Á horni gatnanna Asklipiou og Isavron í hverfinu Exarchia í miðborg Aþenu stendur tveggja hæða hús í nýklassískum stíl. Það lætur ekki mikið fyrir sér fara enda töluvert lágreistara en byggingarnar í kring – hvítt með rauðu hellulögðu húsþaki og gömlum hlerum fyrir gluggum. Á undanförnum árum hafa alþjóðlegir myndlistarmenn átt hérna athvarf fyrir verkefni sín og hugðarefni. Það iðar allt af lífi þegar best lætur og bakgarðurinn fyllist af fólki víðsvegar að úr heiminum, sem er komið til að virða fyrir sér nýjustu myndlistarsýninguna þá og þá stundina. Umræðuefnið eftilvill nýjasti skúlptúrinn, gjörningalistaverkið sem var að klárast, eða bara sú spennandi og skapandi orka sem er á sveimi í Aþenu.
Húsið var reist fyrir um 130 árum síðan, árið 1890, og hefur þjónað ýmsum og ólíkum tilgangi síðan þá. Síðast var þarna kínverskur veitingastaður til húsa eða allt til ársins 2010 þegar efnahagskerfi Grikklands riðaði til falls. Eigendur staðarins yfirgáfu húsið í flýti án þess einu sinni að greiða vangoldna reikninga og það stóð autt og yfirgefið árin á eftir. Þrátt fyrir að húsið væri friðað þá höfðu húseigendur hreinlega ekki efni á að halda því við, svo það drabbaðist niður með tímanum. Hefði hópur alþjóðlegra listakvenna ekki tekið sig til og komið þar á fót sérstöku verkefnarými, væri það eflaust ennþá í algjörri niðurníðslu.
Íslenska myndlistarkonan Eva Ísleifsdóttir er ein þeirra fjögurra listakvenna sem standa að listahópnum A-Dash, sem hefur rekið listarýmið og residensíu í umræddu húsi síðastliðin ár. Verkefnið má rekja aftur vinnustofudvalar Evu í Aþenu í upphafi árs 2015, þar sem hún kynntist svissnesku listakonunni Noemi Niederhauser. Þær náðu mjög vel saman, kolféllu fyrir borginni og sóru þess eið að snúa aftur í þeim tilgangi að koma á fót verkefnarými. Stuttu síðar bættust þær Zoe Hatziyannaki og Catriona Gallagher í hópinn, og áður en þær vissu af höfðu hugmyndir þeirra fundið sér farveg í hinu sögufræga húsi. Síðan þá hefur A-Dash hýst á þriðja tug alþjóðlegra listamanna og haldið fjölda sýninga. Ég hitti þær Evu og Zoe í Aþenu og ræddi við þær um verkefnið sem mun senn ljúka í núverandi mynd.
Athugasemdir