóg af einhverju öðru. Konur í valdastöðum geta aldrei litið rétt út og ólíkt karlmönnum þurfa þær að læra að brosa á hárréttan hátt fyrir myndavélarnar. Reyndu bara að tala um eitthvað eins alvarlegt og COVID-19 faraldurinn með bros á vör en vera samt tekin alvarlega – þann þrönga stíg þurfa konur að læra að feta.
Við skulum heldur ekki gleyma hatursorðræðunni sem fer vaxandi í þessari „kvennaparadís“ okkar. Hatursorðræðu sem beinist sérstaklega gegn konum, sérstaklega í kringum kosningar, og byggist á útliti og jafnvel hótunum um kynferðislegt ofbeldi. Þessi orðræða hefur áhrif á þátttöku kvenna í stjórnmálum og ógnar því lýðræðinu ekki síður en jafnrétti. Við vitum að konur eru enn í minnihluta þegar kemur að ákvarðanatöku í Finnlandi.
Þar fór „útópían“. En sama hversu ógeðfelld umræðan um konur í stjórnmálum kann að hafa verið er hún um leið mikilvæg og afhjúpandi fyrir það kvenhatur sem konur í valdastöðum þurfa að mæta. Eina leiðin til að berjast gegn slíku er að horfast í augu við tilvist þess. Sá árangur sem við höfum náð kann að hafa komið hægt og bítandi en með hverju skrefinu færðumst við nær núverandi ríkisstjórn með tólf kvenkyns ráðherra. Sá vegur sem við höfum ferðast var stráður typpamyndum og dauðahótunum, en það er vegur sem hægt er að feta hvar sem er í heiminum.
Athugasemdir